L’pool 2 – Juve 1

Nákvæmlega! Í kvöld unnu okkar menn Ítalíumeistara Juventus 2-1 í einhverjum svakalegasta fótboltaleik vetrarins, segi ég og skrifa! Þessi leikur var eins kaflaskiptur og hægt var að ímynda sér og að vissu leyti er smá eftirsjá í markinu sem við fengum á okkur, en engu að síður eru það frábærar fréttir að við skulum fara með sigurinn í farteskinu til Tórínó eftir viku. Það er meira en flestir þorðu að vona 😀

Liðið í kvöld var svona skipað:

Carson

Finnan – Carragher – Hyypiä – Traoré

García – Gerrard – Biscan – Riise

Le Tallec – Baros

BEKKUR: Dudek, Smicer, Núnez, ALONSO, Welsh, Potter, Warnock.

FYRRI HÁLFLEIKUR: Einfaldlega það besta sem við höfum séð til Liverpool í allan vetur. Frá fyrstu mínútu hálfleiksins til þeirrar síðustu var aðeins eitt lið á vellinum: Liverpool FC! Það var hreinlega stórkostlegt að horfa á liðið í fyrri hálfleiknum, menn voru sko reiðubúnir í slaginn og létu finna fyrir sér. Baros og Le Tallec voru út um allt að pirra varnarmenn Juve, García og Riise voru duglegir að nýta breiddina á vellinum og teygja þannig á þeim svart-hvítu og fyrir vikið höfðu Gerrard og Biscan helling af plássi … til að gjörsamlega salta miðjumenn Juventus. Þeir Blasi, Emerson, Nedved og Camoranesi hreinlega voru ekki með í fyrri hálfleik. Aftast var vörnin okkar síðan í banastuði og þar fyrir aftan var Scott Carson öryggið uppmálað og bar það alls ekki með sér að vera aðeins 19 ára og að spila sinn fyrsta Evrópuleik!

Mörk Liverpool voru sérlega glæsileg, Hyypiä skoraði af markteignum með viðstöðulausu vinstrifótarskoti eftir hornspyrnu strax á 15. mínútu og síðan skoraði Luis García með frábæru langskoti (sjá myndir) utan af velli eftir hreinlega frábæra stoðsendingu hins unga Anthony Le Tallec. Í bæði skiptin steinsvaf vörn Juventus á verðinum og Gianluigi Buffon verður seint sakaður um þessi mörk, einfaldlega frábærar sóknir hjá okkar mönnum!¨

Nú, Ibrahimovic skaut í stöng og Carson varði frábærlega frá Del Piero í dauðafæri en að öðru leyti gerðu þeir ítölsku ekki mikið af viti fyrir hlé.

Maður fyrri hálfleiks: Liðsheildin.

SEINNI HÁLFLEIKUR: Eftir hlé gerðist akkúrrat það sem maður óttaðist mest; okkar menn urðu stressaðir á boltanum og fóru að hugsa of mikið um að halda fengnum hlut og fá ekki á sig mark, í stað þess að ganga á lagið og halda áfram að kaffæra Juve-sóknirnar í fæðingu. Þá skipulagði Capello lið sitt betur í hálfleik og þeir komu ákveðnari til leiks og voru sterkari í seinni hálfleiknum – en þó hvergi nærri með sömu yfirburðum og við í þeim fyrri.

Maður sá að Ítölunum óx ásmegin eftir því sem leið á seinni hálfleikinn og það var því bara samkvæmt gangi leiksins sem að þeir minnkuðu muninn þegar um hálftími var eftir. Eftir þunga sókn kom fyrirgjöfin fyrir og Cannavaro skallaði að marki frá nánast sama stað og Igor Biscan skoraði fyrir okkur á laugardaginn. Scott Carson misfórst handtökin og missti boltann klaufalega í netið, þótt skallinn væri fastur þá átti strákurinn að verja hann.

