Mat okkar á hópnum á fyrri hluta tímabilsins! (sóknin)

Jæja, þá er komið að næstsíðasta hluta í mati okkar á hópnum. Núna tökum við fyrir framherjana. Síðasti hlutinn fjallar svo um þjálfarann.

Allavegana, sóknin hefur verið hausverkur í allan vetur. Við seldum einn besta framherja í Evrópu og maðurinn, sem átti að leysa hann af, Djibril Cisse, meiddist fljótt. En það er auðvitað fullt jákvætt líka í þessu öllu.

Einsog áður, þá skrifaði Kristján textann og ég bætti við feitletruðum kommentum


Luis García: Hann kom til okkar frá Barcelona í haust og við Einar vorum alveg í skýjunum, enda vissum við vel hvað hann getur. Málið með García er það að í vetur hefur hann í raun bæði komið þægilega á óvart og valdið verulegum vonbrigðum. Ég segi oft að frammistaða hans spegli frammistöðu liðsins ? en hann á jafnan stórleiki á Anfield en á það síðan til að hverfa algjörlega á útivelli. Hvað sem því líður þá er hann enn sem komið er of óstöðugur til að eiga fast sæti í byrjunarliði Liverpool, en ef hann getur náð sér í smá stöðugleika og farið að spila eins og við vitum að hann getur í flestum eða öllum sínum leikjum þá er ljóst að við höfum algjöra gersemi innan okkar raða.

García er svona leikmaður sem maður veit aldrei hvað gerir næst við boltann, hann þrífst á hinu óvænta og hefur getuna til að snúa leikjum okkur í hag á svipstundu ? en okkur hefur einmitt skort svoleiðis leikmenn undanfarin tímabil. Eins og staðan er í dag er hann ekki langt frá því að vera lykilmaður, vantar bara smá stöðugleika í leik sinn, en á meðan hann kemur sér fyrir í borginni og svona er hann ofboðslega góður kostur að eiga, sérstaklega í heimaleikjum.

**Já, Garcia hefur verið mjög misjafn í vetur, en þó eru góðu leikirnir mun fleiri en þeir slæmu. Það, sem hefur eflaust háð honum er að hann hefur verið beðinn um að spila margar mismunandi stöður í þessu tímabili og þar af aldrei þá stöðu, sem hann spilaði fyrir Barca á síðasta tímabili, vinnstri kantinn. En Garcia er frábær knattspyrnumaður og ég er pottþéttur á því að hann eigi bara eftir að styrkjast núna þegar hann er orðinn vanari enska boltanum. 8/10**

Milan Baros: Allir þeir sem lásu þessa síðu í sumar á meðan Evrópukeppni landsliða var í gangi hljóta að hafa séð það skýrt og greinilega að Milan Baros er í miklu, miklu, MIKLU uppáhaldi hjá bæði mér og Einari. Og það er af góðri ástæðu. Hann kom til okkar sem einn efnilegasti framherji í Evrópu og hefur síðan sprungið gjörsamlega út og er núna bara orðinn einn besti framherji í Evrópu. Hann var markakóngur Evrópukeppninnar í sumar og er þegar kominn með 11 mörk fyrir okkur í tæplega 20 leikjum eða svo. Hann væri eflaust kominn með talsvert meira ef hann hefði byrjað inná í öllum leikjum og hefði ekki misst úr samtals einhverjar fimm vikur eða svo vegna meiðsla. Þegar þetta er skrifað er Djibril Cissé fótbrotinn og þrátt fyrir vasklega framgöngu ungu framherjanna okkar í desembermánuði þá er Milan Baros ennþá okkar langöflugasti framherji og algjör lykilmaður í liði Rafa Benítez.

Ef nýr framherji verður keyptur í janúar (sem er næsta víst) þá er það alveg pottþétt til að fá góðan félaga af heimsklassa með Baros í framlínunni, ekki einhver sem á að koma í staðinn fyrir Baros. Baros sjálfur er algjör heimsklassaframherji eins og þeir gerast bestir, sumum finnst hann kannski svolítið villtur en ég tel að það sé hluti af hans stíl og hluti af því sem gerir hann svona óviðráðanlegan á velli. Það sem mestu máli skiptir er að hann skorar mörk, býr til marktækifæri fyrir sig og aðra með botnlausri vinnu og virðist aldrei verða saddur hvað markaskorun varðar. Hann er eins og hákarl, hann bókstaflega getur ekki bakkað með boltann og kann ekkert annað en að ráðast beint á háls andstæðinganna, knattspyrnulega séð. Næstum því ómissandi fyrir okkur í vetur og það verður spennandi að sjá hvernig honum gengur með nýjum félaga í framlínunni á vormánuðum, hver svo sem það verður!

