Meistarahópur: hvað vantar mikið uppá?

SAVIOLA.jpgEftir töpin gegn Chelsea og Man U nú á fyrri hluta janúarmánaðar held ég að það sé rétt að huga aðeins að þeirri spurningu sem mér finnst brenna hvað helst á huga mér: Erum við með nógu góðan hóp til að sigra deildina? Og ef ekki, hversu mikið vantar uppá?

Ég ætla að kíkja aðeins á hópinn okkar eins og hann er í dag og týna til þá leikmenn sem ég tel vera nógu góða til að spila með sigurliði í ensku Úrvalsdeildinni. Hér tel ég aðeins til þá leikmenn sem ég held að 99% aðdáenda Liverpool myndu vera sammála um að væru í sigurklassa. Aðra flokka ég sem annað hvort “óákveðna” eða “ekki nógu góða”. Til samanburðar ætla ég að líta aðeins á hópinn hjá Chelsea, sem eru í fullri hreinskilni með sterkasta hópinn í Evrópu í dag að mínu mati, þótt þeir séu ekki endilega með sterkasta 11-manna byrjunarliðið.

En hér er allavega mitt mat á hópnum okkar. Endilega tjáið ykkur síðan ef þið viljið bæta einhverju við, eða eruð ósammála á einhvern hátt.


MARK: Enginn nógu góður hér, því miður.

VÖRN: Steve Finnan, Jamie Carragher, Sami Hyypiä, John Arne Riise.

MIÐJA: Steven Gerrard, Xabi Alonso, Harry Kewell.

SÓKN: Fernando Morientes, Milan Baros, Djibril Cissé, Florent Sinama-Pongolle.

ÓVISSIR: Djimi Traoré, Josemi, Mauricio Pellegrino, Stephen Warnock – Antonio Núnez, Luis García, Anthony Le Tallec, Igor Biscan, Alou Diarra, Dietmar Hamann, Darren Potter.


Hér er augljóst að mínu mati hvaða staða er sterkust. Ég tel til fjóra framherja einfaldlega af því að þeir eru nógu góðir, að mínu mati. Þrír þeirra eiga það sameiginlegt að hafa leikið í Evrópukeppnum, spila reglulega með sínum landsliðum og að hafa unnið markakóngstignir í einni eða fleiri deildum/stórmótum. Það finnast einfaldlega ekki margar betri framherjaþrennur í heiminum en Baros/Cissé/Morientes. Pongolle er ekki alveg á sama leveli og þessir þrír ennþá, en ég skora á menn að sýna mér betri og heilsteyptari 20-ára gamlan framherja í Evrópu. Þeir eru einhverjir, en fáir jafn góðir og Pongolle svona ungir. Hann er efnilegur.

Ef við lítum á aðrar stöður þá tel ég okkur vanta heimsklassamarkvörð. Dudek og Kirkland eru góðir, en það er ekki nóg. Snöggur samanburður við tvo aðalmarkverði Chelsea, AC Milan, Real Madríd, Juventus og Barcelona (svo að nokkur lið séu nefnd) sýnir það greinilega að okkur vantar a.m.k. einn heimsklassamarkvörð, ef ekki tvo. Þetta er vandamál sem verður að laga fyrir næsta tímabil.

Í vörninni erum við með að mínu mati fjóra menn sem eru nógu góðir og gætu þeir saman myndað vörn sem er að mínu mati nógu sterk til að byggja titiltímabil á. Þá eru nokkrir í óvissuflokknum, Traoré hefur t.d. verið frábær í vetur en á eftir að sanna að hann geti spilað svona í nokkur ár, að þetta sé varanlegt. Þá eru Pellegrino og Josemi of nýkomnir til Englands til að hægt sé að fella endanlegan dóm. Warnock hefur sýnt mikið efni en er enn óviss sem lykilmaður. Ef þrír af þessum fjórum reynast vera jafn góðir og þeir fjórir sem eru þegar nógu góðir, þá erum við komnir með ágætis varnarhóp. Þó vantar okkur enn meiri breidd í það svæði vallarins.

Á miðjunni tel ég til þrjá leikmenn sem við vitum að eru nógu góðir. Um hæfileika Gerrard og Alonso þarf ekkert að deila og þótt Kewell hafi átt slappt ár í fyrra þá vitum við nákvæmlega hvað hann getur. Og ég á von á að hann sýni okkur það þegar hann kemur inn úr meiðslum – vonandi hefur tíminn utan vallar gefið honum séns á að jafna sig andlega og líkamlega og hann snýr aftur endurnærður.

