Dagurinn eftir Crystal Palace

Oft er sagt að meginmunurinn á gríni og drama sé sá að drama vekji upp tilfinningar á borð við sorg, reiði, og vonbrigði – á meðan grín vekji mann til umhugsunar. Með öðrum orðum, drama höfðar til tilfinninganna, grínið höfðar til hugsunarinnar. Minnugur þessara orða gerði ég mitt besta til að halda aftur af mér í leikskýrslunni í gær, og ákvað þess í stað að koma með stutta og gagnorða yfirlýsingu sem mér þótti sýna í senn hversu reiður og vonsvikinn ég var, og hversu illa liðið lék.

Nú, degi seinna, hef ég náð að fjarlægjast tapið aðeins. Ég er ekki eins reiður og í gær, hef haft tíma til að hugsa málin eilítið og sjá hlutina í réttu ljósi. Því fylgir að ég er farinn að geta brosað að þessu tapi í gær, þótt það hafi verið gríðarlega erfitt og svekkjandi að horfa á liðið tapa fyrir botnliði í deildinni get ég í dag brosað að því að Liverpool skuli – stundum jafnvel í sömu vikunni – geta unnið bestu lið í Evrópu og spilað eins og hetjur, og svo tapað fyrir lélegustu liðum Úrvalsdeildarinnar og spilað eins og aular. Ég ákvað að taka saman nokkra punkta sem sitja í mér eftir leikinn í gær og velta upp örlitlum pælingum:

RAFA OG LIÐSVAL

Ég hef heyrt mikið rætt um það hvernig Rafa stillti upp liðinu í gær. Byrjunarliðið var einhvern veginn svona:

Dudek

Carra – Hyypiä – Pellegrino
Finnan – – – – – – – – – – – – – – – Traoré
Gerrard – Welsh – Le Tallec

Baros – Morientes

Hann stillti sem sagt upp 3-5-2, með þrjá öfluga miðverði, tvo vængmenn og þrjá á miðjunni. Ég held að flestir hafi verið sammála um að menn á borð við Welsh, Le Tallec og Pellegrino voru inní liðinu vegna meiðsla + hvíldar manna á borð við Riise og Alonso. Aðalkvörtunin sem ég hef heyrt hefur verið vegna leikaðferðarinanr sjálfrar – menn vilja meina að Rafa hafi gert mistök með því að spila 3-5-2.

Mín skoðun er sú að 3-5-2 er ekki slæm leikaðferð. Hún hefur oft verið spiluð með frábærum árangri en hefur á undanförnum árum dottið úr tísku, ef svo má segja. Þetta er að vissu leyti sú leikaðferð sem er í mestu jafnvægi: þrír í vörn, þrír á miðju og tveir í sókn plús einn á hvorum væng fyrir sig. Brasilíumenn hafa unnið fimm heimsmeistaratitla með þessari leikaðferð, Ajax stormaði um Evrópu á 8. og 10. áratugunum með þessari sömu leikaðferð og Bayern Munchen vann Meistaradeildina með henni árið 2001, ef ég man rétt. Hins vegar man ég ekki eftir einu einasta meistaraliði í Englandi sem hefur leikið þessa aðferð, og er það kannski af góðri ástæðu.

Í gær sást vel hvaða veikleika þessi aðferð hefur, ef þú ert ekki með hárréttan mannskap í hana. Í 4-4-2 eða 4-5-1 ertu með bakverði sem eiga að gæta sitt horn á vellinum, þannig að þú kemst upp með að hafa hægari miðverði sem hafa aðra kosti. En eins og sást í gær þá pyntuðu menn á borð við Andy Johnson og Wayne Routledge okkur, þar sem þeir Hyypiä og Pellegrino eru báðir mjög hægir. Þeir höfðu pláss til að hlaupa í og stinga miðverðina okkar af, þar sem Traoré og Finnan léku framar á vellinum og áttu að skila sókndjarfara hlutverki.