En … Carson er aðeins 19 ára, þetta var fyrsti Evrópuleikur hans og það enginn smá leikur, og hafa skal í huga að hann var að öllu öðru leyti algjörlega frábær í þessum leik. Eftir spilamennsku Carson í dag og á laugardaginn (og gegn Newcastle fyrir mánuði) er ég ekkert svo sannfærður um að Rafa taki hann út úr liðinu gegn Man City um helgina, þótt ég hugsa að Dudek spili seinni leikinn gegn Juventus eftir viku – reynslan ræður.

Eftir mark Juventus-manna gerðist nokkuð skrýtið, að mér fannst. Það var engu líkara en Ítalirnir væru sáttir við 2-1 tapið, sáttir að hafa skorað á útivelli, og gáfu verulega eftir. Okkar menn gerðu í raun slíkt hið sama og því einkenndist leikurinn síðustu 20 mínúturnar eða svo af miklum hraða en litlu samspili og miklum taugatitringi hjá báðum liðum. Þannig að á heildina litið mætti segja að 2-1 úrslit hafi verið sanngjörn niðurstaða fyrir þennan leik – þeir voru betri en við í seinni hálfleik og uppskáru mark að launum, en við vorum miklu, miklu betri en þeir í fyrri hálfleik og fengum tvö mörk fyrir.

Menn seinni hálfleiks: Steven Gerrard og Anthony Le Tallec. Fyrirliðinn okkar var í algjörum sérflokki innan um stórstjörnur Juve á miðjunni í allt kvöld og það var sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu vel Le Tallec barðist og hversu vel hann var að spila í kvöld. Þegar aðrir voru orðnir stressaðir á boltanum þá voru þessir menn yfirvegaðir og héldu boltanum vel, unnu mikilvæga vinnu fyrir liðið og léttu á pressunni.

Þannig fór nú sá leikur. Ótrúlegt kvöld, ótrúlega góður sigur okkar manna og þótt þetta sé ennþá galopið einvígi – og Juventus sennilega ennþá líklegri aðilinn til að sigra einvígið – þá hreinlega getum við Púllarar ekki annað en verið sáttir með okkar hlut í kvöld. Juventus höfðu aðeins fengið á sig tvö mörk í átta leikjum í Meistaradeildinni í vetur, í kvöld fengu þeir á sig tvö mörk gegn okkur í aðeins einum leik. Við skulum ekki gera lítið úr slíkum árangri, né frammistöðu liðsins yfir það heila í kvöld. Við sýndum Evrópu í kvöld að okkar menn geta unnið hvaða lið sem er í þessari keppni og ef við föllum út eftir viku þá geta okkar menn borið höfuðið hátt – þeir hafa aflað sér virðingar Evrópu í vetur.

Ef við hins vegar vinnum þetta einvígi, þá tel ég næsta víst að það lið sem mætir okkur í undanúrslitum verði ekki jafn kátt með dráttinn eins og Juventus-menn voru eflaust fyrir þremur vikum. 🙂

Ciao Juve – sjáumst eftir viku! Þá verður sko g-g-g-gamaaaan!

23 Comments

 1. Takk strákar fyrir frábær, lífleg og hnitmiðuð skrif einsog venjulega.

  Ég er gjörsamlega í skýjunum með þennan sigur. Það er kannski eins gott að okkar menn slökuðu aðeins á í seinni hálfleik. Blóðþrýstingurinn hjá mér hefði ekki þolað annan svona hálfleik einsog fyrri hálfleikinn…… fjölskyldan mín varð bara hrædd við mig er ég fagnaði mörkunum ….:rolleyes:

  Benites heldur áfram að koma okkur á óvart með uppstillingu. Átti einhver von á að sjá Le Tallec frammi með Baros???

  Var Baros tekinn út af í seinni hálfleik af því að hann nýtti ekki færin sín eða af því hann var sprunginn??????

  Tilvitnun Einar:
  “En ég treysti á minn mann, Milan Baros og að hann muni neyða ykkur öll til að éta allt það slæma, sem þið hafið skrifað um hann að undanförnu. Milan, þú skuldar mér eitt mark fyrir að hafa varið þig svona mikið á þessari síðu ”

  Ég vildi óska þess að Baros hefði borgað Einari skuldina en það gerðist ekki í kvöld heldur gerist það á Ítalíu þar sem leikurinn fer 1 – 1 og við mætum Byern Munchen í 4 liða úrslitum.