Þá vek ég athygli á því að ég tel til heila 7 miðjumenn undir “óvissu”. Þar eru t.d. Igor Biscan, sem mér finnst vera fyrirtaks varaskeifa fyrir Gerrard/Alonso en á enn eftir að sanna að hann geti borið miðjuna uppi yfir heilt tímabil ef þess þarf með. Hamann er besti varnarmiðjumaðurinn í hópnum okkar en hann er of einhæfur til að geta talist verið lykilmaður í meistaraliði. Þá eru Alou Diarra og Le Tallec í láni en gætu orðið lykilmenn í framtíðinni. Þá tel ég einnig til García og Núnez, sem eins og Josemi og Pellegrino eru búnir að vera hér of stutt til að við getum fellt stóradóm. Darren Potter hefur síðan sýnt efni sem minnir mig á ungan Steven Gerrard, þótt hann sé öllu sókndjarfari, og ég tel ágætis líkur á að hann geti orðið framtíðarmaður hjá okkur.

Í framlínunni erum við þegar með fjóra framherja sem eru “nógu góðir”, og hvað fimmta framherja varðar getum við ekki beðið um miklu betra en Neil Mellor (þar sem betri menn en hann myndu aldrei sætta sig við að vera fimmti kostur einhvers staðar). Sú staða er sú sem ég myndi ekki leggja neina áherslu á í sumar – nema bara leggja ofurkapp á að missa Baros ekki til Barcelona. 🙂

chelsea1.jpgÞannig að hvað varðar leikmannakaup í framtíðinni held ég að tvær stöður hljóti að vera lykilatriði: markvörður og miðjumenn. Bara almennt miðjumenn.

Eftir hálft ár fara sumarkaupin í garð og ég er þess fullviss að þá verði full þörf á að kaupa einn heimsklassamarkvörð. Jafnvel tvo, ef Rafa kaupir ekki neinn í seinnii hluta janúarmánaðar. Miðjan og Vörnin gætu verið orðin í ágætis lagi, þar sem það eru svo margir leikmenn í óvissu-flokknum sem gætu reynst vera nógu góðir. Ef García, Núnez, Josemi, Warnock og Biscan reynast t.d. vel á seinni hluta tímabilsins gæti verið að þessar tvær stöður fái minna vægi í sumar. En markvarðarstaðan verður alltaf í forgangi, í ljósi þess að Kirkland og Dudek eru einfaldlega ekki af þeim klassa sem við viljum sjá.

Nú langar mig hins vegar að venda kvæði mínu í kross, og telja til þá leikmenn hjá CHELSEA sem ég myndi telja vera nógu góða til að bera uppi meistaralið:


MARK: Petr Cech, Carlo Cudicini.

VÖRN: Paulo Ferreira, Glen Johnson, John Terry, William Gallas, Ricardo Carvalho, Wayne Bridge.

MIÐJA: Frank Lampard, Claude Makélele, Joe Cole, Arjen Robben, Damien Duff, Scott Parker, Géremi.

SÓKN. Eiður Smári, Didier Drogba.

ÓVISSA: Robert Huth, Alexei Smertin, Jiri Jarosek, Tiago Mendes, Mateja Kezman, Mikael Forssell.


Nákvæmlega.

Hver er munurinn á þessum tveimur liðum, Liverpool og Chelsea? Hann ætti að vera augljós öllum sem kunna að lesa. Ef allir okkar leikmenn væru heilir, og allir þeirra leikmenn líka, þá gætum við stillt upp 11-manna byrjunarliði sem væri alveg nákvæmlega jafn gott og þeirra 11-manna byrjunarlið. Og þjálfarinn okkar er alveg jafn góður og þjálfarinn þeirra.

En tímabilið virkar ekki þannig. Toppliðin spila einhverja 50-60 leiki í fjórum keppnum yfir veturinn, og lenda því óumflýjanlega í meiðslum og leikbönnum sem geta haft áhrif á gengi liðsins. En af hverju hafa Chelsea þá ekki misst flugið í allan vetur?

Einfalt. Af því að þeir eru með miklu, miklu, miklu, miklu betri breidd heldur en við. Sumir myndu segja að það sé afleiðing þess að þeir hafi eytt rúmum 200m-punda í leikmenn síðan sumarið 2003, en við höfum ekki eitt mikið minni peningum en þeir síðustu fimm árin. Ef leikmenn á borð við Bruno Cheyrou, Salif Diao, El-Hadji Diouf, og aðrir fleiri hefðu staðið undir væntingum gætum við í dag státað af miklu betri breidd en við höfum núna. Arsenal hafa eytt miklu minna en við í leikmenn síðustu 5 ár en hafa samt meiri breidd en við. Þannig að peningar eru ekki nógu góð ástæða.