**Jamm, ég elska Baros. Hann er æðislegur framherji og ég er ekki frá því að hann sé sterkari framherji en Michael Owen. Einn af fimm bestu framherjunum í enska boltanum, þrátt fyrir að fáir utan Liverpool virðist gera sér grein fyrir því hversu góður Milan er. Hann þarf að losa sig við þessi þrálátu meiðsli. 9/10**

Neil Mellor: Mellor er ekki fljótur, ekki flinkur og ekki með neitt frábærar sendingar. Af hverju er hann þá í Liverpool-liðinu? Svar: af því að hann skorar mörk. Hann minnir mig svolítið á Ian Rush að því leytinu til að Rush var aldrei sá leiknasti eða flottasti með boltann. En þeir kunna báðir þá listgrein að skora mörk og gera það vel. Mellor er grimmur upp við mark andstæðinganna og nýtir vel þau færi sem hann fær. Hann hefur reynst okkur ómetanlegur í vetur sem er nokkuð frábært miðað við það að maður bjóst ekki við neinu af honum. Hann vann Arsenal fyrir okkur sem mun aldrei gleymast og þótt nýr framherji komi inn í liðið í janúar og hann verði þriðji kostur á ný (og svo að lokum fjórði kostur þegar Cissé snýr aftur) þá er hann einn af þessum leikmönnum sem er frábært að hafa í hópnum. Hann er ungur, grimmur og áræðinn og skilar sínu starfi jafnan þótt þau tækifæri sem hann fær séu fá og langt á milli þeirra. Hann hefur verið ein óvæntasta ánægja vetrarins.

**Þetta hljómar fáránlega, en það eina sem Mellor getur gert er að skora mörk. Að mínu mati á hann að vera þriðji kostur (fjórði væntanlega í janúar) á eftir Baros og Pongolle. Pongolle er að mínu mati betri á öllum sviðum en Mellor og ég held að núna þegar Flo-Po sé loksins farinn að skora að hann muni virkilega springa út. En Mellor hefur verið okkur ómetanlegur í vetur. Samt, það angrar mig alltaf að hann skuli ekki hafa komist í lið hjá West Ham. 7/10**

Florent Sinama-Pongolle: Á meðan Le Tallec vildi fara til minna liðs til að fá að spila gerði Pongolle rétt að mínu mati með því að ákveða að vera kyrr og berjast fyrir sæti sínu. Í kjölfar meiðsla Cissé hefur Pongolle fengið að spila heilan helling og ef Tony hefði verið kyrr hefði hann fengið það líka. Tony snýr líklegast aftur í janúar og mun vonandi ná að láta að sér kveða á seinni hluta tímabilsins en á meðan getum við yljað okkur við frammistöður Pongolle í vetur. Hann hefur jafnan komið með mikinn aukakraft inn í þetta lið og lífgað mjög upp á sóknarleikinn. Hann var maður leiksins gegn Olympiakos þrátt fyrir að spila bara seinni hálfleikinn og skoraði þar mikilvægt mark. Þá var hann einn af okkar bestu mönnum og skoraði gegn W.B.A. um daginn, bjargaði okkur fyrir horn gegn Tottenham í Deildarbikarnum og nú síðast skoraði hann sigurmarkið gegn Southampton.

Hann er óðum að festa sig í sessi sem leikmaður sem vel er hægt að treysta á í sókninni og ég held að eftir því sem hann eldist (hann er enn 19 ára) muni hann springa algjörlega út og verða einn af aðalsóknarmönnum okkar í framtíðinni. Ég hef bara fulla trú á því. Pongolle minnir mig að vissu leyti á Thierry Henry þegar hann var ungur: Henry skoraði aldrei mikið með Mónakó og Juventus en hann var skotfljótur, duglegur að skapa fyrir félaga sína og virtist hafa frábæra tækni. Hann gat spilað bæði kant og framherja og svo þegar hann kom til Arsenal og fann lið sem hentaði sínum stíl sprakk hann út. Ég sé Pongolle fyrir mér verða fyrir sömu þróun nú þegar Benítez er kominn við stjórnvölinn. Ég held bara að Pongolle, þrátt fyrir að hafa lofað verulega góðu og lagt margt af mörkum í vetur, eigi miklu meira inni og að við munum einn góðan veðurdag líta á hann sem einn besta framherjann í Úrvalsdeildinni, jafnvel Evrópu. Honum eru engin takmörk sett, sennilega efnilegasti leikmaður okkar í mörg ár!

