Styttist í sunnudaginn…

chelsea1.jpgEru menn farnir að gíra sig upp fyrir helgina? Ég veit að ég er þegar farinn að skjálfa af tilhlökkun og eftirvæntingu við tilhugsunina um að hvetja mína menn á sunnudaginn. Sem betur fer virðast leikmenn okkar og þjálfari þegar byrjaðir að einbeita sér að þessum stórleik, sennilega mikilvægasta leik okkar á þessu tímabili (nema við förum lengra í Meistaradeildinni): Rafa segir að sigur á sunnudag verði honum ótrúlega mikilvægur, Luís García segist hvergi banginn við að mæta toppliði deildarinnar, Milan Baros getur ekki beðið eftir að fá að skora gegn Chelsea og loks er fyrirliðinn okkar, Chelsea-leikmaðurinn Steven Gerrard handviss um að Liverpool geti unnið Chelsea á sunnudag. Það er augljóst hvar hugur okkar manna liggur, og ef marka má ummæli þessara fjögurra ása þá eru menn hungraðir fyrir sunnudaginn, sem getur bara boðað gott!

Á meðan eru Chelsea-menn í nöldurtón: Börsungar lögðu þá í einelti og álíka tapsæri er það eina sem Motormouth Mourinho og félagar geta sagt eftir gærkvöldið. Mourinho virðist ómögulega þola gagnrýni þegar hún á rétt á sér, en hann hljóp all svakalega á sig á sunnudaginn gegn Newcastle í bikarkeppninni þegar hann skipti þremur varamönnum inná strax í leikhléi, og þurfti svo að spila manni færri í 40 mínútur eftir að Wayne Bridge fótbrotnaði í upphafi síðari hálfleiks. Í gær hélt hann síðan að hann kæmist upp með að liggja með 11 menn í vörn í 90 mínútur, en Börsungar tóku það ekki í mál. Ímyndið ykkur bara hversu mikla gagnrýni við myndum fá ef við gerðum þetta á útivelli eftir tæpar tvær vikur, pökkuðum bara í vörn með Baros “fremstan”, rétt við miðlínuna, eins og Drogba spilaði í gær. Haldiði að við myndum sleppa með jafn litla gagnrýni fyrir spilamennskuna og Mourinho gerir? Kannski … ef Rafa myndi vera tapsár, kvarta undan stríðni, einelti og klíkuskap og gráta fyrir framan alþjóð. Já, fjölmiðlar eru fljótir að láta afvegaleiða sig, þegar Mótormunnurinn vill ekki að þeir gagnrýni frammistöðuna hans býr hann bara til “hneyksli” sem þeir geta smjattað á í staðinn. José Mourinho er kannski tapsár maður, en hann er líka góður í að forðast gagnrýni.

Annað en þessi Rafa Benítez-gæji … hann er svo hreinskilinn að það er óþolandi. 😉


Talandi um framkvæmdarstjórann: átta menn sig á því hversu gott starf hann hefur unnið með liðið okkar í vetur? Ég fór að pæla í þessu í gær eftir sigurinn gegn Leverkusen, eftir að við komumst með annan fótinn inn í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar. Og framundan er úrslitaleikur í Deildarbikarnum, toppleikur gegn toppliðinu. Og við erum enn á fullu í baráttunni um 4. sætið, sem var í raun eina raunhæfa markmiðið okkar í deildinni á þessu tímabili breytinga.

Þetta allt hefur Rafael Benítez afrekað í vetur þrátt fyrir að hafa verið án a.m.k. tveggja lykilmanna í hverjum einasta leik í vetur. Það er hálf fáránlegt að hugsa til þess að við séum þó búnir að ná þetta langt miðað við þær leikmanna- og þjálfarabreytingar sem síðustu 8-9 mánuðir hafa haft í för með sér. Þar að auki hefur verið lítill sem enginn stöðugleiki á byrjunarliðinu og hópnum hingað til í vetur.

