Liverpool 0 – Blackburn 0

moro_blackburn.jpg Dæs, hvað þetta var pirrandi. Við þurftum nauðsynlega að vinna í kvöld og minnka muninn á okkur og Everton niður í 4 stig. Við gerðum jafntefli, 0-0, og áttum aðeins 6 skot að marki í þessum leik … og þar af aðeins eitt á markið.

Við erum, í dag, að verða uppiskroppa með afsakanir. Með öðrum orðum, nú er ekki lengur til neitt sem heitir “vinnum þetta upp seinna”. Ef við gerum jafntefli eða töpum fyrir Everton á sunnudag, þá náum við ekki 4. sætinu. That’s it, síðasti séns!

Byrjunarliðið í kvöld var eftirfarandi:

Dudek

Finnan – Carragher – Hyypiä – Warnock

García – Gerrard – Hamann – Smicer

Baros – Morientes

BEKKUR: Carson, Hyypiä, Núnez, Riise, Biscan.

Þrjár breytingar. Hyypiä var með flensu skv. Rafa í kvöld og gat því ómögulega spilað heilan leik, Riise var hvíldur og Smicer fékk stórt tækifæri í kjölfarið og Biscan fór á bekkinn í staðinn fyrir Morientes til að reyna að auka sóknarþungann.

Þessi leikur var drepleiðinlegur. Við sóttum og sóttum en gátum nákvæmlega ekkert skapað af viti. Það var eins og menn væru allt, allt, allt of stressaðir því að menn voru þegar á 25. mínútu farnir að negla boltanum inní teiginn – eins og um síðustu sókn leiksins væri að ræða. Sá eini sem reyndi að skapa eitthvað af viti í fyrri hálfleik var Luis García, en hann hvarf algjörlega eftir hlé. Aðrir voru varla með í sóknarleiknum.

Blackburn léku þennan leik mjög vel, taktískt séð. Þeir stilltu upp mjög varnarsinnuðu 4-5-1 kerfi og það svínvirkaði, þeir lokuðu miðjunni okkar og fengu aðeins örfá skot á sig. Þeirra leikaðferð gekk upp í kvöld og þótt sumir hafi verið að kvarta yfir dómgæslunni (sleppti augljósri vítaspyrnu í seinni hálfleik og var mjög misjafn) þá getum við bara sjálfum okkur um kennt hvernig fór í þessum leik.

Riise kom inná í hálfleik fyrir Smicer og við það lifnaði aðeins yfir leiknum, en það entist bara í kortér … síðan datt allt niður á sama, stressaða planið. Og við náðum ekkert að skapa okkur í seinni hálfleik frekar en fyrri hálfleiknum.

Æji ég nenni ekki að fjalla meira um leikinn. Þetta var steindautt jafntefli, þökk sé ótrúlegu stressi okkar manna. Ég meina, það er ekki til neins að stilla upp 4-4-2 leikkerfi ef það á að dúndra háum boltum á Morientes allt kvöldið, sem hann á annað hvort að taka niður og skora upp á eigin spýtur eða skora með skalla fyrir utan vítateiginn … því hann fékk nákvæmlega enga hjálp í kvöld.

MAÐUR LEIKSINS: Það stóð enginn upp úr í kvöld. Carra og Pellegrino voru mjög stöðugir í vörninni og García átti frábæran fyrri hálfleik, en að öðru leyti er lítið til að tala um.

SAUÐIR LEIKSINS: Þeir eru tveir og þeir koma frá sama landinu. Vladimír Smicer fékk stórt, stórt, stórt tækifæri til að vinna sér inn nýtt samningstilboð frá Liverpool í kvöld. Samningurinn hans rennur út í sumar og ég verð að segja að eftir leikinn í kvöld mun hann sennilega ekki fá samningstilboð frá okkur. Hann missti boltann ekki jafn oft og García, en á móti kemur að hann var afskaplega hægur, dvaldi allt of lengi á boltanum og gerði algjörlega ekki neitt skapandi í þær 45 mínútur sem hann var inná vellinum. Mjög mikil vonbrigði frá þeim tékkneska og hann fer nær örugglega í sumar.

