Newcastle 1 – L’pool 0

STAÐAN Í DAG: Everton munu enda í 4. sætinu, við í 5. sætinu. Við munum ekki vera með í Meistaradeildinni næsta haust, Everton munu hljóta þann heiður. Steven Gerrard fer frá Liverpool í sumar, og vonandi margir, margir fleiri. Nýjir leikmenn munu koma í staðinn og endurbyggingin heldur áfram næsta vetur.

Það er best fyrir alla stuðningsmenn Liverpool að byrja að sætta sig við þetta strax, því í mínum huga er ekki séns að neitt af þessu muni ekki gerast. Þetta er einfaldlega raunveruleikinn í dag og það mun lítið sem ekkert fá þessu breytt fram á vorið. Everton enda fyrir ofan okkur, Gerrard fer í sumar. Punktur.

Miðað við hvernig við vorum að spila í dag sýndist mér byrjunarliðið vera á eftirfarandi hátt:

Carson

Finnan – Carragher – Hyypiä – Pellegrino

Gerrard – Biscan – Riise
<--García - Smicer--->
Baros

BEKKUR: Dudek, Warnock, Núnez, Le Tallec og Welsh.

VÖRNIN á hér enga sök. Bara svo að það sé á hreinu, þá stóð hún sig frábærlega í 90 mínútur. Newcastle gátu ekki neitt í þessum leik: Ameobi, Shearer & Kluivert voru étnir lifandi í 90 mínútur og þeir Robert og Dyer komust aldrei upp kantana sína. Mauricio Pellegrino var minn maður leiksins í dag, fyrir að taka bæði Shearer og svo vinstri vænginn fyrir aftan Riise og eigna sér það algjörlega. Stórleikur hjá honum, og vörninni okkar.

MILAN BAROS á hér enga sök. Það er ekki til sá framherji í heiminum sem hefði getað spilað í 90 mínútur, einn á móti öllu Newcastle-liðinu, og unnið leikinn fyrir okkur. Ekki Henry, ekki Ronaldinho, ekki Schevchenko, ekki Diego fokking Maradona. Enginn. Baros var svo einn í leiknum að ég var farinn að vona að það myndi einhver hlaupa inná völlinn og faðma hann í seinni hálfleiknum. Ég sárfann til með honum.

IGOR BISCAN á litla sök í dag. Hann skilaði sínu hlutverki mjög vel í dag, hélt uppi vörnum á miðjunni í fjarveru Hamann og var besti maður vallarins í fyrri hálfleik. Þar að auki var hann í raun að sinna tveimur störfum í einu, þar sem hann var að spila með ‘Áhugalausasta Leikmanni Úrvalsdeildarinnar (TM)’ með sér á miðjunni. Þegar sóknarlínan okkar lagðist svo í vörn í seinni hálfleik þá hafði Biscan lítið að gera nema bara að elta boltann, þar sem hann hafði ekkert svæði til að verja milli miðju og varnar (sem voru þá orðin samvaxin) og engan til að koma boltanum á eftir að hann var búinn að vinna hann.

Hverjir eiga þá sök? Af hverju spiluðum við svona illa í dag og töpuðum gegn ömurlegu Newcastle-liði, þegar sjö leikmenn áttu ekki slæman dag? Hvað gerðist?

Ég skal segja ykkur hvað gerðist: STEVEN GERRARD, JOHN ARNE RIISE, LUÍS GARCÍA og VLADIMIR SMICER gerðust.

Til að byrja með: það er alveg nákvæmlega, algjörlega, gjörsamlega sama hvernig taktík Rafael Benítez kemur með til leiks. Við munum aldrei vinna leiki ef öll miðjan okkar eins og hún leggur sig ætlar að verða skíthrædd og leggjast í vörn um leið og hún verður var við smá stress á vellinum. Þetta gerðist um síðustu helgi gegn Chelsea, þar sem við skoruðum eftir tæpa mínútu og höfðum fullan möguleika á því að ganga á lagið og skora annað mark. Þá vorum við með sókndjarfa 4-4-1-1 uppstillingu og mikið af sókndjörfum miðjumönnum inná. Þess í stað lögðust okkar menn í vörn strax á 2. mínútu, skildu Fernando Morientes eftir aleinan frammi og töpuðu á endanum leiknum.