Leikmannakaup eru yfirleitt það atriði sem menn horfa fyrst til þegar nýr þjálfari er metinn. Morientes og Alonso eru augljóslega klassi, og ég held að García sé nú loksins búinn að sannfæra jafnvel mestu efamenn (hann er þegar búinn að skora meira í vetur en Cheyrou og Diouf til samans á sínum tveimur tímabilum með okkur, og meira en Pires skoraði fyrir Arsenal á sínu fyrsta tímabili í Englandi). Enn bíður Stóridómur eftir að geta metið Antonio Núnez, Josemi og Pellegrino meira áður en kveðið verður til um ágæti þeirra. Núnez og Josemi hafa verið of mikið frá vegna meiðsla til að hægt sé að segja með vissu hversu góðir þeir eru í raun, á meðan Pellegrino er bara búinn að spila örfáa leiki og er nýkominn. Þannig að fyrir mitt leyti eru þau kaup Rafa sem eru búin að fá að spila eitthvað (Josemi fyrst í vetur, Alonso, Morientes og García) öll búin að sanna sig sem ‘peninganna virði’ (hafið í huga hvað Josemi var ódýr).

En að mínu mati eru það ekki leikmannakaup eða ný leikaðferð sem gefa besta vísbendingu um það hvað Rafa er góður þjálfari. Ég kýs frekar að horfa á augljósasta samanburðinn: þá leikmenn okkar sem léku undir stjórn Houllier – hvernig voru þeir þá og hvernig eru þeir nú?

Gerrard er einn þeirra sem var frábær undir stjórn Houllier og er það enn, hefur þó skorað meira í vetur sem ber vott um aukinn sóknarþunga í taktík Benítez. Þá hafa menn eins og Hyypiä, Hamann og Dudek verið svipaðir og undir stjórn Houllier, enda að sinna nokkurn veginn sömu störfum. Jamie Carragher hefur gjörsamlega blómstrað í nýrri stöðu, en ég er á þeirri skoðun að hann hefði blómstrað í miðverðinum sama hvaða þjálfari var við völdin, hann er einfaldlega fæddur til að stjórna vörninni okkar. Milan Baros hefur verið rosalega góður í vetur en það er sennilega meira Michael Owen að þakka en Benítez – brottför Owen þýddi að Baros var skyndilega orðinn #1 og hefur blómstrað samkvæmt því. Loks er Steve Finnan miklu, miklu betri í vetur en í fyrra … en það telst ekki alveg með, þar sem árið í fyrra var hans fyrsta ár. Það sama gildir um Sinama-Pongolle.

En hvað með restina? Igor Biscan hefur verið misjafn í vetur en hefur samt sýnt vel hvað hann getur hjá Rafa – enda hefur hann fengið að spila sína náttúrulegu stöðu í allan vetur: miðjuna! Hjá Houllier var hann iðulega settur á kantinn eða eitthvað álíka rugl, og hann spilaði mjög marga leiki með okkur í fyrra í vörninni … sem var ennþá meira rugl. Hann er stór, sterkur, góður tæklari, fljótur og góður skallamaður … en hann er samt enginn varnarmaður. Það þarf fleira til en líkamsburði til að spila í vörn.

Að mínu mati höfum við séð framför undir stjórn Benítez hvað sterkast hjá vinstri vængnum okkar: þeir Djimi Traoré og Jonny Riise hafa gjörsamlega blómstrað í vetur. Síðasta sumar var maður nærri því viss að Traoré myndi fara frá Liverpool, enda var hann bókstaflega búinn að vera. Riise var einnig orðaður við sölu um skeið, en það entist ekki lengi. Engu að síður höfðu þessir menn báðir verið á hægri niðurleið í getu síðustu tvö-þrjú árin eftir að hafa báðir byrjað feril sinn hjá Liverpool vel fyrir nokkrum árum.

