Watford á morgun, seinni leikur!

heidar_watford.jpgÚfff, eftir eina hræðilegustu viku sem ég man eftir sem Liverpool-aðdáandi, þar sem eini ljósi punkturinn voru kaupin á Scott Carson, þá er maður eiginlega hálf feginn að það sé kominn mánudagur og ný vika byrjuð. Fyrir tveimur vikum síðan unnum við Watford, 1-0 á Anfield í jöfnum og miklu meira spennandi leik en maður átti von á. Síðan þá höfum við ekki skorað mark, og tapað þremur mjög slæmur leikjum.

Liðið hefur ekki skorað, ekki spilað saman, vörnin hefur verið hriplek, markvörðurinn mistækur og sjálfstraustið er orðið lítið sem ekkert. Þrjú töp í röð og meiðslalistinn stækkar sífellt: Hyypiä missir af leiknum á morgun vegna meiðslanna sem hann hlaut gegn Southampton á laugardag.

Í ljósi alls þessa þá geri ég eftirfarandi kröfur gegn 1. deildarliði Watford á morgun: Að komast í úrslit Deildarbikarsins, með öllum tiltækum ráðum. Það þýðir að beisiklí þá er mér slétt sama hvernig liðið spilar á morgun, eins lengi og við töpum ekki leiknum.

0-0 jafntefli þar sem við liggjum í vörn í 90 mínútur? Fínt. Bara ekki tap! Mér finnst eiginlega til of mikils ætlast að liðið fari að spila einhvern blússandi fótbolta á morgun – miðað við þann skort á sjálfstrausti sem háir liðinu þá getum við ekki beðið um mikið meira en að lifa þennan leik af.

Einhvers staðar verður leiðin til hins betra að byrja, og þótt ég eigi enga von á góðri frammistöðu á morgun þá tel ég það mjög stórt skref fram á við ef við komumst í úrslit í þessari keppni. 2-1 tap kæmi okkur áfram á marki skoruðu á útivelli, en eins og ég sagði áðan vill ég ekki tapa þessum leik. Bara alls ekki tapa.

Nú, einu breytingarnar frá því á laugardaginn eru þær að Hyypiä er meiddur og skv. Liverpool Echo koma þeir Steve Finnan og Josemi inn í hópinn á morgun. Þannig að ég gæti trúað að David Raven detti út úr 16-manna hópnum. Já, og Scott Carson gæti verið ólöglegur ef hann er búinn að spila með Leeds í Deildarbikarnum (er ekki viss) og þá yrði Patrice Luzi sennilega á bekknum.

Annars tel ég að byrjunarliðið verði svona á morgun:

Dudek

Finnan/Josemi – Carra – Pellegrino – Traoré

Pongolle – Gerrard – Hamann – Riise

Baros – Morientes

BEKKUR: Carson/Luzi, Finnan/Josemi, Warnock, Biscan, García.

Sem sagt, eftir slakan leik síðast gæti ég séð Rafa fyrir mér gefa Pongolle séns á kantinum, en hann átti góða innkomu þar síðast. Þá tel ég að hann noti tækifærið við endurkomu hægri bakvarðanna okkar til að færa Carragher aftur inn í miðja vörnina, á meðan Traoré kemur aftur inn í liðið fyrir Warnock sem var slæmur á laugardaginn.

Svo fer það bara eftir því hvor þeirra er meira tilbúinn í slaginn og orðinn betri af meiðslum sínum, hvor þeirra Finnan eða Josemi verður í hægri bakverði. Hallast að því að það verði Finnan, þar sem hann hefur verið frá í talsvert styttri tíma.

MÍN SPÁ: Ég sé okkur fyrir mér berjast eins og ljón á morgun, eftir þrjá andlausa leiki hlýtur einhvern tímann að koma að því að okkar menn segi “hingað og ekki lengra,” og mæti dýrvitlausir í leik. Á morgun er bara hreinn úrslitaleikur. Við erum búnir að spila fimm leiki í þessari keppni og vinna þá alla hingað til – en það skiptir nákvæmlega engu máli ef að illa fer á morgun. Ég held að við munum koma til með að annað hvort gera jafntefli, 0-0 eða 1-1 í miklum baráttuleik … eða þá að við náum að sigra þetta, kannski 1-0, kannski 2-1. En að mínu mati er ljóst að þetta verður baráttuleikur og það verður ekki mikið um mörk í honum – nema Pellegrino ákveði að sýna Heiðari Helgusyni sömu gestrisni í vörninni og hann sýndi leikmönnum Southampton á laugardaginn.