Þá sást líka að með þrjá á miðjunni þarf að finna rétta blöndu, til að miðjan geti bæði sinnt góðu varnarstarfi og verið öflug fram á við. Í gær var Welsh í varnarvinnunni og Le Tallec í sóknarvinnunni, en þar sem hvorugur gat mikið af viti gert féll allt of mikil byrði á hendur Steven Gerrard. Ef hann hefði haft Hamann og Alonso með sér í gær hefði þetta kannski gengið betur, en eins og varð lék hann alveg jafn illa og þeir Welsh og Le Tallec. Málið er, að ef þú ætlar að spila 3-5-2 yfir heilt tímabil verðuru að vera viss um að þú hafir breiddina til að geta haldið áfram að spila það kerfi, þó að einn eða tveir lykilmenn láti sig vanta. Í gær var sú breidd ekki til staðar – kannski ef við hefðum átt Ruben Baraja eða Juan Roman Riquelmé, eða álíka leikmenn, til að koma inní liðið fyrir Alonso og Hamann? En það eru náttúrulega bara draumórar 😉

Svo er það ein spurning sem aðeins tíminn getur leitt í ljós: er Rafa virkilega að velta því fyrir sér að spila 3-5-2 á varanlegum basis, eða var þetta leikkerfi einfaldlega til komið svo að hann gæti bætt sér upp hinn mikla skort á kantmönnum í gær? Aðeins tíminn mun leiða það í ljós.

Sjálfur myndi ég vilja meina að Rafa muni stilla eftirfarandi liði upp gegn Chelsea á miðvikudaginn, ef hann ætlar að halda sig við 3-5-2 og engin óvænt tíðindi verða með meiðsli:

Dudek

Carragher – Hyypiä – Traoré
Finnan – – – – – – – – – – – – – – – Riise
Gerrard – Biscan – Alonso

García – Baros/Cissé

Þarna er strax komið meira jafnvægi í liðsuppstillinguna, ekki bara af því að einir fjórir lykilmenn sem voru fjarverandi í gær snúa aftur heldur líka af því að við höfum sterkari og heilsteyptari miðjumenn með Gerrard en við höfðum í gær, auk þess sem vinstri hlið vallarins verður stórlega betri. Riise er miklu meiri sóknarmaður en Traoré – sem þrátt fyrir að reyna sitt besta var frekar dapur í vængstöðunni í gær. Riise getur sótt og varist og hefur verið drjúgur að skapa fyrir samherja sína undanfarið. Á móti myndi Traoré koma með nauðsynlegan hraða í varnarlínuna, þar sem hann er u.þ.b. tuttugu sinnum fljótari en Pellegrino, og því gæti Hyypiä sennilega andað aðeins rólegar vitandi að hann hefur einhverja menn í kringum sig til að hlaupa uppi Robben og Duff. Pellegrino er góður varnarmaður, reyndur og les leikinn vel og sterkur líkamlega, en ímyndið ykkur hann að reyna að passa Arjen Robben í 90 mínútur? Sami þætti það örugglega gríðarlega erfitt – Pellegrino yrði jarðaður.

Sjáum til á miðvikudag, hvort að Rafa fer aftur í 4-4-1-1 kerfið eða heldur sig við 3-5-2. Geri ráð fyrir að þessir 11 sem ég taldi til muni byrja leikinn, sama um hvort kerfið er að ræða, með eina spurningarmerkið núna verandi hvort Baros verður heill eða ekki.

UNDANÚRSLIT EÐA 4. SÆTIÐ – HVORT ER MIKILVÆGARA?

Rafa hefur margoft sagt það sjálfur og ég held að við séum flestöll sammála um það að þótt það sé spennandi að vera kominn svona langt í Meistaradeildinni, þá er eðlilegt að leggja meiri áherslu á að ná 4. sætinu í deildinni en að reyna að vinna Meistaradeildina. Samt má alveg gagnrýna það hjá Rafa að ef honum þætti 4. sætið virkilega mikilvægara þá myndi hann kannski frekar hvíla menn í Meistaradeildarleikjunum, svo hann gæti haft þá ferska til að klára lið eins og Palace og Tottenham. Hann segir eitt, en orð hans sýna annað. Hann hvíldi Alonso, Riise og Biscan í gær til að eiga þá ferska fyrir miðvikudaginn enda eru möguleikar okkar á sigri í Meistaradeildinni núna nokkuð góðir.

