Liverpool 0 – ManU 1

Þetta var eins svekkjandi og fótboltaleikir geta verið. Við töpuðum 0-1 fyrir Man U, og eins og það í sjálfu sér hafi ekki verið nógu svekkjandi þá var það Wayne “Shrek” Rooney sem skoraði sigurmarkið. Helvítis.

Ég ætla að hafa þetta eins stutta skýrslu og ég get, aðallega af því að ég er svo reiður að ég er hræddur um að missa mig í einhverja 5,000-orða reiðiskýrslu sem verður ólæsileg. Þannig að ég hef þetta í hálfgerðu glósuformi bara:

Byrjunarliðið var svona:

Dudek

Carragher – Hyypiä – Pellegrino – Traoré

García – Gerrard – Hamann – Riise

Baros – Morientes

1. Jerzy Dudek. Ég ætla ekki að skrifa ritgerð hérna um hann. Of pirraður til þess. Hann þurfti að verja eitt skot í dag, aðeins eitt skot hjá þeim á mark, og hann gat það ekki. Rooney skaut beint á hann, enginn snúningur á boltanum, hann sá hann allan tímann … og missti hann í netið. Ekki nógu góður markvörður fyrir Liverpool FC.

2. Vörnin stóð sig mjög vel varnarlega séð í dag. Þeir héldu Saha, Rooney, Ronaldo, Fletcher og Scholes mjög vel niðri allan leikinn. Þeir fengu í raun aðeins einu sinni gott pláss til að athafna sig og það var þegar Rooney skoraði – og það var lengst utan af velli. Eina sem vantaði hjá vörninni í dag var spilið fram á við. Mér fannst Pellegrino og Hyypiä sérstaklega vera með allt of mikið af löngum, vonlausum boltum fram á Morientes sem gengur ekki. Við verðum að spila boltanum meira í grasinu gegn toppliðunum.

3. Miðjan? Vá, hvað get ég sagt. García og Riise voru góðir á köflum í dag en náðu ekki að skapa neitt pottþétt úr sinni vinnslu, á meðan Hamann var bara hreinlega ekki með. Steven Gerrard spilaði sinn lélegasta leik fyrir Liverpool síðan bara árið 2003 eða eitthvað. Scholes og Keane hökkuðu okkur í sig í dag. Ég sakna Xabi Alonso.

4. Frammi var okkar besti maður í dag, Milan Baros, gjörsamlega óstuddur af miðjunni en náði samt að vera þeim erfiður ljár í þúfu. Morientes ógnaði með sköllunum og náði einstaka sinnum að finna félaga sína í góðu plássi, en bæði hann og Baros voru bara allt of einir þarna efst í sókninni til að geta gert alvöru úr ógn sinni. Því miður.

5. Steve Bennett, dómari leiksins, sleppti tveimur augljósum vítaspyrnum í dag. Phil Neville rak höndina lengst uppí loft og varði fyrirgjöf Riise í fyrri hálfleik, og það sáu það allir nema Bennett. Í seinni hálfleik stökk Gabriel Heinze á Morientes, fellti hann og boltinn stóð allan tímann kyrr. Enn og aftur sáu það allir nema Bennett, já og Rikki Daða sem getur varla talist hlutlaus þulur. Óþolandi að hlusta á hann. En mér dettur samt ekki í hug að kenna Bennett um þetta tap – við fengum á okkur aulamark og höfðum 90 mínútur til að skora en tókst það ekki.

Á heildina litið þá fannst mér það standa upp úr að United-menn spiluðu þennan leik hárrétt, taktístkt séð. Þeir brutu 29 sinnum á okkur í þessum leik og uppskáru sex gul spjöld fyrir það (tvö fyrir Wes Brown, sem var rekinn útaf með hálftíma rúman eftir en það skipti engu máli fyrir þá). Þetta var mjög sniðuglega spilað hjá þeim því þeir náðu að stífla flæðið í leik okkar algjörlega með því að stöðva leikinn með brotum.

Þá verð ég að segja eins og er að Man U hafa það fram yfir okkur í dag að þeir senda boltann betur á milli sín. Á meðan við erum ekki að láta boltann vinna hratt fyrir okkur eins og lið í þessum stórleikjum þá getum við ekki ætlast til að vera í toppbaráttunni á Englandi. Við vorum í löngum boltum og menn virtust hverjir að vera vinna í sínu horni, á meðan þeir létu boltann vinna fyrir sig og voru iðulega komnir upp að vítateig okkar með stuttu spili einu saman.

