Framherjar sem skora ekki mörk

Þetta eru síðustu 18 leikir okkar í deild, bikar og Meistaradeild. 18 leikir. Það eru sirka 28 klukkutímar af fótbolta.

Arsenal
Chelsea (CL)
Middlesboro
Chelsea (CL)
Crystal Palace
Portsmouth
Tottenham
Juventus (CL)
Manchester City
Juventus (CL)
Bolton
Everton
Blackburn
Leverkusen (CL)
Newcastle
Chelsea (bikar)
Leverkusen
Birningham

Langar ykkur til að vita hversu mörg mörk framherjarnir okkar (Morientes, Cisse, Pongolle og Baros) hafa skorað í þessum leikjum? Nota bene, ég tel bara upp þá, sem við myndum telja vera okkar 4 bestu framherja, ekki kantmenn einsog Luis Garcia.

Ég ætla að leyfa ykkur að giska. Smellið til að sjá svarið

Í þessum 18 leikjum, yfir þessa 28 klukkutíma af fótbolta hafa þessir menn: Milan Baros, markahæsti maður EM 2004, Fernando Morientes, markahæsti maður Meistaradeildarinnar 2004 og Djibril Cisse, markahæsti maður frönsku deildarinnar 2004 skorað…

2 mörk

Baros gegn Leverkusen og Fernando gegn Portsmouth.

That’s it!

Ok, ég veit að Cisse hefur verið meiddur og Baros og Morientes líka. En, það er afskaplega augljóst að þetta er stórt vandamál. Við höfum alltaf í okkar upptalningu talið að við værum í góðum málum varðandi framherja. En ég leyfi mér að efast um að við séum með réttu mennina.

Og ef við erum með réttu mennina, erum við þá að spila réttu leikaðferðina? Baros hefur ítrekað sagt það að hann vilji vera með einhverjum frammi, en samt lætur Rafa hann alltaf vera einan, þar sem hann hleypur einsog óður maður og gerir sitt gagn (sérstaklega í Meistaradeildinni) en nær ekki að skapa sér færi. Það sama á svo við um Fernando og Djibril. Morientes hefur verið beðinn um að spila einn frammi og skilað afskaplega litlu.

Hvað er vandamálið? Er það uppstillingin, vantar sköpun frá öðrum leikmönnum, eða erum við einfaldlega ekki með nógu góða framherja? Það hefur engu breytt hver hefur verið inná!

Ég held að þessi tölfræði: 2 mörk í 18 leikjum hljóti að vera áhyggjuefni. Ef að Thierry Henry skoraði 2 mörk í 10 leikjum, þá væru Arsenal menn með áhyggjur. En ég spyr: Ef þrír toppframherjar skora 2 mörk í 18 leikjum, af hverju er ekkert fjallað um það?

7 Comments

 1. Ég er sammála því að þetta er áhyggjuefni, en þú verður að hafa nokkra punkta í huga Einar:

  1. Hjá Valencia skoruðu framherjarnir aldrei mikið undir stjórn Rafa Benítez. Mista í fyrra er undantekning, aðallega af því að hann var vítaskytta þeirra og er góður skallamaður að eiga í föstum leikatriðum, en þeir skora jafnan ekki mikið í leikkerfi Benítez. Vícénte, Baraja, Angulo, Rufete, Aimar, þetta voru mennirnir sem voru að skora fyrir þá í fyrra.

  2. Morientes mun verða okkar Mista, ekki spurning. Þetta er bara spurning um að hann geti spilað alla leiki með okkur (ekki alltaf einn leik, svo bíða í 10 daga eftir þeim næsta meðan hinir fá að leika í Meistaradeildinni) og svo þarf hann að fá undirbúningstímabil. Ég þori að veðja bílnum mínum að hann mun réttlæta verðmiðann strax í ágúst/september!

  3. Cissé er búinn að komast nær því í síðustu 2-3 leikjum okkar að skora en Baros hefur gert í laaangan tíma. Hann var einn bjartasti punkturinn í leik okkar í dag og maður sér að ef hann hefði fullt leikform – hraða, staðsetningu og sérstaklega í að klára færin sín – þá hefði hann getað skorað tvö gegn Chelsea á þriðjudag og þrennu í dag.

  Þannig að ég örvænti ekki. Í haust voru Mellor, Pongolle og Baros að skora helling eftir að Cissé meiddist, og hann skoraði sjálfur þrjú fyrir meiðsli, en í vor hefur þetta verið erfiðara vegna meiðsla og vegna þess að Moro má ekki spila í Meistaradeildinni.

