Aston Villa á morgun

Kristján Atli er útá landi, þannig að ég sé aldrei þessu vant um upphitun.

Maður varð fyrir alveg svakalegu spennufalli eftir Chelsea leikinn og sérstaklega eftir Arsenal tapið. Í stað þess að telja niður dagana til næsta leiks, þá er manni orðið nokkuð sama um deildina, þar sem að fjórða sætið var úti.

En allavegana, við spilum við Aston Villa á morgun og ef við töpum þeim leik, þá gætum við endað í **7.sæti** í deildinni, einu stigi á undan Manchester City. Það væri hræðilegur endir á þessu magnaða tímabili í deildinni.

Við erum betri en þessi lið fyrir neðan okkur, en það hefur liðið ekki sýnt að undanförnu. Þeir hljóta þó að vilja berjast fyrir því að við lendum allavegana í fimmta sæti. Það er talsvert skárra en sjöunda sæti.

Leikurinn á morgun verður ekki sýndur neins staðar í sjónvarpi. Það er merki um breytta tíma að á öllu tímabilinu þá hafa aðeins tveir leikir ekki verið sýndir. Það er í raun ótrúlegt að hugsa til þess að maður geti séð nánast 100% af leikjum Liverpool í beinni útsendingu. Skjár Einn og sportbarirnir eiga hrós skilið fyrir að skila þessu. Að mig minnir þá var hinn leikurinn, sem var ekki sýndur, einmitt leikurinn á móti Aston Villa. Skrítin tilviljun.

Allavegana, það er ljóst að Rafa mun hvíla suma leikmenn á morgun. Ég ætla að tippa á þetta lið:

Dudek

Finnan – Pellegrino – Hyypia – Traore

Nunez – Biscan – Alonso – Kewell

Baros – Cisse

Ég hef ekkert sérstakt fyrir mér í þessu. Fyrir utan það að líklegt er að Rafa hvíli Gerrard og Garcia og hugsanlega Jamie Carragher.

Ég held að það væri einnig snjallt að prófa Cisse frá byrjun og að gefa honum og Baros smá tíma saman, þar sem þeir eru þeir einu, sem geta spilað úrslitaleikinn og þrátt fyrir heimskulegar yfirlýsingar Baros, þá mun hann ábyggilega spila í Istanbúl (Milan á móti Milan, hann hlýtur hreinlega að skora!) Einnig gæti verið óvitlaust að gefa Harry Kewell smá meiri tíma ti að komast í takt við spilið.

En það er alveg ljóst að ákveðnum hluta mun ljúka á morgun á Anfield. Ég held að þetta verði í síðasta skipti, sem nokkrir munu spila fyrir Liverpool á Anfield. Sumarið mun Rafa Benitez nota til að umbylta hópnum. Ekki halda að árangurinn í Meistaradeildinni hafi blindað hann. Ég er fullviss um að Rafa gerir sér grein fyrir því verki, sem hann hefur fyrir höndum. Ég ætla að leyfa mér að spá því að Dudek, Hamann, Pellgrino og Smicer mæti á morgun á Anfield í síðasta skipti sem Liverpool leikmenn.

3 Comments

  1. Það er alveg merkilegt með þennan leik hvað manni er nokk sama um hann. Þeir verða samt eiginlega að vinna hann svo að þeir lendi allavega í 5.sæti. Það er eiginlega fáránlegt að enda neðar en það.

    Ein spurning hér: Er Liverpool búið að tryggja sér sæti í Evrópukeppni Félagsliða?

Niðurtalning

Liðið á móti Villa komið