Mellor & Gerrard: heimsendir?

Varalið Liverpool steinlá fyrir varaliði Aston Villa í gær, 4-0, en þessi leikur átti engu að síður að boða góðar fréttir fyrir okkur. Þeir Vladimir Smicer og Anthony Le Tallec áttu báðir endurkomu fyrir Liverpool í gær og nú er ekki langt í að Smicer verði tiltækur í leiki fyrir okkur, á meðan Tony LeT ætti að vera á bekknum gegn Charlton á þriðjudag.

Hins vegar þá tókst Neil Mellor að hljóta hnémeiðsli í þessum varaliðsleik og er nú talið mjög líklegt að hann missi af restinni af þessu tímabili vegna meiðsla. Hann slæst í hóp með Xabi Alonso, Djibril Cissé, Josemi, Harry Kewell, Chris Kirkland, Florent Sinama-Pongolle, Sami Hyypiä og Richie Partridge, en þeir eru allir meiddir í dag. Þá eru Antonio Núnez og Dietmar Hamann í leikbanni á þriðjudag gegn Charlton … sem gerir það að verkum að byrjunarlið okkar í þeim leik gæti orðið eitt það skrýtnasta sem við höfum séð lengi.

stevie_rules.jpg Svo er það frétt sem ég ætla að kalla skemmtilegustu frétt janúarmánaðar. Það er ekki mikil pressa á fyrirliðanum okkar núna að tjá sig um framtíð sína; við erum komnir í bikarúrslit og hann á séns á að lyfta dollu sem fyrirliði okkar, við erum að nálgast 16-liða úrslitin í Meistaradeildinni og erum að rembast við 4. sætið í deildinni. Engu að síður ákvað Gerrard, af fádæma visku sinni, að opna ormadósina á ný í gær: GERRARD TO DECIDE ON FUTURE IN SUMMER

Og blöðin voru ekki lengi að taka við sér. Í dag, sunnudag, mun Daily Mail slúðurblaðið í Englandi halda því fram að Gerrard hafi þegar gert ‘leynilegan’ samning við Chelsea um að ganga til liðs við þá í sumar fyrir 30-milljónir punda. Auðvitað hafa þeir haldið þessu fram áður. Þann 25. júní 2004 átti Gerrard að hafa verið búinn að skrifa undir hjá Chelsea, en hann gerði hið gagnstæða og hélt blaðamannafund tveim dögum seinna þar sem hann sagðist ætla að vera kyrr.

Engu að síður, þá hefur ormadósin verið opnuð og slúðurblöðin eru komin í feitt. Einfaldlega sagt, þá skuluð þið undirbúa ykkur fyrir mikinn pirring á næstunni … því að það verður fjallað um lítið annað fyrir úrslitaleik okkar við Chelsea eftir mánuð en fyrirhugaða, mögulega sölu okkar á Gerrard til Chelsea. Og ef við töpum fyrir þeim í úrslitum Deildarbikarsins verður það notað sem “sönnun” þess að Gerrard sé pottþétt farinn, og svo framvegis, og svo framvegis, og svo framvegis…..

Bottom line: búið ykkur undir pirring fram á vorið. Ef þið haldið að þetta hafi verið slæmt í fyrra, þá skuluð þið bara bíða eftir næsta sumri. Næsta sumar munu Chelsea líklegast státa af sigri í Úrvalsdeildinni, og verða því “ríkjandi meistarar Englands” og allt sem því fylgir … þannig að þá munu menn telja enn líklegra að Gerrard vilji fara til þeirra.

Fyrir mitt leyti þá er mín skoðun á Steven Gerrard þessi:

Gerrard var einu sinni uppáhaldsleikmaðurinn minn. En hann er það ekki lengur. Ekki af því að hann er bendlaður við Chelsea, heldur af því að mér líkar illa það starf sem hann er að vinna sem fyrirliði Liverpool FC. Sem fyrirliði á hann að vera að rífa liðið áfram á vellinum, hann á að vekja sjálfstraust með liðinu og aðstandendum þess bæði innan vallar sem utan. En hvað hefur hann gert síðan hann varð fyrirliði? Jú, hann hefur spilað alveg fáránlega góða knattspyrnu og sýnt að hann er í algjörum heimsklassa. En hann hefur líka farið illa með Liverpool FC að vissu leyti. Hann hefur notað tækifærin til að minna á að hann fari ef við náum ekki árangri, hann hefur aldrei neitað því að hann sé á förum þótt hann hafi fengið marga sénsa til, og svo mætti lengi telja.

Beisiklí, þá er ég nánast kominn á þá skoðun að við verðum að selja Gerrard í sumar til að liðið geti haldið áfram að þróast, og ég skal útskýra þá skoðun mína:

Stærsti ókosturinn sem fylgir því að hafa Gerrard í okkar röðum er helvítis slúðrið. Það er sama hvað menn segja, þetta hefur áhrif á liðið í kringum hann og þjálfarann, um leið og þetta hefur neikvæð áhrif á áhorfendur og áhangendur liðsins. Liðið gæti höndlað slúðrið eitt og sér, ekki spurning, ef ekki væri fyrir orð fyrirliðans sjálfs. Hann hefur ekki neitað þessum sögusögnum í vetur, þvert á móti hefur hann notað tækifærin sín til að minna okkur hin á það hversu mikilvægt það sé að vinna titla, til að hann verði kyrr.

Hann er beisiklí búinn að hóta klúbbnum í vetur: vinnið titla, annars…

Þetta er náttúrulega óþolandi framkoma fyrirliðans okkar. Hann sagði síðasta sumar að hann ætlaði að vera kyrr og taka þátt í byltingu Rafa Benítez – hann átti að drullast til að standa við það … ekki byrja að hóta brottför næsta sumar strax í haust. En það er einmitt það sem hann hefur gert, og því get ég bara ekki litið hann sömu aðdáunaraugum og suma aðra leikmenn liðsins.

SUMARIÐ: Í sumar sé ég tvo kosti, og aðeins tvo kosti í stöðunni. Í fyrsta lagi, þá náum við 4. sætinu í deildinni og vinnum Deildarbikarinn og Steven Gerrard ákveður að vera. En þá líka verður hann að framlengja samning sinn, annars verður hann seldur hvort sem honum líkar betur eða verr.

Í öðru lagi, þá ákveður hann að hann vilji fara frá Liverpool og við seljum hann – til liðs utan Englands. Ég er með það á hreinu að ef David Moores, Rick Parry & félagar samþykkja söluna á Steven Gerrard til Chelsea, þá verður allt vitlaust fyrir utan Anfield. Ég verð persónulega brjálaður! Við einfaldlega seljum ekki Steven Gerrard til liðs sem við ætlum að vera að berjast við um titilinn á næstu árum – það er ekki peninganna virði að styrkja þá svo mikið og veikja okkur svo mikið – sama hversu miklir peningar eru í boði.

Þannig að ef Gerrard vill fara í vor þá tel ég að Parry & Moores muni einfaldlega taka upp símtólið og hringja í Real Madríd og Barcelona. Þangað má hann fara fyrir 30 millur fyrir mér – við getum notað peninginn til að kaupa menn í hans stað. En ekki til Chelsea, Arsenal, Man U eða neins annars liðs í Englandi. Ekki séns. Ekki glæta. Kemur ekki til greina!

Þannig að staðan í dag er sú að við munum 100% þurfa að þola Gerrard-slúðrið fram á vorið, og mín spá er sú að hann mun lítið gera til að kála því slúðri. Í vor munum við síðan fá annað af tveimur: hann framlengir samning sinn eða gengur til liðs við Real Madríd/Barcelona.

Allt annað er óásættanlegt. Ef Gerrard segist ætla að gefa þessu annað ár, en framlengir ekki samning sinn, þá mun slúðrið halda áfram af fullum krafti næsta vetur. Og ef Gerrard fer til Chelsea þá verðum við í djúpum, djúpum, djúúúpum skít og getum í raun kysst titilinn bless næstu 5 árin segi ég og skrifa. Mourinho er það góður þjálfari að hann mun gera Makelele, Lampard, Gerrard, Tiago og Parker að ósigrandi miðju á næstu árum.

Á einn eða annan hátt mun slúðrið deyja í sumar – það verður að deyja, svo að Rafa Benítez geti fengið að vinna sína vinnu í friði og þróa liðið án þess að hafa þetta helvítis Gerrard-akkeri um hálsinn. Það getur ekki verið hollt fyrir liðið að Rafa þurfi að vinna undir þessum hótunum “fyrirliðans” okkar.

Já, og ef Steven Gerrard fer þá verður Jamie Carragher nýr fyrirliði. Það er leikmaður sem öskrar á menn á vellinum, peppar menn upp þegar á móti blæs, skammar menn þegar þeir eru slakir, leiðbeinir öllum sem einum á vellinum og talar ávallt eins og sannur Liverpool-maður sem myndi ekki detta í hug að fara. Jamie Carragher er ekki jafn góður knattspyrnumaður og Steven Gerrard, en hann er engu að síður uppáhalds Liverpool-leikmaðurinn minn í dag – og ólíkt Gerrard þá veit ég að hann verður það næstu fimm árin a.m.k. … þar sem hann er ekki á förum. Það væri óskandi að allir væru jafn trúir sínu æskufélagi og hann…

8 Comments

  1. Þetta Steven Gerrard mál er orðið svo pirrandi núþegar að það pirrar mig bara að sjá leikmanninn!! Persónulega finnst mér hann ekki eiga að vera fyrirliðinn undir þessum kringumstæðum. Hann berst vissulega fyrir liðið en með allt þetta gráa ský sem er yfir hans málum og hans framtíð hjá LFC, þá er Jamie Carragher maðurinn sem á að bera bandið. Sá maður mundi fara illa með ömmu sína til þess að vernda LFC!

