Charlton 1 – L’pool 2

morientes_first_goal.jpg

Flott maður! Ég skellti mér á Players í kvöld og sá okkar menn gjörsigra Charlton 2-1 í einhverjum ójafnasta deildarleik sem ég hef séð. Í raun held ég að við höfum bara haft meiri yfirburði í deildarleik í vetur gegn W.B.A. á útivelli og W.B.A. og Norwich á heimavelli. Þetta voru einfaldlega svakalegir yfirburðir.

Þökk sé aulaskap starfsmanna Players misstum við af fyrstu 10 mínútum leiksins á meðan rétt stöð var stillt inn, en um leið og við komum inn sáum við dauðafæri okkar manna og síðan flotta tölfræði: á þessum 10 mínútum sem ég missti af höfðu okkar menn átt 6 skot að marki Charlton-manna, þar af 5 á rammann, en þeir ekkert. Við höfðum jafnframt verið 80% með boltann, þannig að það var ljóst að við höfðum verið með yfirburði frá byrjun.

Liðið í kvöld var þannig skipað:

Dudek

Finnan – Carragher – Hyypiä – Traoré

García – Gerrard – Biscan – Riise

Baros – Morientes

BEKKUR: Carson, Pellegrino, Warnock, Potter, Smicer.

Nú, Charlton-menn skoruðu eftir hornspyrnu á 21. mínútu, þvert gegn gangi leiksins og úr eina alvörufæri sínu í öllum helvítis leiknum. Í þetta skiptið var það svæðisvörnin sem klikkaði, í fyrsta sinn síðan í september, er hornspyrna Brian Hughes lenti beint á kollinum á Shaun Bartlett sem var einn og óvaldaður á markteig og skallaði auðveldlega í netið. 1-0 og maður bara brosti, þetta kom svo óvænt.

Eftir það varð pressa okkar manna bara þyngri. Ég er ekki að ýkja þegar ég segi að síðustu 70 mínútur þessa leiks voru spilaðar bara á vallarhelmingi Charlton-manna, þeir fengu varla séns á að komast nálægt teignum okkar fyrr en rétt í blálokin. Þetta var allan tímann spurning um hvenær – ekki hvort – okkar menn næðu að jafna metin.

Eftir fádæma yfirburði og stöðuga pressu tókst það loksins eftir einhverjar 60 mínútur eða svo. Charlton-menn sváfu á verðinum í vörninni og Baros komst inn í sendingu, boltinn barst til Fernando Morientes sem lék á einn mann Charlton og negldi boltanum svo upp í samskeytin … með vinstri … fyrir utan teig. Fyrsta mark Spánverjans frábæra fyrir Liverpool FC var orðið staðreynd og þvílíkt mark til að byrja ferilinn á! 😀

Eftir það var eiginlega bara eins og maður slakaði á. Mér leið einhvern veginn eins og það væri öruggt að sigurmarkið myndi koma, og eftir að hafa klúðrað alveg fáránlega mörgum dauðafærum náðum við því loks á 78. mínútu. Luis García og Fernando Morientes prjónuðu sig frá hægri kantinum í gegnum miðja vörn Charlton, García gaf síðan flottan bolta innfyrir vörn Charlton vinstra megin þar sem Johnny Riise kom aðvífandi og skoraði örugglega í nærhornið. 2-1 fyrir okkur og sigurinn í höfn!

Þetta var bara svo akkúrrat það sem við þurftum fyrir komandi átök: eftir mjöööög erfiðan janúarmánuð náðum við að sigra Watford í síðustu viku og komast í úrslit Deildarbikarsins, og svo eftir gott (og vel þegið) vikufrí þá áttu okkar menn glymrandi góðan leik gegn Charlton í kvöld, og það á útivelli. Þótt við skoruðum sigurmarkið ekki fyrr en á 78. mínútu leið mér bara allan tímann eins og við myndum vinna þennan leik, slíkir voru yfirburðirnir.

MAÐUR LEIKSINS: Igor Biscan var frekar daufur í kvöld en að öðru leyti fannst mér hver einasti maður á vellinum leggja sig virkilega vel fram og eiga góðan leik. Samt fannst mér einn maður standa uppúr í kvöld og sá heitir Luis García. Hann barðist eins og ljón allan leikinn, var síógnandi og sífellt að skapa eitthvað á hægri kantinum í fyrri hálfleik og eftir að hann færði sig meira inná miðjuna í seinni hálfleik var hann hreinlega allt í öllu í sóknarleik okkar manna. Hann bjó til hvert færið á fætur öðru fyrir þá Morientes, Baros, Gerrard og Riise og átti tvö-þrjú góð færi til að skora sjálfur. Það var mjög lýsandi fyrir leikinn að García skyldi vera arkitektinn að sigurmarkinu okkar og eftir frammistöðuna í kvöld vona ég að menn slaki aðeins á gagnrýninni í garð þess litla. Hann var að spila gegn mjög líkamlega sterku liði sem spilaði mjög fast í kvöld, hann var tekinn úr umferð mestallan leikinn af sjálfum Hermanni “Herminator” Hreiðarssyni – sem var maður leiksins hjá Charlton að mínu hlutlausa mati – en barðist engu að síður vel og sannaði fyrir mér í kvöld að hann getur alveg staðið sig í þessari deild, líkamlega séð!

Einnig fannst mér virkilega, virkilega jákvætt að sjá Vladimir Smicer fá að spila síðustu 7 mínútur leiksins! Vladi kom inn fyrir Morientes undir lokin og fékk mikið klapp frá okkur á Players, sem hann svaraði með því að eiga tvö-þrjú virkilega flott leikatriði undir lokin. Fyrst vann hann boltann með eljusemi af Hermanni Hreiðars og skilaði honum upp í hornið á Baros, svo áttu hann og Gerrard góðan samleik á kantinum og loks undir lokin sá ég hann eiga flotta 40-metra sendingu þvert yfir á Baros sem að fór að hornfánanum og hélt þar á meðan tíminn fjaraði út. Flott innkoma hjá Smicer og ekki seinna vænna – endurkoma hans mun auka valkosti okkar í sókninni og gefa okkur ómetanlega breidd á vormánuðunum!

AÐ LOKUM: Middlesbrough töpuðu víst í kvöld fyrir Portsmouth þannig að þetta var sannkölluð 6-stiga umferð fyrir okkur. Í stað þess að missa bæði Boro og Charlton framúr okkur í deildinni erum við nú aftur komnir með 3ja stiga forskot á þau og erum aðeins 4 stigum á eftir Everton sem eru í 4. sætinu, og 10 stigum á eftir Arsenal í 3. sætinu. Everton eiga heimaleik inni gegn Norwich á morgun, þannig að líklegast fer bilið aftur upp í 7 stig en við eigum enn eftir að mæta Everton á Anfield og Arsenal á Highbury, auk þess sem Everton eiga eftir að mæta þremur efstu liðunum öllum í febrúar. Þannig að ef við getum haldið dampi í næstu leikjum gætum við verið komnir í 4. sætið þegar febrúarmánuði lýkur, sem yrðu meiriháttar góð tíðindi, og jafnvel verið farnir að anda niður í hálsmálið á Arsenal þegar við mætum þeim í aprílbyrjun!

Með öðrum orðum: þetta tímabil er enn í fullum gangi og við eigum bara góóóða möguleika á 4. sætinu, sigri í bikarkeppni og velgengni í Meistaradeildinni. Ef liðið ætlar að spila oftar eins og það gerði í kvöld er full ástæða til bjartsýni… 🙂

12 Comments

 1. Charlton Athletic Team Statistics Liverpool
  1 Goals 2
  1 1st Half Goals 0
  3 Shots on Target 6
  1 Shots off Target 12
  0 Blocked Shots 1
  3 Corners 7
  11 Fouls 16
  8 Offsides 3
  0 Yellow Cards 0
  0 Red Cards 0
  40% Possession 60%

  Já greinilegir yfirburðir þó að þetta sé nú ekki alveg að ríma við þessar statistíkur frá Sky.