Spáið bara í breytingunni: fyrir ári síðan hefðum við horft fram á bikarúrslitaleik gegn Chelsea og örvænt þegar við hefðum séð að þeir Traoré og Riise ættu að manna vinstri væng liðsins í svona mikilvægum leik. Í þetta sinn er maður eiginlega bara hæstánægður með að þeir skuli verða með á sunnudag – það þýðir nánast sjálfkrafa að Joe Cole og Damien Duff munu lítið sem ekkert komast upp vinstri vænginn okkar og þar að auki þori ég næstum því að veðja góðri fúlgu á að Riise muni skora – hann hefur verið svo öflugur undanfarna tvo mánuði.

Framför þessara tveggja manna er merkileg fyrir það leyti að þeir eru báðir að spila stöður sem þeir spiluðu oft undir stjórn Houllier: bakvörð og kant. Munurinn er sá hvernig þeir spila þessar stöður. Undir stjórn Houllier átti Traoré að halda aftur af kantmanni andstæðinganna, og svo bara hreinsa, hreinsa, hreinsa ef hann fékk boltann. Öryggið ofar öllu, ef svo má segja. Riise mátti reyna langskot úr aukaspyrnum og eftir hornspyrnur, en lítið annað. Hann var yfirleitt nær eingöngu notaður á kantinum ef Houllier sá framá mikla ógn af hægri væng andstæðinganna – þá vildi hann jafnan baktryggja sig með því að spila tvo bakverði á þennan vænginn. Hann lék þetta iðulega hér áður fyrr með Carragher og Ziege, og gerði þetta einnig í fyrra hægra megin með Carragher og Finnan.

Í vetur hins vegar hefur Traoré komið framar á völlinn og er bara orðinn virkilega skæður bakvörður, sennilega betri sóknarlega séð en Finnan. Þá hefur Riise fengið algjört sóknarhlutverk og virðist njóta frelsisins út í hið ítrasta – hann skorar hvert glæsimarkið á fætur öðru, á orðið a.m.k. einn klobba í leik og hefur verið duglegur að dæla fyrirgjöfunum inná teiginn. Þá hefur sóknarvídd hans aukist í vetur, sem sást best á stungusendingu hans innfyrir á Baros á þriðjudag. Honum hefði ekki dottið í hug að reyna þetta fyrir ári – að hluta til af því að hann var ekki svona sóknarlega þenkjandi, að hluta til af því að hann veit að hann hefði fengið skammir ef sendingin hefði mistekist. Í ár hins vegar er hann hvattur til að gera þetta, til að sækja á sem flesta vegu, og árangurinn hefur ekki látið á sér standa.

Við Liverpool-aðdáendur erum jafnan hæddir af félögum okkar fyrir að tala um hvað liðið verður gott “á næsta tímabili”, eins og það sé eitthvað sorglegt hvað við erum alltaf bjartsýnir á framtíðina. Engu að síður þá held ég að það geti hvaða hálf- og heilvita maður sem er litið á þróun og framgöngu liðsins í vetur, og menn hljóta þá að spyrja sig: Hvað gerist næsta haust, þegar hann er með alla leikmenn heila og (vonandi) búinn að styrkja liðið enn frekar með kaupum af Alonso/Morientes/García-kalíberinu?

Ég veit að ég hlakka til að sjá í hvaða stand kallinn verður búinn að koma liðinu okkar eftir hálft ár. En þangað til getum við yljað okkur við áframhaldandi framgöngu í Meistaradeild Evrópu – créme de la créme – og skemmt okkur konunglega yfir bikarúrslitaleik næstkomandi sunnudag. Svo er Rafael Benítez fyrir að þakka. 😉

Og endilega, leyfum Motormouth Mourinho að rífast við Barcelona-menn aðeins lengur … við vitum hvað okkar menn eru að gera núna, hvað okkar menn hafa verið að gera síðan á þriðjudagskvöld: þeir eru að búa sig undir styrjöld á sunnudaginn. Hvernig svo sem leikurinn fer þá er ljóst að okkar menn eru betur undirbúnir, og það er vissulega okkur í hag! 😀

5 Comments

  1. Það er magnað að sjá hvernig Chelsea menn bregðast við þessu tapi og hvernig breska pressan skrifar um leikinn. Chelsea mætti til að verjast. Punktur. Þeir ætluðu aldrei að sækja í leiknum og rauða spjaldið breytti litlu um það plan. Sjáiði bara [þessa tölfræði](http://www.uefa.com/competitions/UCL/FixturesResults/Round=1969/Match=1081507/Report=MS.html#): Barca: 26 skot, Chelsea 2.

