Chelsea 3 – Liverpool 2

_40871387_gerr_og300.jpgJæja, Liverpool tapaði víst fyrir Chelsea í úrslitum deildarbikarsins. Margir höfðu spáð þessu, en enginn hefði sennilega geta spáð því fyrirfram að við myndum skora eftir 40 sekúndur, að Gerrard myndi skora sjálfsmark og að þrjú mörk yrðu skoruð í framlengingu.

Þetta eru mikil vonbrigði og ég veit varla hvað ég á að skrifa um. Það er enginn, sem maður getur kennt um þetta og erfitt að segja hvað fór úrskeiðis. Chelsea liðið var gríðarlega sterkt og þeir voru klárlega betra liðið í leiknum. Samt var ALGJÖR óþarfi að tapa þessu.

Benitez kom talsvert á óvart fyrir leikinn og spilaði 4-5-1

Dudek

Finnan – Carragher – Hyypiä – Traoré

Kewell – Gerrard – Hamann – Riise
Garcia
Morientes

Fyrir leikinn var látið að því liggja að Kewell væri frammi með Morientes, en Kewell var í rauninni á hægri kantinum og Luis Garcia frammi.

Þetta virtist heppnast gríðarlega vel því eftir aðeins 43 sekúndur hafði Liverpool skorað. Það var barátta fyrir utan vítateig Chelsea, og boltinn barst til Fernando Morientes. Hann sýndi magnaða takta, snéri af sér varnarmenn Chelsea og gaf svo fullkomna sendingu á John-Arne Riise, sem beið á fjarstöng. Riise tók boltann á loft og hamraði honum í hornið. Algjörlega óverandi fyrir besta markvörð í ensku deildinni, Petr Chech.


En það sem eftir lifði hálfleiks gekk lítið sem ekkert upp. Chelsea var með boltann nær allan tímann. Það mátti svo sem búast við því, en aðalvandamál okkar var að um leið og við fengum boltann þá var reyndu Liverpool menn að sækja alltof hratt á alltof fáum mönnum. Þetta leiddi alltaf til þess að Chelsea fékk boltann aftur eftir eina til tvær snertingar á milli Liverpool manna.

Harry Kewell var ekki að spila vel og það sama má segja um John-Arne Riise og Gerrard, sem gáfu alltof margar sendingar á Chelsea menn. Einnig virtist Kewell áhugalaus. Luis Garcia barðist allavegana einsog ljón, en Kewell virtist vera nokk sama um hvað væri að gerast. Einnig voru Gerrard og Hamann ekki að spila nógu vel fram á við. Ég verð reyndar að hafa þann fyrirvara að ég sé ekkert alltof vel og ég og vinur minn sátum á slæmum stað, en mér fannst Steven Gerrard ekki gera nokkurn skapaðan hlut fram á við.


Seinni hálfleikur var svipaður. Harry Kewell var meiddur og Antonio Nunez kom inná fyrir hann og lék betur en Kewell. Traore meiddist síðan á 67. mínútu og inná fyrir hann kom Igor Biscan. Chelsea hélt áfram að pressa og áttu nokkur marktækifæri, en Jerzy Dudek var algjörlega frábær. Hann hélt liðinu á floti með stórkostlegri markvörslu. Hann á hrós skilið fyrir að spila svona vel eftir Leverkusen klúðrið.

Liverpool áttu svo tvö dauðafæri. Hamann fékk upplagt færi eftir undirbúning frá Luis Garcia, en Chech varði frábælega. Steven Gerrard fékk svo á 75. mínútu DAUÐA færi, en Ferreira gerði vel og skot Gerrards fór framhjá af eins meters færi. Nánast með ólíkindum að Gerrad skuli ekki hafa skorað.

Nokkrum mínútum seinna skoraði Chelsea svo loksins. Dómarinn dæmdi aukaspyrnu á Liverpool, sem allir Chelsea aðdáendur Chelsea voru æfir yfir, þar sem dómarinn hefði átt að láta leikinn ganga áfram. En Chelsea fékk aukaspyrnuna, þeir dældu bolta inná teiginn (einsog þeir gerðu allan leikinn), Steven Gerrard stökk upp og skallaði boltann aftur fyrir sig, stöngin inn.

Baros átti svo dauðafæri en hann klúðraði því og leikurinn fór í framlengingu.

Í henni skoruðu svo Chelsea menn tvö aulamörk. Drogba fyrst og svo Kezman. Bæði mörkin skoruðu þeir nánast af marklínu eftir hnoð í teignum. Í bæði skiptin áttaði maður sig ekki á að þeir höfðu skorað fyrr en markaskorarinn byrjaði að fagna.

Liverpool gáfust ekki alveg upp og Antonio Nunez skoraði gott mark með skalla (loksins, sem greyið Nunez skorar með skalla). Fínt mark, en það var ekki nóg. Chelsea vann 3-2.