**Ok, ég viðurkenni alveg einsog með Baros að ég dýrka Flo-Po. Hann er snillingur með boltann, það virðist alltaf vera hætta í kringum hann og svo er augljóst að hann er fullur af leikgleði og hann eeeelskar að skora mörk. Hann verður frábær! Ég skal lofa ykkur því. Vona að hann týnist ekki þegar við fáum nýjan framherja í janúar. Hann á alltaf að vera á undan Mellor. 8/10**

Djibril Cissé: Ég er ennþá að jafna mig eftir fótbrotið hans. Cissé er í svo miklu uppáhaldi hjá mér persónulega að mér var nánast sama þótt Owen skyldi fara í haust, úr því að Djib var mættur á Anfield. Ég hef fylgst með honum í Frakklandi í tvö ár núna og beðið ótrúlega spenntur eftir að sjá hann spila fyrir Liverpool. Hann byrjaði vel með okkur en virtist síðan eiga í smá vandræðum, þá sérstaklega fannst manni hann og Baros ganga illa að ná saman í framlínunni. En síðan fór þetta að ganga betur og einmitt þegar manni fannst þeir vera farnir að venjast hvor öðrum þá fótbrotnaði hann og mun ekki spila fótbolta fyrr en í fyrsta lagi í maí/júní. Að mínu mati getum við afskrifað Cissé þangað til næsta haust en þá á ég líka von á að hann komi aftur af fullum krafti. Það er alltaf þannig með menn sem lenda í slæmum meiðslum að það er ákveðinn andlegur múr sem menn þurfa að yfirstíga ? og sumir ná aldrei að yfirstíga hann. Ég vona að þessi andlegi múr verði ekki of erfiður fyrir Djib þegar hann byrjar aftur að spila því það yrði algjör synd ef hann myndi aldrei aftur ná fyrri styrk fyrir Liverpool, þar sem það býr svo ótrúlega mikið í þessum strák. Ég hlakka til að fá hann aftur í haust!

**Já, Cisse olli mér vonbrigðum á þeim tíma, sem hann spilaði fyrir liðið, en mér datt þó ekki í hug að gagnrýna hann enda var hann nýr í deildinni. Það var einna helst að mér fannst hann alltaf vera í fýlu þegar hann spilaði. En það er vonandi að Cisse komi aftur sterkari á næsta tímabili. Hann er frábær framherji og á vonandi eftir að skorfa fulltaf mörkum fyrir Liverpool. 6/10**

2 Comments

  1. Fær Baros 9/10 og Pongolle 8/10 !!!!

    Mér finnst nú getumunurinn á þeim vera alveg miklu miklu meiri.

    En tölur segja kannski ekki allt.

    Í grunnskóla var oft gefin einkunn: lélegt, sæmilegt, gott, ágætt.

    Í því kerfi segi ég að Baros sé ágætur, en Pongolle sæmilegur. Garcia er góður, en Mellor sæmilegur.

    Vonandi kaupum við svo annan ágætan leikmann :tongue:

  2. Sammála ykkur með framherjana. Ein af ástæðunum fyrir trú minni á gott gengi í framtíðinni eru framherjarnir hjá okkur! Hljómar undarlega þar sem við höfum átt í framherjavandamálum.

    Ég er einlægur aðdáandi Pongolle. Ég vona innilega að hann fái að blómstra hjá Liverpool. Hann á pottþétt eftir að vinna sig upp í fastasæti.

    Þið lýsið Baros alveg snilldarlega. Hann er eins og hungraður úlfur í leit sinni að markinu. Þvílíkt vinnusamur og framsækinn að unun er að horfa á.

    Garsia er fyrst og fremst kantmaður. Framsækinn kantmaður sem getur skorað mörk. Ef við fáum annan framherja núna í janúar þá fær hann örugglega að spila sína stöðu meira. Þið segið að hann hafi spilað vinstri kantinn á spáni. Hefur hann ekki tekið hægri kantinn hjá okkur???
    Ég meina, er hans kjörstaða sama og Kewells og Riise?

    Vonandi á Mellor eftir að vaxa meira í hraða og tækni. Því ef hann gerir það ekki þá sé ég hann ekki ná því að komast í aðalliðið hjá Liverpool. Hann kannski veit það strákurinn! En þvílíkt markanef sem hann hefur. Ég mun aldrei gleyma því þegar hann tók Arsenal í nefið….. 🙂
    Kannski er hann bara stórkostlegur leikmaður í 4-4-2 eða 4-3-3 leikkerfi þar sem hann er mataður af sér hraðari framherjum. Því hann kann svo sannarlega að skora mörk strákurinn.

Norwich 1 – L’pool 2

Pellegrino á leiðinni (uppfært)