  🙂 🙂 🙂

  Til hamingju félagar nær og fjær

  ynwa

  P.s. Ég var snortinn að sjá hvernig okkar klúbbur heiðraði minningu þeirra sem létust á Heysel.
  En ég tók líka eftir að sumir stuðningsmenn Juventus sneru baki í völlinn og þá athöfn sem fór fram…..ekki tilbúnir til að fyrirgefa/sættast …. sorglegt….En svona er þetta bara.

  Vonandi verður í lagi með okkar áhangendur sem fara til Ítalíu. Ég verð nú að viðurkenna að mitt litla hjarta myndi hugsa sig tvisvar um ef mér byðist að fara á leikinn í Ítalíu!!!!!!! :confused:

 2. Já, þetta var sko alls ekki leiðinlegt… Ég veit ekki hvenær maður nær að sofna í kvöld, maður er svo hátt uppi eftir þennan sigur. Stórkostleg liðsheild.. Mjög ánægður með Carson þrátt fyrir mistökin. Gerrard mjög sterkur á miðjunni. Le Tallec sýndi mikla baráttu. En hann Baros (sorry Einar og Kristján), er bara ekkert að hækka í áliti hjá mér.

  En nóg um það… SNILLD var þetta og ég get ekki beðið eftir seinni leiknum….

  Kv. Stjani

 3. Frábær sigur!

  Missti mig yfir mörkunum á Ölver. Síðan eigum við Alonso upp í erminni fyrir seinni leikinn 😉

 4. Hæ öll,

  horfði á leikinn á ESPN2 í Boston og hann var ekkert öðruvísi hér en heima sé ég eftir að hafa lesið leikskýrsluna hjá Kristjáni Atla.

  Ég vil þó ekki alfarið skrifa markið á Carson þó að hann hafi gert lokamistökin því á þessum tíma í leiknum voru 3 lið frá Liverpool inná vellinum, sóknarmenn, miðjumenn og varnarmenn. Það var engin samvinna þarna í gangi og við það sköpuðust göt í okkar leik sem Juvemenn nýttu sér, því miður en ef það er ekki hægt að byggja á þessum leik fyrir seinni leikinn og deildina að þá eigum við ekki skilið að komast áfram í meistaradeildinni og komast í hana næsta haust, þvílikur byr í seglin að koma núna, + menn að koma úr meiðslum, er það ekki þetta sem einkennir stórlið að þegar að endaspretturinn hefst aða þá rísa þau upp, nú þurfum við bara að laga startið og mið hlaupið og þá er þetta komið.

  Kv frá Boston Stjáni

 5. Þakka hrósið JónH. 🙂

  Mér fannst Baros alls ekkert slæmur í þessum leik. Hann hefði með smá heppni getað skorað tvö mörk í þessum leik, en annars vann hann rosalega vel og ekki gleyma því að það var góð pressa hans og Le Tallec sem skapaði allt þetta pláss fyrir framan varnarlínu Juve, sem að García, Gerrard og hinir voru duglegir að nýta sér.

  Og Svavar, mikið innilega er ég sammála þér. ég held að það verði sama byrjunarlið eftir viku, nema að Le Tallec dettur út fyrir Xabi Alonso og við spilum með sterka þriggja manna miðju: Gerrard, Alonso, Biscan. 🙂

  Mig er þegar farið að hlakka til…

 6. Já, þetta var svo sannarlega frábær sigur og það verður gaman og frekar taugaveikluð stund að horfa á seinni leikinn eftir viku (þeas ef ég verð ekki að andskotast til að vinna!).

  Fyrri hálfleikur var hreint frábær og gaman að sjá hversu hungraðir þeir voru í alla bolta. Hinsvegar var seinni hálfleikur jafn slakur og sá seinni en engu að síður börðust leikmenn allan leikinn og voru ekki að gera mistök sem gáfu af sér mörk eins og svo oft áður. Markið sem Juve gerði var í raun bara gjöf og geta þeir sent Carson jólakort um næstu jól ef þetta verður markið sem slær okkur út. Annars var ég mjög sáttur að Carson var í markinu þar sem að ég tel hann vera mikið efni og á einhverjum tímapunkti þarf hann að byrja feril sinn hjá okkur til að öðlast reynslu.

  En ég er sáttur og ég veit í raun ekki hvern mann skal pikka út í kvöld. Ég var sérstaklega ánægður með að sjá Le Tallec í liðinu í kvöld þar sem að hann sýndi það og sannaði að hann ER mjög góður miðjumaður/sóknarmaður sem kemur sér vel í leikina sem eftir eru í deildinni. Ég annars gef þessum leik liðsheildinni fremur en að pikka út leikmenn. Takk fyrir mig.

  VRUFF!

 7. Tók líka eftir þessu með Juve stuðningsmennina, og ekki nóg með það, heldur púuðu þeir á kop-mósaíkið í 1 mínútu þögninni. Varpar skugga á þetta allt saman. En þegar ég mætti heim og fór að skanna ynwa.tv og aðrar spjallsíður fann ég engin ummæli um þetta – ljóst að spjallsíðurnar hreinsa hressilega út allt sem Ítölum gæti þótt óviðeigandi til að reyna að draga úr óvild fyrir seinni leikinn. Tek ofan fyrir þeim Púllurum sem þora að mæta til Tórínó!

  En frábær úrslit – maður bjóst við að þetta myndi snúast við í hálfleik, enda hreinlega vonlaust að Juve geti verið svona slappt 2 hálfleiki í röð! Fínt að fá á sig bara eitt mark (og smá heppni að rangstaða hafi verið dæmd í löglegu marki í fyrri hálfleik) Og markið hjá Garcia, jesús minn, hélt ég myndi hreinlega fá hjartaáfall yfir því!

  Maður getur verið sæmilega bjartsýnn fyrir seinni leikinn. Að vísu er Juve þekkt fyrir að vinna 1 – 0, en núna munu allir búast við því að við dettum út, pressan verður lítil á okkar mönnum og því góður séns að koma á óvart! :biggrin2:

 8. Frábær fyrri hálfleikur. Ég er virkilega stoltur yfir sigri á “Gömlu Frúnni” og tel þennan sigur, þó naumur sé, gott veganesti í síðari leikinn.

  Luis Garcia var maður leiksins að mínu mati, sannkallaður Meistaradeildar leikmaður þar á ferð. Hann átti stóran þátt í mörgum góðum sóknum, skoraði stórkostlegt mark og vann mjög góða varnarvinnu.

  Juve enn líklegri til að komast áfram en við eigum alveg séns og getum borið höfuðið hátt eftir þennan leik!

 9. Jamm, þetta var vissulega frábært, þrátt fyrir að markið hafi vissulega dregið dálítið úr manni einsog gegn Leverkusen. En alveg einsog þá er ég bjartsýnn á að við getum klárað þetta á Delle Alpi.

  Fyrri hálfleikurinn var frábær. Sammála Kristjáni að þetta er með því betra, sem hefur sést til Liverpool í vetur. Seinni hálfleikurinn var slappari, en mér fannst Juventus heldur ekki vera að ná neinu spili af viti. Á tíma tókst hvorugu liðinu að halda boltanum innan liðsins.

  Sammála með mann leiksins, það er Gerrard. Hann var frábær. Í raun var allt liðið að spila vel í fyrri hálfleik. Varðandi Carson, þá fannst mér þetta vera mistök, en alls ekki nein stórkostleg mistök einsog bresku sjónvarpsmennirnir fóru að þvaðra um. Þetta var erfiður bolti, þar sem Cannovaro skallar í jörðina.

  Carson sagði sjálfur að í leiknum fannst honum hann ekki hafa gert mistök en á myndbandi fannst honum að hann hefði getað gert betur. Yfir heildina var ég samt mjög öruggur með hann í markinu. Held að Rafa ætti að halda honum þar fyrir Man City leikinn.

