Pompey á morgun!

Ókei, okkar menn skella sér í langferð á morgun, suður á bóginn. Á suðurströnd Englands er borgin Portsmouth en þar bíður okkar lið sem verður örugglega erfitt viðureignar. Eftir tíðindamikið tímabil í vetur – þar sem liðið hefur haft þrjá framkvæmdarstjóra og tvo aðalmarkverði, svo eitthvað sé nefnt – virðast Portsmouth-menn vera að rétta kjölinn af á ný í síðustu 2-3 leikjum og mæta örugglega ákveðnir til leiks annað kvöld.

Um okkar menn er í raun og veru tvennt að segja: allt of mikið, og akkúrrat ekki neitt. Ég meina það að ég gæti setið hér í allt kvöld, skrifað einhver fleiri þúsund orð um gengi liðsins í vetur og við hverju við megum búast á morgun en það myndi engu breyta, við yrðum engu nær eftir nokkur þúsund orð en við erum nú. Þannig að það er í raun bara best að segja sem minnst, fæst orð hafa minnsta ábyrgð. Eins og við Einar höfum margsagt í vetur þá ræðst niðurstaða þessa leiks á því hvaða Liverpool-lið mætir til leiks á morgun. Ef okkar menn spila eins og við vitum að þeir geta spilað – og þeir hafa sýnt okkur í þónokkrum deildarleikjum í vetur – þá vinnum við örugglega annað kvöld. Ef “hitt” Liverpool-liðið, það sem virtist áhugalaust og tapaði fyrir Man City fyrir rúmri viku – mætir til leiks á morgun verðum við endanlega, 100% örugglega úr leik í baráttunni um 4. sætið um þetta leytið annað kvöld.

Eins og Einar nefndi í síðustu færslu gerðu Bolton jafntefli í kvöld og Everton eiga leik við Man U á morgun – og aldrei þessu vant mun maður halda með Man U. Ef þeir tapa á morgun og við vinnum verðum við komnir í fjórða sætið með fjórar umferðir eftir – þótt Everton eigi inni leik á útivelli við Arsenal sem mun örugglega litlu breyta í baráttu þeirra um 4. sætið. Þannig að eftir 24 klukkustundir gætum við verið endanlega úr leik í baráttunni um 4. sætið, eða þá komnir í 4. sætið í fyrsta skiptið í vetur, og það ekki seinna vænna.

Liðið á morgun? Miðað við orð Rafa eftir Tottenham-leikinn, byrjunarliðið þar og þá staðreynd að Milan nokkur Baros snýr aftur eftir þriggja leikja bann í deildinni annað kvöld, þá ætla ég að leyfa mér að spá eftirfarandi uppstillingu:

Dudek

Finnan – Carragher – Hyypiä – Pellegrino

García – Alonso – Gerrard – Riise

Morientes – Baros

Bekkurinn yrði þá líklega með þeim Scott Carson, Antonio Núnez, Vladimir Smicer, Djibril Cissé og Igor Biscan innanborðs.

Ég hef svo sem engin rök fyrir mér í þessu, kannski verður Warnock aftur í byrjunarliðinu og Rafa notar áfram þrjá miðverði, kannski verður Traoré kominn aftur í liðið (hvar var hann annars um helgina?) og kannski heldur Núnez sæti sínu í byrjunarliðinu. Eitt verður þó öruggt: á morgun munu Steven Gerrard og Xabi Alonso spila saman á miðjunni, mér til óendanlegrar gleði. Samvinna þeirra er ekki orðinn fullþróuð ennþá, langt því frá, en þeir þurfa að spila sem flesta leiki saman … því fleiri leiki sem þeir spila saman, því betur ná þeir að samstilla sig fyrir einvígið gegn Chelsea. 🙂