Í dag gerðist þetta aftur. Eftir fyrri hálfleik sem einkenndist af miðjubaráttu fannst mér þessi leikur hafa 0-0 skrifað í skýin. Þeir voru ekki að skapa neitt af viti og vörnin okkar var að eiga stórleik, Biscan var að spila vel í varnarhlutverkinu á miðjunni. Það olli mér samt áhyggjum að það var ekkert að gerast fram á við, einu skiptin sem við ógnuðum marki þeirra var þegar Baros komst í einn-gegn-einum stöðu gegn annað hvort Boumsong eða Bramble. Ef hann hefði náð að sóla annan hvorn þeirra einu sinni í fyrri hálfleik hefði hann getað skorað – en það hefði þá líka verið algjörlega að hans frumkvæði. Hann fékk enga hjálp í fyrri hálfleiknum.

Samt hugsaði ég með mér í hálfleik: það er ekkert því til fyrirstöðu að setja smá kraft í sóknarleikinn í seinni hálfleik. Ég var sannfærður um að eitt mark myndi nægja okkur til að sigra þennan leik, því þeir voru aldrei líklegir til að skora.

Það sem gerðist í seinni hálfleiknum varð til þess að mér varð óglatt við að horfa á Liverpool-liðið. Það hefur aldrei gerst. Aldrei.

Beisiklí, þá mættum við út með sama 11-manna lið og í fyrri hálfleik, nema í þetta sinn vorum við að spila eftirfarandi uppstillingu:

Carson
Finnan – Carra – Hyypiä – Pellegrino
Smicer – Gerrard – Biscan – Riise
García

Baros

Einfaldlega ógeðslegt á að horfa. Okkar menn ákváðu hreinlega að 0-0 væri nógu gott í þessum leik og úr því að þeir væru ekkert að sækja af viti þá þyrftum við ekkert að sækja af viti heldur. Baros blés og blés en gat ekki hreyft við neinu einn síns liðs þarna frammi. Þegar einhverjar 20 mínútur voru eftir fengum við svo það sem við áttum skilið: þeir skoruðu mark. Beint úr aukaspyrnu.

Jú, Carson hefði getað gert betur og varið skotið hans Laurent Robert en gleymum því ekki að Carson hafði verið yfirvegaður og haft mjög lítið að gera allan leikinn. Og Robert er frábær skotmaður, þetta var algjör negla efst uppí markhornið og það hefðu einfaldlega fáir markverðir í Úrvalsdeildinni varið þetta. En hafið það á hreinu, að lið sem leggst með 10 menn í vörn í 45 mínútur á útivelli á það skilið að tapa. Ég sagði það um daginn þegar ég horfði á Chelsea reyna að halda hreinu gegn Barcelona, og ég segi það aftur hér: við áttum skilið að tapa, þrátt fyrir að Newcastle hafi ekki getað neitt í þessum leik. Þeir voru þó að reyna að vinna.


Ég ætla ekki að tala meira um þennan leik. Þið sáuð öll hvað gerðist þarna inná. Rafa stóð brjálaður á hliðarlínunni og skammaðist og minnti menn á að þeir væru inná vellinum til að fokking skora mörk, en allt kom fyrir ekki. Þegar miðjan manns eins og hún leggur sig ákveður að þora/geta/nenna ekki að sækja, þá er lítið sem að þjálfarinn getur gert.

Fyrr en í sumar. Þá getur hann selt leikmenn. Ég nenni ekki að tala um einstaka leikmenn í dag (verð þó að tala um einn hér á eftir), en þetta var einfaldlega ekki nógu gott. Rafa hefur stillt upp þessu 4-3-2-1 (í raun sókndjarft 4-5-1) kerfi margoft hjá Valencía og það lið var bæði fyrnasterkt varnarlega og ofboðslega flott sóknarlega.

