Watford í undanúrslitunum í kvöld!

heidar.jpgJæja … þá er bara komið að því. Fyrstu undanúrslit Rafa Benítez fyrir Liverpool og það í Deildarbikarkeppninni. Ég veit ekki hvað það segir okkur um stjórnunarhæfileika Rafa að liðið sé komið svona langt með því að nota varaliðið, en eitthvað jákvætt hlýtur það að þýða.

Í kvöld verður samt ekkert varalið á boðstólunum, enda eru mótherjarnir ekki af verri gerðinni. Watford eru kannski um miðja fyrstu deildina (eða Championship eins og einhver vitleysingurinn ákvað að hún skyldi kölluð) en þeir eru sko alls ekki auðveld bráð. Þeir náðu jafntefli við Fulham um helgina í FA bikarnum og hafa þegar unnið Úrvalsdeildarlið á leið sinni í undanúrslit Deildarbikarsins.

Þá státa þeir af einum markahæsta leikmanni í öllum deildum Bretlandseyja. Sá leikmaður heitir .. Heiðar Helguson og er íslenskur.

Ofboðslega fór Heiðar í taugarnar á mér í haust. Hann hefur ekki skorað í mörgum landsleikjum í röð fyrir Ísland og ég var farinn að heimta að hann settist á bekkinn undir það síðasta. Hann virðist hins vegar hafa fundið fjölina hjá Watford-mönnum í vetur, enda er hann kominn með 14 mörk í öllum keppnum þegar þetta er skrifað. Aðeins Dean Ashton hjá Crewe – sem var að ganga til liðs við Norwich í gær – hefur skorað meira í Championship-deildinni.

Að öðru leyti þá er þetta Watford-lið frekar fyrirsjáanlegt. Þetta er baráttulið, Brynjar Björn leiðir fylkinguna á miðjunni og látið ekki koma ykkur á óvart þótt hann slasi einhvern af okkar mönnum í kvöld, eins og okkar heppni hefur verið undanfarið.

En þetta er engu að síður undanúrslitaleikur í bikarkeppni og Rafa Benítez hefur gefið það út að hann muni nota sína aðalmenn í þennan leik. Því held ég að byrjunarliðið gæti orðið nokkurn veginn svona:

Dudek

Finnan – Carragher – Hyypiä – Warnock

García – Gerrard – Hamann – Riise

Baros – Pongolle

…og mikið óskaplega hef ég saknað Milan Baros. 🙂

MÍN SPÁ: Ég reikna með góðum heimasigri og það á vissulega að vera stefnan. Að halda hreinu og skora a.m.k. 2-3 mörk á þetta lið hlýtur að vera krafa sem er réttlát, þar sem þetta lið er deild neðar en við. Og með fullri virðingu fyrir Heiðari, þótt hann sé sjóðheitur þessa dagana, þá hafa stærri nöfn en hann komið á Anfield í vetur og verið jarðaðir af Carra/Sami-dúettnum (*hóst*Henry*hóst*), þannig að ég hef litlar áhyggjur af samlanda mínum.

Hef þó meiri áhyggjur af Brynjari Birni. Er séns á að fá nálgunarbann á hann, svo hann megi ekki koma nær Gerrard en 5 metra í leiknum?

Annars verður þetta gaman og spennandi … undanúrslitaleikur í bikarkeppni og ef allt gengur að óskum í kvöld verða okkar menn komnir með annan fótinn í úrslitaleik á Millennium-vellinum í Cardiff í mars! Hversu mikil snilld væri það?!?!? 😉

4 Comments

  1. Vildi bara benda á það að Hyypia er lasinn þannig að hann er ekki með í kvöld.
    Sá það áðan á Liverpool Echo..

  2. Ég verð að viðurkenna að ég hefði viljað sjá Benitez halda sig við kjúllana að megninu til en jafnvel styrkja liðið með 1-3 lykilmönnum. Hefði alveg séð fyrir mér að ungu leikmennirnir myndu ná fínum úrslitum geng Watford án þess að vera að gera lítið úr því ágæta félagi…
    sigur í kvöld og Heiðar skorar fyrir Watford.

  3. Já ég var að sjá það sjálfur að Hyypiä missir líklega af þessum leik. Geri þá ráð fyrir að Traoré komi inn í miðvarðarstöðuna, nema Benítez ákveði að vera djarfur og gefa Whitbread séns.

  4. Er það ekki málið? Hann hefur verið að standa sig ágætlega í þeim leikjum sem hann hefur spilað í ekki satt? (Hef nefninlega ekki séð hann spila ennþá).

    Ég er sammála því að við vinnum í kvöld. 3-1 væri fínt fyrir okkur, þá getur Benites látið kjúllana spila næsta leik við þá.

    Baros 2 Gerrard 1

    Heiðar svo með eitt fyrir Watford(what ford??) :biggrin:

Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum (uppfært)

Cesar vill koma