Upphitun: 5 dagar!

forzamilan.jpg

Átta menn sig á því hvaða leikur er að fara að eiga sér stað eftir fimm daga??? Ég talaði við Einar í dag og við ákváðum að undirleggja þessa síðu undir ærlega upphitun fyrir stærsta leik Liverpool FC í 20 ár næstu dagana. Það eru fimm dagar í Úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu, og því er þetta fyrsti upphitunarskammtur af fimm, munum setja inn skammt daglega.

Ég stefni svo á að vera með aðeins breytt fyrirkomulag af bloggi á miðvikudaginn kemur, Úrslitadaginn sjálfan, þar sem ég mun einfaldlega tjá það hvernig mér líður þar sem ég sit heima hjá mér og tel niður að útsendingunni (Einar verður að sjálfsögðu í Istanbúl). En allavega, hefjum fjörið!


Í dag ætla ég að fjalla stuttlega um það af hverju þessi úrslitaleikur er hugsanlega sá stærsti síðan 1999, jafnvel fyrr. Árið 1998 mættust Juventus og Real Madríd í úrslitaleik Meistaradeildarinnar, og ári síðar mættust Man U og Bayern München, en síðan þá má segja að engin tvö jafn mikil stórlið hafi mæst og gerðu þessi tvö ár. Þangað til núna.

Juventus, Real Madríd, Bayern München, Man U … þetta eru lið sem hafa ekki aðeins unnið marga titla í heimalöndum sínum heldur hafa þau einnig unnið helling af Evróputitlum á milli sín. Þetta eru stórlið í orðsins fyllstu merkingu. Árið 2003 mættust svo AC Milan og Juventus, en sá leikur fyrir mér var öðruvísi af því að þar mættust tvö lið frá sama landi, og því telst hann ekki með hér – það var bara deildarbragur yfir þeim leik, að mínu mati, þótt mikið væri í húfi.

Að öðru leyti hafa úrslitaleikir undanfarinna ára einkennst af því að ‘litla liðið’ mætir ‘stóra liðinu,’ Davíð gegn Golíat, og í fyrra gerðist það síðan að tvö ‘lítil lið’ mættust í Úrslitunum. Jú, vissulega myndu einhverjir vilja meina að Liverpool sé ‘litla’ liðið í þetta sinn – en það er bara af því að Liverpool er ekki besta liðið í deildinni heimafyrir akkúrrat núna. Þegar litið er á sögu þessara tveggja klúbba – AC Milan og Liverpool – þá sést vel að þessi tvö lið eiga bæði heima í topp-5 yfir stærstu klúbba sögunnar í Evrópu. Fyllilega.

AC Milan hefur unnið Evrópukeppni Meistaraliða/Meistaradeildina sex sinnum. Þeir hafa einnig unnið alla hina Evróputitlana nokkrum sinnum, og eru með réttu eitt stærsta knattspyrnulið í heiminum. Þeir hafa alið af sér þónokkur frábær lið, en uppúr stendur ennþá gullaldartímabilið milli 1985 og ’95. Það lið, með menn á borð við Baresi, Donadoni, Tassotti, Ancelotti, Van Basten, Rijkaard, Gullit, Papin, Weah og að sjálfsögðu Paolo Maldini í broddi fylkingar var sennilega besta félagslið sem ég hef nokkurn tímann augum litið, svo mikið er víst.

Lið þeirra í dag er ekki mikið verra, en ég mun fjalla ítarlegar um það á næstu dögum. Það dylst allavega engum að AC Milan er risastór klúbbur, og hvað varðar fjöll sem þarf að klífa til að ná tindinum, þá eru þeir Mount Everest Meistaradeildarinnar. Við skulum vona að okkar menn séu reiðubúnir að klifra í næstu viku.

Liverpool – liðið okkar – þarf sennilega ekkert að fjölyrða um hér, við sem lesum og skrifum á þessa síðu vitum öll hver saga þessa stórkostlega klúbbs er. Fjórir sigrar í Evrópukeppni Meistaraliða, tap í fimmta úrslitaleiknum og eftir 20 ára “útlegð” frá stóra sviðinu er Rauði Herinn mættur aftur á nýjan leik, reiðubúinn til að gera Evrópu að bráð sinni enn eina ferðina!