Hann stillir þessu sama kerfi upp hjá okkur og hvað gerist? Við endum með 10 menn í vörn, skíthrædda um að fá á sig mark, og einn mann frammi sem má sín lítils gegn margnum.

Bara svo það sé á hreinu, þá er tímabilið hjá okkur að hrynja. Ég get ekki ímyndað mér hvernig menn ná að rífa sig upp fyrir miðvikudaginn, en þeir verða að gera það. 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar yrðu þó lítið annað en ljós í myrkrinu úr því sem komið er. Ég þori núna með fullri vissu að segja að við náum ekki Everton í deildinni í vetur. Martröðin er að verða að veruleika. Og ég skal segja ykkur af hverju, það er af tveimur ástæðum:

1. Þeir eru 8 stigum á undan okkur og ef þeir vinna Blackburn heima á morgun, sem þeir munu gera, þá munu þeir auka forskotið í 11 stig. Og 9 umferðir eftir. Við eigum þá leik til góða á þá og getum minnkað forskotið aftur niður í 8 stig ( EF við náum að vinna leikinn til góða, en það er ansi stórt ‘en’ þessa dagana… ) en það er einfaldlega útilokað að við náum að hljóta 8 stigum meira en Everton í síðustu 9 leikjum deildarinnar.

2. Everton eru að spila betri fótbolta en við, þeir eru stöðugri, þeir hafa tapað færri leikjum og þeir eru bara búnir að vera miklu, miklu líklegri til að ná góðum úrslitum í vetur heldur en við. Í allan fokking vetur. Staðreynd.

Því miður, en martröðin er að verða að veruleika. Við munum minnast Steven Gerrard með miklum hlýhug næsta haust, þegar hann spilar Meistaradeildarbolta með nýju liði og seinna sama kvöld verður sýndur leikur úr Meistaradeildinni með Everton í óbeinni. Já, veturinn 2005-06 verður yndislegur. Hlakkar ykkur ennþá til næsta veturs?


STEVEN GERRARD: Ég ætla ekki að skrifa heilan pistil um hann núna. Kannski seinna – hef skrifað nóg um hann í vetur. En hann hefur nákvæmlega ekkert erindi á völlinn í lokaleikjum vetrarins ef hann ætlar að vera svona áhugalaus. Ég fylgdist vel með honum í dag: hann átti eina góða tæklingu í fyrri hálfleik, og eina góða sendingu. Fékk svo gott færi undir lokin eftir ágætt hlaup. Þess utan? EKKERT. Og ekki af því að hann var að spila illa … það spila allir einhvern tímann illa, meira að segja Gerrard.

Nei. Steven Gerrard er einfaldlega orðinn áhugalaus inná vellinum. Það getur enginn neitað því lengur, það er svo augljóst að það er ekki hægt að horfa framhjá því – hversu mikið sem við viljum það. Hann er áhugalaus, það er augljóst að hann nennir þessu ekki lengur og er orðinn “þreyttur á meðalmennskunni í kringum sig” … whatever. Ég er orðinn þreyttur á meðalmennskunni, áhugaleysinu og metnaðarleysinu í Steven Gerrard. Hann má hypja sig í sumar fyrir mér og ef hann ætlar að enda feril sinn hjá Liverpool með því að nenna ekki að hafa fyrir neinu síðustu 6 mánuði tímabilsins – ef það er sú minning sem hann vill skilja eftir í hugum stuðningsmanna Liverpool – þá mun ég ekki setja hann á sama stall í mínum huga og “lakari” fyrrverandi Liverpool-menn eins og t.d. Jason McAteer, Danny Murphy og Salif Diao. Þeir komust ekki með tærnar þar sem hann hefur hælana … en þeir gáfu alltaf allt sem þeir áttu í leiki liðsins, líka þegar sem verst gekk og líka þegar ljóst var að þeir ættu sér litla eða enga framtíð hjá liðinu. Gerrard er ekki að gera þetta og ætti að skammast sín fyrir.

