Dagurinn eftir… [eins konar leikskýrsla]

Þegar ég opnaði augun í morgun, þá sver ég að það eina sem ég heyrði var fuglasöngurinn fyrir utan gluggann, andardrátturinn í kærustunni við hliðina á mér, og fagnaðarlæti Liverpool-aðdáendanna frá því í gær. Já, hávaðinn í Atatürk-leikvanginum söng ennþá í eyrunum á mér í morgun, og í bland við frúna og fuglana þá var það eitthvert fallegasta hljóð sem ég man eftir að hafa heyrt.

Með öðrum orðum, eftir að hafa dreymt vel í nótt komst ég að því þegar ég vaknaði að þetta var ekki draumur. Við erum virkilega Evrópumeistarar! En hvernig gat þetta gerst? Í hálfleik vorum við 3-0 undir og það var nákvæmlega ekkert sem benti til þess hvað var framundan. Ég var búinn að afskrifa þetta í hálfleik, viðurkenni það fyllilega, enda skrifaði ég þetta í hálfleiknum:

Hvað er eftir? Rafa hlýtur bara að henda Cissé inná og láta slag standa í hálfleik, hann hlýtur að segja mönnum að spila seinni hálfleikinn bara upp á stoltið – betra að tapa 4-2 en 3-0 – og að rétta sinn hlut eins mikið og þeir geta. En þessi leikur er náttúrulega tapaður í hálfleik, þetta Milan-lið er allt of gott til að tapa niður þriggja marka forskoti á 45 mínútum.

Þvílík vonbrigði. Oh well, you?ll never walk alone, og okkar menn læra vonandi af reynslunni.

Hefði átt að vita betur. En rennum aðeins yfir þetta.

Fyrri hálfleikurinn fór 3-0 fyrir Milan, og hefði í raun getað endað stærra. Rafa tók þá ákvörðun að setja Kewell inn í liðið og hafa Dietmar Hamann á bekknum, en við fengum í raun aldrei að sjá hvort það hefði borgað sig taktískt eða ekki, því á innan við mínútu voru Milan-menn komnir yfir. Traoré, sem var ein taugahrúga í fyrri hálfleik, gaf klaufalega aukaspyrnu eftir 30 sek og Pirlo sendi hann stuttan inn í teiginn, þar sem Maldini sjálfur kom aðvífandi og negldi hann inn.

Rúmum hálftíma seinna áttum við að fá víti þegar Nesta stöðvaði gabbhreyfingu Luis García í teignum með handleggnum, en í staðinn lét dómarinn leikinn halda áfram og þeir náðu skyndisókn – Kaká spilaði Schevchenko innfyrir vörnina (aftur var Traoré í rugli) og hann gaf fyrir, þar sem Crespo rúllaði boltanum yfir línuna. Þremur mínútum síðar gaf Cafú frááábæra sendingu innfyrir á Crespo sem tók hann í fyrsta, og chippaði honum yfir öxlina á Dudek. 3-0 í hálfleik, game over.

Taktískt, þá held ég að Benítez sé ekkert endilega undanskilinn gagnrýni fyrir fyrri hálfleikinn. Miðað við það sem við sáum í síðari hálfleik, þá voru það mistök að hafa Hamann ekki inná frá byrjun, en eins og Gordon Strachan sagði í Guardian í morgun þá á ekki að dæma Rafa frá því hvernig hann stillti upp í byrjun leiks, heldur því hvernig hann brást við. Taktíkin hans í fyrri hálfleik fékk aldrei færi á að virka, þeir voru búnir að skora eftir mínútu og eftir það fór Plan A út um þúfur – því munum við aldrei í raun vita hvort að Kewell hefði getað skilað því sem þurfti í leiknum, þar sem leikurinn var varla byrjaður þegar hann breyttist.

Kewell fór síðan útaf meiddur eftir rúmar 20 mínútur, eftir mjög augljóst samstuð. Jú, ég neita því ekki að hann var meiddur og mjög, mjög svekktur yfir því að þurfa að yfirgefa völlinn strax (skil hann vel) en samt var eitthvað svo týpískt í því að þetta væri Kewell sem skyldi meiðast. Held að hann eigi bara að drífa sig í aðgerð í sumar og reyna eftir megni að jafna sig á öllum meiðslum – líkamlegum sem og andlegum – því ef hann ætlar að eiga sér framtíð hjá Liverpool þá verður hann að byrja ágústmánuð af krafti. Ekkert minna dugir.

