Igor fer + miklar breytingar framundan…

Fyrst: það er liðin vika síðan ég skrifaði síðast pistil hér inn, en það er í fyrsta sinn síðan þessi síða fór í loftið sem það gerist. Biðst forláts en við þetta var ekki ráðið, þar sem skóli + vinna + fermingar + flensa tóku allan minn tíma. En allavega, hendum okkur aftur í gírinn!


Það er allt útlit fyrir að IGOR BISCAN fari frá Liverpool í sumar, skv. frétt opinberu síðunnar. Í þessari frétt kemur m.a. fram að Rafa sagði Igor strax fyrir jól að hann væri ekki hluti af framtíðaráætlunum hans en Igor kaus að klára samninginn til að hjálpa liðinu fram á vorið, eftir að Xabi Alonso meiddist illa á nýársdag. En á móti kemur að við fáum engan pening fyrir Igor í sumar ef/þegar hann fer, en ef við hefðum selt hann í janúar hefðum við fengið a.m.k. eitthvað fyrir hann – minnir að það hafi verið minnst á 600-þúsund pund til Southampton, áður en Igor ákvað að verða kyrr.

Ég get ekki að því gert, mér finnst mikil eftirsjá í Igor ef/þegar hann fer. Hann hefur verið skotspónn háðsfugla í fimm ár núna síðan hann kom og var vissulega einn af okkar ójöfnustu leikmönnum í fyrra, þar sem Houllier tók hann fram yfir hinn reynda Stephane Henchoz í miðri vörninni. Eftir að Rafa tók við fékk Biscan hins vegar að spreyta sig í sinni bestu stöðu – á miðjunni – og árangurinn lét ekki á sér standa. Ég man enn hvað við Einar vorum hissa í haust yfir frammistöðu Igor, og maður fór að gæla við þá tilhugsun að kannski ætti hann sér framtíð á Anfield eftir allt saman?

Í kjölfarið hafa fylgt margar góðar frammistöður, svo sem Leverkusen-leikirnir, Deportivo á útivelli í haust og nokkrir fleiri. En því miður þá hefur hann átt það til að hverfa inn á milli í leikjum, sérstaklega í tapinu í bikarkeppninni gegn Burnley, og svo virðist sem það hafi verið nóg til að sannfæra Rafa um að hann geti fundið betri miðjumenn en Igor í Evrópu.

Það verður skrýtið að sjá á bak Króatanum tröllvaxna en ég mun óska honum góðs gengis hvar sem hann fer – ef hann þá fer. Hann hefur unnið gott og óeigigingjarnt starf fyrir liðið í fimm ár núna og hann hefur aldrei kvartað, þótt oft hafi verið farið illa með hann. Jú, hann er vissulega ekki af sama kalíberi og Gerrard eða Alonso en hefur samt skilað sínu á köflum.

Auðvitað er ekki allt úti með þetta ennþá, Rafa gæti enn snúist hugur og boðið honum nýjan samning, en miðað við það sem Rafa sagði við hann í desember er hann á leiðinni frá Liverpool í sumar … þangað til við heyrum af einhverjum breytingum. Farvel, Igor tæknitröll. Hvort sem þú ert að leika vel eða illa þá er liðið alltaf skemmtilegra þegar þú ert inná vellinum! 🙂


Annað sem sat í mér um daginn þar sem ég sat útí Hrísey og kíkti örstutt á netið (bara dial-up þarna sko) var þessi frétt hér: Rafa – I’ll make changes in the summer!

Þarna segist Rafa ætla að breyta hugsunarhætti manna varðandi varaliðið og að þær breytingar séu í raun þegar byrjaðar að eiga sér stað. Til að gera langa sögu stutta, þá vill hann nota varaliðið til að þróa yngri leikmenn og vill helst geta kallað á þá til að kóvera fyrir meidda/fjarverandi leikmenn aðalliðsins í framtíðinni … í stað þess að þurfa að halda einhverjum 10-12 “stjörnum” á svimandi launum fyrir utan liðið hverju sinni. Þess vegna var hann svona fljótur að lána menn eins og Cheyrou, Diouf, Diao og Vignal út til annarra liða – vegna svimandi launakostnaðar, og einnig til að yngri og efnilegri strákar gætu þess í stað fengið að sanna sig reglulega með varaliðinu og um leið verið skrefi nær aðalliðinu.