Einnig: ég hef aldrei sagt þetta áður og hef talið þetta algjöra vitleysu hingað til, aðallega af því að þetta er knattspyrnulega ekki alveg rétt, en ég verð að láta eftirfarandi yfirlýsingu falla:

Rafael Benítez á að láta Jamie Carragher fá fyrirliðabandið strax á morgun og setja Steven Gerrard á bekkinn strax í næsta deildarleik. Þar á hann að vera þangað til hann sýnir viljann til að leggja á sig fyrir málstað liðsins í lokaleikjum tímabilsins.

Það er svo augljóst að hann er að fara að það er einfaldlega engin ástæða til að reyna að halda honum góðum lengur. Það er kominn tími á að Liverpool FC sýni hver ræður – og það er ekki Gerrard. Við þurfum fyrirliða sem er fyrirmynd inná vellinum – ekki bara hvað getu varðar heldur líka andlega. OG … við höfum ekkert að gera með besta miðjumann Englands þarna inná ef hann ætlar ekki einu sinni að reyna. Út úr liðinu með hann, Biscan og Hamann geta klárað tímabilið þarna inni fyrir okkur.

Já, mér er full alvara og ég á erfitt með að sjá hvernig nokkur maður getur verið ósammála mér eftir síðustu leiki.

Hef það ekki lengra í bili. Ég er farinn út í langan göngutúr…


VIÐBÓT (Einar Örn): Jæja, það er nokkuð ljóst að þriðjudags- og miðvikudagskvöld verða
nokkuð leiðinleg næsta vetur hjá okkur Liverpool stuðningsmönnum. Við
eigum einfaldlega betra skilið. Við erum bestu og tryggustu
stuðningsmenn í heimi og eigum skilið að menn gefi sig í leikina einu
sinni í viku.

Við eigum það ekki skilið að horfa á tveggja vikna fresti á hóp af
11-13 mönnum, sem er drullusama um þetta lið og gengi þess. Við eigum
ekki skilið að horfa á leiki, þar sem enginn berst, enginn tekur af
skarið, enginn spilar boltanum.

Ég veit ekki hvað í fokking andskotanum Rafa Benitez var að hugsa með
þessari uppstillingu. Eftir því, sem ég get best ímyndað mér, þá fór
þetta fram í huga Rafa fyrir leikinn: *”Ok, víst að Milan Baros var
að rífa sig, þá ætla ég sko að kenna honum lexíu! Ég ætla að hafa
hann í byrjunarliðinu, en það verður smá twist. Sko, ég hef hann
nefnilega einn frammi og svo banna ég öllum miðjumönnum mínum að spila
knattspyrnu, þannig að það sé ekki nokkur séns á að Baros fái einn
einasta bolta. Þess vegna getur Milan hlaupið og hlaupið án þess að
hann eigi nokkurn sjens á að skora mark.”*

Hvað voru Vladimir Smicer og Luis Garcia að gera inná vellinum? Getur
einhver sagt mér það??? Átti Smicer að koma í staðinn fyrir Hamann?
Hefði ekki verið lógískara að Smicer væri tengiliður á milli miðju og
sóknar? Ég bara spyr. Það voru alltaf að minnsta kosti 20 metrar á
milli miðjunnar okkar og Milan Baros allan leikinn.

Við hefðum getað haft kenískan maraþonhlaupara og hann hefði gert
jafnmikið gagn og Milan Baros. Það var fullkominn óþarfi að hafa hann
þarna inná. Ekki að ég kenni honum um ófarirnar, þar sem hann gat
ekkert í þessu gert. Það eina, sem hann gat gert var að hlaupa og
hlaupa og hlaupa og vona að þessir haugar á miðjunni gætu gert
eitthvað almennilegt.

**Maður leiksins**: Pellegrino. Af því að ég rakkaði hann svo niður
eftir Southampton leikinn, þá á hann skilið hrós núna. Fannst hann
vera eini maðurinn, sem stóð í Newcastle mönnum. Hann var óheppni að
fá dæmda á sig aukaspyrnuna, sem leiddi til marksins, þar sem það
hefði aldrei átt að vera aukaspyrna.