    Það er vissulega erfitt að giska á hvað gerist í sumar með menn eins og Parry og Moores uppi í efstu hæðum að reyna að stjórna klúbbnum. Persónlega hafa þessir menn virkilega valdið mér vonbrigðum að því leytinu til að þeir ÆTLUÐU að selja Gerrard fyrir 30 milljónirnar síðsta sumar sem er hreint út sagt fáránlegt! Ég meina, alltaf þarf LFC að kaupa leikmenn á hellings pening en svo þegar selja á leikmenn fara þeir á hluta verðsins sem hægt væri að selja þá á!

    Persónulega vil ég að Steven Gerrard komi út úr sér það sem hann er að hugsa og ef hann hefur ekki áhuga á að vera þá fari hann! Það að selja hann “innanlands” þýðir að við erum að gera aðra andstæðinga sterkari og við þurfum síðan að keppa við þá. Að selja hann til Spánar eða Ítalíu þýðir að það er skárri kostur ef um skárri kost er að ræða.

    Ég vil sjá nærri 50 m punda markinu verðmiðann á honum og láta liðin sem hafa áhuga á honum borga fyrir hann! Það er verið að borga yfir 20 m fyrir Drogba hjá Chelsea, 29m var Veron keyptur á….en nei…við ætlum að selja hann á 30 m.

    Æji, mér er orðið skít sama um þennan mann og megi hann drulla sér í burtu ef hann hefur ekki manndóm í að vera áfram til að sýna það að hann hafi áhuga á Rafa-byltingunni. Þessum fáeinu pundum verður varið í leikmenn sem hafa áhuga á að spila fyrir LFC.

  2. Alveg 100 % sammála þér í öllu þessu í sambandi við fýlupúkann hann Steven Gerrard! Hann er ekki búinn að vera að leggja sig allan fram að undanförnu til að gera sitt besta fyrir klúbbinn! 😡

  3. …og já. Steven Gerrard hefur staðið sig óvenju vel inn á milli í leikjum í vetur en þess á milli hefur hann spilað eins og hann væri í fýlu eða væri ósáttur. Ég vil sjá leikmenn sem sýna ákafa og í raun að þeir séu liðsmenn þess liðs sem þeir spila fyrir en ekki að hugsa um framtíð sína annarsstaðar. Ég mundi frekar halda að það væri meira challenge að vera hjá liði sem er að byggja upp en að fara til liðs sem getur keypt 1 leikmann á dag allt árið fyrir 10 m punda að meðaltali hvenær sem þeim sýnist að er nauðsynlegt. Asnalegt að segja það en leikmenn sem fara til svoleiðis liða finnst mér í raun ekki vera neitt meira metnaðarfyllri en maður sem vil byggja upp lið hjá “fátækara” liði. Ég legg til að Steven Gerrard lesi engin dagblöð né hlusti á neinar íþróttafréttir í TV og fyrir alla muni stein haldi kjafti í fjölmiðlum svona til tilbreytingar fram undir næsta haust! Það verður allt snúið við hvernig sem á það er litið og gerir hann bara æstari í að fá feitari útborgun (sem í raun hann fengi hjá LFC ef hann vildi vera áfram) og fara annað.

  4. Rek ég síðan ekki augun akkúrat í

    Þessa grein

    þar sem er verið að tala um að eigi að taka fyrirliðabandið af Stevie G. og afhenda það engum öðrum en Jamie Carragher. Skemmtilegt! 😉

  5. Hann er bara pirraður strákurinn, sanniði til, hann á eftir að sýna sínar réttu hliðar innan skamms. Og þá verðum við allir ánægðir aftur. Allt þetta tal hefur bara haft slæm áhrif á hann. Ruglað hann!!!

    Spái því hann komi ferskur inn í næsta leik sem er mikilvægur kvöldleikur gegn Charlton.

    Eins gott fyrir hann!!!

  6. Ég er ekki frá því að Gerrard sé farinn að verða full góður með sig, ég vill fá að sjá Carrragher sem fyrirliða og láta benitez aga Gerrard aðeins til.

    Ég efast ekki um að það mundi gera liðinu gott að svipta Gerrard fyrirliðabandinu….

  7. Meiddist Mellor ekki FYRIR leikinn en ekki í leiknum ? Get ekki betur séð útfrá þessari leikskýrslu á official vefnum.

  8. Sem fyrliði ætti Gerrard ekki að vera að gefa út einhverjar leiðinda yfirlýsingar.
    Ég held að Carragher eigi að taka við fyrirliðabandinu hvort sem Gerrard fer eða ekki, en þá fer hann í fýlu helvískur.

Henchoz til Celtic (staðfest) + Tony LeT

Charlton á morgun!