    Barca átti þennan leik og það var á tíðum yndislegt að horfa á þá spila saman þrátt fyrir að Chelsea væri alltaf með alla fyrir aftan boltann. Hefði Liverpool spilað svona þá hefði allt verið brjálað.

    Spænsku blöðin eru skiljanlega mjög hneyksluð og fatta ekki almennilega hvernig ríkasta félagslið í heimi getur spilað svona varfærnislegan bolta. Til hvers eru menn að eyða öllum þessum milljónum ef þeir ætli bara að liggja með 9 menn í vörn?

    En ég meina hey. Ég get ekki beðið eftir sunnudeginum. Kommentin frá Gerrard og fleirum hafa komið manni í stuð. Chelsea eru að fara í gegnum erfitt tímabil og við erum með sjálfstraustið í lagi, þannig að ég hef trú á að við getum klárað þetta, þó það verði mjööög erfitt.

  2. Hefði Liverpool spilað svona? En Liverpool SPILAÐI svona síðast þegar við mættum Barca og vorum mikið hæddir fyrir. Samt náðum við 0-0 og komumst að lokum áfram.
    Það var alltaf vitað að Chelsea myndu liggja til baka, Morinho er (eins og oft hefur komið fram) varnarsinnaður þjálfari og ef það hefði ekki verið fyrir Robben og Duff þá væru þeir ekki búnir að skora nærri svona mikið í vetur.

    Ég þori samt ekki að horfa á leikinn á sunnudaginn, ef ég missi af leikjum viljandi þá eru það venjulega glæsilegir sigrar, en þeir leikir sem ég næ eru meira í áttina við Birmingham eða Southampton 😡

  3. Já, auðvitað Daði. Ég man vel eftir Barca leiknum. En þá var líka talað um hversu hræðilega leiðinlegt þetta Liverpool lið væri og reynt að gera lítið úr öllum afrekum liðsins með því að segja að það spilaði varnarbolta.

    Ef maður hefði hins vegar ekki séð Chelsea leikinn en bara lesið umfjöllun bresku blaðanna (eða Moggans) þá hefði maður haldið að þarna hefði verið á ferðinni jafn leikur.

  4. Daði, ég var auðvitað ekki að gefa í skyn að við höfum aldrei spilað svona. Eins og þú bentir á spiluðum við svona við Barca og náðum 0-0 jafntefli fyrir nokkrum árum, og við gerðum þetta iðulega undir stjórn Gérard Houllier.

    Það sem ég vildi meina var það að við vorum jafnan gagnrýndir harkalega fyrir svona spilamennsku í hvert sinn sem við lögðumst í vörn á útivelli. En nú þegar Chelsea gera þetta er varla minnst á það svo að einhverju skipti … enda eru menn uppteknir við að fjalla um “hneykslið” frekar en leikinn sjálfan.

    Af því hlýtur maður að ætla að toppliðin sitja ekki jafnt til borðs hjá ensku pressunni. Man U (annað norðanlið) var t.d. miklu meira gagnrýnt heldur en Chelsea eftir miðvikudaginn, en þó reyndu United-menn að sækja allan leikinn og sigra gegn liði sem er ekki mikið síðra en Barcelona. Það er ótrúlegt ósamræmi í blaðamannaumfjöllun…

  5. Það var ég nú að reyna að segja líka, Liverpool var ömurlegt lið fyrir að spila varnarbolta og ná 0-0 en það er ekkert minnst á Chelsea liðið sem spilaði varnarbolta og tapaði 2-1.
    Milljónirnar hans Romans keyptu kannski eitthvað meira en bara knattspyrnulið? Svo gæti maður haldið miðað við umfjöllunina um enska boltann í dag.

Dudek: Þetta var mér að kenna

Gerrard, fjölskyldan og Chelsea