Að lokum:

Þetta 4-5-1 fokking kjaftæði VIRKAR EKKI (allavegana ekki með þessa
“leikmenn”, sem við erum með núna).
**TRODDU ÞVÍ INNÍ HAUSINN Á ÞÉR, HERRA BENITEZ!!!**


**Viðbót (eftir sundferð – Einar Örn)**: Núna er ég kominn úr sundi, þar sem ég reyndi að gleyma þessum hörmungum, en auðvitað tókst það ekki.

Í ljósi þess sem Kristján skrifaði, er það tilviljun að í eina [almennilega leiknum síðan](http://www.kop.is/gamalt/2005/02/22/21.59.49/) í byrjun febrúar, þá var Steven Gerrard í banni?

Þetta er svo yndislega fyrisjáanlegt að Peter Kenyon hlýtur að horfa í spegil á hverjum morgni og dást að því hvað hann sé snjall. Hann vissi það að þótt að Gerrard hefði hafnað þeim síðasta sumar þá myndi hann koma til þeirra. Hann vissi að um leið og byrjaði að ganga illa hjá Liverpool þá myndi Gerrard spila með hangandi haus og að um leið myndu aðdáendur Liverpool byrja að snúast gegn honum. Það myndi svo líða til þess að Gerrard hefði ekki sömu stöðu lengur og hann hefði ellegar í hugum aðdáenda Liverpool og hann fyndi sig knúinn til að fara frá liðinu.

Ef við vissum það ekki að Gerrard væri á leið til Chelsea þá myndum við styðja hann án nokkurra formerkja, sama hversu illa hann léki. Ég myndi æsa mig upp í vinnunni eftir svona leiki og segja að Gerrard hefði bara verið slappur og að hann væri enn besti miðjumaður í heimi. En í dag geri ég það ekki. Því ég sé að hugur hans er einfaldlega ekki með þessu liði. Hann hefur trúað öllu bullinu í blöðunum um að þetta sé *hans* lið og hann sé sá *eini*, sem getur eitthvað í þessu liði. Þegar hinir spila illa þá er hann hættur að reyna að hlaupa í skarðið fyrir þá. Hann spilar með hangandi haus. Það var ekki nokkur einasti vilji hjá honum til að bæta fyrir sjálfsmarkið gegn Chelsea. Ekki nokkur einasti.

Með því að gagnrýna Gerrard er ég alls alls ekki að segja að hann sé vandamálið í þessu liði. Ég geri einfaldlega 10 sinnum meiri væntingar til hans en annarra leikmanna. Fyrir mér er hann meðal 10 bestu leikmanna í heiminum og hann getur svo miklu, miklu meira. Hann er fyrirliðinn okkar og á að sýna fordæmi með baráttu.

Hugur hans liggur einfaldlega í London og ég hef sætt mig við það. Uppbyggingin mun halda áfram næsta vetur. Það er bara spurning hvaða nýji leikmaður verður við hlið **Xabi Alonso**.

En samt, kræst hvað ég nenni því ekki að fara í gegnum annan vetur án þess að Liverpool sé í Meistaradeildinni. Í hvert einasta skipti, sem ég á eftir að heyra Meistaradeildarlagið á ég eftir að upplifa “flashback” um alla þessa ömurlega leiki, sem við höfum spilað á þessari leiktíð, hvort sem það er gegn Southampton, Birmingham eða Newcastle.

11 Comments

 1. Ég vill taka það fram að ég er algjörlega ósammála þér með gagnrýnina á Benítez, Einar. Hann stillti liðinu vel upp miðað við það sem hann hafði úr að moða (meiddir leikmenn hjá okkur eru núna orðnir nógu margir til að mynda 11-manna lið upp á eigin spýtur) … leikmennirnir sem voru inná vellinum hins vegar urðu sér, klúbbnum og Benítez til skammar.

  Og þetta var ekki 4-5-1 í einhverjum varnarpælingum. Þetta var 4-5-1- með fjóra sókndjarfa miðjumenn. Sem sóttu ekki neitt í leiknum. Það var vandinn.

