Southampton á morgun!

Jæja, oft var þörf en nú er nauðsyn! Eftir frekar slappa viku taka leikmenn næstneðsta liðsins, Southampton, á móti okkar mönnum á St. Mary’s um hádegisbilið á morgun. Það er innan við mánuður síðan við mættum þeim síðast, en þá unnum við 1-0 á Anfield í mjög bragðdaufum leik … þökk sé góðu marki frá Florent Sinama-Pongolle.

Hann verður væntanlega ekki í liðinu á morgun þar sem þeir Baros og Morientes eru nú til staðar, en verður væntanlega samt á bekknum og reiðubúinn að endurtaka leikinn. Annars er mjög erfitt að spá til um það hvaða lið mun mæta út á völlinn á morgun – bæði hvaða leikmenn og hvernig hugarfar þessir leikmenn hafa. Þetta hefur verið mjög erfið vika en þó var ljós í myrkrinu í gær þegar Scott Carson mætti á Anfield.

Allavega, það er enn óljóst hvort þeir Steve Finnan og Steve Gerrard geta spilað á morgun, auk þess sem Milan Baros sást haltra undir lok tapleiksins gegn Burnley á þriðjudag. Gefum okkur samt að þeir verði allir heilir á morgun, þá ætti liðið að vera nokkurn veginn svona:

Dudek

Finnan – Hyypiä – Pellegrino – Carragher

García – Gerrard – Hamann – Riise

Baros – Morientes

BEKKUR: Carson, Warnock, Biscan, Pongolle, Mellor.

Antonio Núnez verður í banni á morgun, þar sem hann fékk beint rautt spjald gegn Burnley þarf hann að afplána þrjá leiki. Ef Finnan er meiddur á morgun geri ég ráð fyrir að Warnock komi inn í byrjunarliðið, og Carragher fari í hægri bakvörðinn. Ef Gerrard er meiddur kemur Biscan væntanlega inn – þrátt fyrir að hafa leikið afleitlega á þriðjudaginn er hann okkar besti kostur í dag. Í raun sá eini sem við höfum. Og eins og áður sagði, ef Baros er meiddur þá mun Pongolle verða tilbúinn til að endurtaka leikinn frá því um jólin.

Glöggir menn sjá að ég set Djimi Traoré ekki í hópinn. Það þarf ekki vísindamann til að sjá af hverju hann ætti bara að vera í fríi á morgun og hugsa sinn gang.

MÍN SPÁ: Það virðast allir vera að bíða eftir því að Rafa tapi á morgun og verði undir enn meiri pressu, en ég er þolinmóður og veit að jafnvel þótt þetta gangi ekki eftir á morgun þýði það ekki þar með að hann sé rangur maður í starfið. Fólk má ekki vera svona fljótt upp á nef sér.

Hins vegar sé ég ekki að þetta ætti að verða neinn vandræðaleikur. Okkar menn hljóta að vera nett brjálaðir eftir síðustu tvo leiki og vilja ólmir sýna hvað í þeim býr, þagga niður í gagnrýnisröddunum og allt það. Það bara hlýtur að vera! Þá koma þarna inn menn eins og Carragher, Riise og MORIENTES, sem ættu að geta riðið baggamuninn á morgun. Reyndar gætum við lent í vandræðum á miðjunni ef Gerrard er meiddur en að öðru leyti tel ég okkur geta – og eiga – að sigra þetta Southampton lið sannfærandi á morgun.

3-1 fyrir okkur og Morientes skorar sitt fyrsta mark í rauðu. 🙂

Ein athugasemd

  1. Ég sé það af ummælum þínum hér að ofan að þú ert að undirbúa jarðveginn ef ske kynni að þessi leikur tapaðist. Rétt hjá þér. Ég í það minnsta verð nokkuð rólegur þó illa fari. Benites fær sénsinn hjá mér í það minnsta fram á vor og mun lengur ef við vinnum Carling Cup, Leverkusen, og náum 3 til 4 sæti í PL :rolleyes:

    Annars var mín spá nákvæmlega sú sama og þín, 1-3!!

Carson búinn að skrifa undir

Southampton 2 – “Liverpool” 0