Að endingu þá verður bara að segjast að þetta var leikur miðjubaráttunnar og þeir unnu þá styrjöld, svo einfalt er það bara. Lykilmenn í okkar liði voru heillum horfnir og við náðum ekkert að skapa. Þá fengum við á okkur hræódýrt mark sem reyndist dýrkeypt – þetta er í þriðja tímabilið í röð sem Dudek tapar leiknum við United á Anfield fyrir okkur. Ég held að Benítez versli sér markvörð eftir þennan leik, kæmi mér ekkert á óvart þótt César verði kominn til okkar innan næstu viku.

Já, og við erum búnir að tala mikið um meiðslavesen sem hefur háð okkur. Og það er satt, við höfum verið ótrúlega óheppnir með meiðsli í vetur. Í þessum leik vantaði okkur Vladimir Smicer, Djibril Cissé, Xabi Alonso, Josemi, Chris Kirkland og Harry Kewell.

En í dag voru United að spila án Ole Gunnar Solskjær, Ruud van Nistelrooy, Alan Smith, Gary Neville, Rio Ferdinand og Ryan Giggs. Og þeir unnu, ekki við.

Sem segir mér bara eitt: United eru í dag með betra lið en við. Við erum á uppleið, jújú, en við eigum enn nokkuð í land með að geta endað ofar en United í þessari deild. Betur má ef duga skal, því miður.


**Uppfært (Einar Örn)**: Þetta er fokking magnað með Jerzy Dudek. Þrjú ár í röð hefur hann eyðilagt leikinn móti United fyrir okkur. Fyrst var það klobbinn hans Forlan, svo fyrirgjöfin frá Giggs og núna þetta skot hjá fokking Wayne Rooney.

Í alvöru, þurfti þessi pólski snillingur akkúrat að leyfa mest óþolandi framherja í heimi að skora hjá okkur? Ég hefði getað sætt mig við það (eftir umtalsverðan tíma þó) að Rooney hefði skorað sigurmarkið ef það hefði verið fyrir einhverja snilli. En skot af 30 metra færi, sem er BEINT Á FOKKING MARKIÐ, án snúnings og alles, og að Dudek missi hann inn – Það get ég ekki sætt mig við!

Þessir tveir markmannshaugar, herra mistök og herra meiddur eru einfaldlega búnir að klúðra of mörgum leikjum fyrir okkur í vetur. Þetta er ekki hægt að þola þetta lengur.

Rafa, kauptu markmann, mér er sama hvaða markmann. Ég myndi frekar vilja sjá Fabian Barthez í markinu heldur en þessa tvo trúða. Ég höndla ekki að tapa aftur á móti Man U útaf markmanns mistökum. Aðdáendur Liverpool munu ekki höndla það. Og þið, sem komið alltaf Dudek til varnar, sleppið því. Hann er kannski ágætis markvörður, en hann er **EKKI** nógu góður fyrir Liverpool. Mér er alveg sama þótt að hann hafi varið einu sinni 50 skot í leik. Staðreyndin er sú að hann fékk EITT SKOT Á SIG og hann klúðraði því. Alveg einsog hann hefur klúðrar síðustu tveim leikjum gegn United á Anfield. Og alveg einsog hann og Kirkland hafa klúðrar oft í vetur.

Hversu gaman haldiði að það sé fyrir Man U aðdáendur að sjá þegar Dudek er í markinu hjá okkur? Hann er aðhlátursefni þeirra! Nefnið mér líka hvenær þið hafið síðast heyrt einhvern annann en Liverpool menn segja að Jerzy Dudek sé góður markmaður! Menn eru blindaðir af einhverri fornri frægð Dudeks.

Þetta markmannaástand er fullkomlega óþolandi. Ég er þó svona 95% viss um að Benitez fer núna og kaupir markmann í vikunni. Kæmi ekki á óvart þó sá markvörður (t.d. Cesar) færi beint inní liðið.

Og já, VÁ hvað við söknuðum Xabi Alonso í dag. Biscan hefði án efa átt að koma fyrr inná. Miðjan gat ekki skilað neinum almennilegum boltum frá sér og það sama má segja um Hyypia og Pellegrino. Ég get ekki talið öll skiptin, sem við gáfum boltann frá okkur af algerum aulaskap. Biscan skilaði allvegana öllum sínum boltum til samherja.