En allavega, Smicer kom inná en hafði hljótt um sig eins og í raun allt liðið fram að hálfleik. En ó, hvað það átti eftir að breytast…

Seinni hálfleikurinn tilheyrði Liverpool algjörlega. Rafa breytti í hálfleik, setti Hamann inn fyrir Finnan sem þurfti að fara af velli meiddur, en hann gerði líka breytingar á taktík. Hann fór í 3-5-2 með Carra og Traoré sitt hvorum megin við Hyypiä, Riise og Smicer í vængbakvörðum og Hamann, Gerrard og Alonso á miðjunni. García var síðan nánast framherji með Baros.

Hvað gerðist? Jú, Hamann átti einfaldlega stórleik á miðjunni, því hann ekki aðeins át Kaká og það svæði sem Milan höfðu sótt aðallega í gegnum í fyrri hálfleik, heldur losaði hann Alonso og Gerrard úr ánauð. Þegar þeir þurftu ekki lengur að sinna Kaká og hafa áhyggjur af svæðinu fyrir aftan sig, blómstruðu þeir! Gerrard var stórkostlegur, ég hef sjaldan séð annað eins frá honum og síðari hálfleikinn, og Alonso tók stjórnina á spilinu eins og honum einum er lagið. Það að þeir skoruðu báðir í þessum leik var engin tilviljun.

Eftir kortér var maður orðinn hás, við vorum búnir að jafna í 3-3. Gerrard hóf endurkomuna með frábærum skalla, svo átti Smicer frábært langskot sem Dida náði ekki alveg að verja og svo fékk Gerrard vítaspyrnu – eftir frábæran undirbúning García og Carragher – sem Alonso lét verja frá sér, en skoraði úr frákastinu. 3-3, og leikurinn í fullum gangi.

Eftir það vorum við með yfirburði á vellinum, en þeir fjöruðu svo smám saman út. Síðustu 10 mínútur leiksins eða svo fóru eiginlega bara í miðjuþóf, og bæði lið voru sennilega sátt við framlengingu þegar flautan gall.

Framlengingin var síðan jöfn, en þó meira Milan-megin. Það var greinilegt að það þurfti mikla orku hjá okkar mönnum til að jafna leikinn, því þeir voru bara búnir í framlengingunni. Milan-liðið reyndi af veikum mætti að sækja en áttu ekki mikla orku eftir sjálfir, og á endanum fjaraði þetta einhvern veginn bara út. Það var þó ótrúlegt að sjá Dudek verja frá Schevchenko – tvisvar – undir lok framlengingarinnar minnir mig. Þetta var einhver svakalegasta markvarsla sem ég hef séð, veit ekki ennþá hvernig hann fór að þessu, og þá fyrst fór mann að gruna að okkur væri ætlað að sigra í þessum leik!

Vítaspyrnukeppnin, og maður var varla búinn að segja ‘Ómar Ragnarsson’ þegar Serginho var búinn að skjóta yfir og Dudek búinn að verja frá Pirlo. 2-0 fyrir okkur og í raun var eftirleikurinn auðveldur. Þetta var bara spurning hver þyrfti að skora úr síðustu spyrnunni okkar, eða hvort að til þess þyrfti að koma. Og hvað gerðist? Jú, hetjan okkar í gær var Jerzy Dudek. Þótt liðið eins og það lagði sig hafi verið ömurlegt í fyrri hálfleik, og frábært í þeim seinni, þá held ég að öðrum fremur hafi sigurinn í gær tilheyrt Jerzy. Pólverjinn bjargaði okkur með ótrúlegri markvörslu frá Sheva í framlengingu og varði síðan tvær vítaspyrnur – og tók Milan-menn almennt séð á taugum í hverri einustu spyrnu – og á því fyrir vikið skilið að vera valinn MAÐUR LEIKSINS fyrir mér. 😉

Bara að sjá hann dansa Grobbelar-dansinn í hverri spyrnu – reyndar frekar fönkaða útgáfu af þeim dansi – var frábært, ég veit ekki hvert pabbi ætlaði þegar hann gerði það. Þetta voru einfaldlega örlög okkar, og hans, að vinna þessa vítaspyrnukeppni og lyfta þessari dollu!