Hinn sauðurinn? Ég trúi því varla að ég ætli að segja þetta – og Einar verður eflaust meira hissa en allir aðrir – en ég legg til að Milan Baros verði settur á bekkinn gegn Everton. Ég legg til að við förum í 4-5-1 eins og gegn Leverkusen og setjum annað hvort Biscan eða Núnez inn í liðið fyrir Baros. Sóknarinnar vegna.

Af hverju? Jú af því að Baros var frammi með Morientes í kvöld af því að við ætluðum að sækja á tveimur framherjum, við ætluðum að setja einhvern þunga í sóknina. Þess í stað eyddi Morientes öllu kvöldinu í baráttu eins síns liðs gegn sterkri vörn Blackburn, því Baros var hvergi nærri.

Hann var ótrúlega eigingjarn í kvöld, það var svo oft sem hann fékk boltann frá García eða Gerrard útá hægri vængnum og maður beið eftir að hann kláraði þríhyrningaspilið … en aldrei gerðist það. Hann setti hausinn undantekningarlaust undir sig og reyndi að fara endalínumegin framhjá varnarmönnum Blackburn, sem lásu hann frekar auðveldlega í þetta skiptið. Þetta hefur oft verið nefnt sem akkilesarhæll Milans, að hann sé allt of einhæfur og einleikinn í sókninni, en ég hef aldrei séð jafn slæmt dæmi og í kvöld.

Það sást líka að Gerrard var orðinn frekar pirraður á honum og það kom ekki á óvart þegar hann var tekinn útaf fyrir Núnez þegar 20 mínútur voru eftir. Við áttum einfaldlega meiri möguleika á að ná að sækja og skapa eitthvað fyrir Morientes í kvöld með Baros utan vallar. Því miður, ég og Einar erum einhverjir mestu Baros-aðdáendur á landinu en hann olli mér ótrúlegum vonbrigðum í kvöld.

Ég saknaði Djibril Cissé og Michael Owen líklega meira í kvöld heldur en ég hef gert í nokkrum öðrum leik síðan Djib fótbrotnaði. Fjandinn hafi það, ég saknaði Neil Mellor líka!!! Þeir hefðu allavega reynt að ná einhverri samvinnu upp með Morientes – Baros var algjörlega í eigin hugarheimi í kvöld, og það er alveg á hreinu að Rafa Benítez hefur ekki endalausa þolinmæði gagnvart honum. Lykillinn að framtíð Baros hjá Liverpool felst ekki í markaskorun eða getu – við vitum að hann hefur nóg af báðu – heldur í því hvort hann getur brotið odd af oflæti sínu og unnið eftir þeim reglum og þeirri taktík sem Rafa setur upp.

Hann hefur átt erfitt með það hingað til, og í kvöld reyndi hann það ekki einu sinni.

Hvað er svo næst? Sunnudagurinn: Everton á Anfield. Ef við náum ekki að vinna þann leik er þetta búið spil … við erum ekki að fara að vinna upp 7 stig á Everton, hvað þá 10, eins og liðið er að spila illa í deildinni síðustu tvo mánuðina eða svo. Það er bara svo einfalt. Það er tæpt að við náum að vinna upp fjögur stig, ef við skyldum sigra á sunnudaginn kemur, en við náum alls ekki að vinna upp sjö stiga mun!

Leiðinlegur leikur. Leiðinlegt kvöld. Erfið staða. Taumlaus leiðindi… það skal aldrei sagt að við, stuðningsmenn Liverpool, séum óþolinmóðir … en ég er ekki viss um að ég meiki annað tímabil í Evrópukeppni Félagsliða. Fjandinn hafi það.

15 Comments

 1. þessi leikur var viðbjóður 😡 held það segi ansi mikið um hann að ég reyndi að sofna, gekk reyndar ekki mjög vel :confused:

 2. Warnock var langbesti Liverpool leikmaðurinn í kvöld. Á eftir honum komu Carra og Pellegrino. Sammála þér með Baros, og er ég ennþá að klóra mér í kollinum afhverju Smicer fær að byrja inná? Þetta er helvítis svindlari sem að getur ekki gert neitt annað en að dýfa og svindla!!!

