Arsenal á morgun!

Við töpum fyrir Arsenal á morgun.

Ég veit, ég veit, við Liverpool-aðdáendur erum alltaf eins: þetta kemur bara næst, við erum bjartsýnir, við eigum að geta unnið öll lið í heiminum. En vitiði hvað? Við unnum Arsenal á Anfield í haust, í stórkostlegum leik (takk Neil Mellor) … hvað er langt síðan við höfum unnið Arsenal tvisvar á einu tímabili? Hefur það gerst einu sinni síðan Arsene Wenger tók við á Highbury? Ég held ekki, en það er allavega nánast útilokað.

Þar við bætist að við höfum nær undantekningarlaust spilað illa í fyrsta leik eftir Meistaradeildina, og þá sérstaklega á útivelli. Þannig að ef við beitum skynseminni, frekar en Liverpool-hjartanu sem slær alltaf jafn kröftuglega, þá er þetta einfalt reiknidæmi: Meistaradeildin í liðinni viku + þegar búnir að vinna Arsenal einu sinni í vetur + leikur á útivelli tímabilið 2004/5 = Við töpum fyrir Arsenal á morgun.

Hins vegar … þá hefur þetta lið okkar sérhæft sig í að koma manni á óvart í vetur, þannig að þótt ég sé öruggur um tap á morgun, þá útiloka ég ekkert. Svo hef ég ekki verið þekktur fyrir að vera sannspár í vetur, þannig að maður veit aldrei. 😉

Eftir erfiðan leik gegn Chelsea, og sérstaklega í ljósi þess að Everton unnu Newcastle í dag sem gerir möguleika okkar á 4. sætinu nánast enga (þá vantar eitt stig í síðustu tveimur leikjunum), þá hef ég heyrt því fleygt að nokkrar breytingar verði gerðar fyrir leikinn á morgun. Þá hefur einna helst verið talað um að Rafa muni fara í 4-4-2 og prófa ákveðna framlínu, þar sem hann vilji prófa hvernig það virkar að spila 4-4-2 áður en hann ákveður að nota þá uppstillingu gegn AC Milan í úrslitum Meistaradeildarinnar.

Þannig að líklegt byrjunarlið á morgun gæti litið einhvern veginn svona út, þar sem Rafa þarf ekki að hvíla menn endilega en getur að sama skapi leyft sér að prófa örfáa hluti:

Dudek

Finnan – Carragher – Pellegrino – Warnock

Núnez – Gerrard – Alonso – Kewell

Cissé – Morientes

Pellegrino mun leysa Hyypiä af hólmi, mér finnst það nánast öruggt, og miðað við hvernig Rafa hefur valið að rótera undanfarið gæti ég ímyndað mér að hann hvíli Traoré og García á morgun, en vilji eiga García á bekknum ef illa gengur. Þá verður Baros nærri því pottþétt hvíldur, þar sem við þurfum að halda honum ómeiddum og hann hefur hlaupið maraþon tvisvar á sjö dögum gegn Chelsea. Og það sama gildir um Riise.

Sem þýðir að þeir Djibril Cissé og Harry Kewell eru meira en líklegir til að byrja inná á morgun, í tilraun til að koma sér í fullt leikform fyrir Meistaradeildina. Það gæti orðið spennandi ef af því yrði! 🙂

Mín Spá: Ég er þegar búinn að segja ykkur að ég telji okkur munu tapa á morgun, og af hverju ég held það, en það segir ekki alla söguna. Ég held að Rafa muni ekki mæta með varkárni í huga á Highbury á morgun, heldur til að prófa hluti og sjá hversu vel hann getur sótt og pressað á stórlið á útivelli. Þannig að ef spá mín um byrjunarlið gengur upp gætum við séð sókndjarft 4-4-2 lið Liverpool, gegn sókndjörfu 4-4-2 liði Arsenal.

Með öðrum orðum: mörk. Ég ætla að gerast djarfur og segja að leikurinn á morgun muni enda annað hvort 3-2 eða 4-3 fyrir Arsenal. Ekki spyrja mig af hverju, en ég hef það bara sterklega á tilfinningunni að það verði skoraður slatti af mörkum í þessum leik á morgun!

Skrýtið að geta sagst búast við tapi gegn Arsenal og standa nánast á sama (sigur Everton í dag gerir baráttu okkar nánast útilokaða) … en ég býst við að það sé að vissu leyti eðlilegt eftir leikinn á þriðjudag. Ég lýg því ekki, það var ekki fyrr en Einar setti inn fréttina af Wenger í gær að ég mundi eftir Arsenal-leiknum um helgina. Það er skrýtið, að öllu eðlilegu væri þetta stórleikur mánaðarins og maður búinn að hlakka til í marga daga … en í þetta sinn hef ég varla pælt í þessum leik nema bara í dag.

Áfram Liverpool! Hvernig sem þessi leikur fer á morgun ættum við bara að njóta þess að horfa á liðið okkar spila (vonandi) betur en Arsenal og aðrir búast við eftir Meistaradeildarleik. Það virðist nefnilega henta Liverpool FC ansi vel að vera afskrifaðir fyrir leiki – og því ákvað ég að leggja mín lóð á vogarskálarnar og spá okkur tapi á morgun.

Vona að ég þurfi að éta orð mín. 🙂

8 Comments

 1. Já, mikiða afskaplega held ég að ég verði afslappaður yfir þessum leik á morgun. Ég ætla ekki að leyfa mér að verða fúll þótt við töpum, sem ég býst fastlega við að við gerum eftir því hvernig þetta tímabil hefur farið.

  Eftir að Everton unnu Newcastle í dag, þá er ég hræddur um að þetta sé búið. Þeir þurfa þó að spila við Arsenal og Bolton og gætu alveg eins unnið tapað báðum leikjunum, en ég leyfi mér ekki að æsast yfir þessu. Búinn að útiloka Meistardeildarsæti svo oft í ár og svekkja mig svo oft á því að ég nenni því ekki aftur 🙂

  Þannig að ég ætla bara að njóta þess að horfa á (vonandi) góðan fótboltaleik. Vona svo innilega að okkar menn hafi lesið kommentin frá Wenger og verði ákveðnir í því að taka almennilega á Arsenal mönnum.

 2. Mig langar að vera pirrandi og benda á að ef þú útilokar ekkert, þá ertu ekki öruggur um neitt heldur. 😉

  Annars vona ég að þið vinnið á morgun. Raunar vona ég að Arsenal tapi, en það kemur út á eitt. Þið takið þessa S-London Sígauna.

 3. Við vinnum Arsenal………. 😡

  Ég þoli ekki bullið í Wæler…… 😡

 4. Ég trúi því nú ekki fyrr en ég sé það , að hann Benitez muni láta PelleGRÍN byrja leikinn á móti Arsenal. Þá er þessi leikur tapaður áður en okkar menn mæta á völlinn. Og að tefla fram Nunez líka er merki um uppgjöf. Við eigum ennþá möguleika á 4 sætinu hvað eru menn að hugsa (þ.e. ef þetta verður byrjunarliðið á morgun).

  Miðað við það sem Benitez sagði í einhverju viðtali í dag um það að Liverpool ættu möguleika á 4. sætinu ef þeir kláruðu síðustu 2 leikina í deildinni. Þá bara trúi ég ekki öðru en því að við mætum til leiks á morgun með okkar sterkasta lið og vinnum þennan helvítis leik.

  komon þessir leikmenn fá 10 DAGA hvíld áður en leikið er við Milan. Þeir hljóta að hafa þrek og metnað í síðustu tvo leikina í deildinni.

  Kveðja
  Krizzi

 5. Ég er sammála síðasta ræðumanni varðandi það að hann HRÓFLI við byrjunarliði Meistardeildar liðinu.

