L’pool 0 – Chelsea 1

tapfyrirchelsea.jpg

EKKI NÓGU GOTT

Þetta eru orðin sem sitja eftir í hausnum á mér eftir að hafa horft á okkar menn tapa nýársslagnum við topplið Chelsea. Þetta var mjög gott hjá okkar mönnum, en samt ekki nógu gott. Ég kem nánar að því síðar, en fyrst ætla ég að fara yfir það sem var gott:

Byrjunarliðið virkaði mjög sterkt á mig. Ég hafði hárrrétt fyrir mér með 4-5-1 uppstillinguna, Rafa stillti þessu svona upp:

Dudek

Finnan – Carragher – Hyypiä – Traoré

García – Gerrard – Hamann – Alonso – Riise

Pongolle

Þessi liðsuppstilling virkaði frábærlega, því ég hef ekki séð Chelsea spila jafn illa í tvö ár og þeir gerðu í dag. Þeir eru kannski toppliðið í Englandi núna og hafa verið óstöðvandi undanfarið, en í dag gátu þeir alls ekki neitt. Ekki neitt. Það var ótrúlegt að horfa á þá, það eina sem þeir gerðu í leiknum var að hreinsa boltanum hátt og langt fram kantana og vona að Duff og Robben myndu fyrir einhverja galdra ná að búa til mörk út úr því. Þeir voru hræðilegir í þessum leik.

Lampard hefur ekki verið svona lélegur í fleiri mánuði. Við yfirspiluðum þá á miðjunni, Hamann spilaði einn sinn besta leik fyrir Liverpool í langan tíma og Gerrard var allt í öllu á vellinum. Alonso, þangað til hann fór útaf, var stöðugt ógnandi og eftir að hann fór útaf fór García inná miðjuna og var þeim stöðugt til ama. Á vængjunum voru Riise í banastuði og Núnez sem gerði ekki mikið meðfram hliðarlínunni en var nálægt því að skora í þrígang.

Frammi var Sinama-Pongolle að berjast vel, pressa Gallas og Terry og reyna eins og hann gat að nýta sér auð svæði á milli þeirra. Því miður fyrir hann er Chelsea-vörnin sú sterkasta í Englandi í dag og því sá hann lítið sem aldrei til sólar.

Vörnin okkar virtist ráða við allt sem Chelsea gerðu – aðallega háir skallaboltar á Carra og Hyypiä – en af og til virtust þeir missa boltann klaufalega eða renna til á vellinum eða gera eitthvað álíka sem benti til þess að við gætum gefið Chelsea aulamark.

Við vorum einfaldlega miklu, miklu, miklu betri í þessum leik og hefðum að öllu eðlilegu átt að vinna þennan leik. Hvernig í ósköpunum gátum við þá tapað???

Svar: af því að við gerðum mikið en ekki nóg. Nokkur dæmi:

Þegar Luis García fékk boltann í upplögðu skotfæri í seinni hálfleiknum inná miðjum teig Chelsea skaut hann hátt yfir. Hann kenndi bleytunni í grasinu um. Tíu mínútum seinna fékk Joe Cole erfiðara færi fyrir utan okkar teig og hann setti hann á markið. Ekki þrumuskot í skeytin og boltinn þurfti á hjálp Carragher að halda til að komast í netið, en hann skaut samt á helvítis markið.

Vörnin þeirra var undir stöðugri pressu allan tímann og hún hélt. 0 mörk fengin á sig í dag. Vörnin okkar hafði það frekar náðugt, þurftu bara að eiga við einhæfa hábolta og Eið Smára í gríðarlegu óstuði, og svo nokkur innköst og hornspyrnur. Okkar vörn fékk á sig 1 mark í dag. EKKI NÓGU GOTT!

Hvað er til ráða, spyr maður sig? Nú, Riise fór útaf meiddur í þessum leik og maður hálfpartinn bíður eftir slæmu fréttunum af þeim meiðslum. Hins vegar eru slæmu fréttirnar af Xabi Alonso þegar komnar í hús: hann er ökklabrotinn!