Ekki það að ég sé að ráðast að Rafa, hann verður líka að gefa ‘hinum’ leikmönnunum í hópnum tækifæri til að sýna að þeir geti spilað fyrir Liverpool – og ef John Welsh getur ekki komið inn fyrir Igor Biscan og haldið uppi sama staðli, þá er hann ekki nógu góður. Það er kannski hart að segja það um suma af þeim sem hafa leikið fyrir okkur í vetur, en Rafa hlýtur eftir þessa tapleiki í deildinni að hafa ansi góða hugmynd um það hverjir eiga að fara í sumar. Darren Potter er efnilegur og John Welsh líka, en þeir eru ekki nógu góðir í dag til að kóvera liðið þegar hvíla á menn á borð við Gerrard, Hamann, Alonso og Biscan. Og já, ég tel Biscan nú fyllilega vera orðinn einn af þeim sem við þurfum ekki að efast um – með hann í liðinu höfum við sýnt það góða leiki gegn bestu liðum Evrópu að hann hefur að mínu mati sannað sig. Verður aldrei jafn góður/mikilvægur og t.d. Gerrard eða Alonso, en gæti auðveldlega komið í stað Hamann í liðinu að mínu mati.

Nú er hins vegar mjög líklega 4. sætið búið hjá okkur í vetur. Tölfræðilega eigum við enn möguleika, með 54 stig og Everton með 58, en þeir eiga fjóra leiki við eftir og við þrjá. Ef þeir vinna tvo af þessum fjórum eru þeir komnir í 64 stig, tíu stigum meira en við erum með í dag. Með öðrum orðum, ef þeir vinna næstu tvo leiki sína þá skipta lokaleikirnir við Arsenal og Bolton engu máli, þeir verða orðnir öruggir með fjórða sætið. Þetta er ekki lengur í okkar höndum, og við verðum að treysta á að allt að þrjú lið geti unnið eða náð jafntefli við Everton.

Þess vegna tel ég að við eigum bara að leggja allt sem við eigum í Chelsea-einvígið. Menn eiga að deyja fyrir málstaðinn á miðvikudaginn, við getum enn unnið Meistaradeildina og því sé ég ekkert að því að láta slag standa þar hvað svo sem Úrvalsdeildinni líður.

TÖLFRÆÐI: TÖP Á ÚTIVELLI

Mér barst til eyrna nokkrar merkilegar staðreyndir í gær. Eftir 35 umferðir hefur Liverpool tapað 13 leikjum, þar af 10 á útivelli. Tíu. Í þessum tíu tapleikjum hefur Liverpool aðeins skorað eitt mark, og það var sjálfsmark John O’Shea gegn United í október sl. Að sama skapi hafa þrír heimaleikirnir sem við höfum tapað allir verið 0-1 tap, gegn Chelsea, Birmingham og Man U. Með öðrum orðum, í þrettán tapleikjum okkar höfum við aðeins skorað eitt mark. Eitt helvítis mark!

Einnig, við höfum fengið á okkur mark í hverjum einasta útileik í vetur hvort sem við vinnum eða ekki, utan einn. Við unnum W.B.A. 5-0 á útivelli í janúar, og var það eina skiptið til þessa sem við héldum hreinu á útivelli. Með öðrum orðum, til að vinna okkur á sínum heimavelli þurfa lið bara að halda hreinu gegn okkur. Eitt mark nægir gegn Liverpool!

Þetta er náttúrulega ótrúleg tölfræði, að mér finnst. Við erum ekki að fá mörg mörk á okkur, þótt við höldum sjaldan hreinu. Liverpool hefur aðeins einu sinni í vetur fengið á sig 3 mörk eða meira í leik, og það var gegn Chelsea í úrslitum Deildarbikarsins. Þar fengum við aðeins eitt mark á okkur í 90 mínútur, en tvö í framlengingu. Þannig að við höfum aldrei fengið á okkur fleiri en 2 mörk í leik í vetur, aldrei. Samt tala menn um að vörnin sé vandamálið?

Það sem vörnin þarf að laga er að við verðum að halda hreinu oftar. Bestu liðin fá sjaldan á sig mörk – það telst til frétta þegar Man U eða Chelsea fá á sig mörk í deildinni. Arsenal fá á sig fleiri mörk en þeir eru líka með betri sókn en við. Ég sagði oft síðustu árin að ef Houllier gæti fengið Liverpool til að spila jafn sterka vörn og Man U og jafn sterka sókn og Arsenal, þá værum við með meistaralið í höndunum sem gæti unnið þrennuna.

