Juve á morgun, 2. lota! (uppfært)

Það er komið að því. Annað kvöld mæta okkar menn Juventus í seinni leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar, að þessu sinni í Tórínó. Okkar menn unnu 2-1 sigur í fyrri leiknum á Anfield í síðustu viku og hafa því forskot fyrir morgundaginn. Juventus verður að vinna, sem gerir þá sennilega bara hættulegri ef eitthvað er. Þetta forskot okkar, 2-1 sigur, getur verið fljótt að fara á morgun. Juventus þurfa bara að skora eitt mark, þeim nægir 1-0 sigur til að fara áfram.

Hins vegar gætu okkar menn farið langt á því að ná að skora mark á útivelli á morgun. Þannig að spurningin er alltaf sú hvort að okkar menn leggjist í vörn á morgun eða hvort að þeir reyni að sækja og ná markinu. Ég held að sannleikurinn liggji einhvers staðar þarna á milli, að okkar menn muni reyna að halda hreinu umfram allt og síðan vera sniðugir með þau föstu leikatriði og færi sem þeir fá.

Líklegt byrjunarlið okkar á morgun er frekar óvíst að þessu sinni. Steven Gerrard er meiddur og þeir Morientes og Pellegrino mega að sjálfsögðu ekki spila. Þá verða örugglega einhverjar breytingar gerðar eftir helgina, en nokkrir af svokölluðum ‘lykilmönnum’ okkar ollu verulegum vonbrigðum gegn Man City á laugardag.

Þá vitum við ekki fyrr en bara rétt fyrir leik hvort að Xabi Alonso verður í liðinu. Hins vegar held ég að Rafa muni á morgun velja að stilla upp 4-5-1 og verði það annað af tveimur liðum, háð því hvort Xabi byrjar inná eða ekki:

Carson/Dudek

Finnan – Carra – Hyypiä – Traoré

García – Welsh – Alonso – Biscan – Riise

Baros

Ef Alonso er ekki með á morgun sé ég Antonio Núnez koma inní liðið, á hægri vænginn, og García færa sig inná miðjuna. Eða að Smicer komi inn fyrir Alonso á miðjuna. En er samt nokkuð viss um að, í fjarveru fyrirliðans muni Rafa setja bæði Biscan og Welsh inná miðjuna með Alonso/García/Smicer til að tryggja að þeir nái ekki yfirburðastöðu á miðjunni.

Svo vitum við ekkert hvort Carson eða Dudek spilar í markinu á morgun. Vörnin og Baros frammi er alveg sjálfgefið. Það er ljóst að í svona 4-5-1 kerfi mun miiikið mæða á Milan Baros. Ef við eigum að skora mark/mörk á morgun verða þau annað hvort að koma úr föstum leikatriðum, eða þá að Baros verður að gjöra svo vel og búa þau til. Hann getur það alveg, ég hef tröllatrú á Baros annað kvöld.

UTAN VALLAR: Ef það er eitthvað sem ég hef áhyggjur af á morgun, þá er það allt húllumhæ-ið fyrir utan leikinn. Ekki aðeins hefur nær eingöngu verið fjallað um fjarveru Steven Gerrard & endurkomu Xabi Alonso og Djibril Cissé fyrir þennan leik, heldur virðist vera mikill ótti meðal stjórnenda LFC að enskir aðdáendur muni lenda í barsmíðum á vellinum á morgun. Ég vona innilega að ekkert gerist, að við getum bara átt frábært fótboltakvöld hvort liðið sem hefur betur. En engu að síður er ég drullustressaður um að eitthvað gerist á morgun, eitthvað sem mun ýfa upp þetta mikla sár sem þessir tveir klúbbar deila með sér.

MÍN SPÁ: Ég veit ekkert. Ætla ekki að spá fyrir um úrslit í kvöld en ég þori með nokkurri vissu að segja að við vinnum ekki á morgun. Það er alveg mögulegt, sérstaklega þar sem þeir virðast ætla að vanmeta getu liðsins án Steven Gerrard, en engu að síður er það mjög ólíklegt. Okkar helsti séns á morgun felst að mínu mati í að skora mark á útivelli, þar sem við erum ekki þekktir fyrir að halda hreinu í vetur. Vonandi ná okkar menn að draga kanínur upp úr hattinum og gera það sem til þarf til að koma liðinu í undanúrslitin…

…þar sem Chelsea bíða, reiðubúnir að sigra okkur einu sinni enn í vetur. Við sjáum nú til með það 😉

En allavega, annað kvöld ætti að verða gríðarlega spennandi fyrir Liverpool-stuðningsmenn og ég óska okkar mönnum góðs gengis og ykkur stuðningsmönnunum óska ég góðrar kvöldstundar. Áfram Liverpool!!!