**Maður leiksins**: Það er svo sem erfitt að gera út um það. Didi Hamann var frábær á miðjunni, en bara í aðra áttina. Hann stoppaði margar sóknir Chelsea manna, en gerði lítið fram á við. Gerrard gerði lítið sem ekkert með honum á miðjunni.

Luis Garcia var fínn og barðist einsog ljón. Carra var fínn, en Hyypia slappur. Morientes fékk lítið til að moða úr og Riise gerði lítið nema að skora. Hann og Gerrard gáfu boltann alltof oft beint til Chelsea manna. Það var í raun aðalvandamál Liverpool manna í leiknum. Ætli maður velji ekki bara **Jerzy Dudek**, þar sem við gagnrýndum hann svo harkalega síðast. Hann var gríðarlega góður og öruggur í leiknum og hann átti ekki sjens í neinu af mörkunum.

Ég ætla að leyfa mér að spá því að ef okkur takist að komast í Meistaradeildina þá fari Steven Gerrard ekki frá okkur. Hann vill ekki kveðja eftir svona leik.

En þetta voru mikil vonbrigði. Ég hef ekki séð Liverpool tapa í úrslitaleik í mörg, mörg ár (sá ekki leikinn á móti Man U þar sem ég var skiptinemi í Suður-Ameríku), þannig að þetta var að vissu leyti ný upplifun fyrir mig.

Aðalmálið er að þetta skemmi ekki fyrir hinum keppnunum, sem við erum ennþá í. Vissulega vildum við vinna þetta gríðarlega mikið, en þó er enn mikilvægara að komast í Meistaradeildina á næsta ári og komast áfram í Meistaradeildinni í ár.

En mikið djöfull var þetta sárt. Við vorum 15 mínútum frá því að verða deildarmeistarar, en Steven Gerrard skorar svo sjálfsmark. Það á ekki að vera hægt.

Næstu leikir eru gegn Newcastle á St. James’s Park næsta laugardag og svo gegn Leverkusen eftir rúma viku. Þá leiki verðum við að klára.


VIÐBÓT (Kristján Atli): Djöfull er maður svekktur. Ég get ekki hugsað mér að skrifa mikið um þennan leik, langar helst út í langan göngutúr eða eitthvað til að dreifa huganum. Fer kannski í bíó bara í kvöld, til að hita upp fyrir Óskarinn.

En allavega, við vorum 11 mínútum frá því að vinna þennan leik. Ég verð að nefna nokkra hluti. Fyrir það fyrsta, þá fengum við óskabyrjun en hún reyndist vera ólán í dulargerfi, þar sem okkar menn voru að mínu mati farnir að liggja allt of aftarlega strax á 5. mínútu leiksins. Í fyrri hálfleik fengu þeir bara eitt eða tvö góð færi, og við annað eins, og því var maður enn nokkuð bjartsýnn í hálfleik enda höfðum við fulla stjórn á þessu.

Í síðari hálfleik byrjuðu þeir af krafti og pressuðu rosalega fyrsta kortérið eða svo, en síðan fóru sóknir þeirra að dala og krafturinn var hverfandi. Manni fannst eins og það væri komið vonleysi og pirringur í Chelsea-liðið og Mourinho var í örvæntingu búinn að henda tveimur framherjum til viðbótar inná, en allt kom fyrir ekki. Gerrard var fáránlega nálægt því að koma okkur í 2-0, en Ferreira bjargaði vel. Stuttu síðar var búið að jafna. Markið var klaufalegt, það var ekkert að gerast og þrír Liverpool-menn stukku upp í sama boltann. Því miður hitti Gerrard hann illa og bjargaði Chelsea. Það er ekki hægt að skamma hann fyrir þetta í raun, en ef það er einhver sem á að málast skúrkur þessa leiks verður fyrirliðinn okkar að taka það á sig, þar sem hann var vægast sagt ömurlegur í dag – svo ömurlegur að ég var farinn að biðja um Biscan inn í hálfleik – og síðan skoraði hann sjálfsmark.

Það sem olli mér mestum vonbrigðum samt í kvöld var hvernig við lékum eftir jöfnunarmarkið, 11 mínútur og svo í 32 mínútna framlengingu. Eftir að þeir jöfnuðu fannst mér Chelsea bara taka flestöll völd í leiknum, þeir einfaldlega vildu þetta meira en við. Mörkin þeirra tvö í seinni hluta framlengingu voru ekki falleg, en í báðum tilfellunum fór boltinn yfir marklínuna af því að þeir voru einfaldlega grimmari í frákastið en okkar menn. Dudek var saklaus í öllum þremur mörkunum og var algjörlega frábær í kvöld.

