Leverkusen á morgun!

hamann_national.jpgÉg hef fylgst með Liverpool alla mína ævi, og man eftir hverju einasta tímabili meira og minna frá því 1990, þegar við unnum titilinn síðast. Á þessum síðustu 15 árum sem ég hef fylgst með Liverpool af alvöru ? frá því ég var 10 ára gamall ? þá held ég að ég geti með sanni sagt að mér dettur aðeins eitt tímabil í hug sem bauð upp á jafn mikla rússíbanaferð og undanfarið hálft ár hefur verið. Það var þrennutímabilið, og jafnvel það tímabil bauð ekki upp á nærri því jafn miklar sveiflur milli frábærrar frammistöðu og ömurlegrar, eins og í vetur.

Í stuttu máli, þá hefur Liverpool í vetur bæði spilað einhverja bestu knattspyrnuna sem ég hef séð á þessu tímabili … og um leið einhverja þá verstu.

Annað kvöld snúum við aftur á Bay Arena, heimavöll Bayer Leverkusen frá Þýskalandi. Síðast þegar við lékum þar vorum við í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar og þurftum að verja 1-0 forystu frá því í fyrri leiknum á Anfield. Við töpuðum 4-2 og réðum engan veginn við sóknarþunga þeirra þýsku, síst af öllu eftir að varnarhlekkurinn okkar á miðjunni ? Dietmar Hamann ? var tekinn útaf öllum að óvörum, sem gerði Michael Ballack kleift að eigna sér leikinn á síðustu 30 mínútunum.

Á morgun erum við að verja aðeins betri forystu, 3-1 eftir leikinn á Anfield, en hafið það samt á hreinu að Dietmar Hamann verður okkur alveg jafn mikilvægur á morgun og hann var fyrir þremur árum. Og ég efast ekki um að Rafael Benítez mun láta hann spila allar 90 mínúturnar ef hann mögulega getur.

Stóra spurningin er: hvernig eiga okkar menn að spila þennan leik? Í fullkomnum heimi myndum við spila eins og Lyon frá Frakklandi spiluðu í Þýskalandi fyrir tveim vikum, þegar þeir gjörsigruðu meistara Werder Bremen 3-0 á útivelli. En raunhæfari fyrirmynd fyrir okkur myndi ég telja vera leikinn okkar gegn Deportivo á útivelli í Meistaradeildinni í haust. Þá stilltum við upp 4-5-1 leiktaktík með áhersluna á það að stöðva sóknar- og miðjuþunga þeirra spænsku. Igor Biscan og Luis García fóru síðan hamförum á miðjum vellinum fyrir okkur og Milan Baros var sívinnandi og ?ógnandi í fremstu víglínu. Þann leik unnum við 1-0 og höfðum fulla stjórn nær allan tímann. Deportivo-menn áttu varla skot að marki.

Á morgun finnst mér gefa augaleið að stilla upp svipuðu liði, sérstaklega þar sem við erum aðeins með einn heilan framherja í þennan leik: Milan Baros. Harry Kewell verður því miður ekki með á morgun en við fáum samt Jerzy Dudek og Dietmar Hamann inn úr meiðslum, þannig að ég geri ráð fyrir að Rafa Benítez stilli liðinu svona upp:

Dudek

Finnan ? Carragher ? Hyypiä ? Riise

García ? Gerrard ? Hamann ? Biscan ? Smicer

Baros

Hann gæti þó ákveðið að hafa Antonio Núnez inná hægri vængnum og García úti til vinstri. Ef ég fengi að velja myndi ég velja Núnez fram yfir Smicer, þar sem hann er líkamlega sterkari en bæði sá tékkneski og García, en ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá býst ég ekki við miklu í þessum leik af hvorki Núnez né Smicer, þar sem báðir hafa átt erfitt með að finna sig eftir meiðsli í vetur.

Það er ljóst að Leverkusen-menn ætla sér örugglega að koma dýrvitlausir til leiks og stefna á að skora mark sem allra fyrst. Ef þeir t.d. ná að skora mark á 5. mínútu er staðan orðin 3-2 samanlagt og þeir hafa 85 mínútur til að skora annað markið, sem myndi tryggja þeim sigur í einvíginu á mörkum skoruðum á útivelli. Þannig að látið það ekki koma ykkur á óvart þótt við sjáum þá Gerrard, Hamann og Biscan liggja mjög aftarlega fyrstu 15-20 mínúturnar … enda verður höfuðatriðið á morgun að einfaldlega lifa af áhlaup heimamanna í byrjun leiks. Ef við höldum hreinu fyrsta fjórðung leiksins þá er ég mjög bjartsýnn á að við getum brotið okkur leið inn í leikinn eftir því sem líður á og klárað dæmið, jafnvel skorað þetta gríðarlega mikilvæga mark á útivelli.