Samt, miðað við umfjöllun fjölmiðla fyrir þennan leik mætti halda að þetta sé eitthvað smálið sem AC Milan eru að fara að mæta. Það er engu líkara en AC Milan hreinlega hljóti að vinna þennan leik, og að annað sé hneyksli. Menn virðast fljótir að gleyma sögu og hefð þeirri sem ríkir innan raða Liverpool – svo ekki sé minnst á það að liðið sem er að vinna AC Milan í titilkapphlaupinu á Ítalíu, Juventus, féll út úr þessari keppni fyrir Liverpool fyrir rétt um einum og hálfum mánuði. Með öðrum orðum, þótt AC Milan séu að vinna titla í sínu heimalandi undanfarin ár en Liverpool ekki, þá er Liverpool lið á uppleið sem hefur fulla getu til að vinna sigur í þessum leik!

Oft finnst mér þetta gleymast í umræðunni undanfarna daga. Það er eins og menn horfi bara á stórnöfnin hjá AC Milan og hugsi með sér, “þetta lið getur ekki tapað!”

Einnig finnst mér vera frekar mikið einblínt á varnartilburði þessara tveggja liða, og þá sér í lagi Liverpool. Það er eins og hlutlausir áhorfendur búist við einhverju leiðinlegu 0-0 dæmi, af því að þessi lið spila bæði mjög sterka vörn. AC Milan fengu þó á sig þrjú mörk í síðasta leik, og við höfum skorað heilan haug af mörkum, þannig að ef líklegt þykir að Schevchenko, Kaká, Crespo og Co. geti skorað gegn Liverpool-vörninni þá sé ég ekkert því til fyrirstöðu að Cissé, Baros, García og Co. geti skorað nokkur hjá Milan-vörninni og við fáum bara hörkuskemmtilegan markaleik fyrir vikið. 🙂

Að lokum langar mig að rifja upp tvo leiki sem eiga vel við í þessa umræðu. Sá fyrri er einhver almesta slátrun sem ég hef séð í stórleik í Evrópukeppni: Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar 1994, þar sem AC Milan yfirspiluðu stórlið Barcelona í heilar 90 mínútur og unnu 4-0 stórsigur!

milan94.jpgÞað sem er merkilegt við þennan sigur er ekki bara það hversu mikla yfirburði á öllum sviðum knattspyrnunnar AC Milan hafði í þessum leik, heldur það hversu mikið menn höfðu búist við akkúrrat öfugri niðurstöðu. AC Milan var á þessum tíma ósigrandi í deildarkeppninni á Ítalíu, sérstaklega vegna ótrúlegrar varnaruppstillingar Fabio Capello, enda hafði hann úr mönnum á borð við Baresi, Rijkaard, Maldini, Desailly og Gullit að velja í vörnina og á miðjuna. Þegar kom að úrslitaleiknum voru þónokkur meiðsli í gangi hjá Milan og meðal þeirra sem ekki gátu spilað voru Van Basten, Gullit og Maldini – frekar en Baresi minnir mig. En Milan-liðið var veikt fyrir í þessum úrslitaleik.

Hinum megin á vellinum var hins vegar spænska stórliðið Barcelona, sem þá var talið vera besta félagslið í heiminum. Undir stjórn Johan Cruyff hafði liðið á að skipa stórstjörnum á borð við Ronald Koeman, Miguel Nadal, Barjúan Sergi, Josép Guardiola, José Maria Bakero, Guillermo Amor, Hristo Stoichkov og Romário hinn brasilíska.

Með öðrum orðum, fullskipað lið Barcelona átti að slátra meiðslum hrjáðum varnarmúr AC Milan. Annað kom þó á daginn, frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu fóru leikmenn Milan á kostum og hreinlega völtuðu yfir hið frábæra sóknarlið Barcelona. Þá – eins og í ár gegn Chelsea – kom í ljós að frábær sókn er ekki nóg þegar þú mætir taktískum snillingi á borð við Capello/Mourinho. Barcelona áttu aldrei séns fyrir 11 árum síðan!

Hvernig tengist þetta okkar leik gegn Milan, utan þess að AC Milan vann þetta afrek? Jú, í ár hefur lítið verið rætt um annað en það að þótt Liverpool-vörnin sé sterk þá muni hún aldrei ná að leika í 90 mínútur gegn Crespo, Kaká, Inzaghi, Rui Costa, Pirlo, Cafú, Serginho, Maldini, Seedorf og sjálfum Andriy Schevchenko án þess að fá á sig mark.