Chelsea eru í dag það lið. Þeir fá sárafá mörk á sig og hafa fyrnasterka vörn, eina öflugustu miðju í Evrópu og svo skora þeir alveg helling. Þeir eru búnir að vinna Deildarbikarinn og Úrvalsdeildina og gætu, ef vel gengur gegn Liverpool á miðvikudag, endað með Meistaradeildina líka – þrennan sem ég spáði að Houllier gæti náð með bættri vörn og sókn.

Liverpool þarf hins vegar að taka sig á í sóknarleiknum. Við höfum skorað meira en Everton og Bolton, vissulega, en ekki nærri því jafn mikið og Chelsea og Arsenal. Baros er með 13 mörk í öllum keppnum, Gerrard og García 12, Riise 9 og svo kemur næsti maður með 5 mörk: Neil Mellor. Og hann hefur ekki spilað síðan í janúar. Það er ótrúleg tölfræði. Vissulega eru fleiri farnir að skora mörkin í vetur en gerðu undir stjórn Houlliers – þar treystum við um of á Michael Owen – en engu að síður erum við í vetur ekki með neinn mann sem hefur komist nálægt því að skora það sem Owen skoraði síðustu sex ár fyrir okkur. Þetta er auðvitað af stórum hluta til vegna meiðsla – hver veit hvað Morientes, Cissé eða Baros væru búnir að skora fyrir okkur ef þeir hefðu fengið heilt tímabil til þess?

En þetta er líka vegna þess að Liverpool hefur sótt á of fáum mönnum, að mér finnst. Bakverðirnir koma vel upp og við sækjum vel upp miðjuna – en það er alltaf eins og okkur þyki erfitt að komast í færi. Í gær tók ég sérstaklega eftir þessu, það var ekki fyrr en Cissé kom inná undir lokin að við fórum að koma boltanum reglulega inní vítateig Palace-manna og ná skotum á markið. Morientes getur ekki þrætt boltann einn síns liðs uppað marki andstæðinganna, hann er bara ekki þannig leikmaður. Hann þarf þjónustu og í gær fékk hann enga, og neyddist því til að berjast fyrir mylsnu útá miðjum velli í stað þess að geta staðsett sig á vítateig andstæðinganna þar sem hann er hættulegastur.

NÆSTA TÍMABIL

gerrard_olympiakos.jpg Það eiga eftir að eiga sér stað miklar breytingar á liðinu fyrir næsta haust, um það efast held ég enginn. Allir áreiðanlegustu miðlarnir eru farnir að tala um að Rafa fái pening til að versla – hvort sem við komumst í Meistaradeildina næsta ár eða ekki – og stafar það sennilega af því fé sem hann græddi á því að komast í bikarúrslit, svo og sigurgangan í Meistaradeildinni. Það hafa nokkur nöfn verið nefnd oftar en önnur – Marek Mintal, José Reina, Ruben Baraja, Vícente, Pablo Aimar, Ledley King, Andy Johnson – og nú þegar hefur verið staðfest að Vladimír Smicer fer frá liðinu í sumar.

Sennilega hefur líklegasti orðrómurinn sem ég hef heyrt verið sá að Rafa ætli að bjóða Valencía El Hadji Diouf + pening í skiptum fyrir annað hvort Ruben Baraja eða Vicénte, eða þá að Marek Mintal komi til okkar í sumar, og mér litist satt best að segja ekki illa á þau kaup. En það hvílir samt á manni ein spurning, eftir frammistöðu eins og þá sem ég varð vitni að í gær.

Er raunhæft að búast við liði sem getur unnið Úrvalsdeildina – eftir aðeins FJÓRA mánuði? Það eru ekki nema fjórir mánuðir í að næsta tímabil hefjist, og þótt einhverjar leikmannastyrkingar verði í sumar, getum við þá virkilega búist við því að liðið berjist um titilinn á næsta ári?

Að mínu mati: . Og ég skal útskýra af hverju í nokkrum punktum:

1. Liðið hefur sýnt að það getur auðveldlega spilað nógu vel til að vinna hvaða lið sem er. Vandamálið er ekki að við séum ekki með nógu gott lið, vandamálið er að liðið þarf að geta spilað vel reglulega. Sýna stöðugleika. Það er það sem vantar núna, en það er auðveldara að laga stöðugleikann með því að auka breiddina, en að þurfa að gera liðið nógu gott með því að skipta út flestöllum leikmönnum fyrir aðra betri. Nema Roman Abramovich eigi klúbbinn þinn.