Og að lokum…

José Mourinho ætti að skammast sín eftir daginn í dag. Það er auðvelt að ganga út á völlinn eftir að hafa sigrað, taka í höndina á andstæðingunum og vera voðalega virðulegur sigurvegari. En hann var að tapa leiknum í heilar 79 mínútur og allan þann tíma hegðaði hann sér eins og hálfviti. Þetta var ótrúlegt að sjá þetta, hann reif kjaft við Bennett dómara, umsjónardómarann, Jamie Carragher og loks var hann rekinn útaf fyrir að rífa kjaft við Liverpool-aðdáendurna í stúkunni fyrir aftan sig og skv. BBC gaf hann þeim einhver dónaleg handamerki.

Ef við leggjum við þessa hegðun hans hversu yfirgengilega tapsár hann var eftir Barcelona-leikinn á miðvikudaginn, þá held ég að portúgalski “súperþjálfarinn” verði alvarlega að fara að hugsa sinn gang. Ég meina, sjáið Benítez í dag: hann var bara að einbeita sér að sínu eigin liði og engu öðru á meðan Mourinho var ótrúlega dónalegur og kjaftfor við hliðina á honum.

Ótrúlegt. Og svo réðu þeir Þorsteinn Gunnarsson og Logi Ólafsson, sem voru að lýsa þessu á sín, ekki við sig eftir leikinn. Þeir gátu einfaldlega ekki hrósað Mourinho nóg fyrir þennan “taktíska stórsigur”, en minntust ekki á Benítez og það hversu nærri því Liverpool var að sigra þennan leik.

Fannst hann bara til skammar í dag og þótt hann og hans lið hafi sigrað í dag, þá er ég fegnari en nokkru sinni fyrr að Benítez er þjálfarinn okkar en ekki þetta fífl. Það liggur við að ég skammist mín fyrir að hafa viljað fá hann sem eftirmann Houllier fyrir aðeins 10 mánuðum síðan.

26 Comments

 1. “Fannst hann bara til skammar í dag og þótt hann og hans lið hafi sigrað í dag, þá er ég fegnari en nokkru sinni fyrr að Benítez er þjálfarinn okkar en ekki þetta fífl. ”

  Nákvæmlega…. Ég átti ekki orð yfir þessum asna.
  Og að voga sér að hreyta fúkyrðum í Carragher jafnast á við guðlast í mínum augum….

  Ég mun aldrei líta þennan mann sömu augum og ég vona heitt og innilega að þeir vinni ekki fleiri titla á þessari leiktíð……

  Chelsea átti smá í mér út af Eið Smára en það er horfið núna. Nú er svo komið að ég get frekar unað Man. Unt. Englandsmeistaratitilinn og þá er fokið í flest skjól…………..

 2. Hvorugur ykkar minnist á vítið sem Liverpool hefði getað fengið í fyrri hálfleik, mér þótti það frekar augljóst víti (brot inn í teig) þó að það hefði verið sárt fyrir Chelsea menn að fá það á sig.
  Mér þótti Liverpool líka spila miklu betur eftir jöfnunarmarkið, í það minnsta sóttu þeir fram á völlinn, sérstaklega í framlengingunni. Það var það sem vantaði mest allan leikinn, menn sátu bara og vörðu forskotið, sem bauð hættunni heim.
  Sem betur fer skoraði Joe Cole ekki sigurmarkið…

 3. Já, vissulega var þetta pjúra víti. Liverpool hefðu auðveldlega getað skorað 3-4 mörk í þessum leik. Hefði bara Gerrard klárað færið sitt, þá værum við ekki í fýlu eftir þennan leik.

  Og já, Mourinho er vitleysingur. Besta við þetta er að hann segir að hann hafi verið að [þagga á blaðamenn](http://news.bbc.co.uk/sport1/hi/football/league_cup/4296791.stm) (en ekki Liverpool stuðningsmenn), þrátt fyrir að blaðamannastúkan hafi verið í hina áttina.

  Það er með hreinum ólíkindum að honum finnist vera fjallað á ósanngjarnan hátt um Chelsea í fjölmiðlum. Benitez sýnir umtalsvert meiri reisn bæði í sigrum sínum, sem og ósigrum.

  En aðalmálið var að við reyndum að hanga á forystunni alltof lengi. Mér fannst Chelsea menn vera við það að gefast upp, en svo fá þeir þetta jöfnunarmark á silfurfati frá Stevie G. Ekki hans dagur í dag.