Þið takið eftir því að ég tel upp leikmenn sem eru “óvissa” hjá Chelsea, og menn sem eru nógu góða, en að mínu mati er enginn einn einasti leikmaður hjá Chelsea í dag sem er augljóslega ekki nógu góður til að spila fyrir topplið. Hjá okkur í dag eru nokkrir: Salif Diao, Bruno Cheyrou, El-Hadji Diouf, Stephane Henchoz (fyrir 3 árum hefði hann verið nógu góður), Vladimir Smicer (nær bara að spila í 2 mánuði á ári, í alvöru! Hann er verri en Kirkland með meiðslin), Chris Kirkland (sjá Smicer) og Jerzy Dudek.

Þessir leikmenn hafa kostað pening á undanförnum árum. Aðeins einn þeirra, Stephane Henchoz, getur talist hafa verið kaup sem skiluðu sér á vellinum þar sem hann var lykilmaður í þrennuliðinu okkar. EN hann er orðinn of gamall til að geta talist nógu góður lengur.

Þannig að mín niðurstaða er sú að þótt allir þeir leikmenn sem ég flokka sem “óvissir” hjá okkur myndu reynast vera nógu góðir þá vantar okkur samt fleiri leikmenn uppá breiddina til að geta talist vera með nógu gott lið til að vinna Úrvalsdeildina.

Meginmálið í þessu er það að það nær ekkert lið að nota sína 16 bestu leikmenn yfir allt tímabilið, hvað þá sitt sterkasta byrjunarlið. Arsenal hafa þurft að spila löngum köflum í vetur án Sol Campbell í vörninni og Patrick Vieira á miðjunni. Chelsea voru á tímabili bara með einn heilan framherja, Eið Smára, og hafa þurft að nota William Gallas í vinstri bakverði á meðan Wayne Bridge, Glen Johnson og Celestine Babayaro (farinn til Newcastle) voru meiddir. United hafa þurft að spila án Van Nistelrooy, Keane, Ferdinand, Gary Neville, Ryan Giggs og fleiri lykilmanna á ýmsum tímum í vetur.

Samt hafa þessi lið aldrei misst flugið. Við misstum Owen og svo Gerrard í haust, svo misstum við Cissé og Baros og nú nýlega Kewell, Josemi og kannski það sárasta – Xabi Alonso. Og fyrir vikið höfum við spilað vel í mestallan vetur en verið rosalega óstöðugir. Við erum búnir að tapa tveim leikjum í Meistaradeildinni og átta leikjum í Úrvalsdeildinni hingað til. Það er allt of mikið fyrir lið sem ætlar sér að vera í toppbaráttunni.

Málið er bara það að í dag er ekki hægt að hugsa með sér hver er með besta 11-manna liðið og sjá það lið fyrir sér vinna titla. Í dag er þetta spurningin um það hverjir eru með bestu breiddina, það er liðið sem er líklegast til að spila af sömu getu yfir heilan vetur og því sigurstranglegasta liðið í deildinni. Chelsea er í dag þetta lið.

Þannig að í nánustu framtíð sé ég Benítez fyrir mér kippa markvarðarstöðunni í lag, sem og auka breiddina eins mikið og hann getur með góðum kaupum á miðjuna og í vörnina. En þetta er snúið mál. Þótt hann sé að kaupa fyrir “breiddina” er ekki þar með sagt að við þolum annað sumar af Cheyrou/Diao/Diouf, eins og 2002 var. Þá eyddum við 20 milljónum punda í ekki neitt, svo að segja. Peningarir verða að fara í rétta menn.

Dæmi:

César, Scott Carson – Ledley King, fjölhæfur varnarmaður – Wayne Routledge, Pablo Aimar, Scott Parker – David Villa.

Auðvitað er ég að skjóta út í loftið, en ef leikmannakaup okkar nú í seinni hluta janúar, næsta sumar og í janúar 2006 gætu innihaldið svona tvo-þrjá góða leikmenn í vörn og á miðju, tvo góða markverði og síðan kannski einn framherja … þá gætum við næsta sumar, eða eftir ár, verið komnir með leikmannahóp sem getur að mínu mati kallast nógu góður til að vinna Úrvalsdeildina og/eða Meistaradeildina.

Eins og er höfum við ekki hóp sem er nógu sterkur og breiður til að við getum mætt bestu liðum Englands og Evrópu án Xabi Alonso, Djibril Cissé, Josemi, Harry Kewell og Vladimir Smicer og búist við því að vinna. Því miður.

13 Comments

 1. Mjöööög góð grein Kristján. Er sammála með flestallt. Það er kannski líka vert að geta þess að ef við tökum byrjunarlið Chelsea, þeirra bestu 11:

  Cech
  Ferreira, Terry, Carvalho, Terry
  Robben, Lampard, Makélele, Tiago, Duff
  Eiður

  Þá hefur nánast enginn af þessum mönnum utan Robben verið meiddur á tímabilinu. Menn hafa kannski misst út einn og einn leik, en Chelsea hefur verið ótrúlega heppið með meiðsli. Það er kannski þess vegna sem menn telja að þeir geti unnið einhverja þrennu eða fernu í ár. Þegar Man U vann þrennuna þá fóru þeir í gegnum allt tímabilið án þess að missa lykilmenn. Ef að Chelsea heldur svona áfram án þess að lykilmenn meiðist, þá geta þeir unnið ansi mikið.