2. Meiðsli. Það eru einfaldlega 0% líkur á því að við lendum í jafn hræðilegri meiðslasögu næsta vetur og við höfum lent í í ár. Ef við fáum inn 3-4 toppleikmenn í sumar, og aðrir 3-5 fara frá liðinu (flestir nú þegar farnir á láni), og svo fáum við þessa 6-10 menn sem hafa verið meiddir hverju sinni aftur inn í liðið, þá verðum við með svakalega góða breidd næsta vetur. Breidd sem er nógu góð að hún þoli tvö-þrjú erfið meiðsli, þótt það þoli ekkert lið að hafa 13 mikilvæga leikmenn meidda í einu eins og við höfum þurft að gera í ár.

3. Fernando Morientes, Mauricio Pellegrino, Scott Carson. Munu vera með frá byrjun í haust, í stað þess að reyna að spila sig í form á miðju tímabili. Sérstaklega mun það styrkja okkur að hafa Moro með frá byrjun, svo einfalt er það bara.

4. Rafa verður árinu eldri og reyndari í ensku Úrvalsdeildinni. Hann er að ná þessum árangri sem hann er að ná í Meistaradeildinni af því að hann þekkir Evrópuboltann. Hann hefur reynslu í Meistaradeildinni og UEFA-keppninni, hann hefur kynnt sér hvernig ítölsk lið spila, hann er taktískur meistari í Evrópu. En hann er enn að læra á það hvernig á að stöðva lið eins og Crystal Palace og Birmingham, sem vita að þau eru ekki með eins góða knattspyrnumenn og Liverpool og spila þess í stað grófan, stífan pressubolta sem miðast að því að koma okkar mönnum úr jafnvægi. Hann verður kominn með það á hreint hvernig á að stöðva þessi lið næsta vetur.

5. Á sínu fyrsta ári hjá Valencia komst Rafa ekki í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar en vann spænska titilinn. Á öðru tímabilinu reyndi hann við Meistaradeildina og komst í 8-liða úrslit, liðið spilaði frábærlega í Evrópu (sérstaklega gegn okkur) og lenti í 5. sæti í La Liga. UEFA-keppnin var staðreynd. Á þriðja tímabili sínu með Valencia vann hann UEFA-keppnina og La Liga deildina, hvort tveggja með nokkrum yfirburðum. Á næsta ári er hann sennilega að fara að spila í UEFA-keppninni með Liverpool, sem býður upp á minni pressu og minna álag á liðið, þar sem andstæðingarnir eru ekki jafn sterkir og í Meistaradeildinni. Af hverju gæti hann ekki nýtt sér þetta ‘pressuleysi’ á næsta ári og náð góðri fótfestu með liðið í deildinni? Viljið þið veðja gegn því að Rafa vinni deildina og UEFA-keppnina með Liverpool næsta vetur?

En auðvitað er að mörgu að huga fyrst, áður en við förum að spá í leikmannakaup sumarsins og næsta tímabil. Það eru enn þrír deildarleikir eftir og tölfræðilega eigum við möguleika, og á meðan liðið á möguleika verða menn að gera allt sem þeir geta.

En fyrst af öllu, eftir helgi, er ferð til Stamford Bridge þar sem meistaraefni Chelsea bíða í öllu sínu veldi. Það verður svakalegt að sjá liðin mætast á Stamford Bridge á miðvikudag, og ég hef ákveðið að setja pirringinn yfir Úrvalsdeildartöpum Liverpool á hilluna í bili og eyða næstu þremur dögum í algleymingi – við erum i undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu 2005 á miðvikudag!

Helgin var ömurleg – megi Liverpool eiga góða viku. Hún hefst í dag. 🙂

8 Comments

  1. Virkilega skemmtilegar pælingar. Ég fór akkúrat að reyna að rifja það upp fyrir mér í gær eftir tapið hversu oft við hefðum tapað án þess að skora. Ég var kominn ansi hátt, en mér datt aldrei í hug að við hefðum ekki skorað eitt einasta mark í þessu leikjum. Það er hreinlega með ólíkindum.

    Ég var líka að hugsa um það í gær hvort við værum ekki að stefna í færri stig en í fyrra. Nenni ekki að fletta því upp en veit allavegana að munurinn á okkur og toppliðinu er orðinn meiri en 30 stigin, sem hann var í fyrra.