En Dudek á þennan leik algjörlega. Við vorum búnir að hafa algera yfirburði á vellinum alveg fram að markinu. Hversu óþolandi er það að allt liðið sé að leika vel í hálftíma og þegar 11. maðurinn á loks að gera sitt, þá klúðrar hann því algjörlega. Maður sá greinilega að mesti krafturinn fór úr liðinu við það.

32 Comments

  1. Þú gleymdir Steve Finnan í meiðslalistanum – ég held það hafi skipt miklu máli að hann vantaði í dag því það er afar óheppilegt að þurfa að breita vörninni fyrir svona stórleik.

  2. :mad:Það er ekki miklu við þetta að bæta nema García var líka lélegur í dag. Hékk alltof mikið á boltanum, gaf hann ekki á Baros í upplögðu færi og tapaði boltanum alltof oft í stað þess að senda hann á samherja. Svo er það pólska martröðin; þarf ekki að athuga hjá hvaða liði hún er á mála? En sem sagt ömurlegt og satt sem sagt er okkur vantar enn uppá til að standa efstu þremur á sporði :confused: 🙁 😡

  3. Matti – samt var vörnin alls ekki vandamálið í dag. Miðjan hjá okkur var algjörlega steingeld og við fengum ekkert flæði í spilið…

  4. Er það bara ég eða hefur Steven Gerrard verið hálfpartinn á rassgatinu síðan Alonso meiddist. Óásættanleg frammistaða hjá fyrirliðanum okkar sem á að vera okkur svo mikilvægur og besti maður liðsins. Mér finnst allavega meiðsli Alonso þau verstu á tímabilinu fyrir liðið.

  5. Ég er sammála því að Gerrard hefur átt erfiðar uppdráttar án Alonso, sem stafar einfaldlega af því að sóknarþungi miðjunnar fellur algjörlega á hans axlir þar sem Hamann kann ekki að sækja.

    En við skulum hafa það á hreinu að meiðslin á Cissé eru versta áfall okkar á þessari leiktíð. Að missa hann í október út tímabilið hefur valdið okkur gríðarlegum erfiðleikum undanfarna þrjá mánuði og jafnvel nú þegar Morientes er kominn til liðsins finn ég samt fyrir því að ég sakna Cissé talsvert. Hann hefur þann sprengikraft sem okkur hefur svo oft vantað til að sprengja upp lið sem liggja í vörn gegn okkur, og hann var að byrja að finna fjölina sína þegar hann fótbrotnaði.

    Alonso meiðslin: slæm. Cissé meiðslin: ógeðsleg, og lamandi fyrir liðið. Að mínu mati :confused:

  6. Þið gleymduð að minnast á að Gerrard átti að fara útaf fyrir olnbogaskotið.
    Þetta var snarsanngjarnt og þetta vítavæl ykkar hlægilegt.
    Og reyndar er Rikki Daða hlutlaus. Heldur með hvorugu þessu liði.
    Hr Einar Fimmnúll. :laugh:

  7. Rautt spjald, come on!

    Það var reyndar Kristján, sem að var að kvarta yfir Rikka Daða, en ég er svosem sammála því að hann er nú ekki beinlínis uppáhaldslýsandinn minn. Hann masar nær stanslaust um lítið sem ekkert.

    En það skiptir svo sem ekki máli. Ég var reyndar ekkert voðalega pirraður yfir þessum vítaspyrnudómum. Finnst dómararnir oft hafa staðið betur með United en í þessum leik. Enda fannst mér við nú ekki eyða miklu púðri í að gagnrýna hann.

    En ég er sammála með Alonso meiðslin. Við erum að spila mun verr núna án Alonso heldur en við vorum að spila þegar Gerrard var ekki með okkur. Miðjan hefur alls ekki verið sannfærandi í þessum leikjum án Alosno, það er Norwich, Watford og Man U. Ég vil gefa Biscan séns í næsta leik.