 4. Ég verð nú að segja að ég er ósammála þér Einar, með Garcia. Ég hef sjaldan séð hann lélegri enn í dag. Allt sem hann reyndi mistókst hjá honum, ég man varla eftir sendingu sem að heppnaðist hjá honum og undir lokinn þegar hann missti boltann, þá nennti hann ekki lengur að reyna að ná honum aftur.
  Ég veit ekki hvort að þú hafir verið að rugla þeim Kewell saman… hann var nú samt ekki mikið skárri.
  EN, hann er nú nýstiginn uppúr meiðslum..hvaða afsökun hefur Garcia??
  En allt í allt held ég að þetta sé verðskuldaður sigur hjá Chelsea 😡 Eins og þú sagðir, þeir virtust vilja þetta meira.
  Mér fannst einnig ótrúlegt hvað Gerrard virtist áhugalaus í leiknum. Ég skal hundur heita ef að hann er ekki kominn til Chelsea í sumar! 😯

 5. Ég er sammála ykkur með að Moron-inho er helv…asni, en
  ég er ekki sammála um að við hefðum átt að fá víti, það hefði verið mjög strangur dómur. Dudek var bezti maður vallarins en eðlilega er erfitt að verðlauna mann úr tapliðinu fyrir það, þó svo að það hefði verið fyllilega verðskuldað. Kommrad Gerrard er þá búinn að skora sitt fyrsta mark fyrir Chelsea :wink:, en sú sorglega staðreynd sannast enn einu sinni að við spilum betur án hans :confused:
  Sanngjörn úrslit í dag….því miður, en þá er bara að vinna sér sæti í CL fyrir næsta tímabil, og við ganga endanlega frá B.Nevercoosen í næsta CL leik.
  Okkar tími er að koma !

 6. Strax og þegar maður var búinn að jafna sig á markinu í byrjun leiks hafði maður áhyggjur af því að við myndum setjast of djúpt á völlinn sem og varð rauninn. En samt varð það bara rétt taktík því chelski átti varla færi og fannst mér við bara með leikinn í höndunum og því ansi súrt þegar sjálfsmarkið kom.

  Annars fannst mér dudek bestur en síðan Hyypia bestur af útimönnunum, spilaði allan leikinn með gult á bakinu og steig varla feilspor að mér fannst.

  Síðan er Mourinho bara eins og smábarn, alveg brjál þegar ekkert gengur og er sífellt með einhverjar afsakanir en síðan geðv. töffari þegar vel gengur. Slakur.

  Kv,

 7. Ekki svona svekktir strakar.

  Betra lidid vann i dag, svo einfalt er tad.

  Audvitad er edlilegt ad islenskir lysendur seu anaegdir med tetta, Eidur Smari spilar med Chelsea.

  Og ad lokum, Mourinho er töffari
  🙂

 8. Verð að vera sammála Kallinum, mér fannst betra liðið í dag vinna. Hefði Chelsea skorað á 1.mín og legið í vörn hefðum við fengið að heyra hversu varnarsinnaðir Chelsea eru osfrv.

  Þrátt fyrir að halda ekki með liverpool hef ég gaman að því að lesa þessa síðu og mun gera það áfram. Betra þætti mér ef þið mynduð taka upp aðeins hlutlausara mat af leikjunum í leiksýrslum ykkar. Ég á hins vegar ekki von á því að það gerist, enda sjáið þið bara rautt.

  Og að lokum, Mourinho er töffari, þið væruð á sama máli ef hann þjálfaði liverpool.

 9. Kallinn sagði:

  >Ekki svona svekktir strakar.

  >Betra lidid vann i dag, svo einfalt er tad.

  >Audvitad er edlilegt ad islenskir lysendur seu anaegdir med tetta, Eidur Smari spilar med Chelsea.

  >Og ad lokum, Mourinho er töffari

  Hver ert þú eiginlega?!? Það er eðlilegast í heimi að maður sé svekktur yfir tapi í bikarúrslitaleik. Þú ert að rugla svekktur saman við tapsár, en ég tel okkur ekki tapsára.

  Við tókum báðir skýrt fram að Chelsea áttu sigurinn skilinn og voru betri í dag. Kanntu að lesa?

  Og að lokum: Mourinho er ekki töffari. Þegar Chelsea tapa er hann tapsár, ekki svekktur. Menn eru ekki töffarar þegar þeir hegða sér eins og smábörn við smá mótbyr.

  Töffari, að mínu mati, væri maður sem getur tekið ósigri með sæmd, er nógu mikið karlmenni til að viðurkenna þegar hann hefur gert eitthvað vitlaust og þorir að þegja og vera dæmdur af verkum sínum, í stað þess að vera sífellt að reyna að verja sig með útúrsnúningum og orðaskaki.

  Með öðrum orðum, Rafael Benítez er töffari, José Mourinho er tapsár gúmmítékki – töff þegar vel gengur, barnalegur þegar á móti blæs.

  Ert þú Liverpool-maður, ‘Kallinn’? Ég meina, ef þú ert Liverpool-maður þá hlýtur þú að koma með svona hálfvitaleg ummæli í þeim eina tilgangi að æsa okkur hina upp. Til hamingju, það hefur tekist. Ef þú ert ekki Liverpool-aðdáandi þá ertu bara sorglegur að vera hér að tjá þig … ekki förum við inná spjallborð/síður annarra liða og reynum að stofna til illinda.

