Framherjamálin…

Eins og Einar benti á í síðustu viku þá hefur framherjunum okkar gengið ömurlega að skora undanfarna mánuði, og þótt ég taki undir áhyggjur hans þá hef ég undanfarna daga pælt aðeins í þessu og ákvað að taka annan pól í hæðina. Í dag mátti sjá fréttir af Milan Baros, sem er eitthvað pirraður út í Rafa, og um leið fékk maður fréttir af Neil Mellor, sem ætlar að verða tilbúinn í haust. Þá fór ég aðeins að pæla, í sambandi við mörk Milan Baros í vetur…

Ef við tökum þá fimm framherja sem við höfum í dag – Morientes, Cissé, Baros, Mellor og Pongolle – þá hafa þeir skorað 29 mörk sín á milli í vetur, og þar af hefur Baros skorað 14. Hins vegar skoraði Baros 12 af þessum 14 mörkum fyrir áramót, fyrir meiðslin sín, og áður en Morientes kom til Liverpool. Ef við lítum aðeins á mörkin hans og hvernig taktík liðið var að spila þegar Baros skorar þessi mörk, þá kemur eftirfarandi í ljós:

Man City – 1 mark – með Cissé frammi
Mónakó – 1 mark – einn frammi (inná fyrir Cissé)
Norwich – 1 mark – með Cissé frammi
Fulham – 1 mark – með Cissé frammi
Millwall – 2 mörk – einn frammi (inná fyrir Pongolle)
Blackburn – 1 mark – einn frammi (Cissé farinn útaf)
C. Palace – 3 mörk – einn frammi
Newcastle – 2 mörk – með Mellor frammi
Fulham – 1 mark – með Morientes frammi
Leverkusen – 1 mark – einn frammi

Hvað fáum við ef við skoðum þennan lista? Þeir eru margir sem hafa talað um að vandamálið við markaþurrð Milan Baros sé það að það henti honum ekki að spila einn frammi með einhvern eins og García eða Gerrard fyrir aftan sig í “holunni” – en tölfræðin gefur annað til kynna. Af þeim 14 mörkum sem hann hefur skorað í vetur hefur hann skorað 8 á meðan hann var einn frammi. Hin sex mörkin skoraði hann með mismunandi félaga sér við hlið, þannig að það er ekki hægt að finna neitt áþreifanlegt mynstur þarna. Ekkert “hann vinnur betur með Cissé en Morientes við hliðina á sér” eða “hann þarfnast Mellor” … ekkert slíkt. Baros hefur einfaldlega ekki nýtt færin sín jafn vel eftir áramót og ekki verið jafn heitur.

Annað varðandi Baros og gagnrýni hans á Rafa Benítez í dag, þá segir hann að það henti honum einnig illa að vera alltaf tekinn útaf þegar kortér eða eitthvað álíka er eftir, til að Cissé fái að spreyta sig. Þetta stenst ekki alveg heldur, þar sem hann er tekinn út af í meira og minna öllum leikjunum sem hann skorar í fyrir áramótin. Hann skorar eitt, tvö, jafnvel þrjú, og er síðan tekinn útaf til að leyfa Cissé/Pongolle/Mellor að spreyta sig. Þannig að í raun hefur ekkert breyst í vetur: með örfáum undantekningum hefur Baros verið fastamaður í byrjunarliðinu, okkar helsta markauppspretta og jafnan verið tekinn útaf undir lok leiks.

Hvað er hann þá að væla? Ég er mikill Baros-maður, en ég held að svona gagnrýni sem, eins og ég hef sýnt fram á hér, á sér ekki mikla innistæðu muni aðeins gera það líklegra að hann yfirgefi Liverpool í sumar. Rafa líður örugglega ekki svona gagnrýni, ef ég þekki hann rétt.


En hvað þá með hina? Leggjum Baros aðeins til hliðar og pælum í hinum framherjunum. Þeir Cissé og Morientes eru búnir að skora 3 mörk hvor, Pongolle er með 4 mörk og Neil Mellor er með 5 stykki í vetur. En hvernig væri hægt að haga uppstillingu liðsins þannig að þeir skori meira, úr því að framherjamálin eru svona mikill vandi hjá Liverpool?

