Man City á morgun!

Vá, spáið í því að það eru sjö og hálfur mánuður síðan Liverpool vann Manchester City á Anfield. Í leikskýrslunni þá talaði ég um að “gamla Liverpool” hefði í raun verið að kveðja, þar sem þetta var síðasti leikurinn okkar áður en þeir Xabi Alonso og Luis García yrðu gjaldgengir með liðinu. Ef einhver hefði sagt mér að við ættum eftir að lenda í öllum þeim meiðslum sem við höfum lent í, horfa upp á hryllingsbrot Djibril Cissé, kaupa Pellegrino, Carson og Fernando Morientes í janúar, tapa fyrir Chelsea í úrslitum Deildarbikarsins og vinna Juventus í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar, missa Xabi Alonso í rúma þrjá mánuði með ökklabrot og sjá Luis García tekinn í algjöra guðatölu á Anfield … hefði ég sennilega brosað og talið viðkomandi vera með ofvirkt hugmyndaflug.

Ef síðustu tæpu átta mánuðirnir hafa sýnt okkur fram á eitthvað þá er það að í knattspyrnunni er allt mögulegt. Hetja í dag, skúrkur á morgun. Þannig gengur þetta bara.

Að sama skapi mætti segja að sigurinn á þriðjudag gegn Juventus – þar sem liðið lék hreint út sagt stórkostlega í fyrri hálfleik – sé voðalega lítils virði ef menn fylgja honum ekki eftir með sigri í deildinni. Eins og Rafa sagði eftir Juve-leikinn, þá er þetta ekki bara spurning um hvað við gerum í Meistaradeildinni í ár, heldur einnig að tryggja að við fáum að vera með henni aftur á næsta tímabili.

Á sunnudag eiga Everton heimaleik gegn Crystal Palace. Það er leikur sem þeir ættu að vinna, þótt maður viti aldrei, og því er ljóst að það veltur svolítið mikið á því að við vinnum okkar leik á morgun. Við erum einfaldlega í þeirri stöðu að við verðum að halda áfram að vinna, jafntefli er kannski ekkert stórslys en gæti á endanum kostað okkur 4. sætið.

Spurningin er hvernig Rafa Benítez stillir liðinu upp á morgun. Ljóst er að Morientes kemur inn fyrir Baros sem er í banni á morgun og sennilega kemur Jerzy Dudek inn í liðið á ný, en að öðru leyti gæti þetta verið svolítið áhugavert. Kemur Pellegrino inn í liðið, og ef svo er þá fyrir hvern? Hvílir Rafa Hyypiä aftur eða gefur hann Carragher langþráða hvíld? Heldur Le Tallec sæti sínu í liðinu á morgun?

Ég persónulega held að Rafa muni reyna að hvíla þrjá leikmenn á morgun, að Baros undanskildum, og muni gera það á eftirfarandi hátt:

Dudek

Finnan – Carragher – Pellegrino – Traoré

Núnez – Gerrard – Biscan – Riise
Le Tallec
Morientes

Sem sagt, Antonio Núnez leysir Luis García af, Pellegrino gefur Hyypiä áframhaldandi hvíld og svo held ég að Igor Biscan fái hvíld megnið af seinni hálfleik, hugsanlega fyrir Smicer eða Welsh eftir því hvort við þurfum að sækja eða verjast.

Æskilegast væri að gefa þeim Steve Finnan, Jamie Carragher, Steven Gerrard og John Arne Riise frí þar sem þeir hafa spilað nær alla leiki okkar síðustu mánuðina – en þeir eru einfaldlega svo ómissandi fyrir liðið núna að ég tel erfitt að hvíla þá. Sáum allavega hvað gerðist gegn Blackburn um daginn þegar Riise byrjaði á bekknum.

En auðvitað veit maður ekkert hvað Rafa gerir, það verður bara að koma í ljós á morgun. Engu að síður erum við loksins komnir með smá breidd, menn til að velja úr í stöður og því ættum við að geta hvílt menn á morgun án þess að það komi mikið niður á liðinu.

MÍN SPÁ: Sigur og ekkert annað. Með fullri virðingu fyrir Man City og sérstaklega Robbie Fowler, þá held ég að krafturinn og hungrið í okkar mönnum verði öllu yfirsterkara á morgun. Hvort það situr í okkur þreyta verður að koma í ljós, en í undanförnum leikjum hefur mér fundist ákveðin heppni vera loksins að snúast okkur í vil og því tel ég að þetta gæti fallið okkar megin á morgun, í jöfnum og spennandi leik.

Þannig að ég segi 1-0 eða 2-1 sigur fyrir okkur, og annað hvort Le Tallec eða Morientes skorar á morgun. 🙂

Áfram Liverpool!

p.s.
Leikurinn er ekki í beinni á S1 á morgun þannig að ég hvet menn til að fjölmenna á Players og reyna að mynda smá stemningu yfir leiknum. Það er spennandi að horfa á Liverpool þessa dagana … 😉

Ein athugasemd

  1. Fyrir þá sem ekki nenna á Players, þá er bara að ná sér í afruglara hjá Símanum því að leikurinn verður í beinni á Skjá Sport á breiðbandinu. Kostar ekkert, og er gott að hafa til að geta valið á milli leikja. T.d er líka sýndur Arsenal leikurinn á stöð 4 á breiðbandinu á sama tíma og Liverpool leikurinn en auðvitað ætla allir hér að sjálfsögðu að horfa á Rauða herinn slátra Man city 🙂
    Koma svo Liverpool !!!!

Benitez skammar Valencia útaf Milan

Liðið gegn Man City komið