  Chelsea er búið að spila með alla sína helstu leikmenn innanborðs ALLT TÍMABILIÐ og þeir hafa unnið FLEST ALLA leikina. Af hverju í ANDSKOTANUM getum við ekki gert það sama (náttúrulega fyrir utan þá sem eru þegar meiddir).

  Ef LIVERPOOL setja ekki sitt sterkasta lið (það sama og var að spila í Meistaradeildinni) í næsta leik þá erum við dauðadæmdir og við töpum næsta leik. Pressan er til staðar, svo látum hendur standa fram úr ermum og setjum okkar sterkasta lið fram og vinnum Vopnabúrið til að halda pressunni á þá bláu……….!

  EF EKKI ÞÁ ERUM VIÐ ÚT ÚR MEISTARADEILDINNI (miðað við ákvörðun FA).

 6. Vil byrja á að þakka fyrir góða síðu hjá ykkur. Missi oft af leikjum (klukkan þrjú) en veit alltaf hvar finna má góða og “liverpool-lega” umfjöllun með sál og sanngirni.

  Ég hef persónulega aldrei, og ég meina aldrei, veðjað gegn Liverpool, og mun ekki byrja núna, ég hef alltaf trú. Við vinnum á morgun. Eins og alltaf!!!

  Langar í leiðinni að lýsa yfir stuðningi á Milan Baros, veit þið trúið báðir á hann. Til dæmis í leiknum gegn Everton þar sem allir dæmdu hann á grófa brotinu, hann átti frábærann leik, opnaði vörn Everton hvað í annað með góðum hlaupum út á hægri kant. Jafnvel maður leiksins?

  Langar líka að koma að einu, í fyrri hálfleik gegn Juve í stöðunni 2-0 sagði ég við sjálfann mig, “ég bið ekki um meira af þessu liði” fyrir mér var það orðið sigurvegari. Núna, stuttu seinna, yrði ég svekktur með tap gegn Ac Milan í úrslitum Meistaradeildarinar. Við erum á uppleið.

  Langar til að vita hvaða menn ykkur finnst eiga skilið að halda sæti sínu í Liverpool?

  Og eru Baros og Gerrard ómissandi?

  Afsaka stafsetningavillur, Kveðja Friðgeir Ragnar

 7. Sæll Friðgeir og takk fyrir hrósið.

  Að mínu mati, og miðað við spilamennsku liðsins í vetur, myndi ég segja að eftirtaldir leikmenn geti réttilega talist lykilmenn í Liverpool-liðinu, menn sem eru öruggir með sæti sitt: Finnan, Carragher, Hyypiä, García, Alonso, Gerrard, Hamann, Riise, Cissé, Morientes

  Þetta eru þeir leikmenn sem ég er 1000% viss um að munu vera áfram hjá okkur í sumar (jafnvel Gerrard). Síðan koma menn sem hafa verið góðir í vetur og ættu því að eiga sæti í a.m.k. hópnum á næsta ári: Carson, Traoré, Kewell, Núnez, Biscan, Welsh, Potter, Warnock, Pongolle, Mellor, Le Tallec

  Þá eru fjórir leikmenn eftir, sem að ég myndi segja að séu í mestri óvissu hjá okkur: Dudek, Kirkland, Smicer, Baros

  Mér finnst Baros hafa verið frábær í vetur, en hann hefur samt ekki enn náð fyllilega að aðlagast leikkerfi Benítez, og þótt ég þykist viss um að Benítez meti Baros að verðleikum þá muni hann glaður skipta honum út fyrir ‘betri’ framherja, ef hann fær tækifæri. Eitt dæmi um slík skipti væru að selja Baros til Valencia og fá Michael Owen aftur – sem er nokkuð sem slúðrið hefur bent til. En við sjáum hvað setur.

  Auðvitað er ekkert útséð með menn eins og Hamann, Biscan og Le Tallec en ég hef trú á því að þeir verði áfram. 🙂

Enski boltinn verður læstur

Liðið komið