  8. Því miður þá var þetta sanngjarn sigur hjá United í dag þó svo að markið hafi verið klúður hjá Dudek þá voru þeir að spila betur í heildina litið. Boltinn fór í hendina á Neville inni í vítateig, hendinn var fyrir ofan höfuð og því ekkert annað en klár vítadómur, end of story. En ef dómarinn sér atvikið ekki, þá náttúrulega dæmir hann ekki víti. Allt tal um að það sé harður dómur að dæma víti á þetta finnst mér undarlegt, auðvitað er vítaspyrna harður dómur að fá á sig en til hvers eru þessar reglur ef ekki á að dæma eftir þeim. En í heildina litið var sigurinn sanngjarn á þeim forsendum að liðið spilaði betri fótbolta heldur en Liverpool í dag. Sorglegt að ná varla skoti á markið einum fleiri í einhverjar 25 mínútur. :confused:

  9. Leit við, sá Scholes, plaff. Geri ráð fyrir að dómarinn hafi ekki séð þetta og þ.a.l. getur FA sett hann í bann. 2-3 leikir.

    Rétt hjá ykkur að miðjan ykkar var vonlaus. Ekkert að gerast þar. Samt dálítið magnað að hvorugur nýju mannanna ykkar hefur byrjað leik á tíðinni á Spáni.

    Annars átti að vera Carriage Return á undan þessu skemmtilega ávarpi. Það bara er ekki nóg í þessu kommentta kerfi, sorrý.

  10. Er fólk núna komið aftur niðrá jörðina, vitandi að það er ekki gáfulegt að byggja lið með Riise, Hamann, Garcia og Hyypiä sem einn af lykilmönnum liðsins ? :laugh:

    Permission to land ?

  11. Ég get ekki séð af hveru það er ekki hægt að byggja upp frábært lið með Riise í vinstri bakverði, Hyypia í miðverði og Garcia. Ég myndi taka Hamann útúr þessu og þá er þetta gott mál.

    Auðvitað þurfa menn að vera rólegir í væntingunum og vissulega erum við dálítið rokkandi milli þess að vera í skýjunum og alveg á bömmer. En það breytir því ekki að þetta eru allt góðir knattspyrnumenn, sem geta vel sómað sér hjá toppliði.

    Skil ekki almennilega gagnrýni á Hyypia og Riise, sem hafa verið frábærir. Varðandi Garcia þá hefur hann valdið vonbrigðum eftir að hann kom úr meiðslum, en ég hef samt sem áður fulla trú á honum. Ef þú hefur séð einhverja af leikjunum með Barca á síðasta tímabili, þar sem Garcia spilaði, þá sérðu að þar er **virkilega** góður leikmaður á ferð.

    Og hvaða máli skiptir það nákvæmlega þótt nýju mennirnir hafi ekki byrjað leik í vetur? Morientes var markahæsti maður Champions League. Pellegrino hefur verið máttarstólpi í vörn Valencia undir stjórn Benitez. Þetta eru frábærir leikmenn, þótt þeir hafi ekki verið í náðinni hjá nýjum þjálfurum í ár.

  12. Dudek er ekki nógu góður. Kaupa nýjan markmann strax… bara einhvern, I don´t give a flying f….
    Riise er ekki og verður aldrei kantmaður. Vantar tilfinnilega sókndjarfan miðju/kantmann þegar Kewell er ekki heill.
    Hamann er búinn…. end of story! Gefa Biscan séns í næsta leik.

    Síðan þegar Alonso, Kewell og Cisse koma tilbaka þá lítur þetta þokkalega út.

    AAAAAAAARRRRRRRRGGGGGGGGGGG helvítis laugardagskvöldið er ónýtt… FUCK

  13. var ekki annar ykkar Einar Örn eða Kristján Atli sem ætluðuð að borða hatt ef Rio og Giggs yrðu ekki með :confused:

  14. hmmm…. ekki spilað leik í vetur. Hversu marga Evrópumeistaratitla er Morientes með? Og hversu marga Evrópumeistaratitla hefur United unnið í sögunni?

  15. Ekki byrjað leik.

    Sagði bara það væri magnað, ekkert um getu þeirra enda hrósa ég ekki hjólkoppaþjófum alla jafna.

    Je je. Teljum titla. T.d. hjá þeim sem byrjuðu inn á? Og hafa unnið þá hjá núverandi liði? Ekki reyna þennan kiddi minn.

    Kvöldið er yndislegt. Steik og rauðvín í tilefni þess. Það sætasta við þetta var kokhreystin í kommentum við síðustu færslu. Maður hefði haldið að síðustu 15 árin hefðu kennt ykkur sitthvað. Ég var drulluhræddur við leikinn, þið hefðuð betur verið það.