 3. Það var margt undarlegt í þessum leik. Hvað hefði t.d. gerst ef ekki hefði verið dæmd rangstæða þegar Baros var kominn einn í gegn í fyrri hálfleik, sá dómur var út í hött.

  Af hverju spilaði Gerrad svona aftarlega í kvöld, það var ekki fyrr en Baros var skipt útaf sem Gerrard fór að spila fyrir framan Hamann! Fyrir leik voru ensku sjónvarpsmennirnir að velta upp þeim möguleika að Gerrard mundi aðstoða senterana, í leiknum var hann nær miðvörðunum mestan tímann.

  Hvað var Baros að spá þegar Riise lék upp að endalínu og lagði boltann út á Baros í upphafi seinni hálfleiks. Tók boltann innanfótar langt framhjá – ekki varnarmaður nálægt honum!

  Þetta var djöfull pirrandi.

 4. “Hann var ótrúlega eigingjarn í kvöld, það var svo oft sem hann fékk boltann frá García eða Gerrard útá hægri vængnum og maður beið eftir að hann kláraði þríhyrningaspilið ? en aldrei gerðist það. Hann setti hausinn undantekningarlaust undir sig og reyndi að fara endalínumegin framhjá varnarmönnum Blackburn, sem lásu hann frekar auðveldlega í þetta skiptið. Þetta hefur oft verið nefnt sem akkilesarhæll Milans, að hann sé allt of einhæfur og einleikinn í sókninni, en ég hef aldrei séð jafn slæmt dæmi og í kvöld.”

  Mér þykir leitt að Baros sé að bregðast vonum. Ég hef ekki verið aðdáandi Baros en ég hef líka vonað það heitt og innilega að hann láti mig éta stóru orðin. Það er bara ekki að gerast núna eftir áramót.

  Það vantar ekki kraftinn og viljann í piltinn en hann er bara því miður eins og naut í flagi stundum og það gengur bara ekki upp til lengdar. Enginn framherji getur spilað sóló leik eftir leik og komist upp með það, ekki einu sinni bestu framherjar í heimi.

 5. Held að það þurfi kraftaverk til þess að Baros verði í Liverpool eftir sumarið. Rafa er greinilega á þeim tímapunkti að fá alveg nóg af honum.

  Owen, Cisse & Morientes hafa allir reynt að spila með Baros og enginn þeirra hefur náð upp góðu partnership með honum. Þetta gengur hreinlega ekki upp og verður að enda.

  Mig grunar að Houllier hafi verið búin að sjá þetta út í fyrra og hafi verið búin að gefast upp á því að fá drenginn til að þroskast yfir í leikmenn sem hugsar um fleiri en sjálfan sig. Þess vegna fékk drengurinn að sitja svona mikið á tréverkinu í fyrravetur.

 6. Því miður Mummi þá eru þeir ágætir leikmenn en ekki í þeim klassa sem maður vill sjá hjá Liverpool. Ég skal viðurkenna að ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Kewell, og kaupin á honum var algjör draumur á sínum tíma en því miður þá hefur hann dottið niður í meðalmennsku og er búinn að vera þar allt þetta tímabil og stóran hluta af því síðasta. Garcia er mjög duglegur og gefur sig 100% í leikinn en hangir alltof mikið á boltanum, er með marga tapaða bolta í leik og hverfur alltof oft í leikjum. Nunez hefur ekkert getað.
  Ég er þó tilbúinn að gefa bæði Kewell og Garcia næsta tímabil til að sanna sig.

 7. Miðað að Kewell hefur meira og minna verið meiddur síðasta 1 1/2 árið og er þá í meðalmennsku, þá er vona ég bara að hann verði einhvern tímann heill heilsu!