  Hvort þessara sem þú ert … vinsamlegast hættu að láta eins og hálfviti.

  [/reiðiskast]

 10. Og Gísli, við töluðum ekkert um meintan dómaraskandal í dag (aðrir vilja meina að við hefðum átt að fá víti í dag, við Einar áttum okkur báðir á því að það kom tapinu ekkert við) og við viðurkenndum báðir í skýrslunni að Chelsea hefðu verið betri aðilinn og hefðu átt sigurinn skilinn.

  Hvernig getur það kallast að “sjá bara rautt” ???

  Bara spyr… 😉

 11. Já, Gísli, þessi hegðun Mourinho verður til þess að stuðningsmenn Chelsea dýrka hann ennþá meira og finnst hann vera töffari, en við hinir munum gera okkur enn betur grein fyrir að hann er væluskjóða og kann hvorki að taka sigri né tapi með reisn. Hann vælir þegar hann tapar og montar sig þegar hann vinnur. Það hefur ekkert með að vera töff.

  En varðandi það að við sjáum bara rautt, þá verð ég nú að segja að enginn fjölmiðill gagnrýnir Liverpool jafn harkalega og við. Lestu bara leikskýrslur eftir slæma tapleiki. Ég viðurkenni meira að segja **sjálfur** í þessari leikskýrslu:

  >Chelsea liðið var gríðarlega sterkt og þeir voru klárlega betra liðið í leiknum

  Hvað vilja menn meira?

  Við munum hins vegar alltaf fjalla um leikina út frá sjónarmiði Liverpool og fjalla mun meira um okkar leik en leik andstæðinganna. En ef Liverpool leika ekki vel, þá getum við vel verið brútal. En það er gaman að lesa að aðdáendur annarra liða hafi gaman af skrifum á þessari síðu.

 12. Ég ætla ekki að breyta því hvernig ég vil að fótbolti sé spilaður og geri það ekki heldur í þessum pistli mínum. Úrslitaleikur er úrslitaleikur og í þeim orðum fellst sú skilgreining að ef þú vinnur þá færðu helvítis dolluna en ef þú tapar þá færðu ekki neitt! Afhverju í andskotanum mæta menn þá til leiks til þess eins að verjast??

  Við eyðilögðum leikinn með því að skora mark eftir 43 sekúndur og fórum að verjast frá og með 2.mínútu eftir að við höfðum fagnað markinu. Því miður átti Chelsea þennan sigur skilið alveg frá því að þeir byrjuðu miðju eftir markið.

  Við sýndum engan áhuga á ða vinna leikinn heldur pökkuðum í vörn eins og aumingjar. Já, aumingjar segi ég! Það var frekar táknrænt að Steven Gerrard gerði síðan fyrsta mark sitt fyrir Chelsea í þessum leik…hefði getað beðið með það þangað til eftir sumarið.

  Auðvitað er maður svekktur yfir því að tapa dollunni en ég hefði viljað tapa þessum leik á “heiðarlegan” hátt en ekki heigulshátt eins og við gerðum í dag. Mér finnst ekkert og hefur aldrei fundist það skemmtilegt að vinna leiki á því að hanga á marki þegar það er skorað (AC Milan forðum). sérstaklega þegar við höfum mannskap í að vinna leikinn á heiðarlegri hátt.

  Nú vil ég að Herra Benitez geri þær róttæku breytingar að henda út neikvæðu miðjumönnunum okkar (Biscan og Hamann) um það sama leyti og Gerrard fer til Chelsea. Það er alveg á hreinu að við þurfum að henda út neikvæðninni í liðinu og koma með aðra menn sem tilbúnir eru að gera það sem þarf að gera. Við náum ekki 4.sætinu með þetta lið og getum sætt okkur við 5.sætið þetta árið og látið miðlungslið Everton vinna það. Skítt með þetta ár. Það er verið að byggja upp og hefur alltaf verið ætlun Herra Benitez að byggja upp og það tókst næstum því með dollu.

 13. Ég er á því að stærstu mistök Rafa til þessa séu kaupin á Garcia. Hér að ofan kemur fram að hann sé baráttuhundur og leggi sig allan fram. Ok, það er lofsvert, en framlag hans til liðsins er afar takmarkað. Hann var keyptur til þess að vera skapandi miðjumaður/sóknarmaður auka sóknarbrodd okkar. Hann var gjörsamlega tekinn í nefið í þessum leik, missti boltann hvað eftir annað og þó svo að hann hafi hlaupið eins og vitstola gimbur eftir þeim bláu þá kom ekki mikið út úr því heldur. Ég hef sagt það hér áður og stend við það að hann hefur ekki nægilegan leikskilning til að gera liðið okkar betra. Leikmaður sem er svipaður honum í röðum Chelsea er Joe Cole. Lipur og gerir óvænta hluti. Mourinho setti hann í frost þegar að hann sá að hann fúnkeraði ekki í öguðum leik Chelsea (sem er að vísu alveg drep…). Að sömu niðurstöðu held ég að Rafa komist fljótlega. Vandamálið er að vísu að það eru ekki margir um hituna og því er Garcia nánast sjálfvalinn í liðið. Það breytist vonandi í sumar.