Þetta hefur þegar sannað sig í vetur, þar sem við höfum séð menn á borð við Darren Potter, David Raven, Neil Mellor, Stephen Warnock, Scott Carson, Paul Harrison, Anthony Le Tallec, Florent Sinama-Pongolle, Zak Whitbread, John Welsh og Mark Smyth fá séns með aðalliðinu í einum eða fleiri leikjum í vetur. Af þessum eru bara Mellor og Warnock eldri en 20 ára gamlir, sem gefur til kynna bjarta framtíð hjá þessari kynslóð leikmanna.

Þetta hefur borið ávexti, sér í lagi í Warnock, Mellor og Sinama-Pongolle sem hafa fest sig í sessi sem fullgildir meðlimir aðalliðsins í vetur … auk þess sem ég á von á að Anthony Le Tallec láti að sér kveða í næstu leikjum, þar sem hann er núna bókstaflega eini framherjinn í 30-manna hópnum okkar sem gengur heill til skógar! 😉

Mér finnst þetta góð þróun hjá Rafa. Ekki aðeins lækkar hann launareikninginn með þessu heldur, eins og áður sagði, gefur hann æskunni tækifæri … en það er hreinlega ómetanlegt þegar menn á borð við Owen, Gerrard, Carragher og aðrar slíkar stjörnur koma upp í gegnum unglingastarfið, í stað þess að þurfa að eyða milljónum punda í slíka menn (Xabi og Cissé voru samt þess virði fyrir unga, rándýra menn) …

Ef við lítum á hópinn eins og hann er í dag þá sjáum við að Rafa er þegar búinn að koma þessu að miklu leyti í framkvæmd. Ef við teljum þá sem eru á láni annars staðar ekki með, þá er hópurinn í dag einhvern veginn svona:

GK: Dudek, Kirkland, Carson
DEF: Finnan, Josemi, Traoré, Hyypiä, Carragher, Pellegrino, Warnock, Whitbread, Raven, Otsemobor
MID: Gerrard, Alonso, Hamann, Biscan, García, Kewell, Riise, Núnez, Potter, Welsh, Partridge, Smyth
ATT: Cissé, Morientes, Baros, Sinama-Pongolle, Le Tallec, Mellor

Eins og sést þarna þá erum við með nokkurn veginn tvo fullgilda, fullorðna leikmenn í hverja einustu stöðu (að meiðslum frátöldum) og síðan eru ungir menn reiðubúnir að fylla uppí ef með þarf. Þannig er hægt að tala um 22ja manna hóp af leikmönnum sem eru á sæmilegum og uppí súpergóð laun, og svo koma þar fyrir neðan á launaskránni ungir strákar sem eru á byrjendalaunum þangað til þeir sanna sig með aðalliðinu.

Að mínu mati er þetta miklu betri uppsetning heldur en að hafa menn eins og Cheyrou, Diao, Diouf, Vignal, Henchoz, Luzi og aðrar innfluttar ‘varaskeifur’ fyrir utan aðalhópinn hjá okkur. Ég meina, Diouf einn síns liðs myndi sennilega kosta liðið meira í laun á viku en allir stráklingarnir til samans – sem væri í lagi ef hann væri jafnan í liðinu. En fyrir leikmann sem fær í mesta lagi að sitja á bekknum? Peningasóun.

Flottar pælingar hjá Rafa og ég hlakka til að sjá hvaða breytingar hann gerir á hópnum í framtíðinni, bæði af “stjörnum liðsins (dæmi: Biscan út, Marek Mintal inn? Dudek út, César inn? Baros út, Andy Johnson inn? ) og líka hvað varðar þróun ungra og efnilegra leikmanna. Þetta verður skemmtilegt sumar, ég spái því hér og nú!