Þegar öllu er á botninn hvolft þá tilheyrir þessi bikar miklu fleiri mönnum en bara þeim sem léku leikinn í gær. Þeir 14 sem spiluðu í gær, sem og þeir fjórir sem komu ekki inná af bekknum, og allir hinir níu sem léku í Meistaradeildinni fyrir liðið í vetur. Emlyn Hughes, sem lést í haust, þeir 39 sem létu lífið á Heysel-leikvanginum fyrir 20 árum í síðasta úrslitaleik Liverpool, þeir 96 sem létust á Hillsborough fyrir 16 árum síðan, Gérard Houllier sem “átti” alla nema tvo leikmenn liðsins sem hóf leik í gær, og síðast en alls ekki síst Rafael Benítez – sem fer nú á spjöld sögunnar sem goðsögn í lifanda líki hjá Liverpool FC.

Hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir leikmenn Liverpool? Stevie G fer ekki neitt, en hvað hina varðar verðum við bara að bíða. Við Einar pælum betur í því seinna, en nú skiptir máli að fagna. Jerzy Dudek verður kannski farinn í sumar og José Reina kominn í markið í hans stað, en það skiptir engu máli – í dag er Dudek hetjan okkar, riddarinn með hvítu hanskana! Og Vladimir Smicer, Dietmar Hamann, Igor Biscan, Milan Baros, þeir eru líka hetjur dagsins! Hver svo sem fer í sumar, þá eru þeir Liverpool-leikmenn í dag og við skulum hylla þá!

Þeir eru jú einu sinni EVRÓPUMEISTARAR Í KNATTSPYRNU ÁRIÐ 2005! 😀

20 Comments

 1. HEYR HEYR!! Áfram Liverpool. Hahaha ég sönglaði you’ll never walk alone allt gærkveld og vaknaði þannig líka og er ennþá sönglandi. Sjibbý!!!

 2. Það eru 2 atriði frá Rafa sem voru afgerandi fyrir leikinn í gær. Í fyrsta lagi skiptingin á Hamann sem var hárrétt. Rafa sagði í gær að Finnan hefði verið orðinn meiddur því hefði hann orðið að skipta honum út, hann hefði getað sett Josemi inná í staðinn en hann gerir það ekki og setur inn Hamann og gjörbreytir liðinu.

  Í öðru lagi er það þegar Rafa svissar Smicer og Gerrard þegar Serginho kom inná fyrir Seedorf. Smicer er slappur varnarlega séð og Gerrard er settur í staðinn út á hægri kant og verður nánast hægri bakvörður tímabili þegar hann lokar úti Serginho með frábærum tæklingum hvað eftir annað.

  Dudek var ekkert annað en snillingur í gær.

 3. Úps, ritvilla! Jæja, það telst hér með leiðrétt. Svona er það þegar maður er að vélrita skjálfandi og fagnandi… :blush:

 4. Gerrard var ótrulega góður á hægrikantinum, hann er góður í öllum stöðum. Elska hann !!!! ELSKA LIVERPOOL !!!!!

 5. Ég vil bara fyrst af öllu byrja á því að þakka ykkur drengjum fyrir frábæra síðu sem ég lít á daglega og meira en það stundum. En þvílíkur leikur og þvílíkt lið sem Liverpool er, ekki nóg með það að við unnum leikinn þá unnum við á áhorfandabekkjunum líka með frábærum stuðningsmönnum sem ég þori að fullyrða að ekkert lið í heiminum hefur.
  Við erum sannir Meistarar því Liverpool var einna liðið sem fór taplaust í gegnum úrsláttarkeppnina og endaði því auðvitað sem SANNIR MEISTARAR.

 6. Innilega til hamingju allir L´pool menn! Þið áttuð þetta skilið í gær.

  En Kristján, af hverju segir þú að Gerrard sé ekki að fara? Hann sagði í viðtali fyrir leik í gær að þótt þeir ynnu þennan titil myndi hann setjast niður og hugsa sinn gang þremur dögum eftir leikinn.

  Er eitthvað nýtt komið fram?

  Ps. Frábær síða!