  En það er náttúrulega stórkostlega magnað hvernig sumarið 2002 fór hjá okkur. Bruno Cheyrou, Diouf og Diao fyrir 20 milljónir. Ég meina VÁ! Það er í raun fáránlegt að telja upp þá menn hjá Chelsea, sem hafa kostað minna en Diouf. Lampard kostaði það sama, Cech minna, Cole minna, Parker minna, ROBBEN minna, Eiður Smári minna. Maður getur varla talið þetta upp ógrátandi. Auðvitað var þetta sumar upphafið að endinum hjá Houllier. Eftir að við lentum í öðru sæti þá eyðir hann 20 milljónum í þessa hauga!

  En ég er nokkurn veginn á að okkar veikustu stöður (fyrir utan markverðina, sem þarf nú varla að minnast á) séu kantarnir. Þar vantar mestu breiddina. Maður hefur ekki séð nóg til að sannfærast um Garcia, Núnez og Riise. Þar hefur okkur þó farið fram gríðarlega á milli ára. Ég myndi allavegana velja Garcia, Riise, Núnez og Kewell fram yfir Cheyrou, Murphy, Riise og Kewell alla daga ársins.

 2. Ágætis vangaveltur Kristján Atli. Mér finnst samt eitt gleymast í þessu sambandi. Það er “Akademían”. Til lengri tíma litið þá liggur galdurinn þar, í grasrótinni. Ég vona að Rafa hafa hugsjón fyrir uppbyggingarstarfi. Og mér finnst hann hafa það. Það er aðdáunarvert hvernig hann hefur tekið inn unga stráka í liðið. Ég vil kannski sjá meira af því í vörninni og miðjunni.

  Það er ekki bara nóg að kaupa og kaupa leikmenn. Það þarf að búa til leikmenn og það helst fleiri en fáa!!!!!! 😉

 3. Jú ég er sammála þér með það JónH – akademían getur gegnt veigamiklu hlutverki, þess vegna taldi ég til þá Darren Potter, Stephen Warnock og Neil Mellor, auk ungu Frakkanna. Að mínu mati eru þeir þeir einu sem eiga séns á að vera eitthvað í hópnum að ráði á næsta vetri, og þar sem ég var að fjalla um hvað þarf til til að geta barist um titilinn næsta haust, þá voru þeir þeir einu sem mér fannst koma til greina.

  Akademían mun síðan vonandi skila okkur inn 2-3 nýjum klassamönnum á hverjum 5 árum, eins og hún gerði síðast með Owen og Gerrard, og þar áður Fowler/McManaman/Carragher, o.sv.frv. En undanfarin fimm ár hefur lítið sem ekkert komið þaðan, og Benítez virðist vera að reyna að breyta því … sem er bara jákvætt.

 4. Ég veit ekki hverjir þið eruð, og þið vitið ekki hver ég er, en þar sem ég villtist inn á þetta þá finnst mér rétt að nefna eitt varðandi eftirfarandi komment:
  “Pongolle er ekki alveg á sama leveli og þessir þrír ennþá, en ég skora á menn að sýna mér betri og heilsteyptari 20-ára gamlan framherja í Evrópu. Þeir eru einhverjir, en fáir jafn góðir og Pongolle svona ungir. Hann er efnilegur.”

  Pongolle hefur aldrei sannað sig í stórleikjum, hvorki á Englandi né í Evrópu, sást m.a. á móti Man Utd, að hann á ekkert í góða og reynda varnarmenn eins og Campbell, Silvestre o.fl. . Drengurinn er vissulega lunkinn, en hefur ekki náð að festa sig í sessi í mikilvægum leikjum (og já, ég veit að hann skoraði á móti Olympiakos, en Mellor skoraði líka þá, og það vita nú allir að hann er svona Michael Bridges týpa, getur ekkert.) Og fyrst það var skorað á lesendur að nefna betri og heilsteyptari 20 ára gamla framherja þá hefst upptalningin:

  Fernando Torres (Atletico Madrid) 1984 – Er búinn að skora tæplega 50 mörk fyrir Atletico þrátt fyrir ungan aldur.
  Obafemi Martins (Inter) – Nautsterkur, snöggur. Er reyndar bara búinn að skora 6 mörk í Serie A í ár, en sýndi það í fyrra, bæði í deild og Evrópu (skoraði m.a. 4 mörk í CL í fyrra) að hann á eftir að verða heimsklassaframherji.
  Valeri Bojinov (Lecce) – Einn af efnilegustu framherjum Evrópu ásamt Torres, og jafnframt mjög eftirsóttur. Búinn að skora 10 mörk í Serie A í vetur.
  Wayne Rooney (Man Utd) – Held að ég þurfi ekki að segja neitt um hann.
  Jose Paolo Guerrero (Bayern München) – búinn að skora 5 mörk þrátt fyrir að hafa aldrei verið í byrjunarliði, og samtals einungis spila u.þ.b. 200 mínútur eða svo.

