Chelsea á morgun!

Að skrifa upphitun fyrir seinni leik undanúrslita Meistaradeildarinnar, á Anfield Road, ætti að vera auðvelt verk fyrir orðapésa eins og mig, ekki satt? Og vissulega veit ég að ef við værum að fara að spila seinni leik við AC Milan, Bayern Munchen eða jafnvel Arsenal á morgun gæti ég auðveldlega skrifað allavega 5,000 orð um það sem morgundagurinn gæti borið í skauti sér.

En þetta eru einfaldlega ekki AC Milan, Bayern Munchen eða Arsenal. Þetta eru Englandsmeistarar Chelsea, og ég er þegar búinn að skrifa fjórar upphitanir fyrir Chelsea-leiki í vetur. Fjögur stykki, auk þess sem Gerrard-slúðrið hefur valdið því að við Einar höfum fjallað óhóflega mikið um þetta lið síðustu 12 mánuðina.

Með öðrum orðum, á morgun er mikilvægasti leikur Liverpool FC í 20 ár … og ég veit ekkert hvað ég get mögulega sagt, sem ég hef ekki sagt áður. Hverju get ég bætt við? Sjáum til:

1. Þótt jafntefli á útivelli hafi verið okkur í hag, þá er 0-0 jafntefli að vissu leyti pottþétt Chelsea í hag. Það er gott að ná jafntefli á útivelli í svona einvígi, en ef Chelsea skora t.d. fyrsta markið á morgun eru okkar menn í stórkostlega vondum málum. Með öðrum orðum, þetta einvígi hangir á bláþræði.

2. Ef það er eitthvað sem er okkur í hag annað kvöld þá er það heimavöllurinn. Lesist: ANFIELD ROAD. Ef í hart fer annað kvöld og spennan er í algleymingi, þá verður 95% áhorfenda á bandi þeirra rauðu … og þessi 95 prósent munu ekki láta hvarfla að sér að fara heim að leik loknum án þess að hafa öskrað sig hása. Það er eitthvað alveg sérstakt sem gerist í Liverpool-liðinu á Evrópukvöldum á Anfield, það kviknar eitthvað falið forrit sem breytir hversdagshetjum í ódauðlegar goðsagnir. Spyrjið Juventus, Leverkusen, Olympiakos eða Mónakó hvað ég á við, þeir ættu að geta svarað því.

3. Xabi Alonso vantar á morgun, þar af leiðandi munu Chelsea vinna. Chelsea eru Englandsmeistarar, þar af leiðandi munu Chelsea vinna. Bla bla blaaa! Juventus eru á toppi ítölsku deildarinnar og við mættum þeim á Anfield Road, án Xabi Alonso. Hvernig endaði sá leikur nú aftur?

Með öðrum orðum, það er ansi margt okkur í hag á morgun þótt margir vilji meina annað. En á sama tíma er þetta á þvílíkum bláþræði, eitt mark í forskot mun koma okkur áfram en gæti auðveldlega snúist í tap á lokasekúndunum ef Chelsea skyldu jafna. Og að sama skapi þá verður það nánast endalok einvígisins að leyfa Chelsea að skora fyrsta markið. Þannig að ég býst við Liverpool sókndjörfu á morgun, okkar menn munu sennilega reyna að spila hraðan og ákveðinn bolta, pressa Chelsea hátt og nýta sér stemningu áhorfenda til að ná snemma forystu – og munu síðan örugglega reyna að bæta við þá forystu. 2-0 er miklu, miklu, miklu, miiiklu betri staða en 1-0 af því að þá mega þeir skora eitt mark án þess að slá okkur út úr keppni.

Það virðast langflestir vera á þeirri skoðun að á morgun muni Dietmar Hamann koma inn í liðið á morgun, fyrir Xabi Alonso, og að liðið verði að öðrum kosti það sama og síðasta miðvikudag. Ég er sammála því að það er líklegast, en með tilliti til þess að við þurfum að sækja kæmi það mér ekkert á óvart þótt Harry Kewell fái að byrja inná í stað Hamann á morgun, enda var Harry góður á laugardag. Annars verður byrjunarliðið nærri því pottþétt svona:

Dudek

Finnan – Carragher – Hyypiä – Traoré

García – Gerrard – Biscan – Didi/Harry – Riise

Baros

MÍN SPÁ: Ekki séns. Ekki einu sinni ég, sem nýt þess að vera mjög ósannspár að eðlisfari, nenni að reyna að giska á úrslit morgundagsins. Þetta er of jafnt einvígi til að nokkur maður geti sagt með einhverri rökstuddri vissu hvernig leikurinn fer á morgun. Þannig að ég segi bara, skemmtið ykkur Púllarar og Áfram Liverpool!