**Smá viðbót (Einar Örn)**: Mér fannst Benitez nú gefa sterklega í skyn að Alonso myndi byrja á bekknum og hugsanlega koma inná í síðari hálfleik. Ef svo er, þá er svo sem erfitt að gera sér grein fyrir því hvernig Rafa stillir upp.

Eitt, sem mér hefur dottið í hug er að hafa Nunez þarna inná miðjunni með Biscan, þar sem að mér hefur fundist hann berjast vel og skila varnarhlutverkinu. Hann hefur einnig talsvert meiri reynslu en til dæmis Welsh.

En auðvitað er miðjan án Alonso, Gerrard og Hamann náttúrulega alveg fáránleg. Það er alveg ljóst að það mun gríðarlega mikið mæða á Igor Biscan. Hann á vanalega sína bestu leiki *án* Steven Gerrard, svo við skulum vona að það gerist núna.

En mikið væri maður nú samt rólegri ef Didi Hamann væri með á morgun. Hann var búinn til fyrir svona leiki og yrði algjörlega ómetanlegur. Ég spái því að Dudek verði í markinu og að hann nái að klára boltana, sem á hann koma.

**OG SVO SKORAR MILAN BAROS!!!**

En það er ljóst að allir leikmennirnir þurfa að berjast einsog ljón allan tímann. Mér er nákvæmlega sama þótt leikurinn verði ekki áferðarfallegur, bara að menn berjist einsog brjálæðingar fyrir sæti í undanúrslitum. Við getum þetta alveg!

KOMA SVO!!!

carra-bendir.jpg

**Áfram Liverpool!!!**

4 Comments

 1. Hann hefur einnig talsvert meiri reynslu en til dæmis Welsh.

  Ég er nú ekki svo viss um að hann hafi mikið meiri reynslu í meistaradeildinni. Aldrei sá ég hann a.m.k. spila leik fyrir Real Madrid á sínum tíma, og hann hefur ekki verið spilað vel fyrir Liverpool fyrr en núna síðustu vikur, sem er þó af hinu góða. Annars er hann örugglega skástur jú á miðjunni ef Alonso verður ekki í byrjunarliðinu. Garcia allt of villtur til að vera á miðjunni gegn skipulögðu liði Juventus, og betra að hafa hann á kantinum og skjótast inn og reyna að ná inn einu marki.

  Annars eru Liverpool ekki bara án lykilmanna, þar sem að Juventus verða án Zebina og Trezeguet :biggrin2:. Þeir hafa þá bara einn alvöru sóknarmann í byrjunarliðinu (Del Piero hefur ekki getað neitt síðan hann var tvítugur), og því er manni nokkuð létt.

 2. Ég spái því að ef við gerum 2 mörk á morgun eigum við séns. Eitt mark mun ekki duga þar sem Juve gerir meira en 1 mark. Ég ætla mér að spá 4-1 á morgun fyrir Juve.

 3. Já það er erfit að vera bjartsýnn fyrir þennan leik. Ég ýminda mér að kallinn stilli upp varnarsinnuðu liði og reyni að halda fengnum hlut eins lengi og unnt er og taki sénsinn á að pota inn einu úr hraðaupphlaupi eða föstu leikatriði. Síðan ÞEGAR Juve skorar síðan þá gæti orðið erfitt að ætla að fara að sækja og hugsanlega skipta inn á mönnum sem hafa vart séð knött í marga mánuði.

  Mér fannst í fyrri leiknum að liðið panickaði algjörlega þegar að Juve fór að sækja á þá í síðari hálfleik og ef þeir unnu boltan þá var honum umsvifalaust neglt fram.

  Fyrir svona leik vantar Dietmar Hamann mest af öllum. Ég spái þessu 2 0 fyrir Juve. Ef við náum að pota einu marki þá er aftur á móti allt opið. En þrátt fyrir mikin vilja þá bara tekst mér ekki að vera bjartsýnn fyrir þennan leik. :confused:

 4. “Rafael Benitez says he will set his team out to try and win the game in Turin”
  “The Liverpool manager says he will not just instruct his side to sit and defend for the whole 90 minutes and believes the Reds will score a goal in Turin.”

  Djöfull líst mér samt vel á þetta hjá kallinum. Á maður að fara að verða bjartsýnn eða hvað
  🙂

CISSE Á BEKKNUM Á MÓTI JUVE!!!

Viðtal við Cisse