  Síðan ef maður fær að fara út fyrir Evrópu þá er hægt að nefna Robinho og Carlos Tevez.

 5. Þarna kemur þú inn á punkt einar, sem mér finnst vera mjög litið framhjá. Það er einginn virkilega sterkur kantmaður í liðinu í dag! Vissulega ætti harry kewell að vera sá maður, en hann hefur bara ekki sýnt sitt besta form í langan tíma. Það er fjarri mér að hoppa á berjum-á-harry-kewell bandvagninn, en á þessu tímabili hefur vantað svo mikið menn sem geta tekið menn á og þvingað varnir til að breiða úr sér, og búa þannig til pláss fyrir okkar frábæra miðjupar. Þar sem Harry Kewell hefur ekki náð sér á strik, og Garcia er enn langt frá því að ná að sýna það sem hann gerði hjá Barcelona held ég að við verðum að setja sigtið á að kaupa sterkan kantmann. (ásamt því að kaupa markmann að sjálfsögðu).
  Ef við fáum 1-2 frábæra kantmenn þá erum við að verða virkilega öflugir, mér finnst persónulega vörnin allavega sleppa enn sem komið er. Vandamálin á þessu tímabili hafa alltaf verið í sköpun marka, minna í vörn.

 6. P.S.
  Það er fjarri mér að vera dónalegur, en Chelsea með sterkasta hópinn í Evrópu, er þetta eitthvað djók?

 7. Fín grein hjá þér Stjáni púllari.

  Ég tel að það sé kominn tími á að við sýnum eistu í það að henda leikmönnum sem eru ekki að standa sig, eru alltaf meiddir eða eru góðir en af einhverri ástæðu eru ekki að standa sig. Cheyrou, Kirkland, Dudek, Vignal, Diarra, Henchoz, Diouf, Diao, Biscan (?), Hamann (?) eru nöfn sem ég nefni og vil setja spurningarmerki við. Þessir leikmenn eru í rauninni á styrk hjá Liverpool og hafa ekkert að bjóða til langs tíma okkar ágæta liði. Ég væri samt til í að hinkra aðeins með Hamann, Biscan og Dudek í smá tíma til að við getum myndað stærri hóp. Hinir mega fara.

  Það má samt ekki gleyma einu þegar minnst er á stærð leikmannahópa Arsenal og M** U** en það hefur alveg gleymst í umræðunni að þótt þessi lið hafi eytt töluverðum upphæðum undanfarin árin þá hafa þeir opnað upp á gátt möguleika fyrir yngri stráka til að sýna sig og sanna. Það er fyrst að gerast núna undir stjórn Herra Benitez að yngri strákar fái sénsinn og hafa þeir nýtt sér hann ágætlega. Þetta stækkar hópinn af “óvssir” leikmönnunum og sparar hellings pening í framhaldinu. þessar 15 milljónir sem fór í Spinnigalana tvo, Diao og Diouf væru t.d. ennþá í bankanum í dag ef Potter, Welsh og Mellor hefðu fengið fleiri sénsa undir franska viðundrinu. (Hann hefði samt eflaust keypt einhverja aðra “snillinga” í staðinn ef maður þekkir hann rétt).

  Ef við gerum okkur það að leik að allir þeir leikmenn sem ég taldi upp að ofan (fyrir utan Biscan, Dudek og Hamann) færu, þá skapaðist einhver peningur sem gæti nýst í að kaupa markvörð, miðherja, hugmyndaríkan miðjumann og jafnvel bakvörð vinstrameginn ef Riise eða Traore yrði seldur. Sama á við hægra meginn ef Finnan fengi að taka poka sinn (sem ég vona ekki þar sem hann er eðal bakvörður, ekki kantur).

  Fyrst þú miðar við hópinn hjá Chelsea að þá væri ég alveg til í að sjá Robben, Duff, Lampard og segjum Terry meiðast í langan tíma og sjá hvernig þeim reiðir af á meðan. Þeir væru ekki með svona mörg stig eins og þeir eru í dag. Ef við hefðum Cissé ennþá í dag og Alonso þá værum við ofar. Það er öruggt!