MÍN SPÁ: Einar hefur skotið á mig að undanförnu fyrir einstaka hæfileika í að giska á röng úrslit, og það réttilega svo. Ég held ég hafi varla verið nálægt úrslitum leiks nema um 5 sinnum eða svo í vetur, og hef ég þó skrifað hátt í 50 upphitanir fyrir leiki í vetur. Það verður að teljast ansi lélegur árangur, en ég ætla samt ekki að leggja árar í bát. Held því hvort eð er fram að lélegar getspár mínar séu tilkomnar vegna margra ‘óvæntra’ úrslita á báða vegu hjá Liverpool í vetur, frekar en lítillar þekkingar minnar. :p

Þannig að ég spái því að við töpum annað kvöld, 3-0, og munu mörkin vafalítið vera sem hér segir: Jerzy Dudek kastar boltanum í eigið net, Xabi Alonso reynir 70-metra sendingu sem klikkar og endar í marki Liverpool og Milan Baros gleymir að líta upp, villist á vellinum og sólar sig inn í eigið mark.

Að sjálfsögðu vona ég að ég hafi rétt fyrir mér, svona til að bjarga heiðrinum… 😉

En að öllu (slöku) gríni slepptu þá leggst þetta vel í mig. Við höfum aðeins hirt eitt stig af síðustu sex mögulegum í deildinni og ef ég þekki liðið rétt þá hlýtur það að þýða að góð frammistaða er á næsta leyti. Sigur á morgun og ekkert annað, ég trúi ekki að okkar menn muni láta enn eitt tækifærið til að hirða 4. sætið framhjá sér fara!

Og eins og ég sagði í gær, þá eru núna a.m.k. fjórir framherjar hjá Liverpool að berjast um sæti í byrjunarliðinu, þannig að ég býst við að sjá hverja þá sem byrja leikinn frammi annað kvöld mæta grimma til leiks. Milan spilar allavega aldrei betur og skorar aldrei jafn mikið og þegar staða hans í liðinu er í hættu. 🙂

Áfram Liverpool!

6 Comments

 1. Langþráður útisigur í kvöld, trúlega 0-1. Liverpool tekur 4. sætið, annað væri absúrd.

 2. Liverpool á útivelli, spiluðum vel síðast (þó úrslitin hafi ekki sýnt það). Bendir til þess að þetta verði grútlélegur leikur og Liverpool snúi til baka með skottið milli lappana.
  Stoppar mig ekki frá því að spá 3-1 sigri 😀

 3. Jæja, þá er komið að því enn einu sinni að spila á móti einu af þessum lélegu liðum (út frá Liverpool dyrum séð). Það hefur oft, nú í vetur sem og fleiri vetra, að Liverpool er ekki að standa sig sem skyldi gegn hinum “veikari” liðum. Hins vegar er það full ljóst að ef við töpum eða gerum jafntefli erum við eins vel settir og nú ef ekki verr.

  Bolton gerði jafntefli og nú er eins gott fyrir Liverpool að standa sig ! Sigur er vænst og andsk….. hafi það ef það tekst ekki……!

  Allir sannir aðdáendur og áhangendur Liverpool gera ríkulega kröfu á það að sigur vinnist í kvöld. Liverpool hefur loksins úr FJÖLDAMÖRGUM framherjum að velja (eitthvað sem ekki hefur verið meirihluta vetrarins) og vonandi að aðrir geti farið að spila sínar eðlilegu stöður. Það hefur ekki vantað að Liverpool skjóti ekki á ramman heldur er það að hitta innan rammans.

  Nóg af vangaveltum; Liverpool vinnur þennan leik 2-1 í leik sem verður ekki upp á marga fiska fyrir utan mörkin……!

 4. Held að Gerrard verði á bekknum og Biscan/Alonso manni miðjuna.

  Alonso verður svo tekinn útaf eftir ca. 60-65 mín og Gerrard kemur inná í staðinn.

 5. Kristján, nennirðu að senda mér marka SMS update á Liverpool og Everton leikjunum. Það lítur úr fyrir að ég hafi ekki tækifær til að sjá leikinn í kvöld 🙁

Bolton tapar stigum

Pompey 1 – L’pool 2