Pompey 1 – L’pool 2

morientes_pompey.jpgSigur í kvöld, en við erum aðeins í 5. sæti þrátt fyrir það. Hvernig gat það gerst? Jú, Man U skynjuðu að við þyrftum á sigri þeirra að halda í kvöld og brugðust við á þann hátt sem er þeim eðlilegur, léku ömurlega í 1-0 tapi fyrir Everton sem halda því þriggja stiga forskotinu á okkur. Einar sendi mér SMS að leik loknum og þar stóð einfaldlega: Ég HATA Manchester United! – sem ég held að sé í raun allt sem þarf að segja um það lið.

En allavega, okkar menn tóku sig taki í deildinni í kvöld og unnu einungis sinn fjórða útisigur á tímabilinu, 2-1 gegn Portsmouth. Fernando Morientes skoraði strax á 5. mínútu en Ricardo Fuller jafnaði fyrir Portsmouth eftir u.þ.b. hálftíma. Luis García, sem átti einhverja einkennilegustu frammistöðu vetrarins í kvöld, gat nákvæmlega ekki neitt allan fyrri hálfleikinn en skoraði síðan sigurmark okkar með nánast sinni einu snertingu síðasta hálftíma hálfleiksins – með glæsilegum skalla. Hann var síðan tekinn útaf í hálfleik, líklega til að fá smá hvíld.

Annars var byrjunarlið okkar manna svona:

Dudek

Finnan – Carragher – Hyypiä – Traoré

García – Alonso – Biscan – Riise

Baros – Morientes

BEKKUR: Carson, Pellegrino, Smicer, Gerrard, Cissé.

Smicer kom inná fyrir García í hálfleik og lék stórvel í þeim seinni, Gerrard kom inná eftur u.þ.b. 70 mínútur fyrir Biscan og barðist vel, Cissé kom inná fyrir Baros 13 mínútum fyrir leikslok og var ferskur, átti eitt ágætt skot sem varnarmaður Portsmouth varði.

2-1 sigur verður að teljast sanngjörn úrslit í kvöld. Okkar menn byrjuðu af krafti og fengu strax dauðafæri, en Morientes náði ekki að skjóta að marki. Strax í kjölfarið fékk LuaLua boltann og skoraði fyrir Portsmouth á 43. sekúndu – og ég saup hveljur – en markið var sem betur fer réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Eftir það héldu Liverpool-menn áfram að sækja og uppskáru mark strax á 5. mínútu. Boltinn gekk vel manna á milli upp miðjuna og barst að lokum á John Arne Riise, sem átti þverhlaup frá vinstri yfir að hægri kantinum. Hann lék boltanum inní teig, gaf fyrir með hægri og þar kom Morientes aðvífandi og potaði í boltann – Ashdown markvörður Portsmouth varði en Morientes náði að pota liggjandi í boltann og koma honum þannig yfir línuna. 1-0 og leikurinn okkar megin.

Eftir það fóru okkar menn aðeins að gefa eftir og ég held ég geti verið sanngjarn og viðurkennt að Portsmouth voru í stöðugri sókn í einhverjar 20 mínútur um miðbik fyrri hálfleiks. Þeirri pressu lauk svo loks með marki Ricardo Fuller eftir um hálftíma, en hann potaði boltanum yfir línuna eftir skalla De Zeeuw úr hornspyrnu. 1-1 og ég farinn að óttast tap í kvöld.

Undir lok hálfleiksins lék Djimi Traoré boltanum svo upp vinstri vænginn, alveg að varnarlínu Pompey-manna. Þar lagði hann boltann til hliðar á Riise sem gaf fyrir, boltinn rataði beint á kollinn á Litla Luis García á vítapunktinum, sem hamraði hann neðst í bláhornið. Glæsilegt mark hjá annars slakasta manni vallarins – jafnvel þegar Luis spilar illa reynist hann okkur dýrmætur. 2-1 og leikurinn unninn þegar í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var hálfgerð einstefna: fyrir utan tvö góð langskot og eitt dauðafæri sem Steve Stone tókst á einhvern ótrúlegan hátt að klúðra þá áttu okkar menn seinni hálfleikinn með húð og hári. Riise – sem átti tvær góðar stoðsendingar í fyrri hálfleik – hefði getað skorað þrennu í þeim seinni, Xabi Alonso hefði getað skorað tvö, Baros tvö, Morientes allavega eitt, auk þess sem Smicer, Cissé, Finnan og Gerrard áttu allir góð færi sem fóru forgörðum. Ef það var eitthvað sem klikkaði í kvöld þá var það skotgetan – allt of oft komust okkar menn í góða stöðu en náðu ekki að klára með skoti á markið. En engu að síður þá var frammistaða liðsins í seinni hálfleik góð og að vissu leyti var þessi sigur aldrei í neinni verulegri hættu, þótt maður geti alltaf fengið jöfnunarmark á sig fékk ég aldrei á tilfinninguna að það gæti gerst í þessum leik.