 8. Fín grein hjá þér Stjáni púllari.

  Ég tel að það sé kominn tími á að við sýnum eistu í það að henda leikmönnum sem eru ekki að standa sig, eru alltaf meiddir eða eru góðir en af einhverri ástæðu eru ekki að standa sig. Cheyrou, Kirkland, Dudek, Vignal, Diarra, Henchoz, Diouf, Diao, Biscan (?), Hamann (?) eru nöfn sem ég nefni og vil setja spurningarmerki við. Þessir leikmenn eru í rauninni á styrk hjá Liverpool og hafa ekkert að bjóða til langs tíma okkar ágæta liði. Ég væri samt til í að hinkra aðeins með Hamann, Biscan og Dudek í smá tíma til að við getum myndað stærri hóp. Hinir mega fara.

  Það má samt ekki gleyma einu þegar minnst er á stærð leikmannahópa Arsenal og M** U** en það hefur alveg gleymst í umræðunni að þótt þessi lið hafi eytt töluverðum upphæðum undanfarin árin þá hafa þeir opnað upp á gátt möguleika fyrir yngri stráka til að sýna sig og sanna. Það er fyrst að gerast núna undir stjórn Herra Benitez að yngri strákar fái sénsinn og hafa þeir nýtt sér hann ágætlega. Þetta stækkar hópinn af “óvssir” leikmönnunum og sparar hellings pening í framhaldinu. þessar 15 milljónir sem fór í Spinnigalana tvo, Diao og Diouf væru t.d. ennþá í bankanum í dag ef Potter, Welsh og Mellor hefðu fengið fleiri sénsa undir franska viðundrinu. (Hann hefði samt eflaust keypt einhverja aðra “snillinga” í staðinn ef maður þekkir hann rétt).

  Ef við gerum okkur það að leik að allir þeir leikmenn sem ég taldi upp að ofan (fyrir utan Biscan, Dudek og Hamann) færu, þá skapaðist einhver peningur sem gæti nýst í að kaupa markvörð, miðherja, hugmyndaríkan miðjumann og jafnvel bakvörð vinstrameginn ef Riise eða Traore yrði seldur. Sama á við hægra meginn ef Finnan fengi að taka poka sinn (sem ég vona ekki þar sem hann er eðal bakvörður, ekki kantur). Já, og að sjálfsögðu vantar okkur virkilega góðan kantmann/menn til að hjálpa okkur sóknarlega. Það hefur sýnt sig að við lendum oft á móti liðum sem við erum alveg að ná að yfirspila úti á vellinum (þið vitið, boltinn berst á milli manna fram og aftur og fram og aftur etc….án þess að það komi neitt út úr því hnoði). LFC hefur hnoðað sér í gegnum miðja vörnina og verið algjörlega dautt sóknarlega upp kantana og var það einmitt það sem gerði M** U** svo auðvelt að verjast sóknum okkar um daginn. Ég væri til í að fá hægri kantmanninn hjá Barcelona (Quaresma..eða hvað hann heitir) til að berjast við Nunez og Garcia um þessa stöðu. Kewell ætti að eiga hinn kantinn og berjast um hana við Warnock nema annar maður yrði keyptur þar líka. Held að kantmaður/menn sé eiginlega “priority” hjá okkur til að Herra Benitez geti farið að spila 4-5-1 kerfið sitt sem hann elskar svo. Vitiði til…hann kemur á óvart áður en glugganum líkur og splæsir út í einhverjum kantmanni.

  Fyrst þú miðar við hópinn hjá Chelsea að þá væri ég alveg til í að sjá Robben, Duff, Lampard og segjum Terry meiðast í langan tíma og sjá hvernig þeim reiðir af á meðan. Þeir væru ekki með svona mörg stig eins og þeir eru í dag. Ef við hefðum Cissé ennþá í dag og Alonso þá værum við ofar. Það er öruggt!

 9. “Ef við hefðum Cissé ennþá í dag og Alonso þá værum við ofar. Það er öruggt!” Það er endalaust hægt að segja eitthvað svona… svo ég taki Newcastle sem dæmi, þá hafa þeir verið án Nicky Butt frá því í nóvember og hafa liðið fyrir það, og voru allan desember án Bellamy, Kluivert og Shearer og nú er Carr búinn að vera meiddur frá nóvember og verður meiddur út leiktíðina. Ef að þessir menn hefðu allir verið heilir, þá væru þeir eflaust ekki í 12.sæti núna enda voru þeir að spila mjög vel þegar þeir misstu alla þess menn í meiðsli.

  svo ég haldi áfram: Middlesbrough, voru án Reiziger í langan tíma, spjöruðu sig, Viduka búinn að vera frá lengi og kemur ekki aftur fyrr en í febrúar, og síðan verður Mendieta væntanlega frá fram í apríl.