    Ég var að reyna að skilja það af hverju við erum að tapa svona fleiri leikjum miðað við það hvernig við erum á tíðum að spila svona listavel. Í fyrra vorum við ekki að skapa nein ósköp af færum að mínu mati, en við vorum þó að nýta þau og við vorum með mann, sem var að redda okkur hvað eftir annað, Michael Owen.

    Ég held því fram að við værum í muuun betri stöðu í dag ef Owen hefði verið áfram. Það voru einfaldlega óteljandi leikir, þar sem hann kom með “eitthvað extra”, sem kláraði leikinn. Það hafa framherjarnir okkar í ár ekki gert. Svo einfalt er það.

    Mig minnir að Ian Rush hafi skrifað það að það, sem Liverpool vantaði í ár væri fyrst og fremst þessi 20 marka framherji. Síðasta sumar vorum við fullvissir um að við værum með þrjá slíka menn í Owen, Cisse og Baros, en við vitum öll hvernig það hefur farið.

    Ég væri til í að gefa mikið fyrir að vita skoðanir Rafa Benitez á sumum mönnum í hópnum. Finnst honum til dæmis Traore eða Riise vera nógu góðir í vinstri bakvörðinn? Treystir hann Harry Kewell til að vera vinstri kantmaðurinn okkar? Hver heldur hann að sé besti markvörðurinn okkar? Á Pellegrino að vera mikilvægur hluti af þessu liði á næsta tímabili?

    Það verður gaman að sjá hvernig hann sér þessa hluti.

  2. Fínar pælingar Kristján!

    Ég er alveg gallharður á því að taktíkin sem Rafa valdi fyrir Palace algjörlega kolröng. Ég hreinlega skil ekki með nokkru móti afhverju hann er þrjóskast við að velja Carra & Hyypia & Pelle saman í vörnina. Það einfaldlega virkar ekki. There is no way around it. Pelle er alltof hægur til þess að elta menn niður í horn þegar hann er lentur í einhverjum bakvarðamálum. Þetta sást hvað eftir annað á móti Spurs og líka á móti Palace.

    Rafa virðist ekki hafa gert sér neina grein fyrir því að Palace myndu mæta í þennan leik alveg kolbrjálaðir og reyna að ná í stig með hvaða hætti sem er. Menn voru ekki tilbúnir í slaginn.
    Palace pressaði stíft allann leikinn sérstaklega á miðjumennina sem stressuðust upp og t.d. greyið Welsh var enginn veginn að ná að átta sig á þessu. Potter komst aldrei í takt við leikinn í raun fannst mér liðið vera algjörlega út á þekju þangað til Riise kom inná og við fórum að spila 4-4-2.

    Hvar voru menn eins og Nunez & Smicer ? Þessi leikur hefði verið ágætur fyrir Nunez á hægri kantinum og (örugglega algjör martröð fyrir Garcia (ef hann hefði spilað)).

    Og Biscan var örugglega ekki hvíldur því hann var ónotaður varamaður á móti Spurs, kom inná sem varamaður á móti Portsmouth og spilaði ekkert á móti Palace.

    Le Tallec fannst mér vera algjörlega týndur í þessum leik. Hann fór í einn 50/50 bolta í leiks og lagði svo ekki í restina af þeim.

    Þannig að ég skrifa þennan leik alfarið á Rafa og ekki á leikmenn liðsins.

    Að lokum virðist vera svolítill upplýsingaskortur í gangi frá official vefnum. Hvað er að gerast með Nunez, Smicer, Josemi og Warnock. Voru þeir meiddir í gær eða ?
    Ekki það að ég sé eitthvað sérstaklega hrifinn af Josemi en það veit enginn hvað er í gangi hjá honum. Enginn meiðslaupdate og ekki spilar hann með varaliðinu.

  3. Ég sagði oft síðustu árin að ef Houllier gæti fengið Liverpool til að spila jafn sterka vörn og manchester united og jafn sterka sókn og Arsenal, þá værum við með meistaralið í höndunum sem gæti unnið þrennuna.

    Á þetta ekki við um flest lið? Ef að Tottenham myndi spilað vörn eins og Man Utd, og sókn eins og Arsenal, myndu þeir þá ekki vinna alla titla?