Góður sigur, þrjú mikilvæg stig og nú bara verður að fylgja þessu eftir gegn Crystal Palace á laugardag!

MAÐUR LEIKSINS: Mér fannst í raun allir leikmenn liðsins í dag spila vel – nema García sem var greinilega bara búinn á því eftir að hafa spilað alla okkar leiki undanfarið. Riise átti tvær stoðsendingar og hefði getað skorað þrennu, Xabi Alonso og Igor Biscan áttu báðir fantagóðan leik á miðjunni, varnarlínan var traust að vanda og Dudek vel á verði í markinu (og nei, markið var ekki honum að kenna), Morientes var frískur og hefði með heppni getað skorað fleiri í þessum leik, Baros barðist vel og náði upp góðu samspili á köflum við Riise og Morientes og varamennirnir okkar lögðu sitt af mörkum í kvöld.

Einn er þó sá leikmaður sem mér fannst öðrum betri í kvöld og verðskuldar að vera tilnefndur. Sumir höfðu áhyggjur af því að þessi leikmaður væri jafnvel á förum frá félaginu eftir að hann missti stöðu sína í liðinu einhverja 3-4 leiki í röð, en í raun var bara verið að veita honum langþráða hvíld. Hvíldin virkaði þetta líka vel, SAMI HYYPIÄ hefur verið algjör turn í vörninni okkar – og sókninni – síðan hann kom inn í liðið á ný gegn Juventus. Í kvöld átti hann hreint út sagt stórleik og var að mínu mati langbesti leikmaður vallarins. Hann les leikinn svo vel, berst ótrúlega vel og hafði LuaLua og Fuller í vasanum allan tímann í kvöld. Þá var framspilið hans mjög gott og hann átti eitt rosalega flott hlaup upp völlinn með boltann, lék á þrjá leikmenn og kom boltanum inn í teig eftir gott samspil við Steve Finnan og upp úr því kom gott færi.

Jamie Carragher hefur augljóslega verið okkar besti og jafnasti varnarmaður í vetur, þótt mér þyki þeir fjórir sem léku í kvöld – og Josemi, Pellegrino og Warnock einnig á köflum í vetur – hafa verið fantagóðir þá hefur hann einfaldlega staðið upp úr. Í síðustu 4-5 leikjum okkar hefur Hyypiä hins vegar verið aðalmaðurinn í varnarspilinu okkar, auk þess að skora tvö mikilvæg mörk það sem af er aprílmánuði. Hann er algjörlega ómissandi fyrir okkur þegar hann er í þessum ham og ég hlakka til að sjá hann og Carra taka á Drogba í næstu viku, spilandi jafn vel og þeir eru að gera núna.

Auðvitað hlakka ég líka til að sjá Alonso, Gerrard og Biscan jarða Lampard, Makelele og Tiago á miðvikudaginn kemur, en það verður að bíða um sinn. Mikilvægur sigur vannst í kvöld en hann verður að engu orðinn ef við tökum okkur ekki til og sigrum gegn Crystal Palace á laugardag. Sá leikur verður að vinnast til að sigurinn í kvöld hafi einhverja þýðingu – annars teljast þessi þrjú stig í kvöld lítið annað en frestun á endalokum baráttu okkar um 4. sætið.

Helvítis Man U … 😡

12 Comments

  1. Mér fannst Arabinn sem lýsti leiknum á Players alveg eiga séns í mann leiksins :laugh:

  2. Sami Hyypiä var alltof oft berskjaldaður vegna hans litla haraða og komust Pompey menn oftar en einusinni á bakvið hann. Alonso og Riise fannst mér vera bestu leikmenn Liverpool á vellinum.

    Ef að þú hefur fylgst gætilega með leiknum þá mátti glögglega sjá að Benitez stillti ekki upp 4-4-2 heldur 5-3-2 eða 3-4-1-2 (hvernig sem fólk vill túlka það) með 3 miðverði (Carra, Sami og Traore), 2 sókndjarfa bakverði (Riise og Finnan) 2 miðjumenn (Alonso og Biscan), einn mann í “holunni” (Garcia) og tvo sóknarmenn.

    Ég er farinn að hálf vorkenna Baros vegna markaleysi hans því að sjáflstraustið hlýtur að vera mjög lítið um þessar mundir.