Við vitum að Benítez kaupir framherja í janúar. Baros er meiddur þessa dagana og Cissé er fótbrotinn, og þótt Pongolle og Mellor hafi staðið sig framar vonum er hvorugur þeirra nógu góður til að bera sóknina uppi einn síns liðs. Staðreynd. Þannig að framherji verður verslaður, það mun síðan koma í ljós næstu daga hvort sá maður heitir Anelka, Morientes eða eitthvað annað.

Fyrir mér þurfum við samt að styrkja fleiri stöður. Ég sá það bara skýrt í dag. Okkur vantar miðjumann, ef Alonso verður frá út tímabilið þurfum við annað hvort að kaupa mann á borð við Aimar eða að gefa Igor Biscan annað tækifæri. Salif Diao er ekki nógu góður og ef Biscan er að fara til Southampton verðum við að fá miðjumann. Harry Kewell er meiddur í rúman mánuð og þótt ég sé hrifinn af þeim eru Núnez og García engir Ljungberg og Pires, né Robben og Duff. Því miður, en okkur vantar meiri kraft af miðjunni í sóknina … og nýja stjörnu til að leiða sóknarlínuna.

Varnarlega? Sko, Josemi er frá í sex vikur en Otsemobor er kominn aftur til Anfield og því er hægri bakvarðarstaðan í lagi hjá okkur á meðan Finnan og Otsemobor eru heilir. Vinstri bakvarðarstaðan er líka í lagi, þótt ég hafi ekki verið hrifinn af óörygginu í Djimi Traoré í dag. Miðvarðarstaðan er samt vandamál, eða öllu heldur gæti orðið það í náinni framtíð. Carra og Hyypiä hafa verið frábærir í vetur en þeir hljóta að fara að verða þreyttir á næstunni, enda hafa þeir spilað alla okkar leiki í ár eða því sem næst. Og hvað gerum við ef annar þeirra meiðist, eða báðir? Þorir einhver að veðja gegn því, eins og okkar meiðslasaga hefur verið?

Þannig að þótt ég hafi verið hrifinn af frammistöðu okkar í dag og ánægður með að sjá okkur yfirspila þetta svokallaða topplið – sem var heppið í dag – þá er staðreyndin samt sú að liðið okkar er ekki nógu gott. Staðreynd. Við yfirspiluðum Chelsea í dag og ef við hefðum haft Baros, Cissé, Kewell og Michael Owen í dag hefðum við sennilega haft nógu mikinn sóknarkraft til að búa til fleiri færi, sem og að breyta einhverjum af þessum færum í dag í mörk.

En við höfðum þá ekki og nú erum við búnir að missa Alonso og jafnvel Riise líka. Það er ekki nóg að kaupa Morientes/Anelka/annan framherja. Við verðum að bæta í sóknina ef við ætlum okkur einhverjar rósir í deildinni. Og við verðum að baktryggja okkur í miðri vörninni.

Ekki nógu gott. Því miður, við vorum nálægt því en á endanum er það eina sem skiptir máli það að Chelsea skoruðu eitt mark í dag og við ekkert. Það skiptir máli. Chelsea, þrjú stig – Liverpool, ekkert stig. Það skiptir máli. Chelsea spiluðu ömurlega í dag en unnu samt. Við spiluðum mjög vel, en ekki nógu vel, og töpuðum samt. Því miður en svona er þetta bara.

Rafa á ærið verk fyrir höndum. Liðið þarf að rífa sig upp eftir þessi vonbrigði og missinn á Alonso og taka Norwich í bakaríið eftir tvo sólarhringa. Síðan kemur átta daga pása sem verður væntanlega notuð til að kynna einn eða tvo nýja leikmenn, að minnsta kosti. Síðan eigum við Watford í undanúrslitum Deildarbikarsins og svo loks Manchester United á Anfield í deildinni. Næstu þrír leikir verða að vinnast, en leikurinn í dag varð líka að vinnast.

Æji ég veit það ekki. Við sáum muninn á liðunum í dag: þeir spiluðu ömurlega og unnu samt, við spiluðum miklu betur en þeir og töpuðum samt. Það er ástæða fyrir því.

Þá ástæðu þarf að laga. Nýjir leikmenn, strax!


**Uppfært (Einar Örn)**: Góð skýrsla hjá þér, Kristján. Ég sagði það við vin minn eftir leikinn að þetta væri einfalt, þau lið sem vinna titla eru þau lið, sem geta verið **miklu** lélegra liðið í 90 mínútur en samt náð að vinna. Það gerði Chelsea í dag.