Sjáum hvernig Rafa var vanur að stilla upp hjá Valencia, þetta var allajafnan hans sterkasta lið:

Canizares

Torres – Marchena – Ayala – Carboni

Angulo – Baraja -Albelda – Vicénte
Aimar
Mista

Mista einn frammi, og það var ekki fyrr en í fyrra að framherji undir stjórn Rafa skoraði loks meira en 20 mörk. Mista skoraði minnir mig 24 í fyrra, þar áður held ég örugglega að enginn hafi skorað jafn mikið og Luis García, sem skoraði 16 mörk á tímabili sem kantmaður hjá Tenerífe.

Augljós samanburður sýnir að Morientes er næst því að vera okkar ‘Mista’ … og þar á eftir sennilega Neil Mellor. Báða skortir hraðann sem Cissé og Pongolle hafa, og hvorugur hefur jafn mikla tækni, en þeir eru á móti sterkari í loftinu og jafnvel grimmari í boxinu (þótt Cissé sé sennilega jafnoki þeirra þar) …

Að mínu mati þá hefur Rafa tvo kosti. Ef hann ætlar að spila 4-4-1-1 kerfið þá þarf held ég að fá meira jafnvægi í miðjuna til að það gangi upp. Þegar hann hefur verið að nota Morientes einan frammi hefur það í raun og veru ekki verið Morientes að kenna þegar það virkar illa, heldur því hvað miðjan á erfitt með að finna sig. Morientes á að vera í teignum, hann þrífst á því að halda boltanum og leggja hann á miðjumennina sem hjálpa til í sókninni – sem og að fá boltann inní teignum, annað hvort sem fyrirgjafir eða þá potboltana í teignum. Hann er ekki þessi leikmaður sem fær boltann útá velli og sólar tvo, og stingur svo John Terry af á leið sinni að markinu. Það eru Cissé og Pongolle sem eiga að gera það.

Í leikkerfinu 4-4-1-1 myndi ég vilja sjá nýjan mann við hliðina á Alonso, t.d. Juninho hjá Lyon eða Kevin Nolan hjá Bolton svo að dæmi sé tekið, og svo Gerrard þar fyrir framan. Einfaldlega af því að ég er ekki sannfærður um að Gerrard og Alonso geti báðir spilað af fullri getu hlið við hlið á miðjunni, með leikstjórnanda fyrir framan sig. Þá gætum við t.d. haft García á hægri kantinum og fullfrískan Kewell á vinstri kantinum – með Riise í bakverði fyrir aftan hann. Það væri sókndjörf uppstilling í góðu jafnvægi.

Hinn kostur Rafa væri sá að stilla upp 4-4-2, og þar myndu Alonso og Gerrard njóta sín saman á miðjunni. Ef við sleppum Baros áfram úr dæminu þá eru eftir fjórir framherjar sem gætu auðveldlega fyllt upp í 4-4-2 kerfið saman. Morientes myndi vera annar aðalframherjinn, sá hægari sem ætti að staðsetja sig í boxinu, með Mellor sem varamann fyrir hann. Cissé yrði síðan hinn aðalframherjinn, myndi spila í kringum Morientes og sjá um að pressa á varnarmennina, eftir hliðarlínunum og við rangstöðulínuna, með Pongolle sem varaskeifu.

Morientes – Cissé … og Mellor – Pongolle. Það yrði ekki slæmt jafnvægi, eins lengi og miðjan fyrir aftan þá væri í góðu jafnvægi.


Ég hef bara undanfarið verið að pæla meira og meira í því hvað við söknum Mellor og Pongolle mikið. Þeir eru engir heimsklassaframherjar – ennþá – en þeir gáfu liðinu ákveðna vídd. Eða eins og Rafa myndi orða það, “possibilities”. Manni hættir oft til að afskrifa Mellor sem neðrideildarframherja sem getur ekkert annað en að pota, en hann skoraði 5 mörk í einhverjum 15 leikjum í haust … slíkt skal ekki vanmetið.