 7. Sigurður P…Gerrard sagði eitthvað í þessa áttina “Hvernig gæti ég mögulega verið á förum eftir svona leik”

 8. Í byrjun þessarar “eins konar leikskýrslu” hélt ég að þú værir að fara að tala eitthvað dónalegt! :biggrin:

 9. Það verður áhugavert að sjá hvað Rafael Benitez gerir í sumar og mun það upplóstra hverskonar framkvæmdarstjóri hann er. Góður framkvæmdastjóri losar sig við rekaviðinn í liðinu þrátt fyrir að þeir unnu CL. Því að í heildina litið þá hefur Dudek kostað okkur marga leiki í deildinni vegna klaufaskaps, Smicer hefur ekkert gert síðan að hann kom aftur (fyrir utan markið í gær, sem var snilld btw), Biscan er búinn að vera góður í Evrópu en lélegur í deildinni, við þurfum betri CB en Hyypiä, Kewell er bara farðegi í þessu liði og sýndi og sannaði það í gær.

  En hefur einhver spáð í því að það gæti verið Liverpool til hagsbóta að taka EKKI þátt í CL á næstu leiktíð? Þá etv getum við einbeitt okkur betur að deildinni og minkað 37 stiga muninn á okkur og Chelsea.

  Það eru áhugaverðir 3 mánuðir framundan og munu þeir segja okkur margt um gengi Liverpool á næstu leiktíð.

 10. Gerrard fer ekkert, hef það svooooo á tilfinningunni að hann vilji taka þátt í þessari byltingu sem við erum jú að fara byrja á! Enda hvað er svona meira spennandi annars staðar??

  Jú kannski meiri peningar hjá chelskí en guð minn góður hvað okkar klúbbur er miklu flottari og stuðningsmennirnir, þeir bestu í heiminum.

  Núna geta menn hætt að prumpa um þennan þjófnað sem átti sér stað í Barcelona ’99 og byrjað að tala um þennan leik sem er einn flottasti sem farið hefur fram!

  YNWA!

 11. Fyrst og fremst vil ég óska öllum stuðningsmönnum Liverpool FC til hamingju með Evrópumeistaratitilinn. Maður er hreinlega ekki að átta sig á þessu ennþá.

  En veit einhver af ykkur um síðu þar sem hægt er að sækja myndir úr úrslitaleiknum og verðlaunaafhendingunni. Manni sárvantar á desktopið!!!

  Kv. Stjani

 12. Veit einhver hér hvað þetta er að gera í peningum fyrir okkur? Þetta meistaradeildarævitýri allt saman?

 13. Hrósinu verður ekki ausið nógu mikið á ykkur drengir, Kristján og Einar, fyrir snilldar síðu. Hins vegar er alveg ljóst að þessi sigur þýða straumhvörf hjá Liverppool. Við erum búnir að gera það sem öll lið vilja gera…. vinna þann stærsta.

  Losum okkur við þá leikmenn sem gagnast okkur ekki almennt. Kaupum þá leikmenn sem við þurfum (treysti Benitez fullkomlega) og höldum áfram að vera bestu stuðningsmenn í heimi….

  Málið er látið og TIL HAMINGJU MEÐ AÐ HALDA MEÐ LIVERPOOL…

  ps. þið hefðuð átt að sjá Kóngsins Köben í gær… og í dag… ótrúlegustu fírar í LFC treyjum að fagna hverjum öðrum (ég þar á meðal)

 14. Ég þakka hrósið allir, og takk fyrir frábæra tengla Siggi Guð, þessar vídjóklippur voru YNDISLEGAR! Sean Connery að þylja textann við ‘In My Life’ með Bítlunum, með það lag spilandi í bakgrunninum og mörkin frá því í gær að spilast… FULLKOMIÐ!

  :biggrin: Hvað get ég sagt? Lífið er yndislegt í dag.

 15. Sá þetta á ynwa, en þangað kom það víst frá football365. Snilldarlesning…

  …I watched a film last night. It was one of those football movies, where a team of proud Englishmen, underachievers and blunderers, somehow get to the Cup Final, only to find themselves being well beaten by the best team in the competition, thanks to the opposition efficiency, the oppositions fouling and a dodgy ref. As one would expect in a stereotypical football film, all seems lost, but the English captain with the lionheart rallys his troops and somehow the team finds themselves back on the status quo.

  At this point in the film, there is always a courageous defender who will be running through pain to stop the opposition scoring, while the blundering keeper redeems himself by producing a save that isn’t actually possible in a proper football match due to the laws of gravity, before further redeeming himself by saving penalties, with the unwanted substitute scoring the penalty that confirms the victory.

  The film was enjoyable, and I’m not bothered that I don?t know what it’s called, but I thought that I’d just like to say that I wish film makers would make football films more realistic, as this sort of thing never happens in real life.

LIVERPOOL: EVRÓPUMEISTARAR 2005!!!

Heimkoma