Auðvitað er ekki hægt annað en að gráta yfir óheppni okkar. Tiago rændi Núnez upplögðu skallafæri og það hefði átt að dæma víti og gefa honum rautt spjald, en dómarinn sagði að þetta hefði verið “bolti í hönd”. Semsagt, ef þú spilar fyrir Chelsea og lyftir höndinni upp innan vítateigs og boltinn fer í hana, þá er það í lagi.

Svo er þetta meiðsladæmi náttúrulega hætt að vera fyndið. Pongolle er ekki nógu sterkur til að vera einn frammi og ég er 100% viss um að leikurinn hefði ekki farið svona ef að Milan Baros hefði verið frammi.

En það er líka staðreynd að ég er 100% viss um að Rafa mun ekki kvarta þótt að Xabi verði frá í mánuð og að þessi meiðslavandræði séu komin útí rugl. Nei, hann mun láta verkin tala í stað þess að væla yfir því hversu hræðilega ósanngjarnt þetta tímabil hefur verið fyrir okkur Liverpool menn. Dómarar og meiðsli hafa kostað okkur mikið, en við getum ekkert við því gert.

Vonandi að Rafa styrki liðið í janúar og að menn láti þetta ekki á sig fá. Við yfirspiluðum Chelsea í 90 mínútur og menn geta verið stoltir af því. Núna er bara að rífa sig upp fyrir næstu leiki. 3-0 sigur á Man U væri ágætis sárabót fyrir þetta gríðarlega ósanngjarna tap.

p.s. eftir mikla gagnrýni frá mér þá verð ég nú að minnast á það að Didi Haman var frábær í dag. Án efa okkar besti maður. Núna fær hann fullt af tækifærum, svo það er vonandi að hann stingi ærlega uppí gagnrýnendur sína og sanni að hann sé enn heimsklassa miðjumaður líkt og hann var fyrir nokkrum árum.

11 Comments

 1. Það hefði verið gott að fá dæmda vítaspyrnu og spila við 10 menn eftir það!!!

 2. Þetta er fáránlegt, Alonso brotinn, Riley er geldur sem dómari, tapa þrátt fyrir að yfirspila Chelsea. Það er eins gott að árið 2005 batni fótboltalega séð um 243% svo að ég geti orðið ánægður með lífið.

 3. Ein spurning.
  Hafið þið einhvern tímann séð mann rekinn útaf fyrir að gera það sem tiago gerði í dag? Þetta var klárlega víti en ég efast stórlega um rautt spjald.
  Og svo annað að segja að ef þú ert í Chelsea og komir við boltann með hendi þá sé aldrei dæmt víti.
  Hvernig var það á tímabili með “vara”markamanninn ykkar Henchoz. Þið kvörtuð ekki þá.
  En annars þá fannst mér L’pool mikið betra liðið í fyrri hálfleik en þetta var frekar dapurt í seinni hálfleik hjá báðum liðum.

 4. Æ, Platini, þetta er nú kannski sett fram sem djók hjá mér varðandi hendina. En mér fannst það samt fáránlegt að lesa það að Riley hefði sagt að þetta hefði verið “bolti í hönd”. Ég hef aldrei hikað við að viðurkenna að það átti að dæma á Henchoz þegar það gerðist, en það er ekki einsog það sé verið að hegna okkur fyrir 5 ára gömul brot.

  Það er fáránlegt að þegar maður réttir upp höndina að þá sé það dæmt sem bolti í hönd. Það er bara fáránlegt að halda því fram. Víst að Riley sá þetta, þá var þetta víti. Spurning hvort það er rautt spjald, ég þekki reglurnar ekki nógu vel. En mér fannst þetta ekkert mikið betra en þegar W.B.A. maðurinn varði á línu frá Núnez. Þá var rautt spjald, svo ég get ekki séð af hverju það sama átti ekki að gilda í dag.

  En aðalmálið er auðvitað að Liverpool átti að klára leikinn með eða án hjálpar frá þessum bjánadómara.

  Og já, sammála “Platini”, seinni hálfleikurnn var arfaslakur hjá báðum liðum, en þó var Liverpool mun meira með boltann og mér fannst þeir talsvert sterkar í seinni hálfleik líkt og í þeim fyrri.