  Hér að ofan var Kewell einnig gagnrýndur og sagður áhugalaus ???? Að mínu mati lék hann vel og var afleitt að missa hann af velli.

  Baros hefur ekki leikið vel undanfarið, en að hafa hann á bekknum í þessum leik er illskiljanlegt. Morientes lagði frábærlega upp mark Riise, en þar við sat. Liðið lék að vísu illa í dag, Dudek og Finnan okkar bestu menn að mínu mati.

  Gerrard fann sig ekki. Djöfull saknaði maður Alonso þegar okkar menn gátu vart haldið boltanum í 10 sek.

  En þetta var nú bara einn bikar – það sem skiptir máli er að komast í meistaradeildina.

  -Baros

 14. Já, ég ætlaði nú ekki að draga fram Alonso spilið sem einhverja afsökun.

  Eeeeen, djöfull hefði hann nú samt sómað sér vel þarna inná. Það var pínlegt hvað við gáfum oft frá okkur boltann. Það vantaði tilfinnanlega mann, sem gæti róað menn niður og dreift spilinu innan liðsins. Það gerir Steven Gerrard ekki og Hamann á líka erfitt með það. Xabi Alonso gerir það hins vegar betur en flestir í heimi. Hann hefði verið ómetanlegur í leiknum.

  En áður en menn fá flog, þá er ég ekki að nota það sem afsökun. Við vorum einfaldlega slappir.

  Er Garcia semsagt orðinn aðalskotmarkið núna? Svosem ágætt að gefa Kewell og Josemi smá hvíld 🙂

 15. Ég skil ómögulega hvernig menn geta gagnrýnt García. Hann er fremstur á 5 manna miðju, hinir fjórir eiga að sinna þeim störfum að halda uppi vörnum og skila boltanum vel frá sér. García er fenginn til Liverpool sem þessi svokallaði “flair player”, þ.e.a.s. að það er skylda hans á vellinum að reyna hluti sem öðrum myndi ekki detta í hug.

  Þetta felur í sér hluti eins og klobba, þríhyrningaspil, stungusendingar, stunguhlaup, óvænt skot og sv. frv. Maður kvartaði yfir því í heil þrjú ár hjá Houllier að það væri ekki til einn einasti maður sem gæti sinnt þessu, en nú höfum við allavega einn.

  Eins og ég hef áður sagt, þá er García þegar búinn að skora 6 mörk í vetur og leggja einhvern helling upp. Það er meira en Cheyrou og Diouf skoruðu til samans á tveim tímabilum með okkur, og meira en Pires skoraði á sínu fyrsta tímabili í Englandi.

  Tökum samanburð: gerði Damien Duff mikið af viti í dag? Ekki neitt. Ef við hefðum unnið hefði enginn minnst á García, sem náði að afreka lítið af viti í dag eins og Duff, en allir hefðu gagnrýnt Duff. Þessir menn eiga að reyna hið ómögulega og það skiptir engu þótt þeir klúðri 10 sóknum í röð – eins lengi og þeir ná að búa til eitthvað eitt út úr engu, þá hafa þeir sinnt sinni vinnu. Hvorugum þeirra tókst það í dag, en þeir hafa báðir verið iðnir við kolann í vetur.

  Já, og García er búinn að skora meira en Duff í vetur.

  Ég bara skil ekki af hverju menn vilja kalla hann mistök. Þetta er að mínu mati lykilmaður í okkar liði, án hans væri liðið ekki næstum því jafn skapandi fram á við …

 16. Eiki fr. vil bara segja þér að það er erfitt annað en að verjast þegar að mikið sterkari aðili er í stanslausri sókn !
  Er það ekki nokkuð lógíst ?
  Það er nokkuð ljóst að lið sem skorar eftir 43 sek kom ekki til að pakka í vörn, hins vegar neiddust þeir til að verjast nánast allan leikinn vegna yfirspilunar Chelsea.
  Svo væri ég til í að vita hversu gamall “kallinn” er ! Miðað við póstana hans, giska ég á 13. Prufaðu kallinn að leika þér í sandkassanum á manutd.is eða hvar sem þú fílar þig bezt !

 17. Tu (Stjani) kallar hann (Mourinho) hálfvita og fífl.

  Tad kalla eg ad vera svekktur, ekki floknara en tad.

  Einar ma eiga tad ad hann missti sig ekki svona, prik fyrir tad Einar!