    Og svo ég bendi á það aftur, þá eru tveir leikmenn einfaldlega of dýrir fyrir Liverpool: Vicente og Pablo Aimar. Síðan eru Argentínumenn ekkert hrifnir af þessu skítaveðri sem er alltaf á Englandi (t.a.m. Samuel Eto’o sem sagði nýlega að hann vildi ekki spila í Englandi út af því hvað það væri vont veður þar)

    Síðan hefur Baros nú ekki lent illa í meiðslum í ár. Og síðan eitt varðandi meiðslasöguna, þá hefur vörnin alltaf verið heil í vetur… Allir leikmenn þar með 40+ leiki í byrjunarliði í ár.

  4. Einar – við enduðum með 60 stig í fyrra og Arsenal unnu deildina með 90 stig. Við gætum hugsanlega náð í fleiri en 60 stig í ár (54 nú og 3 leikir eftir) en samt verið rúmlega 30 stigum á eftir meisturunum, en ef Chelsea vinna þá fjóra leiki sem þeir eiga eftir enda þeir með 97 fokking stig!

    Og gleymdu því ekki að það voru fleiri en Owen sem björguðu okkur hvað eftir annað fyrir horn í fyrra. Steven Gerrard skoraði ‘that goal’ gegn Olympiakos í vetur, en að öðru leyti man ég ekki eftir því að hann hafi bjargað okkur fyrir horn í einum einasta leik. Gæti verið rangt hjá mér, en ég man ekki eftir einum einasta akkúrrat núna. Hann hefur ekki verið nærri því jafn góður í ár og hann var í fyrra, hver svo sem ástæðan fyrir því kann að vera.

    Mummi – ég er sammála þér í því að Pellegrino og Hyypiä virka aldrei í 3-5-2. Þeir hafa báðir átt frábæra leiki fyrir okkur undanfarið í 4-4-2 kerfi, með annað hvort Traoré eða Warnock – sem eru báðir fljótir – til að kóvera hornsvæðin fyrir sig sem bakverði. En í 3-5-2 þá er það þeirra starf að kóvera hornsvæðin og þeir eru einfaldlega of hægir, báðir tveir. Carra er ekki jafn fljótur og t.d. Gallas en hann hafði samt næga yfirferð til að geta lokað á hægra svæðið fyrir aftan Finnan í gær. Það sama var ekki hægt að segja um Pellegrino vinstra megin.

    Hins vegar er ég engan veginn sammála þér að það megi skrifa leikinn “alfarið” á Rafa og ekkert á leikmennina. Aldrei í lífinu. Rafa gerði mistök í gær og hefur væntanlega lært af þeim, en leikmenn liðsins frá Carra/Hyypia/Pelle og alveg fram að Morientes, ollu Rafa líka stórkostlegum vonbrigðum. Það kemur taktík og undirbúningi ekkert við hvernig menn berjast í leik og í gær einfaldlega virtust menn ekki hafa hungrið í að berjast. Palace unnu þennan leik af því að þeir þráðu stigin einfaldlega meira, nokkuð sem ekki er hægt að kenna Rafa um.

    Já, og hvar eru Warnock, Núnez, Smicer, Biscan og Zak Whitbread ef þeir eru ekki meiddir? Er Whitbread ekki fljótur og sterkur miðvörður sem yrði pottþéttur í svona 3-5-2 kerfi? Hvar eru þessir menn? Meiddir, hvíldir, ekki nógu góðir til að vera valdir? Sammála að það vantar meiri upplýsingar um þessa menn.

    Pétur – Baros missti úr nærri því tvo mánuði í kringum áramótin, meiddist minnir mig gegn Mónakó á útivelli í nóvember/desember og kom ekki almennilega inn fyrr en eftir að við töpuðum fyrir Chelsea á nýársdag. Og eftir þau meiðsli hefur hann einfaldlega ekki verið sami maðurinn, auk þess sem hann hefur sárlega vantað þá Alonso og Kewell til að leggja upp fyrir sig (menn hlæja kannski að því, en Kewell var duglegur að mata Milan í haust … horfið bara á mörkin hans í haust þá sjáið þið hver var að leggja þau upp) …

    Og það að vörnin skuli vera mestöll með 40+ leiki í vetur sýnir bara hversu litla breidd við höfum í það svæði. Ef Josemi væri heill hefði Finnan fengið meiri hvíld, eins og Traoré og Warnock hafa getað skipst á, en Pellegrino var fenginn til liðsins til þess eins að reyna að hvíla Hyypiä. Hins vegar hefur enginn getað leyst Carra af, einfaldlega af því að það er sjálfsmorð að vera með Hyypiä og Pelle tvo eina í vörninni – amma mín gæti hlaupið innfyrir þá varnarlínu.