 5. Ágæt leikskýrsla hjá þér Kristján. Eftir að hafa dominerað fyrri hálfleikinn með 80% posession á bolta þá var maður einhvernveginn alveg viss um að þessi leikur myndi ekki vinnast sem er náttúrulega fáránlegt. Það er eins og þú segir liðið gerði bara ekki nóg. Margt jákvætt í leik liðsins og það myndi duga mér ef þeir spiluðu þá leiki sem eftir eru líkt og þeir spiluðu fyrri hálfleikinn. En það vantaði þennan herslumun sem Chelsea virðist hafa þessa dagana og þeir eru ansi líklegir meistarar (sem er náttúrulega gaman fyrir okkar mann). Þá er bara að taka kanarífuglana í kjaftinn á mánudaginn og þá er árangurinn úr jólatörninni svosem viðunnandi ekki satt ? Áfram LFC

 6. takk fyrir góða leikskýrslu…

  þar sem ég hef verið í sveitinni um jólin hef ég ekki getað séð síðustu 3 leiki liverpool og því gott að geta fengið lýsingu á leiknum hérna…

  ég er reyndar fegin að hafa ekki séð leikinn í dag… kominn með leið á að horfa á liverpool eiga stórleiki, en tapa síðan vegna þess að þeim tekst ekki að koma boltanum oftar í netið en mótherjanum…

  svo er bara að vona að rafa verði duglegur næstu vikuna og kaupi 3-4 leikmenn… (þó það sé ekki líklegt…)

  allavegna styrki sóknina og miðjuna… :confused:

 7. já þetta var helvíti súrt.
  en það er eitt sem við getum verið sáttir við eftir þennan leik sem hingað til hefur verið að pirra okkur mikið en það er dudek. hann var mög góður í þessum leik og gerði í raun allt rétt.

 8. Jamm, sammála. Dudek var virkilega óheppinn með markið. Hann var mjög vel staðsettur þegar Cole skaut en hællinn á Carragher sá til þess að boltinn fór inn. Ferleg óheppni.

 9. ÞAð er erfitt að sigra 12 manna lið þegar að 12. maðurinn er dómarinn sjálfur! Riley var greinilega búinn að ákveða hver skildi fara með stigin af velli, engin furða að dómarar eru með sömu sponsora og Chelsea.

  Annars þá sást í leiknum hversu miklu betri Gerrard er en fat-boy Lampard.

  Annars á Rafael Benitez allt hrós skilið fyrir að hafa komið okkur í undanúrslit Carling Cup, 16 liða úrslit CL og við erum aðeins 6 stigum frá 4. sætinu. Allt þetta með ótrúlega þunnan hóp þar sem að lykilmenn meiðast reglulega, dómarar leggjast á ráðin gegn Liverpool og með lítinn pening.

 10. Ég er ekki vanur að skrifa ósigur á eitthvað annað en liðið sjálft. En í þessum leik verður ósigurinn ekki skrifaður á okkar menn af því þeir voru ekki nógu góðir. Þess vegna er ég í fyrsta skipti í vetur Kristján Atli ósammála mati þínu.

  Frammistaðan var nógu góð. En það sem gerðist í þessum leik er það sem gerist stundum í fótbolta. Slakara liðið vinnur!!!! Ekkert við því að gera. Hluti af pakkanum. Dómgæslan hafði úrslitaáhrif og síðan var árásin hjá Lampard á Alonso alveg út í hött. Ég hafði það á tilfinningunni að Lambard var pirraður yfir góðu spili okkar manna. Þetta var reiði tækling sem endaði skelfilega. Og ef menn vinna leiki eftir svona framgöngu þá kalla ég það að vinna óheiðarlega.

  Þetta er mín skoðun. Alls ekki misskilja mig Kristján Atli. Ég les leikskýrslunar þínar alltaf og ég ber ómælda virðingu fyrir innsæi og viti þínu á leiknum. Oftar en ekki hefur þú opnað augu mín fyrir hlutum hjá liðinu okkar sem ég hef ekki gert mér grein fyrir. En núna ætla ég vera ósammála heildarmati þínu.

Ó Nei! Milan ekki með!

Xabi frá í 6 vikur