  Málið er, að öll lið lenda í einhverjum meiðslum, svo að ef við ætlum að gera ráð fyrir því ef hvernig staðan væri ef allir væru heilir hjá Liverpool, hvernig væri þá að spá aðeins í því hvernig staðan væri kannski ef að allir leikmenn væru heilir hjá öllum liðum?

  Annars má sjá meiðslatöflu liða hér:
  http://www.physioroom.com/news/table_current.shtml

 10. Varstu að reykja gras þegar að þú skrifaðir þetta ? :laugh:

  ” Ef allir okkar leikmenn væru heilir, og allir þeirra leikmenn líka, þá gætum við stillt upp 11-manna byrjunarliði sem væri alveg nákvæmlega jafn gott og þeirra 11-manna byrjunarlið.”

  VÁ !!! Þú sparar ekki stóru orðin um Liverpool :laugh:

  Time to wake up !!!

  Dudek, Kirkland, Traore, Hyypiä, Josemi, Pellegrino, Riise, Biscan, Diao, Hamann, Nunez, Kewell, Garcia, Mellor og Pongolle

  :laugh: :laugh: :laugh:

  Og eftir eru:
  Carragher, Alonso, Gerrard, Baros, Morientes og Cissé. En maður ætti varla að telja Cissé því að hann hefur ekki sannað sig í topp liði ennþá.

  Ég er Liverpool stuðningsmaður, en ég er líka raunsær og veit þegar að liðið mitt er “out-classed” og viðurkenni það.

  —Cudicini-

  FinnanCarra–King—-Bridge

  S.W.Phillips—-Gerrard—-Alonso–Kewell

  –Morientes—-Baros

  Subs:
  Carson
  Traore/Pellegrino
  Parker/Biscan
  Garcia/Riise
  Cissé/Pongolle

  Þetta er lið sem að gaman væri að sjá í byrjun næsta tímabils. Þetta er hópur sem að getur unnið deildina og lið sem að getur unnið CL.

  Takk fyrir :biggrin:

 11. Aron:

  Dudek, Finnan, Carragher, Hyypiä, Riise, García, Alonso, Gerrard, Kewell, Baros, Morientes.

  Cech, Ferreira, Terry, Carvalho, Bridge, Makelele, Lampard, Tiago, Robben, Duff, Eiður Smári.

  Þorir þú að fullyrða hér og nú að Chelsea-liðið sem ég taldi upp sé óumdeilanlega betra en Liverpool-liðið sem ég nefndi?

  Ég hélt ekki.

  En þú skildir ekki greinina hjá mér. Þú kallaðir mig grashaus og gerðir lítið úr skrifum mínum af því að ég vogaði mér að halda þessu fram um byrjunarliðin, og ferð síðan í að búa til eitthvað Championship Manager-lið sem gæti unnið alla leiki fyrir okkur?

  Mitt point í þessari grein var einmitt það að það getur ekkert lið treyst á sömu 16 leikmennina allan veturinn. Þegar verið er að spila í 4 keppnum þarf einfaldlega meiri breidd en það. Liverpool eru nú þegar búnir að nota einhverja 25-26 leikmenn í vetur og stór hluti þeirra eru annað hvort ekki nógu góðir fyrir LFC eða of ungir/óreyndir til að geta talist lykilmenn.

  Okkur vantar meiri breidd. Það er einfaldlega það sem ég er að segja.

 12. Í fyrsta lagi þá er ég ekki að gera lítið úr skrifum þínum, reyndar hef ég bara gaman að því að lesa pælingar ykkar.

  Cech

  Ferreira-Carvalho-Terry-Gallas

  Lampard-Makelele-Tiago

  Duff-Eiður-Robben

  Eini veiki hlekkurinn í þessu liði væri helst Tiago, en þeir eru með Scott Parker en Maurinho finnst víst ekkert verið í þann kauða. Allavega:

  Dudek

  Finnan-Carra-Hyypiä-Traore

  Síðan er það bara spurning um hvað þú viljir gera næst ? Garcia og Smicer eru EKKI kantmenn en geta samt spilað þar. Ég held að Nunez sé mun stöðugri leikmaður á hægri kantinum en Garcia og missir boltann ekki eins oft og hann. Þannig að:

  Nunez-Gerrard-Alonso-Riise

  Jamm, Riise. Hann er búinn að standa sig MIKLU betur en Kewell sem segir allt sem segja þarf um ástand Harry Kewell. Riise er mjög “direct” leikmaður. Hann er einfættur, getur enganvegin notað hægri fótinn á sér, getur ekki sólað leikmenn og skapað hættu. Kewell gat þetta fyrir 2 árum, en ekki í dag. Ef við höldum áfram:

  Morientes-Baros

  Á meiðslalistanum okkar eru Smicer, Cissé og Josemi og ekk get ég séð þessa leikmenn eithvað frekar bæta þetta lið sem að ég stillti upp hér fyrir ofan, nema að sjálfsögðu við breytum um taktík og skiptum yfir í 4-5-1, en samt vil ég sjá Hamann í staðin fyrir Smicer og setja Gerrard í holuna fyrir aftan stræker, Baros OG Morientes mundi ég taka framyfir Cissé í byrjunarliðið.