    En jæja, ég er orðinn nokkuð spenntur fyrir miðvikudaginn núna. Las nýjustu grein Paul Tomkins, sem fjallar að vissu leyti um það sama og þessi grein mín, og eftir hana er ég nokkuð spenntur fyrir miðvikudaginn. YNWA 🙂

  5. Pétur, ég veit að þetta er algjört smáatriði en…

    Þeir eru ekki allir komnir með 40 plús, Riise telst varla með sem varnarmaður því hann hefur spilað ca. 60% af sínum leikjum í vetur á vinstri kanti. Traore hefur spilað vinstri bakk og er kominn í 38 leiki….

  6. Minn mesti ótti þessa helgina rættist og hryggir það mig mjög. Ég var rétt í þessu að líta á stöðuna í deildinni þ.e. hvernig við stöndum vs. þeim bláu.

    Við 54 (3 leikir eftir = 9 stig þ.e. getum endað í 63).
    Bláu 58 (4 leikir eftir = 12 stig þ.e. geta endað í 70). Samkvæmt þessu verðum við að vinna alla 3 leikina okkar og vona að þeir Bláu fái ekki nema 4-5 stig í þeim 4 leikjum sem eftir eru (við erum jú með betra markahlutfall og innbyrðis viðureignir).

    Framtíðin getur ekki annað en batnað. Ef hún versnar þá getum við eins fallið um deild (:confused:….!)

    Ef við vinnum CL þá þýðir það EKKI sjálfkrafa þátttökurétt í CL á næsta ári. FA verður að taka þá ákvörðun og Liverpool þyrfti sennilega að láta einhvern pening af hendi til þeirra bláu ef svo myndi fara. Jú, þeir missa af Meistaradeildinni sem skapar að lámarki um 15 milljónir punda fyrir enskt lið og þá er farinn hellingur af þeim pening sem RAFA fær til leikmannakaupa?

    Að mínu mati mun Liverpool spila í Evrópukeppni félagsliða á næsta ári (eða hvað sú keppni heitir) og þá er spurningin hvort að einhverjir vilji koma til að keppa í slíkri keppni……! Mér er bara spurn….

    Hvað er til bragðs að taka – EKKERT við verðum bara að bíða og sjá til.

    Hvað CL varðar – þá höfum við ekki tapað fyrir Chelsea með stórum mun. Munurinn er þó að þeir eru að spila, hreint út sagt, FRÁBÆRAN fótbolta á meðan við eru ekki að gera það. Spáin fyrir miðvikudaginn er Chelsea í hag 2-0(1). Ég er miður mín að við höfum ekki unnið CP í gær og get ekki annað en verið raunsær – ………..!

    Vonandi hef ég rangt fyrir mér !

  7. Hörku grein Kristján. Þú kemur með marga góða punkta í henni.

    En ég vona að Benitez muni ekki stóla um of á hann Pellegrino á næsta tímabili. Hann er kominn yfir sitt besta skeið (er ekki Maldini). Okkur vantar nýjan miðvörð með Carra ef við ætlum okkur að gera atlögu að titlinum á næsta ári. Miðvörð í líkingu við L. King, Terry eða Rio. Einhvern sem er sterku í loftinu en líka með hraða.

    Varðandi Gerrard þá gæti ástæðan fyrir ekki jafn góðum tímabili og í fyrra verið sú að hann er farinn frá okkur í huganum. Í síðustu 3-4 leikjum í deildinni hefur Gerrard ekki virkað of ákafur í að sigra. Verið inn á með hangandi haus og uppgjafa svip.

    Ég spái því hér með að hann fari frá okkur í sumar, og þegar það gerist þá vona ég að Liverpool hafi kjark til að neita Chelsea og selji hann frekar til Spánar eða Ítalíu. Við græðum lítið á því að styrkja besta lið Englands með okkar besta leikmanni.

    Kveðja
    Krizzi

CP 1 – LFC 0

John Terry leikmaður ársins! (uppfært)