You’ll Never Walk Alone! Vonandi verður kvöldið á morgun yyyndislegt! Ég hef fulla trú á því að svo geti orðið!

p.s.
Hvernig svo sem leikurinn fer á morgun, þá skulum við bara segja að ég verð dauðfeginn að við þurfum ekki að spila neitt meira við Chelsea á þessari leiktíð 😉

14 Comments

  1. Ég hef það eftir öruggum heimildum að þessi leikur fari 3-1 🙂 Koma svo !!

  2. Steven Gerrard hlýtur að verða maður leiksins. It’s written in the stars! Hann verður útum allt á morgun 🙂

    En varðandi uppstillinguna, þá hallast ég að því að Kewell verði frammi í byrjun með Baros.

    NÚNA MUN BAROS SKORA! Ég lofaði því fyrir Juventus leikinn, en í raun ruglaðist ég aðeins, því hann mun skora á móti Chelsea 🙂

  3. Einhvern tíman las ég inn á þessum þræði þennan söguþráð (eða svipaðan) : 88 mínúta, staðan 1-1, Gerrard setur eina rocket í skeytin, hleypur að varamannbekk Chelsea og setur vísifingur á varir sér til að þagga niður í Mourinho og öllu chelsea transfer bullinu. Þetta getur ekki annað en ræst :biggrin:

  4. Er ekki völlurinn nefndur Anfield og stendur við Anfield Road? hmmm…

  5. Liverpool hefur unnið 5 af 6 heimaleikjum sínum í meistaradeildinni, þar af 2 þá síðustu án Alonso.
    Einnig hefur heimavöllurinn verið mjög sterkur í deildinni.
    Chelsea eru kannski með bestu vörnina á Englandi, en Juventus voru bara búnir að fá á sig 2 mörk í meistaradeildinni áður en þeir komu á Anfield, Liverpool tvöfaldaði það á 45 mínútum.
    Maður verður að leita að öllu því jákvæða ekki satt? 😀

  6. EÉg hel að það verði pottþétt að hann verði með 5 manna miðju og verður Didi hamann inná, ég tel að þetta sé pottþétur leikur fyrir þýska stálið.

  7. Sammála þér Hafsteinn, ég get ekki að því gert, en það fer rooosalega í taugarnar á mér þegar að talað er um að heimaleikir Liverpool fari fram á Anfield Road.
    Heimavöllurinn heitir Anfield ! Punktur og pasta 😉

  8. Eheem..sorry !
    Við tökum þetta annað kvöld, en það er alveg öruggt að ég verð ekki með neinar neglur að leik loknum 🙂

  9. Hann heitir Anfield Road Stadium eftir því sem ég best veit, var hér áður fyrr alltaf kallaður Anfield Road en er nú oftast bara kallaður Anfield. Svipað og Giuseppe Mestalla völlurinn í Mílanó er uppnefndur San Siro, býst ég við.

    Gengur samt erfiðlega að finna skotheldar staðreyndir um þetta þannig að það getur vel verið að þið hafið rétt fyrir ykkur, Hafliði og Hafsteinn. 😉

    En allavega að leiknum, draumaleikurinn yrði auðvitað þessi: Fyrir leik gengur Rick Parry öllum að óvörum út að liði Liverpool á meðan liðin stilla sér upp í línu, dregur blað upp úr vasanum og réttir Stevie penna. Stevie brosir, skrifar undir og sendir Mourinho síðan fast augnaráð.

    105 mínútum síðar höfum við sigrað Chelsea 4-0 og Gerrard átti fjórar stoðsendingar, og fótbraut Frank Lampard og sagði svo við hann “that’s for my mate Xabi,” og staðfestir þar með að hann er leiðtogi liðsins og verður það um ókomna tíð.

    Góður draumur maður, morgundagurinn verður hins vegar eitthvað allt, allt, allt annað. Spennó! 🙂

Chelsea: Englandsmeistarar!

Liverpool að kaupa Reina?