  Bara svo það sé á hreinu, þá er ég ósammála þér með þetta Einar. 😉

 2. Þú mátt alveg vera ósammála mér með þetta. Hins vegar hlýtur Benitez að hafa sagt Smicer að vera aftarlega á vellinum. Ég einfaldlega trúi ekki öðru. Ef ekki, þá á að láta Smicer fara strax frá liðinu.

  Sá Benitez ekki leikinn? Mér er alveg drullu fokking sama hvort hann hafi öskrað einsog óður simpansi á hliðarlínunni. Það breytti engu um leikinn. Ef Rafa var að öskra á menn að sækja, þá virkaði það allavegana ekki. Þá átti hann einfaldlega að skipta Smicer og Garcia útaf. Ég meina kræst, Jerzy Dudek hefði verið betri þarna inná miðjunni! Rafa sjálfur hefði verið betri þarna inná miðjunni.

  For kræing át lád, litla stelpan, sem var á fyrirliðamyndinni hefði verið betri á miðjunni en Smicer og Garcia.

  Samt skipti Benitez ekki fyrr **EFTIR** að Newcastle skoraði. Ég held einfaldlega að Benitez hafi verið að spila uppá markalaust jafntefli. Ég bara nenni ekki að vera einhver fokking klappstýra fyrir Rafael Benitez eftir svona hörmung. Ég bara get það ekki.

 3. Mikil vonbrigði svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

  Ég ætla samt ekki að gefa upp alla von fyrr en eftir Everton leikinn :rolleyes: !!!!!!!!!

  Sammála flestu hjá ykkur hér að ofan nema mér finnst Benites ekki eiga sökina í dag.

  Þá er ég ekki alveg sammála með Baros. Hann er einn frammi, jú ok. En hann missir boltann allt of oft frá sér þegar hann fær hann. En það er með Baros að hann kann bara að horfa beint á mark andstæðingana (sem er líka stór kostur, ekki misskilja mig). Góðir framherjar spila oft samherja sína uppi. Mér finnst það stundum skorta hjá Baros. Fara í þennan tveggja til þriggja snertinga bolta og fá þannig félaga sína með sér.

 4. Kluivert var nú ekki étinn lifandi af vörn Liverpool manna… a.m.k. ekki þegar hann át Carragher gjörsamlega, sem varð til þses að Carragher datt. Verst að Kluivert gat síðan ekki klárað færið sitt betur.

  Annars gat Benitez verið að taka margar skiptingar. Ég hef sjaldan séð bekkinn hjá Liverpool vera jafn lélegan og í dag.

  Annars ef að menn ætla að segja að Newcastle hafi ekki getað neitt, þá er ekki hægt að halda fram að Liverpool hafi verið betri… og Baros var líka hörmulegur í dag, átti ekkert í Boumsong og Bramble, og gat ekki einu sinni nýtt sér þessi mistök sem að Hughes gerði í leiknum.

 5. Ástæðan fyrir því að bekkurinn var svo lélegur hjá Liverpool í dag er sú að Fernando Morientes, Didi Hamann, Xabi Alonso, Djibril Cisse, Florent-Sinama Pongolle, Harry Kewell, Chris Kirkland, Josemi, Neil Mellor og Djimi Traore voru meiddir. Settu þá saman í lið og þeir vinna þetta Newcastle lið auðveldlega. Hins vegar ætla ég ekki að nota það sem afsökun, frekar en ég gerði í leikskýrslunni. Meiðslin útskýra hins vegar slappan bekk.

  >Annars ef að menn ætla að segja að Newcastle hafi ekki getað neitt, þá er ekki hægt að halda fram að Liverpool hafi verið betri

  Fannst þér við halda því fram að Liverpool hefðu verið betri? Gaf leikskýrslan það í skyn að við hefðum verið ánægðir með Liverpool?

  Þetta Newcastle gat ekki neitt, þeir áttu eitt skot á markið og þeir eiga að mínu mati það skilið að vera í neðri hluta deildarinnar einsog þeir eru í dag.