Við ykkur áhangendur liðsins – sem og sjálfan mig – segi ég bara að það er kominn tími til að láta pirring síðastliðinnar viku lönd og leið. Á morgun er liðið okkar að spila undanúrslitaleik í bikarkeppni og ef sá leikur fer vel getum við farið að hlakka til úrslitaleiks gegn annað hvort Man U eða Chelsea á Millennium Stadium í Cardiff í mars. Mér er sama þótt þetta sé bara “hin bikarkeppnin” í Englandi, það yrði svakalega, svakalega, svakalegur leikur fyrir bæði okkur og það lið sem við mættum í úrslitum. Ef það yrði Man U þá væri það enn eitt stríðið á milli gamalla fjenda – ef það yrði Chelsea þá yrði mikið Hollywood-drama í gangi fyrir leikinn, þar sem Steven nokkur Gerrard er ennþá leikmaður Liverpool, ekki Chelsea.

En fyrst þarf að klára leikinn annað kvöld og það er alls ekkert víst að það gerist. Ég vona að þetta gangi okkur í hag og ég geti skrifað leikskýrslu hér eftir tæpan sólarhring þar sem ég fagna fyrsta úrslitaleiknum undir stjórn Benítez! Áfram Liverpool!!!

p.s.
Mér finnst við hæfi að segja frá því að ef Igor Biscan kemur við sögu á morgun verður það 100. leikur hans fyrir Liverpool FC. Hann hefur verið hjá okkur í hjartnær fimm ár og spilað 99 leiki, skorað 2 mörk, fengið á sig 8 gul spjöld og 3 rauð spjöld. Hann hefur leikið í vörninni, á miðjunni, á hægri kanti og í hægri bakverði á þessum fjórum árum og hefur jafnan verið einhver mest hæddi, en um leið vinsælasti leikmaður Liverpool síðan árið 2000. Til hamingju IIIIIIIIIIIIGOOOOOOOOR!!! 😀

8 Comments

 1. Þakka góðan pistil Kristján…en ég vil benda þér á eitt… Þessi bikarkeppni er ekki eins og flestar bikarkeppnir, varðandi útimörk……þau hafa ekkert að segja í Deildarbikarkeppninni. 2 – 1 fyrir Watford = FRAMLENGING ! Hef trú á að Púlararnir rísi upp og sýni sitt rétta andlit, ef þeir gera það og komast til Cardiff þá fer ég líka til Cardiff….hvað með þig??!! YNWA

 2. ef það fer 2:1 fyrir Watford í venjulegum tíma þá er framlenging og ef það er ennþá 2:1 eftir framlenginguna þá erum við áfram. en við töpum þessum leik EKKI. það væri sorglega lélegt að tapa 4 leikjum í röð

 3. Verð að benda á að hræðilegasta vika mín sem liverpool-aðdáanda byrjaði með síðasta leik leiktíðarinnar vorið 1989. Og stendur enn ljóslifandi í minningunni, þannig að vikan er varla liðin. Og ég efast um að einhverjir eigi eftir að núa salti í sárin með því að gera skáldsögu og bíómynd um síðustu viku. Þannig að þetta er ekkert svo slæmt núna, finnst mér. 🙂

 4. og enn versnar vikan…
  alonso verður víst ekki meira með á þessu tímabili… benites var að segja í morgun að alonso yrði sennilega frá fram í maí… 😡
  lengi getur vont versnað… :confused:

 5. Ég held ég hafi líka lesið að Benitez hafi slitið krossband á leiðinni út á pósthús og verði frá í 3 mánuði. 😯

 6. Já þetta er núna staðfest. Rafa verður frá út tímabilið. Mér skilst að José Antonio Camacho eigi að koma inn í liðið í hans stað… :tongue:

  Annars er þetta fáránlegt með meiðslin okkar, ef maður pælir í þessu. En það hlýtur að koma að því að maður spyr sig – af hverju erum við að lenda í öllum þessum meiðslum og United líka, á meðan Arsenal og Chelsea ná að halda sér nærri því algjörlega meiðslalausum yfir veturinn, og missa a.m.k. ekki neina menn í alvarleg meiðsli?

  Er þetta bara óheppni sem kemur hér við sögu, eða þarf eitthvað að endurskoða æfingarnar hjá okkur?

  Samt: Gerrard, Alonso & Cissé (fótbrotnir), Núnez (nýkominn), Baros & Kewell (meiddir í landsleikjum) og Kirkland (bakmeiðsli allan ferilinn) eru allt meiðsli sem geta varla skrifast á æfingaaðferðir Rafa Benítez. Erum við virkilega svona óheppnir?

Benitez VILL fá Solari í sumar!

Alonso frá út tímabilið