 2. “og jafnvel verið farnir að anda niður í hálsmálið á Arsenal þegar við mætum þeim í aprílbyrjun!”

  Þú ert nú alveg yndislegur Kristján……
  :biggrin2:

  Gott að heyra að sigurinn í kvöld hefur ekki stigið þér til höfuðs…. 🙂

  Takk fyrir frábæra leikskýrslu. Já, þetta eru magnaðar fréttir fyrir okkar yndislega klúbb.
  Við þurftum svo virkilega á þessu sigri að halda. Þetta býr í liðiðinu okkar. Stundum spilum við eins og meistarar og ég er sannfærður um að ef þetta lið heldur eftir sumarið og Rafa nær að byggja upp meiri stöðugleika……. Jæja, þá segi ég bara …Here we come PL…

 3. Ekki var ég jafn bjartsýnn og þú þarna á Players – var satt að segja alveg dauðstressaður um að Charlton myndi jafna í lokin. En þetta var stórskemmtilegur leikur, það er ekki hægt að segja annað.

  Players fær stóran mínus fyrir að klúðra þessu í kvöld og fyrir að setja Liverpoolleikinn í hliðarherbergi. Hvernig væri að hafa svona hluti á hreinu.

 4. Everton spilar næst við Norwich og svo Southampton um helgina. Þeir ættu að ná 6 stigum úr þessum leikjum. Þá eiga þeir Chelsea 12 feb og svo Aston Villa 26 feb.

  Þannig að ég sé ekki alveg að þeir eigi eftir að mæta 3 efstu liðunum. 🙂

  Þessum leikjum hefur verið frestað.

  Hérna er linkur:
  http://soccernet.espn.go.com/team/results?id=368&cc=5739

 5. Já, ég er sammála með yfirburðina og í raun var þessi leikur eiginlega aldrei í hættu þegar maður sá seinni hálfleikinn.´Ég steinsofnaði yfir Arse-anal og viðbjóðnum en þar sem ég er svo heppinn að hafa SKY að þá gat ég séð merkilegustu atriðin úr öllum leikjum kvöldsins seinna um kvöldið valdi ég að skoða LFC leikinn. Fyrri hálfleikinn vissi ég að við værum 0-1 undir en svo kom seinni hálfleikur og vissi ég ekkert hvernig leikurinn hafði farið. En eins og þið á þessari bloggsíðu fannst mér þetta ekki geta endað með öðru móti en útisigri!
  Morientes gerði flott mark og vann vel fyrir liðið og var ég mjög sáttur við það. Garcia var mjög góður og var ég sammála með að hann ætti MOM skilið. Hann er oftast einn af þeim slakari á vellinum eða bestur. Frekar leiðinleg staðreynd um annars afskaplega góðan fótboltamann. Það er akkúrat ekki sem við þurfum , þeas leikmenn sem eru gloppóttir. En afskaplega góður sigur og sérstaklega gaman að sjá Steven Gerrard fagna markinu með Morientes og þegar að hann kyssti hann á ennið varð ég afskaplega sáttur! Þetta virkaði á mig sem staðfesting á því að Gerrard er ekkert á þeim buxunum að fara. Ekki spyrja mig afhverju ég fæ þetta út…..bara guts feeling…. :biggrin2:

 6. ja ja liverpool voru einsog menn i thessum leik nema hvad ad eg vil sja nokkur gul spjold a okkur og mikla grimmd i ollum leikjum. thannig spila topplidin allavega!!!!

 7. Þetta er kærkominn sigur og sú staðreynd að Moro er kominn á blað gefur mönnum aukið sjálfstraust. Það er enginn vafi á því að LFC krækir í 3-4 sæti í deildinni ef menn hanga nú heilir það sem eftir lifir tímabilsins. Þá er bara að krækja í að minnsta kosti eina dollu á móti Chelsea og rúlla svo upp Meistardeildinni..eða því sem næst allavegana..

 8. Úff fyrsti leikurinn sem ég missi af á árinu og þá spilar Pool loksins vel og vinnur, augljóst á hvaða lið ég horfi ekki meir..

Charlton á morgun!

Boltaferð til Liverpool um helgina.