    Og Einar: Barthez?? BARTHEZ? Þú veist ekki hvað þú ertað biðja um….

  16. Barthez væri ágætur ef maður myndi bara negla niður staur í vítateignum, festa keðju í Barthez og þá væri hann inní vítateignum annað en venjulega… Anyway… með þennan leik vs man utd… no comment, dagurinn… jafnvel helginn farin til *******

  17. Afhverju lifa svo margir Liverpool stuðningsmenn í voninni ? Það er alltaf “þetta kemur á næst tímabili” mórall í mönnum, það er búið að vera þannig undanfarin 10-15 ár. Þið hljótið að átta ykkur á hvað “heims klassa leikmaður” er ? Í augnablikinu eru aðeins Gerrard, Alonso og Morientes heimsklassaleikmenn, Baros á ekki langt í land. Carragher ætti heima í þessum flokki fyrir “never give up” móralinn hans og endalausa baráttu.

    Ef ég byrja frá öftustu línu og áfram: Dudek, Kirkland, Finnan, Josemi, Traore, Warnock, Riise, Nunez, Garcia, Hamann, Biscan, Diao, Kewell, Mellor og Pongolle eru ekki heimsklassaleikmenn. Sumir þessara leikmanna er fínir “squad players,” en ekki leikmenn sem að ég mundi hafa í mínu besta “eleven.” Það er nauðsinlegt að hafa stórann hóp þar sem að sumir þessara leikmanna koma að góðum notum en maður verður að geta stillt upp heimsklassa byrjunarliði sem að vinnur stóra leiki (eins og Man Utd í dag) og úrslita leiki.

    Liverpool mun t.d. ekki vinna deildina á næsta tímabili eða tímabilið þar á eftir nema Benitez fá c.a. 40-50 milljón pund til þess að nota í leikmanna kaup yfir sumarið. Deildir eru ekki unnar án peninga. Líttu t.d. á Barcelona, síðasta sumar eyddi liðið c.a. 40 milljónum punda í leikmanna kaup. Keyptir voru Belletti, Sylvinho,Edmilson, Giuly, Deco og Eto’o, og sumarið áður voru Marquez,Bronckhorst og Ronaldinho keyptir og Larson kom frítt yfir sumarið. Fyrir voru, hjá klúbbnum: Valdes, Puyol, Motta, Xavi og Iniesta. Í heildina séð hefur þetta verið um 80 milljón pund.

    Getið þið séð þetta lið:

    Dudek
    Finnnan-Carra-Hyypiä-Traore/riise
    Nunez/Garcia-Gerrard-Alonso-Riise/Kewell
    Morientes/Baros/Cissé/Pongolle/Mellor

    sigra

    Valdéz
    Belletti-Puyol-Marquez-Gio/Sylvinho
    Deco-Edmilson-Xavi
    Giuly-Eto’o-Ronaldinho

    eða

    Dida
    Cafú-Nesta-Stam/Maldini-Pancaro
    GattusoSeedorf-Pirlo
    Kaka
    Shevchenko/Inzhaghi/Crespo/Tomasson

    Eins og sjá má þá er langt í land ef að 1-2 góðir ekmenn eru keyptir á tímabili en það er alltaf hægt að koma svér á toppinn með stökkbretti, c.a. 40-50 milljón pund ?

  18. Björn Friðgeir – njóttu steikarinnar og rauðvínsins. Ég ætla ekki að rífast við þig eða mótmæla orðum þínum, þótt ég sé þeim ósammála, þar sem þetta er þinn dagur og þú mátt njóta hans. Liðið þitt vann sér inn þennan dag.

    En pældu í einu. Þetta var feykigóður sigur fyrir ykkur United-aðdáendur, og af þeim öllum á landinu ert þú sá eini sem eyðir deginum hér inná þessari Liverpool-síðu að reyna að æsa upp einhverja Púllara útí bæ sem þú þekkir ekkert.

    Ef Liverpool hefðu unnið í morgun væri ég úti á djamminu núna. Ég er viss um að það er skálað víða fyrir Wayne Rooney á þessu laugardagskveldi … en þér virðist vera meira umhugað um að einhverjir örfáir Púllarar sem þú þekkir ekkert pirrist út í þig.