Gleymum því ekki að: ef við skorum 0 mörk þá þurfa þeir bara að skora 2. Ef við skorum 1 mark þurfa þeir að skora 3 til að fá framlengingu. Ef við skorum 2 mörk þurfa þeir að skora 5 mörk til að komast áfram, þar sem 4-2 tap myndi nægja okkur vegna marka á útivelli. Þannig að þótt langskynsamlegast sé að stilla upp sterkri vörn og þéttri miðju á morgun er ég viss um að Rafa er með eitthvað upp í erminni til að reyna að skora þessi mikilvægu útimörk á morgun.

MÍN SPÁ: Eins og ég sagði áðan þá veltur þetta mjög mikið á fyrstu 15-20 mínútum leiksins. Þrátt fyrir að við höfum tapað tveimur mikilvægum leikjum gegn Chelsea og Newcastle síðan við unnum Leverkusen í fyrri leiknum þá verð ég að viðurkenna að ég er nokkuð bjartsýnn fyrir morgundaginn.

Það er eitthvað sem segir mér að við fáum spennandi og jafnan leik, sannkallaða refskák, og það er einnig eitthvað sem segir mér að við munum skora þetta mikilvæga útimark á morgun. Því ætla ég að spá jafntefli á morgun, þar sem við komumst óvænt yfir en þeir jafna í seinni hálfleik. 1-1 en ekki meira, þar sem vörnin okkar mun verða maður leiksins. 🙂

Vonum að það reynist rétt. Ég myndi sætta mig við 2-1 tap á morgun, 4-2 tap … bara hvað sem þarf til að komast í 8-liða úrslitin! Áfram Liverpool!!!

7 Comments

  1. Úff, er að reyna að ná andanum í hálfleik á Barcelona-Chelsea. Einsog allir vita, þá er Barcelona lið númer tvö hjá okkur Kristjáni og því er maður sáttur við stöðuna í hálfleik. Barca með 65% af boltanum. Ég meina VÁ! 🙂

    Allavegana, það er athyglisvert kvót frá Benitez á [BBC](http://news.bbc.co.uk/sport1/hi/football/teams/l/liverpool/4330249.stm), þar sem hann talar um Harry Kewell:

    >”We don’t know exactly what the problem is. It changes each day. One day he says it’s the groin, then it’s ankle. Another day he says he can play.”

    Er Benitez að gefa í skyn að Harry sé ekki að gefa sig allan í þetta? Hvað er málið með þessi meiðslamál hjá Harry Kewell? Hann þarf að koma þessu í lag því það er alveg ljóst að hann á ekki inni marga sjensa hjá Rafa Benitez.

  2. “Í fullkomnum heimi myndum við spila eins og Lyon frá Frakklandi spiluðu í Þýskalandi fyrir tveim vikum, þegar þeir gjörsigruðu meistara Werder Bremen 3-0 á útivelli. En raunhæfari fyrirmynd fyrir okkur myndi ég telja vera leikinn okkar gegn Deportivo á útivelli í Meistaradeildinni í haust. Þá stilltum við upp 4-5-1 leiktaktík með áhersluna á það að stöðva sóknar- og miðjuþunga þeirra spænsku. ”

    Ef mig misminnir ekki, þá spiluðu Lyon einmitt svipaða taktík og við gerðum gegn Deportivo í þessum leik. Þeir vörðust eins og brjálaðir og beittu skyndisóknum. Mig minnir að Werder Bremen hafi átt einar 25 marktilraunir í leiknum á móti 6 eða 7 hjá Lyon, en töpuðu 3-0 :biggrin:

  3. Eins og liðið hefur verið að spila þá er ég alls ekki bjartsýnn. Leverkusen eru með frábært lið og það hefur sýnt sig í vetur og þá aðallega á heimavelli. Þeir hafa rúllað upp liðum eins og Real Madrid og Roma og verð ég að segja að mistök Dúdda vinar okkar eiga eftir að kosta okkur mikið.
    Það er samt aldrei að vita hvað getur gerst. Fótbolti er ótrúleg íþrótt og í raun aldrei hægt að spá fyrir leiki.

    Mín spá: 2-0 Bayer Leverkusen.

  4. HEY HEY HEY!

    Enga svartsýni! Hún er bönnuð á þessari síðu í allan dag! Það er stórleikur í kvöld, við erum 3-1 yfir. Hvað viljum við meira?

  5. Þar sem ég ætla ekki að horfa á leikinn mun þetta líklega vera glæstur sigur í anda 2-0 sigursins á Roma um árið. Mark my words.
    Riise með 1 og Baros með 1.

  6. Sammála Einari. Við eigum að fljóta um á bleiku skýi í allan dag … Liverpool tekur þetta 5-0 og ekkert rugl! :tongue:

    Það myndar allavega ágætt mótvægi við þunglyndið sem mun leggjast hér yfir ef við töpum… :confused:

  7. Páló horfði nýlega á leikinn fyrir 3 árum sem sýndur var á Eurosport. mér finnst eitt sem hefur algjörlega gleymst í umræðunni síðan þá en Owen átti stangarskot í stöðunni 1:1 sem hefði væntanlega tryggt okkur áfram 🙁

Meiðsli (uppfært)

Rafa á pöbbarölti