  Varðandi þann leik þá vil ég líka sjá Le Tallec aftur í byrjunarliðinu með Morientes (vonandi). Mér fannst Le Tallec spila gríðarlega vel í leiknum.

  Varðandi skiptinguna á Baros fyrir Nunez, þá skildi ég hana mjög vel. Juve sóttu talsvert upp kantana og Benitez vildi sennilega hafa Nunez þarna inni þar sem hann er betri varnarmaður en Garcia. Reyndar fannst mér innkoman hjá Nunez vera mjög fín.

  En semsagt, ég hefði stokkið á úrslitin 2-1 fyrirfram, svo við getum ekki annað en verið sáttir fyrir seinni leikinn. Ég held að Milan borgi mér markið í Tórínó og við förum áfram 🙂

 10. Bara til að bæta aðeins við þetta þá eru hér nokkrar góðar leikskýrslur.

  Fyrst ber að nefna skýrslu frá Paul Tomkins: [Reds 2 Juve 1: A Sign Of Things To Come](http://www.thisisanfield.com/columnists0405.php?id=00000096).

  Ensku blöðin fara lofsamlegum orðum um Liverpool og það eina, sem þau finna að leik okkar manna voru mistökin hjá Scott Carson. Því eru fyrirsagnirnar alveg hreint með ólíkindum neikvæðar:

  Times: [Clanger by Carson cuts deep into Liverpool’s advantage](http://www.timesonline.co.uk/article/0,,762-1557153,00.html).

  Já, þetta voru mistök hjá Carson en ég held þvi fram að þau hafi alls ekki verið svo slæm. Svo sannarlega alls ekki á sama plani og mistökin hjá Dudek og Howard í síðustu umferð. Því finnst mér Carson fá óþarflega mikla neikvæða umfjöllun. Það hefði án efa verið hægt að finna fyrirsögn, sem hefði sagt eitthvað um frábæran leik Liverpool.

  En ég ætla ekki að svekkja mig á ensku pressunni. Ég er fullviss um að Carson verði í markinu gegn Man City og að hann haldi hreinu þar. 🙂

  Og svo ætla ég að njóta sigursins. Það er ekki oft, sem við vinnum leiki í 8 liða úrslitum Meistaradeildarinnar, svo það er best að njóta þess vel. 🙂

 11. Ja eg er farinn ad sja thad at eg verd ad eta ofani mig dissid a Garcia… A medan hann er ad skila boltanum svona vel fra ser og skora thessi dyrmætu mork, tha er eg mjog sattur vid kallinn. 🙂

 12. Kristján, smá leiðrétting. Markið hans Hyypia kom á 10 mín en ekki 15… 😉

  En þið mættuð kannski minnast aðeins meir á hlut Garcia & Finnan í þessum leik því þeir áttu báðir frábæran leik og ef eitthvað er þá fannst mér Finnan eiga betri leik en Gerrard.

  Finnan er einfaldlega búin að eiga hvern stórleikinn eftir öðrum síðustu vikur og það var mjög ánægjulegt að sjá hann á fullu seint í seinni hálfleik í gærkvöldi á fullu í sókninni. Einnig er hann mjög öflugur í því að leysa hlutina í vörninni án þess að brjóta á mönnum. Ég sá hann nokkrum sinnum brjóta upp sóknir Juventus bara með því að staðsetja sig rétt og komast inn í sendingar hjá Juventus.

 13. Mummi – ég er alveg sammála þér með Finnan. Þvílíkur vetur hjá honum, í haust hélt maður að hann væri að fara og Josemi væri kominn til að vera en eftir að sá spænski meiddist hefur Finnan farið niður úr kantinum og í bakvörðinn og verið hreinlega ótrúlegur. Ómissandi í okkar liði þessa dagana!