Ég segi bara, lítið á söguna – af hverju ekki? Ef Fabio Capello gat undirbúið lið sitt til að vinna óvæntan sigur gegn besta liði Evrópu, með lið sitt í meiðslavandræðum, af hverju getur Rafael Benítez það þá ekki núna?

alaves.jpgHinn leikurinn sem ég ætla að minnast á var ekki síðri, knattspyrnulega séð. Þegar Liverpool komust síðast í úrslit Evrópukeppni, Félagsliða árið 2001, þá var altalað að þetta yrði sennilega einhver leiðinlegasti úrslitaleikur seinni ára, þar sem lið Houllier og Alavés-liðið frá Spáni höfðu bæði komist í úrslitin byggt á sterkum varnarleik, fyrst og fremst.

Staðan í hálfleik var 3-1 fyrir Liverpool. Staðan í leikslok var 4-4. Sigurmarkið kom í framlengingu, svokallað gullmark, þegar varnarmaður Alavés skallaði fyrirgjöf Gary McAllister í eigið mark. Liverpool vann 5-4 og varð Evrópumeistari Félagsliða 2001, vann þrennuna það vorið og alls fimm titla á árinu 2001.

Það sem ég tel að megi rekja markasúpuna til í þeim leik var sú staðreynd að Liverpool komust mjög snemma í 2-0 í leiknum, bara á fyrsta kortérinu eða svo. Það þýddi að leikáætlun Alavés-manna, hvort sem hún var varnarsinnuð eða ekki, var fokin út um gluggan og þeir urðu að gjöra svo vel og sækja, ekkert minna en það. Því hófu þeir að pressa á Liverpool-liðið, sem þó hélt áfram að sækja með örugga forystu, og úr varð ótrúlegur leikur þar sem boltinn barst vítateiga á milli og bæði lið óðu í dauðafærum. Á endanum voru skoruð 9 mörk í rúmlega 100 mínútna leik, allt af því að annað liðið gerðist svo ósvífið að byrja leikinn á að skora 2 mörk.

Ef við næðum að leika sama leik gegn Milan, skora tvö mörk á upphafsmínútunum, þá er ég nokkuð viss um að niðurstaðan yrði sú sama. Hver svo sem taktík Milan-liðsins verður, þá myndi hún fjúka út í veður og vind og þeir myndu sækja af öllu afli – sem gæti skilað sér í stórskemmtilegum leik fyrir hlutlausa áhorfendur, sennilega nánast of spennandi fyrir okkur hina!

Þetta eru sennilega tveir bestu úrslitaleikir síðustu 15 ára í Evrópukeppnum félagsliða, að mínu mati. Að Liverpool og AC Milan, sem leika til úrslita í ár, hafi átt þátt í báðum þessum leikjum hlýtur að boða gott. Það eru fimm dagar í leikinn í Istanbúl – ætlar einhver að veðja gegn því að sá leikur verði stórskemmtilegur og opinn?

Læt það verða lokaorðin í dag – næsti skammtur af upphitun kemur á morgun. Áfram Liverpool!

7 Comments

 1. Það mætti segja með sanni að ykkur skortir aldrei orðin hér á þessari síðu :laugh: Fín upphitun og ágætt að fara inn í helgina á þessum nótunum. Skál!

 2. þið verðskuldið fyllilega að verðskulda menn vikunnar á blogginu mínu :biggrin2:

 3. Liverpool: (4-2-3-1) Dudek – Finnan, Carra, Hyypiä, Traore – Alonso, Hamann – Garcia, Gerrard, Riise – Cissé

  vs.

  AC Milan: (4-4-2, diamond) Dida – Cafú, Stam, Nesta, Maldini – Gattuso, Pirlo, Seedorf, Kaká – Shevchenko, Crespo

  AC Milan hljóta að vinna þennan leik, annað kemur bara ekki til greina! Það stendur á blaðinu! 😉

 4. Frábær pistill eins og venjulega! Ég man eftir þessum leikjum eins og þeir hafi verið spilaðir í gær!

  Einn félagi minn sem er harður manjú maður sagði einmitt að þessi leikur yrði örugglega hundleiðinlegur og einn annar sagði að eina breikið fyrir Liverpool að skora væri sjálfsmark frá AC-Milan.

  Að mínu mati er þetta viðhorf bara jákvætt, Liverpool hafa verið underdogs í allan vetur í þessari keppni og hvert hefur það leitt okkur?

  Juventus og Chelsea voru búnir að vinna Liverpool fyrirfram, það var svona jafn öruggt og að Selma kæmist í lokakeppnina. :biggrin:

  En sjáið það sem er tilvinnandi fyrir Liverpool í þessum leik. Eignast þennan eftirsóttasta bikar í veröldinni + að eygja ennþá möguleika á að vera með í CL að ári.

2 eða 3 í spænska landsliðinu

Milan-tap + Hargreaves + Baros