  Tad vaeri skemmtilegra ef menn vaeru adeins malefnalegri her a annars skemmtilegri sidu, ef tid viljid lata taka ykkur alvarlega, sleppid ta ordum einsog “hálfviti” og “fífl”

  Tetta er to audvitad bara min skodun.

  Stjani, tu spyrd hvort eg held med Liverpool, nei tad geri eg ekki. Er eg ta semsagt sorglegur ad tja mig her inni? Er tetta i fyrsta skiptid sem einhver annar en Liverpool-madur skrifar her inni?

  Godar stundir.

 18. Ég kallaði Mourinho ekki hálfvita. Ég sagði að hann hegðaði sér eins og hálfviti. Það er munur á. Ef ég hefði kallað hann hálfvita hefði ég verið að gefa það í skyn að hann skorti alvarlega í vitsmunadeildinni. Ég veit að þetta er bráðgáfaður maður, en hann lætur stundum eins og það vanti nokkrar sellur í búið…

  Og já ég kallaði hann fífl. Af því að hann er fífl. Og asni. Kemur því ekkert við hvort ég er svekktur – sem ég er – það er bara sannleikurinn.

  Og enn held ég að þú sért að rugla svekktur saman við tapsár. Ef ég væri ekki svekktur þá væri eitthvað að mér sem Liverpool-aðdáanda … það eru vonbrigði að tapa úrslitaleik, því hlýtur maður að vera svekktur. Það er ekkert að því að vera svekktur. 🙂

 19. Ég vil bara segja að ég er ekki samála þeim sem eru að segja að Garcia hafi staðið sig vel í dag um leið og hann fékk boltan gátu Liverpool menn byrjað að hlaupa í vörn afþví hann gerði ekkert annað en að missa hann. Riise fannst mér standa sig ágætlega hann skoraði eitt og bjargaði svo á línu einu sinni þannig að hann gerði allavega eitthvað að viti. Kristján Atli segir að Garcia sé maður sem á að gera það sem öðrum myndi ekki detta í hug að gera en það tókst honum ekki í dag. Ég vona bara að þetta verði til þess að Liverpool menn rífi upp um sig buxurnar og vinni þá leiki sem eftir eru í deildinni og reyni að gera eitthvað úr þessu tímabili.

 20. Ég vil bara styðja þá Kristján og Einar í sínum skirfum á þessari síðu, ég kem ekki hingað inn til að lesa hlutlaust mat eða yfirveguð skrif eftir tapleiki. Þetta er (skv. því sem ég hélt) blogg um Liverpool og blogg geftur til kynna að hér séu á ferðinni hugleiðingar og skoðanir og Liverpool gefur til kynna að þeir sem skrifa hafi áhuga á Liverpool. Þetta er ekki fréttasíða, enda hef ég engan áhuga á því að skoða fréttasíður eftir tapleiki, ég vil sjá fleiri fúla Púlara kvarta yfir einhverju í sambandi við leikinn svo ég sjái að ég er ekki einn.
  Þeir taki það til sín sem eiga.

  Glæsileg síða Einar og Kristján og ekki hætt að vera rauðir, hlutdrægir eða svekktir :biggrin:

 21. Vá! Ég get ekki skilið af hverju menn vilja alltaf finna 1-2 blóraböggla eftir svona leiki.

  Við vorum fo*** 12mín frá því að hampa þessum deildarbikar sem vissulega hefði verið frábært. Ég hins vegar lít þannig á að það hafi verið frábært að komast í þennan leik og það með kjúklingaliðið okkar nánast. Sérstaklega með tilliti til þess að 30% af leikmönnum okkar hafa verið meiddir meira og minna í allan vetur 😡

  Öll pressan var á chel$skí að vinna þennan leik, 200mill.punda liðið hlýtur að hafa burði til að vinna allavega 1-2 titla á þessu ári, annað er bara rugl!

  Það er í mínum huga með ólíkindum að fólk skuli vera að rægja Gerrard og sumir segja að hann hefði bara átt að skipta um treyju og taka á móti gullinu með lundúnaliðinu. Að mínu mati eru þetta ekki sannir púllarar sem tala svona. Við megum ekki gleyma því að Gerrard er púllari þangað til hann skrifar undir annars staðar.

  Varðandi Motormouth mourinho þá er það hárrétt það sem Einar Örn og Kristján segja, maðurinn er fífl og asni. Hann hefur nú endanlega sannað það og þessi framkoma hans verður eingöngu til að auka hatur fólks á chel$kí, allavega virkar það þannig á mig!

  Sem betur fer kom hann ekki til Liverpool!

 22. Sæl öll sömull,

  smá vangaveltur um fyrirliðann okkar, mér finnst eins og að hann hafi ekki réttu skapgerðina í að vera fyrirliði og þá meina ég fyrirliði yfir höfuð ekki bara hjá okkur. Mér fannst að þegar að myndavélunum var beint að honum í meistaradeildinni í síðustu viku að þá virkaði hann frekar áhugalaus á því sem var að gerast inná vellinum og þegar að Hamann skoraði, jú hann klappaði og glotti aðeins, en hann tókst ekki á loft og fagnaði innilega með liðinu og öðrum í stúkunni, öðrum en þýskurunum auðvitað.