  3. Ég tel að Everton og Bolton geti talið sig frekar lukkulega, með að vera ennþá með von um að ná 4.sætinu, ef mið er tekið af frammistöðu LFC á útivelli í vetur. Það er ekki eðlilegt að við séum að vinna bara 4 leiki á útivelli í allan vetur þrátt fyrir að við höfum haft hálft liðið úti í meiðslum.

    Leikurinn í kvöld var frekar öruggur og í raun sanngjarn sigur þar á ferðinni. En hatur mitt á M** U** minnkaði ekki í kvöld eftir leiki kvöldins. “Dive”-aldo þeirra hrikalega óþolandi leikmaður er búinn að vekja dómarana upp af værum svefni varðandi leikaraskapinn og hann er farinn að fá réttmæt spjöld fyrir leikþætti sína. Flott mál!

  4. Flottur sigur og góð skýrsla!

    Þýðir ekkert að gráta bjössa bónda og kenna manjú mönnum um þótt þeir eigi vissulega ekkert gott skilið. Frekar væri nær að líta í eigin barm og gráta óþolandi töp eins og á móti birmingham, man city manjú og fleiri prumpliðum.

    Ég trúi því að við munum ná þessu á tvöfaldan hátt, náum 4ja sætinu og vinnum CL! :rolleyes:

    p.s. Hvernig er hægt að vera svona góður í fótbolta eins og Alonso er??? Strákurinn er að mínu mati okkar nýji “GOD”!

  5. Það var reyndar Dudek sem skoraði fyrir pompey ekki kamara.
    Mr Butterfingers strikes again ! 🙁

  6. Andvarp … get over it, Hafliði. Þetta var Dudek ekki að kenna, og þetta var ekki klaufalegt. Hann stökk fyrir manninn sem potaði í boltann, hvort sem það var Fuller eða Kamara, og boltinn hrökk af sóknarmanninum yfir hendurnar á Dudek og í netið. Ekki klaufamark, ekki illa gert, en vissulega heppnisstimpill yfir þessu hjá Portsmouth – rétt eins og það var hálfgerður heppnisstimpill yfir marki Morientes, hann náði að pota í hann liggjandi eftir að Ashdown var búinn að verja fyrra skotið.

    Af hverju þurfa menn alltaf að búa til ástæður til að ráðast á Dudek? Þegar hann á það skilið gagnrýni ég hann en hann átti það ekki skilið fyrir leikinn í gær.

  7. Kristján, ég var að horfa á markið á LFC.tv og ég verð að segja einsog er að mér fannst þetta vera lélegt hjá Dudek, þannig að ég er að vissu leyti sammála Hafliða.

  8. “Nú er bara að vona að Man. Unt. hysji upp um sig buxurnar og vinni Everton. Þau eru teljandi á fingrum annarrar handar skiptin sem ég hef haldið með Man. Unt. í leik og ég er búinn að vera Liverpool aðdáandi síðan 1976…..

    Það er eins gott að rauðu djöflarnir hunskist til að vinna Everton á miðvikudaginn eða allir Man. Unt. aðdáendur á Íslandi verða að lifa við hiksta næstu vikurnar…… ”

    Þessu póstaði ég inn á Liverpool spjallið síðastliðinn laugardag………..
    😡 😡 😡

    Þannig að þegar þið heyrið af hikstandi Man. Unt. aðdáendum þá vitiði af hverju……… 😡

  9. Hjartanlega sammála vali á manni leiksins. Finnski turninn okkar er bara búinn að vera frábær undanfarna leiki. Og ég er spenntur að sjá okkar menn mæta Chelsea…….

    Það gerir mig órólegan hvað bjartsýnn ég er fyrir Chelsea leikina, því ég var afspyrnu svartsýnn fyrir Leverkusen leikinn og Juventus leikinn……… :confused:

  10. Kristján, ég var alltaf harður aðdáandi Dúdda, hann var að mínu mati einn bezti markvörðurinn í evrópu þangað til að hann gerði ein mistök að mig minnir á móti Bolton sem leiddi til þess að Hullier tók hann útúr liðinu. Það virtist sem að sjálfstraustið hjá Dúdda hafi ekki beðið þess bætur enn þann dag í dag þó svo að stundum meigi sjá gamla takta. Ég er þerrar skoðunar að Carson eigi að vera no 1 þó ungur sé.
    Mér þykir vænt um Dúdda en hann er ekki nógu góður.

    Þú sagðir ” Af hverju þurfa menn alltaf að búa til ástæður til að ráðast á Dudek? Þegar hann á það skilið gagnrýni ég hann en hann átti það ekki skilið fyrir leikinn í gær”

    Ég mana þig að skoða þetta atriði aftur, hann átti að gera betur.

Pompey á morgun!

Aimar til sölu?