  Það eina sem að Liverpool hefur framyfir Chelsea er mið miðjan (gefið að allir eru heilir) og strækerarnir. Chelsea eru með betri markmenn, varnarmenn og kantmenn.

  Kannski fannst þér það vera barnalegt að stilla “nýju” Liverpool liði upp, eins og að “leika sér í CM” en ég var alls ekki að því. Ég var að hugsa eins og þú: “Hvaða góða leikmenn getur Liverpool fengið, raunsæislega séð, í sínar raðir?”

  Heldur þú að Liverpool gæti ekki keypt (Ef að fjárfesting mundi DRULLAST til að koma í klúbbinn):

  Cudicini, Ledley King, Bridge, S.Wright-Phillips og Scott Parker ? Hvað er svona óraunhæft við þetta? Heldur þú að þessir leikmenn mundu ekki bæta hópinn ?

  “Okkur vantar meiri breidd. Það er einfaldlega það sem ég er að segja.”

  Nákvæmlega, ég er líka að segja það og þessir leikmenn sem að ég nefndi mundu gefa okkur þá breidd. Ég talaði aldrei um að selja Nunez eða Garcia því að við mundum fá Wright-Phillips, heldur væru þeir gott cover fyrir hann. Liverpool spilar c.a. 40-50 leiki á tímabili og enginn leikmaður spilar alla þessa leiki.

  Ýmindaðu þér:

  Markvörður: Cudicini, Carson og Harrison

  Hægri-bakvörður: Finnan, Josemi, Carragher

  Vinstri-bakvörður: Bridge, Traore, Riise

  Miðverðir: Carragher-King, Pellegrino, Traore, Whitbread

  Hægri-kantur: S.Wright-Phillips, Luis Garcia, Nunez

  Vinstri-kantur: Kewell, Riise, Luis Garcia

  Miðjumenn: Gerrard-Alonso, Scott Parker, Biscan, Welsh

  Sóknarmenn: Morientes-Baros, Cissé, Pongolle

  Er þetta svona óraunhæft Kristján minn ?

  En hey, þetta er bara mitt álit!

  Hvað finnst þér ?

 13. Vil bara byrja á að segja eitt hérna Aron, þú nefnir Scott Carson því að Chelsea er væntanlega að fara að kaupa hann og það að hann er mjög efnilegur. Liverpool keypti einmitt Scott Carson fyrir nokkrum árum… nema hvað að þá var það Chris Kirkland sem var svona rosalega efnilegur… svo að ég efast um að þú getir staðhæft að Carson muni bæta eitthvað lið, gæti alveg eins verið algjört flopp seinna meir.

  En varðandi kaup þín, þá langar mig að benda á nokkur atriði:

  Ledley King myndi kosta svona £15m eins og staðan er í dag, þar sem hann er aðalvarnarmaður í Tottenham sem er að reyna að festa sig í sessi á ný sem stórlið. Að auki þá er hann mjög ofmetinn leikmaður, og myndi alls ekki vera þess virði að borga uppsett verð.

  Cudicini – £5m – Ef hann myndi fara á sölulista núna, þrátt fyrir að vera 32 ára, þá myndi vera mikil barátta um hann, svo að hann færi ekki svo ódýrt.

  Wayne Bridge myndi eflaust ekki fara á undir £7m.

  S. Wright Phillips – £20m – Það hvað hann er eftirsóttur hækkar náttúrulega verð hans, og því seinna sem hann fer, því verðmætari verður hann, nema þá að Man City verði mjög illa statt fjárhagslega og verði að selja hann… þá gæti hann farið á svona £14m.

  Scott Parker – £8m – hann myndi samt ekki bæta Liverpool liðið það mikið, betri menn þar núna, frekar dýrt fyrir mann sem á bara að auka breiddina

  Þetta myndi gera kaup upp á £55m, og þótt þetta hafi verið auðvelt fyrir þig að gera í CM á sínum tíma… þá er mun erfiðara að vippa upp 6,6 milljörðum til að eyða í leikmenn. Er þá t.d. hægt að minnast á það, að Man Utd eyddi sínum pening fyrir þetta sumar og næsta í að kaupa Rooney… og þeir eru nú ríkasta eða næstríkasta félag heims…. þyrfti því mikið til að Liverpool myndi eyða tvöfaldri þeirri upphæð á einu bretti.

Eintóm svartsýni?

Salif Diao að fara? LOKSINS!