Og að lokum, þá veit ég ekki hvort að menn tóku eftir þessari frétt um síðustu helgi í öllu Everton-brjálæðinu, en Rafa segist vilja sjá Steven Gerrard spila fyrir Liverpool í mörg ár í viðbót! Auðvitað er enn allt óljóst með framtíð hans hjá félaginu, og ég nenni ekki að fara út í þá umræðu eina ferðina enn, en eitt sem Rafa sagði fannst mér sérlega áhugavert:

>”Champions League football is not essential to keep Gerrard because he has two years of his contract to run and is our player, so we do not have to change the situation.

>…

>Michael Owen had only one more year, but Gerrard’s case is different. He is our player for the next two years and I have told him many times we want to build a team around him.”

Þetta er held ég í annað eða þriðja skiptið á nokkrum vikum sem ég sé Rafa nefna þetta með samninginn hans Gerrard. Með öðrum orðum, Liverpool ræður því algjörlega hvort þeir selja Gerrard í sumar – burtséð frá því hvort hann vill fara eða ekki. Hann á tvö ár eftir, sem setur okkar menn í ansi sterka stöðu. Ef okkar menn ákveða að halda Gerrard þá verður hann að gera sér það að góðu, og ég er nokkuð viss um að ef hann biður um sölu og fær neitun, þá gefur hann klúbbnum a.m.k. ár í viðbót og sér svo til sumarið 2006. Hins vegar, ef við ákveðum að selja Gerrard, þá erum við í ansi sterkri stöðu uppá að fá góða fjárhæð fyrir hann – þar sem við þurfum ekki að selja!

Svo beit/kyssti hann treyjuna sína gegn Everton og það sást greinilega hvað sá sigur var honum mikilvægur. Svo er hann farinn að spila eins og hann á að sér í síðustu 2-3 leikjum, þannig að ég verð að játa að mér finnst ekki eins líklegt í dag að hann fari eins og mér fannst fyrir 3 vikum… 🙂

Annars, ef ég uppfæri ekkert meira fyrir helgina (vegna fréttaþurrðar og landsleikjahlés) þá segi ég bara gleðilega páska, alle sammen! Vonandi hafa sem flestir það gott yfir þessa frídaga… ég mun njóta þeirra til hins ítrasta!

5 Comments

 1. Gott mál! Biscan hefur ekki átt góðan tíma hjá LFC þótt hann hafi spilað einn og einn leik sem þessi leikmaður sem hann átti að vera. Ég mun ekki sakna hans neitt sem og fleiri leikmanna sem eiga eftir að fara. Ég tippa á að Baros fari einnig og mun ég svo sem ekki gráta það heldur.
  Gleðilega páska! 😉

 2. EikiFr – ég veit ekki hvort þú hefur tekið eftir því en af ummælum þínum að dæma virðist þú vera frekar harðbrjósta einstaklingur. Ég myndi allavega ekki vilja að þú værir þjálfarinn minn… 😉

  Eiki: Kristján, eftir 10 stórleiki í röð varstu versti maðurinn á vellinum í kvöld!
  Ég: Já sorrý þjálfari, ég mun gera mitt besta til að bæta liðinu það upp í næsta leik…
  Eiki: Það verður enginn næsti leikur. Ég hringdi í þjálfara Reyðfirðinga í hálfleik og seldi þig…..

  Allt í gríni, að sjálfsögðu. :tongue:

 3. Ég bara get svo svarið það… að Smicer hafi verið einhver svikahrappur á sínum ferli með Liverpool… Hljómar eins og frá stuðningsmanni annarra liða. Man eftir mörgum góðum smicer-atvikum. Hef alltaf séð Smicer sem gæja sem reynir en er e.t.v. of veikur fyrir og stöðugt að meiðast – hefur skorað nokkuð mikilivæg mörk – man t.d. einhver eftir chelsea 1 – 0?

Draumórar

Landsleikjahrina