  Ég sé aðeins eina mögulega breytingu hjá okkur í framherjamálum í sumar: Baros gæti farið og meiri team-player komið inn (dettur helst í hug David Villa hjá Real Zaragoza, sem er frábær) … að öðru leyti verður þetta óbreytt. Cissé, Pongolle og Mellor verða allir áfram og Morientes verður frábær á næsta tímabili, þegar hann hefur fengið smá tíma til að aðlagast. Sjáið til.

  En ég tek samt undir þetta með þér Einar, að það er áhyggjuefni að þeir hafi aðeins skorað 2 mörk í síðustu 18 leikjunum. En eins og ég benti á, þá á það sér nokkuð eðlilegar skýringar… ef Morientes væri búinn að spila alla þessa 18 leiki og aðeins skora eitt mark hefði ég áhyggjur. En þar sem hann spilar leik, þarf svo að bíða í 10 daga eftir næsta leik, þá er ekki hægt að ætlast til að hann nái að spila sig í leikform.

 2. Sælir félagar,

  þetta er líka spurning um að fá “þjónustu” fyrir framherjana það virkar ekki að dæla boltum upp miðjuna eins og gert hefur verið eftir áramótin, um leið og kantspilið kemur að þá koma mörkin á færibandi, eins og staðan er í dag að þá er ekki kantspil til staðar að neinu telur,

  kv Stjáni

 3. ég hef líka lengi verið á þeirri skoðun að við sækjum á of fáum mönnum, oft er einn sóknarmaður okkar inní teig gegn 4-5 varnarmönnum

 4. Þetta er ótrúleg tölfræði… gjörsamlega fáránleg! Ósættanlegt fyrir lið sem ætlar sér að vera í toppbaráttunni og kannski ein af ástæðunum að við erum langt frá því. Hins vegar er ljóst að framherjar skora ekki mörk nema að vera mataðir vel frá kantmönnum og miðjumönnum. Þar er stórgalli á okkar leik… og hefur verið lengi! Það er ekkert kantspil hjá okkur og við höfum ekki haft almennilega kantmenn síðan Ray Houghton og John Barnes voru í fullu fjöri… og þá komu bikararnir á færibandi!

 5. Þetta er náttúrulega með ólíkindum, það er ekki nema von að við séum búnir að missa af 4 sætinu.

  Það er ekki rétt að hafa Pongolle með í upptalningu framherja í síðustu 18 leikjum, hann er búinn að vera meiddur í þeim öllum. Hefur reyndar misst af síðustu 20 leikjum.

  Og hvað varðar Cisse þá er hann búinn að spila 10 til 20 mín í síðustu 7 leikjum eftir hrikalegt fótbrot. Gegn Arsenal spilaði hann sinn fyrsta heila hálfleikur eftir fótbrotið. Þannig að telja hann með er full hart að mínu mati.

  Ábyrgðin liggur því hjá Baros og Morientes, það eru þeir sem hafa verið okkar aðalsóknarmenn í þessum 18 leikjum. Að þeir skuli bara skora 2 mörk í þeim er óásættanlegt. Baros 1 og Morientes 1.

  Menn tala um það að þeir séu ekki nógu mikið mataðir, það getur verið rétt í sumum tilfellum, en ef það skortir marktækifæri afhverju skoraði þá snillingurinn Garcia 8 MÖRK í þessum 18 leikjum.

  Gerrard skoraði 3 mörk, Riise 2 mörk og meira að segja hann Hyypia 2 mörk. Hvernig stendur á því að Baros/Morientes gátu ekki potað inn fleiri mörkum.

  Við söknum Owen meira en menn grunar, þó sérstaklega í deildinni þar sem hann skoraði aldrei undir 18 mörk á tímabili (held að það sé rétt tala).

  Fáum Owen heim og skilum Real liðinu Nunez aftur.

  Kveðja
  Krizzi

 6. Til sölu er tékkneskur framherji í tiltölulega góðu ástandi, hefur m.a. hlotið viðurkenningar fyrir markaskorun á evrópumóti. Hentar því miður ekki fyrir núverandi verkefni. Möguleiki á að taka upp í lítið notaðan enskan framherja sem viltist af leið um stundarsakir.

 7. Baros er bara þannig framherji að hann verður að vera með öðrum með sér frammi, hann er ekkert svakalega góður í því að koma niður fá boltann halda honum og skila til samherja eins og framherji sem er 1 á að gera.

Arsenal 3 – L’pool 1

Um lýsinguna á Skjá Einum