  Annars ákvað ég að nefna enga leikmenn öðru fremur fyrir fyrri hálfleikinn því þá hefði ég þurft að hrósa öllum. Valdi því liðið í heild bara mann leiksins. 🙂

 14. Ég Efa það ekki að Liverpool fer alla leið ef þeir spila eins og þeir spiluðu í fyrriháleik. Stórkoslegur leikur nema það að taugarnar voru að gefa sig þegar það voru rúmar 15 min eftir. En það er aukaatriði :tongue:

 15. Sá þetta comment á einum stað og finnst það vera nokkuð í mark…

  “2-1? Against a team with arguably the best defence in Europe, only 2 CL
  goals conceeded this season before the game, with their first choice 11
  on the park. Us, with no striker for the last third of the game and only
  a half fit one for the first two thirds, rookie keeper and a 20 year old
  support forward who’s played about 5 games all season, missing our most
  expensive players Cisse, Alonso, Didi plus other key players (on paper
  if not on grass) like Dudek, Kewell plus ineligables like Moro and
  Pelle? Is 2-1 a good result? You better believe it! What are we going to
  be like next season when everything comes together?! “

 16. Jammm, auðvitað eru þetta algjörlega frábær úrslit, en samt þá dró markið úr manni. Sem er kannski ágætt, þar sem maður væri sennilega alltof hátt uppi fyrir seinni leikinn ef við hefðum unnið 2-0 🙂

  Líka sennilega ágætt, því maður sá að Stevie G og Hyypia voru dálítið fúlir í leikslok og því held ég að menn verði alveg brjálaðir í Tórínó.

  Man U tókst ekki að skora eitt mark í tveim umferðum á móti AC Milan, sem er þó ekki með jafn sterka vörn og Juve. Það er líka svekkjandi að sjá blöðin tala lítið um sjálfan leikinn en einungis um mistökin hjá Carson, sem menn gera alltof mikið úr.

 17. Það er rangt að segja að Milan Baros hafi verið lélegur þar sem allt liðið spilaði fanta góðan fótbolta í fyrri hálfleik. Í raun spiluðum við boltann sem Herra Benitez ætlar að láta okkur spila í framtíðinni.

  Svo er ekki erfitt að svara spurningunni: “Hvar eru nú allir sem sem gagnrýndu García? Eru þeir týndir? Nú, málið er að Garþia finnst ALLTAF í evrópuleikjunum og í einum og einum leik í deild/bikar heima fyrir. Við vitum það öll að Garþía er að venjast boltanum í Englandi en hann er EKKI…ég endurtek..EKKI slæm kaup.

 18. García er kominn með 10 mörk í vetur, fleiri en Pires fyrsta árið sitt hjá Arsenal og helmingi fleiri en Cheyrou og Diouf skoruðu til samans sín tvö ár hjá Liverpool. Hann vantar tvö mörk í viðbót til að vera kominn með jafnmikið og Harry Kewell náði í fyrra og Danny Murphy árið þar áður.

  Og hann er enn að “venjast enska boltanum” … 🙂

 19. Garcia er æði. Legg til, Kristján, að við bönnum neikvæð komment um Garcia eftir þetta mark í gær. 🙂

  Hversu frábært er það líka að hafa svona “creative” spilara, sem síðan berst einsog ljón fyrir liðið allan tímann?

 20. Sammála!!

  Garcia er frábær leikmaður og ég hef hrifist af honum frá fyrstu mínútu í rauðu treyjunni! Auðvitað á hann sína ups and downs, en hver á það ekki?

  Sjáið runnið á liðinu okkar núna, Everton, Bolton, Juventus! eeeehhhhhhhh! :biggrin:

 21. Sælir Félagar!!!!
  Ég var í L.pool Þetta kvöld en komst því miður ekki inn á völlinn enda uppselt fyrir mörgum vikum. Ég var á The Pub (ath. þetta er ekki nafnið) aðalkrá okkar stuðningsmanna og þvílikt andrúmloft. Það var ótrúlega gaman að upplifa stemminguna, stressið fyrir leik og fagnaðarlætin þegar Hyypia skoraði og geggjunina þegar Garcia tók Buffon í nefið. Þvólíkt mark og þvílík læti :laugh: :laugh:
  Áfram Liverpool og go on Scousers!!!!!!

Byrjunarliðið gegn Juve (staðfest)!

Guess who’s back!