    Njóttu dagsins vinur. Við sjáumst í úrslitum Deildarbikarsins. Ef við klárum Watford mætum við pottþétt liði sem við höfum tapað fyrir tvisvar í vetur – annað hvort ykkur eða Chelsea – og því verður þema úrslitaleiksins einfalt: HEFND.

    Og ólíkt steikinni þinni þá er það réttur sem er best matreiddur kaldur. Steikin mín mun því bíða þangað til í mars. 😉

  19. það er ekki til góður markmaður í liverpool þannig að það verður bara að kaupa nýan markmann 🙁

  20. Það eina sem ég hef sagt hér sem þið getið reynt að vera pirraðir út í er hvort Gerrard átti að fjúka. Annað hefur verið á rólegu nótunum

    Viðurkenni fúslega að Plastbikarinn skiptir meira máli en venjulega, t.d. síðasta miðvikudag, þá vegna undanfarinna úrslita, en með tilliti til þess hvernig liðin okkar standa í deildinni, þá hlýtur þú að vera að ljúga að sjálfum þér ef þér finnst betra að vinna hann gegn okkur en að hafa unnið leikinn í dag.

    Sé ekki alveg hvað það kemur málinu við hvernig ég eyði mínu laugardagskvöldi, sér í lagi ef ég er fjarri Manchester á svona degi, en fyrst þér er annt um mig, þá er ég akkúrat núna að hringja á bíl :biggrin:

    Að lokum ættirðu kannske að kíkja á loggin ykkar og íhuga hversvegna sumir skoða þessa síðu nokkrum sinnum í viku. En eins og fyrr segir, fjandinn fjarri mér að ég fari að hrósa hjólkoppanöppurum opinberlega :laugh:

  21. Bíddu, þurfa Liverpool ekki frekar að fá almennilegan markmannsþjálfara heldur en nýjan markmann? David James, Brad Friedel, Sander Westerwald og Jerzy Dudek hafa allir gert fína hluti fyrir og eftir að markmannsþjálfarar Liverpool brutu þá niður.

  22. Þú veist þú ert að tala við Hafnfirðing (mig) og Vesturbæing (Einar), ekki Liverpool-búa? Ekki leggjast svo lágt að nota orðið hjólkoppanapparar. Það er óþarfi.

    >Að lokum ættirðu kannske að kíkja á loggin ykkar og íhuga hversvegna sumir skoða þessa síðu nokkrum sinnum í viku.

    Ha? Hvað meinarðu með þessu???

    Og ég meinti ekki að ég vildi frekar tapa í dag og vinna dolluna. Ég meinti bara að það kemur alltaf dagur eftir þennan dag og ef við fáum tækifæri vona ég að mínir menn nái að hefna dagsins í dag í Cardiff í mars. That’s all … Og mér er alveg sama hvað bikarinn heitir. Við komumst í undanúrslit Deildarbikarsins með unglingunum okkar alveg jafnt og þið. En nú eru menn farnir að finna lyktina af vellinum í Cardiff og því spiluðum við, þið og Chelsea með nokkurn veginn sín sterkustu lið í undanúrslitunum. Ekki reyna að gera lítið úr þessari dollu af því að þið getið ekki unnið hana… :laugh:

    Annars legg ég til að við látum umræðu staðar numið hér. Finnst þetta komið út á hættulega braut skítkasts og nafnaupphrópana hjá sumum.

  23. Björn Friðgeir, ég verð að játa að ég hef ekki minnstu hugmynd um hvað þú ert að tala. Kíkja á loggin ykkar? Ok, samkvæmt þeim þá eru fyrstu tvær vikurnar í janúar 1018 hits frá Liverpool.is, 71 frá Örvitanum, 44 frá [þessari síðu](http://arnor.blogspot.com/) og svo framvegis. Í 99% tilvika eru þetta bloggsíður Liverpool stuðningsmanna, sem vísa í okkar síðu í sidebar. Ég er ekki að finna nein svör við því hvers vegna “sumir skoða þessa síðu nokkrum sinnum í viku”. Ég veit þó að nokkuð af stuðningsmönnum annarra liða skoða þessa síðu.