Ég er á þeirri skoðun að Morientes, Cissé, Pongolle og Mellor gætu orðið góð framherjaferna næsta vetur. Pongolle og Mellor eru enn ungir og að vaxa og þeir Morientes og Cissé munu vafalítið sýna okkur sínar bestu hliðar í haust, þegar þeir hafa fengið heilt undirbúningstímabil til að koma sér í form.

En auðvitað er ekkert útséð með að Baros yfirgefi klúbbinn í sumar. Það virðist æ líklegra, sérstaklega þegar hann er að gagnrýna Rafa svona að ástæðulausu, og þá virðast flestir telja að Rafa muni nýta peninginn sem fengist fyrir Baros til að kaupa framherja í staðinn. Ég er ekki jafn sannfærður – ef við fengjum t.d. um 10m punda fyrir Baros mætti auðveldlega nota þann pening í heimsklassa miðvörð og einn góðan væng- eða miðjumann.

Eftir veturinn í vetur treysti ég allavega Pongolle og Mellor til að vera varaskeifur, og ég veit að Cissé og Morientes munu sanna sig strax í ágúst. Þeir eru einfaldlega það góðir.

Fyrir mér er þetta frekar spurning um að fá rétt jafnvægi á miðjuna fyrir aftan framherjana – og að fá Moro og Djib í toppform. Þá ætti þetta ekki að vera svona glatað, er það? 🙂

8 Comments

  1. Egill Sigurjóns (FH) eða Alonso (LIV), hvor er betir? Ég vil Baros áfram…

  2. Það væri áhugavert að sjá hvort að afkastageta Luis Garcia mundi aukast ef að hann mundi fá að spila í sinni bestu stöðu, fyrir aftan strækerinn. Ég er líka sammála þér að við ættum eftilvill að halda í Mellor sem varaskeifu og Pongolle gefur liðinu meiri vídd þar sem að hann getur líka spilað á hægri vængnum.

    Sumarið er komið og leiktíðin senn á enda, vinnum við meistaradeildina munu slúðursögur aukast og fáránlegustu skotmörk hlekkjuð við okkur. Let it begin (þó svo að mér finnst yndislegt að Liverpool eru tengdir við leikmenn á borð við Joaquin og Vicente :biggrin2:)

  3. góð grein kristján…
    það er vitað mál að rafa muni kaupa einhverja í sumar… hvort sem það verða 3 eða 10 menn skiptir í raun ekki máli… við erum með fullt af góðum knattspyrnumönnum hjá liverpool, sem margir eru enn mjög ungir, og það verður gaman að sjá í sumar hverjum þeirra rafa treystir fyrir framtíð liverpool og hverjir verða látnir fara…

    þó svo að ég hafi lengi verið aðdándi baros, þá er ég ekki viss um að hann sé í framtíðarplönum rafa… og ef hægt er að fá góða upphæð fyrir hann til að kaupa fleirri góða “liðsmenn” þá græt ég hann ekki…

    þetta verður allavegna skemmtilegt sumar :biggrin2:

  4. Ég hef líka verið mikill Baros aðdáandi..og á meira að segja búning merktan honum..(hinn búningurinn minn er reyndar merktur Kewell sem hefur nú ekki verið gagnrýndur minna! :blush: )

    En núna held ég að sé kominn tími fyrir tékknesku stjörnuna að skína einhversstaðar annarsstaðar. Ég er alveg staðráðinn í að hann mun slá í gegn hjá öðru liði, en hann mun ekki ná að sýna sitt besta hjá Liverpool. Þannig að ég held það sé bara öllum fyrir bestu að hann fari frá okkur.

    Dudek, Smicer, Pellegrino, Diao, Diouf, Hamann, Josemi, Kirkland — allt alveg ágætis menn — og þessvegna ætti líka að leyfa þeim að fara því að “ágætis” menn er ekki það sem Liverpool ætti að sætta sig við. (Pelle ætti reyndar bara að fara að leggja skónna á hilluna)

    Þarna vilja kannski einhverjir hafa Biscan og Nunez með á listanum yfir þá menn sem ættu að fara. En ég hef alltaf stutt Biscan — alveg frá því hann kom fyrst og til dagsins í dag (þegar hann er loksins farinn að fá að spila sína stöðu inná miðri miðjunni. Og hvað varðar Nunez…Ég veit ekki…er enginn með þessa tilfinningu að hann sé alls ekki að sýna okkur allt það sem hann kann og getur og eigi kannski eftir að springa út?