  En Newcastle voru þó skárri en Liverpool. Newcastle voru lélegir, en Liverpool hryllilega lélegir.

  Og fyrirgefið, en Baros var ekki “hörmulegur” í dag. Hann var einn á móti fjórum allan helvítis leikinn. Það getur enginn framherji í heimi ráðið við það.

  Hvað átti Baros nákvæmlega að gera í leiknum? Átti hann að sóla fjóra menn í hvert skipti, sem hann fékk boltann? Átti hann kannski að sækja boltann inní vítateig Liverpool? Baros fékk enga aðstoð. Það er ástæðan fyrir þessum lélega leik. Miðjan var ekki til staðar.

 6. Heyr, heyr strákar,

  og Kristján Atli, að þó að hann hafi stillt upp 4 sókndjörfum miðjumönnum í dag, að þá eigum við samt ekki leikmenn Í DAG til að spila 4-5-1, hvort sem það er vegna meiðsla, veikinda eða hreinlega skorts á hæfileikamönnum, PUNKTUR.

  Kv Stjáni

 7. Blessaðir,

  Mér fannst eins og Rafa byrjaði með 5-3-1-1 leikkerfi. Það gekk illa upp að þessu sinni amk.
  En við skulum ekki leggja árar í bát. Getum alveg náð Everton, held að við höfum verið í verri málum í fyrra (er það rugl í mér).
  En Gerrard veldur manni áhyggjum, ég er sammála ykkur um það. Það sem gerir hann að yfirburða leikmanni er ástríðan. Það er eins og það sé honum kvöl og pína að spila fótbolta núna.
  Sjáum hvað setur, hlutirnir breytast hratt í boltanum. Kewell og Morientes gætu lífgað upp á þetta í næstu leikjum.

  -Baros.

 8. Ég veit af meiðslavandræðum liðsins. Mér þótti bara rétt að benda á slakan bekk þar sem að verið var að tala um skiptingar hér að ofan.

  Mér hefur persónulega aldrei þótt Nunez geta neitt, né Warnock. Welsh hef ég aldrei séð spila og fyrst að St Etienne skilaði Le Tallec úr láni þá efast ég um að hann sé jafn góður og hann átti að vera.

  Baros hefði getað verið meira á tánum, t.d. þegar Hughes átti arfaslaka sendingu til baka á Shay Given… ég vonaði innilega að hann myndi ná honum þar, en ekkert varð úr því.

  Newcastle átti nú kannski bara eitt skot á markið, en þeir voru mun hættulegri. Nefni ég þá bara þegar Shearer átti sendingu inn fyrir á Dyer sem gaf hann svo út af með vinstri… skalla Ameobi rétt yfir og svo skot Kluivert eftir að hann tók Carragher.

  En já… Baros var nú samt vissulega með skárri mönnum, því að maður sá hann a.m.k. í mynd nokkrum sinnum. Í öllum leiknum held ég að ég hafi séð Gerrard svona 3-4 sinnum.

  En það er eins gott að liðið fari nú að spila eins og menn, því að árið 2005 eru þeir búnir að tapa 7 leikjum af 13.

 9. hvaðahvaða strákar, við vinnum bara meistaradeildina í ár :biggrin2:

  en þessi leikur var náttúrulega ekkert nema skandall og ég er sammála ykkur með Gerrard, hann getur alveg eins farið.

  En hvað er að Morientes? Hef ekki séð neitt um meiðsli hjá honum

 10. Ég er einmitt búinn að velta þessu fyrir mér með Gerrard, að taka hann einfaldlega útúr liðinu. Ég held það sé augljóst að hann hefur engan áhuga á því að spila meira fyrir Liverpool. Setja Biscan og Hamann þarna inn og láta þá klára þetta, þeir hafa átt góða leiki saman (og svo sem vonda leiki líka).
  Vonandi skaðar það ekki söluverðmæti Gerrard í sumar, en líklega verður sá skaði ekki mikið meiri en að láta hann spila mikið lengur svona illa.

CARSON BYRJAR!

Tölfræði dagsins