  Eins í leiknum í gær, hann nær einfaldlega ekki að mótivera sjálfann sig á stundum og hvað þá liðið í heild, sér Rafa þetta og var það þetta sem hann að reyna að segja þegar að hann sagði við Pellegrino að hann ætlaði að gera hann að fyrirliða í framtíðinni? Ég veit ekki svo sem mikið um Stevie fyrir utan það sem maður sér inná vellinum en er hann kannski frekar þungur persónuleiki sem á erfitt með að vera drifkraftur fyrir aðra?

  Er ekki kominn tími á að gera Jamie að fyrirliða því ef eitthvað er að þá þarf að dempa hann aðeins niður fyrir leiki, allavega skortir ekki karakterinn þar á bæ. Þora menn ekki að hrófla við Stevie af ótta við að hann fari? Ég held allavega að við fáum nýjann kapteinn í sumar, sama hvort að Stevie fer eða ekki!!

  Kv Stjáni

 23. Já það er margt sem fer í gegnum kollinn á manni eftir svona tapleik. Hvað ef Benítez hefði stillt upp svona en ekki hinsegin. En það er alltaf hægt að segja hvað ef eftir tapleik, eða þá eftir lottó drátt hvað ef ég hefði valið þessar tölur???

  Fyrir mér er það tvennt sem pirrar mig mest eftir leikinn:

  1. Dómarinn var ótrúlega hliðhollur Chelsea í leiknum, held að við höfum ekki fengið eitt 50/50 atvik dæmt okkur í hag allan leikinn. Ég veit vel að það er auðvelt að kenna dómaranum um tapið, en það er eki tilfellið hér, þó er erfitt að verjast 11 leikmönnum og einum dómara í heilar 120 mín, sama hvaða lið á í hlut. Chelsea voru með lukkudísirnar á sínu bandi auk meira hungurs í sigur, þess vegna unnu þeir.

  En þetta getur ekki verið besti dómari Englands ég trúi því bara ekki. Þrisvar sinnum fengu leikmenn Chelsea boltan í hendina, í tveimur þeirra tilfella lögðu þeir boltan fyrir sig með hendinni fyrir framann dómarann en ekkert var dæmt. Ég veit að þetta er matsatriði hvort bolti fari í hönd eða hönd í bolta. En að leggja boltann fyrir sig og hagnast þar með á því að nota hendina er aukaspyrna. Varðandi vítið þá voru meiri líkur á því að Makalele myndi ná að smyrja besefanum inní Gerrard heldur en að ná boltanum. Hann var bara með hugan við Gerrard og var aldrei líklegur til að ná boltanum. Sást greinilega í endursýningunni.
  Hef séð nokkar vítaspynur dæmdar á svipuð brot þegar Pires eða álíka snillingar hafa átt í hlut.

  Ég skil því vel pirringinn í Carragher og Finnan undir restina, maður hefði eflaust sjálfur látið nokkur vel valinn orð flakka í átt til dómarans eftir svona fammistöðu.

  2. Mourinho hvað heldur maðurinn að hann sé, ögrar Carra og toppar síðan allt sem heimskt er með því að ögra aðdáendum Liverpool. Þetta er til skammar fyrir hann og Chelsea. Man ekki eftir að framkvæmdastjóri hjá toppliði hafi hagað sér svona við stuðningsmenn andstæðinganna. Haldi þið að Wenger eða Alex F myndu gera svona lagað, aldeilis ekki. Þetta er lægsta plan sem hægt er að komast á sem framkvæmdastjóri. Vonandi tekur enska knattspyrnusambandið á þessu því ef þetta hefði verið leikmaður þá værum við að horfa á nokkra leikja bann.

  Annars var maður nokkuð sáttur í heildina við leik okkar manna. Það er nú einusinni þannig í boltanum að ef þú kemst yfir í úrslitaleik, þá eiga menn það til að að draga sig aftar á völlinn og reyna að halda fengnum hlut. Því miður gekk það ekki upp í gær.

  Fyrir mér voru það Dudek, Finnan og Hamann sem stóðu uppúr í liðinu. Því miður náði Gerrard ekki að brillera í þetta skiptið en það kemur leikur eftir þennan leik.

  Frekar skondið að fyrir leikinn var talað um einvígi Lampard og Gerrard, en þegar á hólminn var komið stóðu Makalele og Hamann sig besta af miðjumönnum beggja liða.

  Munum bara að lífið heldur áfram og Róm var ekki byggð á einni nóttu.

  Kveðja Krizzi

Byrjunarliðin komin!

Áfram um Chelsea (+ viðbót)