    Var þetta kannski bara einhver gestaþraut fyrir mig. Þér er auðvitað velkomið að heimsækja þessa síðu, sem og að gera alla aðra löglega hluti á laugardagskvöldi. Við erum bara óvenju pirraðir í dag. 🙂

    En hvaða hjólkoppanappara ertu eiginlega að tala um? Ertu á sýru, eða er ég ekki að fatta einhvern augljósan brandara? 🙂

    Og Ásgeir, Benitez kom með sinn eigin markmannsþjálfara. Corrigan var rekinn þegar hann byrjaði (minnir að Corrigan sé núna hjá W.B.A.)

  24. Ég vil fara að ljúka þessu með Steven Gerrard og “Hann fer næsta sumar ef enginn árangur næst” máli hans. Því fyrr sem við fáum staðfestningu á því að hann sé 100% að reyna sitt besta hjá LFC að þá er hægt að byggja í kringum hann. Annars vildi ég bara að hann yrði seldur hið snarasta og við fengjum okkar FIMMTÍU MILLJÓNIR PUNDA fyrir hann til að geta farið að byggja upp lið með mönnum sem vilja vera hjá okkur. Í dag var ENGINN með réttu ráði…ekki einu sinni Carragher og því fór sem fór. Jerzy Dudek má fara ásamt Kirkland og mega þeir fara báðir til helvítis á meðan við fáum 2 góða markverði í staðinn.

    Það sem veldur mér áhyggjur er það fáránlega skipulagsleysi sem við dettum í hvað eftir annað og það er nákvæmlega sama hverjir eru inná. Morientes verður betri með tímanum en ekki á meðan spilað er á hann “kick and run” sendingum. Aldrei hef ég verið eins sigurviss og í dag gegn lélegu Manure liði en það nægði bara hreinlega ekki. Þeim mun slakari sem Manure verða því meiri séns er á því að við sjúgum verulega breiðan hamstur! Fari þessi leikur til helvítis!!! Megi Rooney kafna í svefni í nótt!

  25. Einar – hjólkoppanapparar er uppnefni sem hefur oft verið notað í neikvæðri merkingu um íbúa Liverpool-borgar, og á víst að vísa í fátæktina á Mersey eða eitthvað. Þú getur t.d. séð hvernig United-aðdáandi hefur breytt merki Liverpool-liðsins hérna, sem dæmi um þetta uppnefni.

    Ég bara skil ekki af hverju United-menn geta gert grín að Scouser-menningunni, þegar nokkrir af þeirra eigin mönnum eru þaðan. Sir Matt Busby lék knattspyrnu fyrir Liverpool áður en hann tók að sér að þjálfa United, Cristiano Ronaldo sagðist einu sinni hafa verið Liverpool-aðdáandi frá því að hann man eftir sér … og nú er einn þeirra dáðasti leikmaður í dag, Wayne Rooney, uppalinn í fátækasta hluta Liverpool.

    Þetta er álíka heimskulegt og ef að við ætluðum að gera grín að Arsenal með því að tala um miðjumennina frá sígaunaþjóðinni eða eitthvað, þegar það eru Spánverjar í okkar liði jafnt og þeirra. En við erum ekki jafn vitlausir og sumir…

  26. Mig skortir nógu mörg ljót orð til að lýsa svekkelsi mínu yfir þessum ósigri. 😡

    En það verður bara að segjast eins og er að Man. Unt. tóku okkur í rörið í dag. Brutu á okkar mönnum hægri – vinstri og hættu því ekkert þó þeir misstu mann út af!! Dagskipunin hjá Fergý var svo augljós að hálfa var nóg. Sparka rauða hernum út í hafsauga. Man. Unt. komu í þennan leik til að vera upp í andlitinu á okkar mönnum og það gekk upp hjá þeim. Ég held að það besta sem hefði getað gerst í þessum leik að allt hefði farið í hávaða loft. Menn út af í báðum liðum o.s.frv. Koma smá skapi í menn.

    Maður sá greinilega hvað Man. Unt. menn voru að gera þegar einhver (ég held Silvestre) ýtti við Nunez þarna undir lok leiks eftir að boltinn var úr leik. Lúmskt brot sem dómarinn sá ekki og gaf svo Nunez gult fyrir að pirrast með boltann. En svona var þetta allann leikinn, þeir voru líkamlegir en við ekki. Það var munurinn.
    Andskotans helvítis. 😡

    Svo langaði mig að berja eitthvað þegar litla villidýrið asnaðist til að skora og fór að belgja sig fyrir framan Kop.