    Mér þykir líka ólíklegt að Rafa láti Josemi fara fyrst hann er svo til nýbúinn að kaupa hann…en maður veit aldrei! 😯

    Hvað miðjuna varðar þá held ég að við séum bara í góðum málum þó að Hamann fari og enginn komi inn í staðinn. Þar höfum við Gerrard, Alonso, Biscan, Welsh – og gætum kallað inn franska landsliðsmanninn Aliou Diarra sem er búinn að vera að brillera í vetur í Frakklandi. Allir þessir leikmenn hafa einhvern tímann verið stimplaðir sem varnarsinnaðir miðjumenn svo að einhver þeirra hlýtur bara að geta leyst það hlutverk sem Hamann hefur gegnt.

    Út með Dudek og Kirkland. Inn með klassamarkmann ásamt Carson. þá erum við í góðum málum þar.

    Ég er ekki viss um að þurfi að kaupa miðvörð. Sáuð þið hinn unga Zak Whitbread spila í deildarbikarnum? Mér fannst hann bara ansi hreint magnaður. Það ætti hiklaust að gefa honum sénsinn þegar færi gefst.

    Við erum í fínum málum í vinstri-bak með Riise og Traoré.

    Mér finnst hinsvegar þurfa að skipta Josemi út fyrir nýjan hægri bak — einhvern sem getur virkilega slegist um stöðuna við Finnan — því ég held að það muni Josemi aldrei geta.

    Hvað erum við svo með á köntunum? Kewell og Warnock vinstra megin og Nunez og García hægra megin (ég hefði kannski átt að telja García upp áðan með miðjumönnunum). En þarna finnst mér forgangsatriði að kaupa nýja menn..Á báðum köntunum.

    Ég er sammála greinarhöfundi með framherjamálin. Það er ekkert nauðsynlegt að kaupa nýjan framherja þó svo að Baros fari.

    Þetta er það sem þarf að kaupa í sumar að mínu mati(í réttri forgangsröð): Markmann, hægri kant, hægri bakvörð, vinstri kant og kannski miðvörð.

    En já..Eitt fyrst..VINNA MEISTARADEILDINA!!!

    Afsakið blaðrið í mér — það er svo margt sem manni dettur í hug að gera þegar maður á að vera að lesa fyrir próf! :biggrin: :biggrin2:

  5. Ég vildi bara benda á að pælingin í kringum markaþurrð Baros-ar er ekki sett framm nógu vel. Þar er skoðað hvað hann skorar mörg mörk og með hverjum(eða einn). Það verður að skoða líka og þá sérstaklega hvenær hann skorar ekki (og með hverjum hann er þá eða er hann einn)

    Dæmi: hann spilar 40 leiki einn frammi og skorar 7
    síðan spilar hann 6 leiki með öðrum frammi og skorar 5

    þá er hann búinn að skora 7 einn og 5 með öðrum sér við hlið

    sem er
    17,5% líkur að hann skori þegar hann er einn og
    83,3% líkur að hann skori með öðrum sér við hlið

    Eitt er þó víst hann á að vera búinn að skora meira

    p.s frábær síða hjá ykkur

  6. Milan Baros er nú 24 og Mellor er 23… þannig ekkert svakalegt á milli þeirra, Mellor á nu bara að fara til einhvers lið í 1. deild, potari og ekkert annað. Pongolle finnst mér hæfileikaríkur og góður leikmaður og vill ég halda honum, held að hann eigi að vera frábær næstkomandi ár. Varðandi Baros þá hef ég alltaf verið Baros-aðdáandi síðan hann kom til Liverpool en það er eins og boltinn vilji bara ekki fara í netið hjá honum alveg ótrulegt.
    Skemmtileg grein, þessi síða er að verða mín uppáhalds síða :biggrin: á ekki að fara koma upphitun fyrir Aston Villa leikinn?

Fjórða sætið

Sumarið er að byrja