 8. Sælir

  Við verðum nú að gefa Blackburn smá kredit fyrir leik sinn í kvöld. Þeir börðust eins og ljón, lokuðu miðjusvæðinu vel og uppskáru 1 stig.

  Annars var maður ekkert hræddur um að okkar menn myndu tapa þessum leik, nema þó í eitt skipti í síðari hálfleik þega þeir fengu aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig okkar. Maður veit nefnilega aldrei upp á hverju Dudek tekur.

  Nú er það er alveg ljóst að leikurinn gegn Everton verður að vinnast ef ekki á ílla að fara. Eftir þann leik eru einungis 8 leikir eftir í deildinni þ.e 24 stig. Þessi leikur er sá mikilvægasti á þessu tímabili.

  Hver svo sem staða okkar verður í lok tímabilsins þá er það alveg ljóst að Benitez mun aftur stokka vel upp í þessu liði í sumar. Menn eins og Smicer, Diao, Bruno C, Diouf, Biscan, Baros, Dudek, jafnvel Kewell og Kirkland munu vera seldir eða fara frítt.

  Kveðja
  Krizzi

 9. Þetta getur gert mann alveg brjálaðan að horfa upp á svona leik eins og í gær. Engin barátta eða sigurvilji í liðinu. Greyið Garcia er eins og smástelpa að spila við fullvaxta karlmenn. Hann er leikinn með boltann og allt það en hann missir boltan ALLTOF oft frá sér.

  Get nú ekki annað sagt en ég hlakki til sumarsins og sjá hvað Rafa gerir. Eitt það fyrsta er að losa sig við Baros, hef aldrei líkað við strákinn og ekki hefur álitið á honum vaxið upp á síðkastið. Vona bara að við fáum eitthvað fyrir hann.

  Kveðja, Stjani

  P.S. Flott síða, var bara nýlega bent á hana. Gaman að heyra hvað aðrir liverpool-menn eru að hugsa.

 10. Get ekki orða bundist. Skil ekki þetta stöðuga jag út í Dudek. Viðurkenni fúslega að hann gerir einstaka mistök sem standa upp úr í þeim leikjum sem þau verða í. Þau eru hins vegar fá. Eitthvað sem flestir markverðir verða fyrir af og til. Málið er bara að við erum að tapa þessum leikjum. Ég get ekki séð að menn væru að væla eins mikið ef við værum að vinna þessa leiki sem hann gerir mistökin í. (Man enginn eftir Grobbelar.) Já, Leverkusen-mistökin eru altént, að mér virðist, grafin og gleymd.

 11. Þó að við séum nú “bara” lesendur þá er nú óþarfi að tala svona augljóslega niður til okkar Einar…

  Annars vildi ég benda á þá staðreynd að Bolton á bæði eftir að spila við Liverpool og svo Everton í síðustu umferðinni. Ef við gefum okkur nú að Liverpool vinni um næstu helgi þá eru þeir hvítklæddu í hörkusjéns einnig.

  Charlton einnig eru að spila fantabolta en Mboro hafa verið mjög slakir síðustu vikurnar. Fannst rétt að benda á þetta því það eru fleiri en þið að falast eftir fjórða sætinu.

 12. Jammm, Makkari, ég er sammála.

  Er þreyttur og fúll. Tók út kommentið og ætla frekar að skrifa aðeins málefnalegri grein um Milan Baros.

  En mér dettur alls ekki í hug að líta niður á lesendur þessarar síðu, mér fannst bara þessi gagnrýni á Baros vera rugl. Sama hvort Mark Lawrenson eða einhver áhugamaður á Íslandi hefði skrifað hana. Þú hefur lesið eitthvað meira í kommentið ef þér fannst ég vera að tala niður til lesanda okkar.

  Bara svo það sé alveg á tæru, þá tel ég mig ekki hafa meiri þekkingu á Liverpool en lesendur þessarar síðu. Ég veit að margir eru mun eldri og búa yfir meiri þekkingu á liðinu en ég. Biðst velvirðingar ef kommentið hefur gefið annað í skyn. 🙂

Liðið komið

MILAN!