    Það tekur mig nokkrar vikur að jafna mig á þessu. 😡 😡

  27. fyrst við erum að tala um það þegar ********** Rooney fagnaði fyrir framan Kop, finnst engum nema mér að hann ætti að fá bann fyrir það. Fowler fékk nú bann á sínum tíma fyrir “sniff-fagnið”. Ég var á þeim leik á sínum tíma og fannst það bara fyndið hvernig hann fagnaði en daginn eftir þegar það var svona mikið í umræðunni þá vakti það athygli mína :confused:

  28. Meinti nú ekki annað en það að ef loggin ykkar sýndu ip-tölur þá sæuð þið að þessi iptala hér (ég) les ykkur reglulega, af því þið skrifið vel og skemmtilega um boltann.

    Og nú þarf ég að þvo mér um munninn :biggrin:

    Sir Matt spilaði með ‘pool og City og fyrirgefst það enda Skoti. Okkur er nokk sama um hvað portúgali hélt með í æsku, rétt eins og okkur væri sama hvort ‘púlskur Íslendingur (nógu góður) væri að spila með okkur. Það eru til United stuðningsmenn sem eiga erfitt með að gúttera Rooney og myndu aldrei gúttera Gerrara ever (þó hann sé púslið sem okkur vantar) enda erfitt fyrir okkur hér uppi að skilja óvildina milli borgana. Þær virðast þó á ýmsan hátt ólíkar að menningu, þó ekki detti mér í hug að halda því fram að púlarar séu meiri glæponar.

    Ég vona nú að þið séuð ekki að falla í þá gryfju að halda því fram eins og JónH að við höfum sparkað ykkur út í hafsauga. Harka, ójá, gróft, lítið. Brown fékk sanngjarnt rautt fyrir grófasta og næst heimskulegasta brotið. Núnes fékk gult fyrir það heimskulegasta.

    Rooney fær ábyggilega amk tiltal frá FA.

    En ég skil að þetta sé erfitt fyrir ykkur og hætti hér með að belgja mig.

  29. Vá Björn Friðbert, þú ert svona ekta manu-fan sem skapar þessa óvild í garð liðsins þíns og skilur síðan ekkert í því þegar öll heimsbyggðin fagnar tapi ykkar annað veifið.

    Annars ætla ég ekkert að afsaka þetta ömurlega tap í dag. Það sem svíður mig hvað mest er að við erum að tapa tveimur FEITUM heimaleikjum í byrjun nýs árs!

    Ég vil setja stórt spurningarmerki við að tefla fram Pellegrino og Morientes strax. Fannst þeir svo sem standa sig prýðilega miðað við marga aðra í þessum leik en þeir hljóta að þurfa að aðlagast hópnum í amk nokkra daga áður en þeim er hent í ljónagryfjuna gegn hatursliðinu okkar.

    Eitt er hins vegar ljóst eftir þennan leik og hefur reyndar verið í dágóðan tíma en það er að okkur vantar betri markmenn!!

    Ég upplifði þennan leik sem martröð eins og á móti chelskí, fór í vont skap og spurning hvort maður eigi ekki bara að snúa sér að öðru, pólitíkinni t.d.

    P.s. skil ekki af hverju ekki var dæmt víti á heinze baked beans, svo augljóst víti! Svo sá maður Smertin fá víti í næsta leik og það var ekki einu sinni snerting!! 😡

  30. málið er að það er bannað að dæma víti á United og Chelsea 😡

  31. Liverpoolliðið er einfaldlega ekki nærri jafn gott og Chelsea, Arsenal og United.
    Athyglisvert að liðið ræður ferðinni í leikjum gegn Chelsea og United án þess að skapa sér nokkurn skapaðan hlut. Þetta segir manni að liðið er ekki í sama klassa og toppliðin.
    Liðið verður að fá fjármagn til að fá fleiri heimsklassamenn í liðið.

  32. hmmmm…þetta var agætur leikur hja liverpool .. oheppnir að tapa .. en dudek i marki eg meina allir gera mistök , það er ekki eins og þu hafðir aldrey kluðrað engu :tongue: svona er þetta bara .. mer finnst að dudek er ýkt goður markmaður .. og það er ekki bara honum að kenna að þeir topuðu!!

Moro og Pelle byrja inná!

Eintóm svartsýni?