Norwich á hádegi í dag!

liverpoolnorwich.JPGJæja, rétt um tveimur sólarhringum eftir tapið gegn Chelsea fá okkar menn það skemmtilega verkefni að reyna að stökkva strax aftur á bak hestinum með sigri á Norwich City á útivelli. Sem er ekkert gefið mál, minni ég á.

Ef við náum að sigra Norwich höfum við halað inn 13 af 18 mögulegum stigum í síðustu sex deildarleikjum okkar, aðeins Portsmouth (jafntefli) og Chelsea (tap) sem hafa tekið af okkur stig. Þótt tapið gegn Chelsea hafi verið slæmt og endanlega gert útum vonir okkar um að berjast um titilinn í ár, þá verða 13 stig af 18 mögulegum að teljast ágætt.

Þá gætum við einnig verið að vinna okkar annan leik í röð á útivelli, sem væri mjög gott mál. Við höfum verið með einn allra besta heimavöllinn í deildinni í vetur, ef ekki þann sterkasta, og því er ljóst að ef við hefðum verið sterkari á útivelli í haust værum við ofar en við erum í dag. Því gæti smá stöðugleiki í útileikjunum farið langt með að rétta liðið við.

Hvernig verður byrjunarliðið á morgun? Að mínu mati mun Rafa Benítez, í ljósi meiðsla og annars vesens, stilla þessu svona upp:

Dudek

Finnan – Carragher – Hyypiä – Traoré

Núnez – Gerrard – Hamann – Riise

García – Mellor/Pongolle

garciaceleb_bcoombs.jpgAlonso er meiddur og því tel ég að Núnez komi inn í hans stað og fari á kantinn. García mun verða í framlínunni með öðrum hvorum unga framherjanum, og mun virka sem svona tengiliður á milli miðjunnar og sóknarinnar. Sem sagt, okkar maður ‘í holunni’. Ég hallast frekar að því að Mellor byrji inná á morgun þótt Pongolle sé búinn að vera heitur undanfarið, þar sem Pongolle hefur verið að spila meira en Mellor um hátíðarnar og gæti því verið þreyttur.

Hvað á maður svo að segja um þetta Norwich-lið? Þegar við mættum þeim síðast í september á Anfield unnum við auðveldan 3-0 sigur og miðað við þá spilamennsku sem ég sá til þeirra um daginn á Stamford Bridge, þar sem Chelsea rústuðu þeim 4-0, þá ættum við að öllu eðlilegu að sigra þetta lið á morgun.

Hins vegar náðu þeir jafntefli gegn Portsmouth á útivelli um daginn, þar sem heimamenn í Portsmouth skoruðu jöfnunarmarkið á lokamínútunum, og því er eitthvað við þennan leik sem segir mér að hann verði erfiður – allavega mikið erfiðari en W.B.A.-leikurinn í síðustu viku.

MÍN SPÁ: Ég held að við vinnum, þótt innst inni óttist ég að þetta Norwich-lið muni valda okkur einhverju uppnámi. Ég ætla að spá okkur svona 3-1 sigri þar sem García og Núnez munu báðir skora … og jafnvel annar hvor ungu framherjanna líka. En mér finnst allavega líklegt að Spánverjarnir skori, það hlýtur allavega að vera kominn tími á Núnez sem hefur verið rændur núna tvo leiki í röð!

Þetta er mikilvægur leikur, en það eru það svo sem allir deildarleikir þegar komið er fram á nýja árið. Á þriðjudaginn eiga Middlesbrough að keppa við Chelsea á Stamford Bridge og munu væntanlega tapa, þannig að sigur á morgun mun að öllum líkindum lyfta okkur upp í fimmta sætið og aðeins þremur stigum frá Everton í fjórða sætinu. Það stefnir í hörkuspennandi baráttu þar á milli nágrannanna um Meistaradeildarsætið. 🙂

Áfram Liverpool – þetta er leikur sem á að vinnast og nú þarf bara að klára þetta. Það verður skrýtið að koma heim úr vinnu í hádeginu og fara beint í að horfa á enska boltann en ég er viss um að mánudagshádegismaturinn mun renna ljúflega niður með Liverpool-sigur í eftirrétt!

Ein athugasemd

  1. Við verðum að vinna þennan leik, svo einfalt er það. Annars held ég að geðheilsu minni muni hraka all verulega.

    Þetta er nánast einsog í baseball núna, leikir á hverjum degi. Það er alltaf gott eftir tapleik, því þá hefur maður stuttan tíma í það að svekkja sig á tapinu. Þurfum að vinna núna fyrir þetta frí í deildinni.

    Ég spái 2-0 fyrir okkur.

Heppnir?

Liðið gegn Norwich: