Mat okkar á hópnum á fyrri hluta tímabilsins! (miðjan)

Jæja, þá er komið að öðrum hluta í úttekt okkar á leikmannahópi Liverpool (sjá [vörnina hér](http://www.kop.is/gamalt/2004/12/29/22.49.47/).

Núna er það miðjan. Einsog áður, þá skrifaði Kristján þetta og ég (Einar) bætti við mínum kommentum í feitletruðu.


hamann-portrait.jpgDietmar Hamann: Hamann er 31s árs gamall og skrifaði nýlega undir tveggja ára framlengingu á samningi sínum við Liverpool FC, sem eru að mínu mati gríðarlega góðar fréttir. Við Einar höfum fjallað mjög mikið um stöðu og hlutverk Hamann innan liðsins undir stjórn Benítez og ég er enn á þeirri skoðun að hann hafi fullt erindi inn í liðið í ákveðnum aðstæðum.

Hann mun sennilega spila æ færri leiki eftir því sem líður á þessi tvö ár sem hann á eftir og það gæti jafnvel farið svo að hann dvelji hjá okkur aðeins eitt af þessum tveimur árum, og fari frá okkur sumarið 2006. En þangað til mun hann eflaust halda áfram að vinna sína þöglu, vanþakklátu vinnu fyrir Liverpool og á eflaust eftir að gera okkur Einar gráhærða nokkrum sinnum ? og jafnframt reynast okkur ómetanlegur nokkrum sinnum ? áður en ferli hans hjá liðinu lýkur. Góður liðsmaður sem er því miður of einhæfur til að geta beitt sér jafn vel og aðrir miðjumenn liðsins í sókninni en engu að síður ómissandi þegar við þurfum að halda föstum tökum á miðjunni í erfiðum leikjum. Reynsla hans er dýrmæt.

**Úff, fíla ekki Hamann. Ef það væri hægt að frysta hann og afþýða bara fyrir útileiki í Meistaradeildinni, þá væri hann í lagi. En ég verð þunglyndur þegar ég sé hann í liðinu fyrir minni leiki. Kannski kann ég ekki nógu vel að meta þetta ?mikla hlutverk?, sem Hamann hefur, en ég get bara ekki stutt það að hafa fimmta varnarmanninn í liðinu. Ef Rafa vill spila 4-5-1, þá verðum við að fá betri mann en Hamann á miðjuna með Xabi og Stevie. 5/10 ? í sumum leikjum hefði hann fengið 0/10 en ég neita því ekki að hann hefur spilað ágætlega inná milli**

Salif Diao: Hann á það til að leggja sitt af mörkum með ágætis mörkum hér og þar en engu að síður held ég að ferill Diao hjá Liverpool, sem nú spannar tvö og hálft tímabil, geti ekki talist neitt annað en klúður. Þessi leikmaður sem blómstraði svo á HM 2002 hefur aldrei fundið sig á Englandi og ég held að það séu meira og minna allir sammála um það að hann er bara einfaldlega ekki nógu góður til að spila fyrir topplið í Englandi, hvað þá Evrópu. Hann verður hjá okkur fram á sumar en ég sé ekki fyrir mér neitt annað en að hann verði seldur eða lánaður frá okkur í sumar til að rýma fyrir nýjum mönnum sem henta hugsjónum Rafa Benítez betur.

**Ekki nógu góður. Næsti! 2/10**

Igor Biscan: Tæknitröllið Igor hefur nánast verið lagður í einelti á sínum tíma hjá Liverpool en samt skal framlag hans til liðsins ekki vanmetið. Hann spilaði næstum því alla leiki okkar í fyrra í miðri vörninni ásamt Sami Hyypiä og spilaði allajafnan mjög vel, enda stór og sterkur leikmaður. Samt gerði hann sig því miður sekan um nokkur slæm mistök ? sér í lagi brottreksturinn gegn Marseille ? sem gerðu hann frekar óvinsælan meðal stuðningsmanna liðsins. En Igor er drengur góður og ég held að það sé ekki til sá Liverpool-aðdáandi í heiminum sem ekki gladdist fyrir hans hönd þegar við horfðum á hann éta miðjuna hjá Deportivo upp til agna í erfiðum útileik í Meistaradeildinni. Við unnum þann leik 0-1 og var þar með lagður grunnurinn að sæti okkar í 16-liða úrslitum og það er ekki síst Igor Biscan að þakka. Hann hefur sannað það í vetur að hann á mikið meira inni og ég vona bara að hann fái frekari tækifæri í framtíðinni til að sanna hvað í honum býr, sem virðist vera umtalsvert. Einn vinsælasti leikmaður liðsins þótt hann verði aldrei lykilmaður.

**8/10 Igor er snillingur og hefur verið besti maður liðsins í nær öllum þeim leikjum, sem hann hefur spilað. Meiddist á mjög slæmum tíma. Útileikurinn á móti Deportivo var ótrúlegur. Gerrard hefði verið stoltur af þessari frammistöðu. Vona innilega að hann fái fleiri sjensa. Það er hreinlega grátlegt að hugsa til þess að Salif Diao skuli hafa fengið fleiri tækifæri en Igor**

Steven Gerrard: Fyrir tveimur árum hefði ég sagt að Patrick Vieira hjá Arsenal væri mesti alhliða miðjumaður í heimsknattspyrnunni. Í fyrra hefði ég sagt að Pavel Nedved væri mesti alhliða miðjumaðurinn. Í ár, að mínu mati, er engin spurning um að Steven Gerrard er sá miðjumaður sem allir aðrir verða að miðast við. Hann er fyrirliði síns heimaliðs ungur að árum, hann er lykilmaður í sínu landsliði sem telst stórlið á heimsmælikvarða, hann er einn eftirsóttasti leikmaður í heimi en allt þetta hefur engin áhrif á hann. Hann er einfaldlega besti miðjumaður í heiminum í dag og sýnir það í nánast hverjum einasta leik með Liverpool. Maður er orðinn svo vanur að sjá heimsklassa frammistöður hjá fyrirliðanum að hann þarf nánast að biðjast afsökunar í viðtölum eftir leiki ef hann vogar sér að vera ekki besti maður vallarins. Auðvitað pirra hinar þrálátu Chelsea-slúðursögur mann alveg svakalega en við erum bara dugleg að minna okkur á að það er enginn einn leikmaður stærri en Liverpool FC, ekki einu sinni Steven Gerrard. Ef hann fer þá munum við lifa það af og því neita ég að hafa áhyggjur af því einhverja mánuði eða jafnvel ár fram í tímann. Ef hann fer þá bara verður það svo. Á meðan hann er í rauðu treyjunni ætla ég hins vegar að njóta þess að hann skuli vera okkar maður. Að mínu mati er enginn einn leikmaður ómissandi í nokkru liði en ef einhver kemst nálægt því að vera það þá hlýtur það að vera Steven Gerrard, besti alhliða miðjumaður í heiminum í dag og fyrirliði Liverpool FC.

**Besti miðjumaður í heimi. Allir, sem halda öðru fram eru a) stuðninsgmenn Chelsea, Arsenal eða Man U b) hafa ekki vit á fótbolta, eða það sem er líklegast bæði a) og b). Hann og Alonso geta saman orðið að besta miðjupari í Evrópu. Krafturinn í Gerrard er hreint ótrúlegur á tímum. Ef hann hefði verið með okkur í allan vetur, værum við í annarri stöðu. Það er helvíti gott hjá Liverpool að missa markahæsta manninn, Michael Owen, í upphafi tímabilsins og vera án Stevie G. Stóran part tímabilsins og vera þrátt fyrir það í þeirri stöðu, sem við erum þó í í dag. Gerrard er bestur. Punktur. 10/10 ? ef hann getur spilað betur, þá er það ótrúlegt!**

Xabi Alonso: Þótt hann hafi kostað heilar 10.8 milljónir punda þá held ég að þessi drengur muni reynast einhver bestu kaup Liverpool FC í langan, langan tíma. Hæfileikar hans eru augljósir öllum sem hafa eitthvað vit á fótbolta en hann er sennilega með einhverja bestu sendingargetu í Úrvalsdeildinni núna. Koma Alonso til Liverpool hefur þegar stökkbreytt því hvernig liðið leikur sóknarleik sinn og hefur á sama tíma gefið Steven Gerrard lausan tauminn fram á völlinn, sem hefur skilað sér í fleiri mörkum frá miðjumönnum okkar en undanfarin ár. Þetta er ekki síst Alonso fyrir að þakka. Þá sást það bersýnilega hversu mikið leiðtogaefni þessi drengur er þegar Gerrard var meiddur og missti úr tvo mánuði vegna meiðsla. Þá nánast bar Xabi Alonso liðið uppi frá miðjunni og átti hvern stórleikinn á fætur öðrum. Hann er bara búinn að vera hjá okkur í fjóra mánuði en hann er þegar orðinn lykilmaður liðsins og ég sé enga ástæðu til að ætla annað en að hann verði það um ókomna tíð.

**Snillingur, sem allt virðist snúast í kringum hjá Liverpool. Hann virðist alltaf vilja fá boltann og sækir hann alveg aftur til öftustu manna. Á tíðum virðist allt spil fara í gegnum hann. Einhverst staðar las ég að hann væri Jan Molby endurfæddur (eftir þrjá mánuði á Atkins kúrnum). Enginn í enska boltanum gefur betri sendingar en þessi spænski snillingur. Ótrúlegt að hann skuli bara vera 22 ára. Einnig er það frábært að hann virðist pæla virkilega í öllu tengdu fótbolta og ef dæma má af félagaskiptum hans frá Sociedad, þá er hann sannur heiðursmaður. Hann og Gerrard verða svakalegir saman. Get ekki séð hvar Stevie fær betri félaga á miðjunni en Xabi. ? 9/10**

Antonio Núnez: Þvílík rússíbanaferð hjá spænska vængmanninum. Hann meiddist á fyrstu æfingu sinni eftir fréttamannafundinn þar sem hann var kynntur í haust og það tók hann nærri því þrjá mánuði að ná að spila sinn fyrsta leik fyrir Liverpool. Hann kom inná í sigurleiknum gegn Arsenal en hefur svo sem ekkert átt neina stórleiki síðan. Hann er enn að spila sig í leikform og átti sennilega sinn besta leik til þessa gegn W.B.A. á annan í jólum, þar sem hann spilaði í fyrsta sinn heilar 90 mínútur fyrir okkur. Það er algjörlega ómöglegt að fella dóm um leikmann sem hefur ekki leikið meira en þetta fyrir okkur í vetur en mér finnst ég hafa séð nóg nú þegar til að benda til þess að hann geti í það minnsta orðið góður kostur að hafa í stórum hópi. Hann er fljótur, teknískur og er með góðar fyrirgjafir, auk þess sem hann hefur sýnt að oft og mörgum sinnum að hann er sterkur skallamaður, enda mjög hávaxinn. Það á þó eftir að koma í ljós hversu góður hann er í að taka menn á og eins hversu mjög hann getur haldið þessari hægri vængstöðu í sínum röðum og aðeins tíminn mun leiða það í ljós.

**Ég hef trú á Núnez. Finnst hann hafa ágætar innkomur, sérstaklega gegn W.B.A. Við værum kjánar ef við dæmdum hann strax eftir að hann kemur úr annarri deild og er búinn að vera meiddur heillengi. Verðum að gefa honum sjens á að sýna sig. Ég efast ekki um að hann muni sanna sig. 6/10**

_39901213_kewell200.jpg
Harry Kewell: Harrý hefur ekki haft það neitt allt of gott í vetur, greyið. Eftir að hafa byrjað vel með okkur í fyrra og skorað slatta af mörkum á sínu fyrsta tímabili lenti hann í markaþurrð á vormánuðum sem hélt áfram í haust og það var ekki fyrr en gegn Aston Villa í nóvemberlok að hann skoraði loks mark. Þar að auki var augljóst að þrátt fyrir að hann væri að leggja sig allan fram var hann ekki í nægilega góðu leikformi í haust. Hann hefur þó farið vaxandi þegar liðið hefur á tímabilið og frammistaða hans í desember hefur fyllilega bent til þess að við séum óðum að nálgast það að fá gamla, góða Kewell aftur. Ég vona það svo sannarlega þar sem hann er á góðum degi einn allra besti sóknarmaðurinn í Úrvalsdeildinni og getur reynst okkur mikill liðsstyrkur á seinni hluta tímabilsins.

**Getur miklu betur, en gagnrýninn á hann hefur verið álíka fáránleg og Josemi gagnrýninn. Ég held að við söknum Heskey að vissu leyti, því þá höfðum við alltaf einhvern til að sparka í. Kewell á eftir að koma sterkur inn aftur. Hann var farinn að leika miklu betur áður en hann meiddist nú fyrr í mánuðinum. Vonandi að hann fari að ná sér að fullu af þessum meiðslum. 6/10**

Darren Potter: Ég verð að viðurkenna það að þessi strákur leggst verulega vel í mig. Ég hef séð hann í nokkrum leikjum í haust, aðallega í Deildarbikarnum en líka í eins og tveimur Evrópuleikjum og hann hefur jafnan bara spilað mjög vel. Hann er ennþá svolítið léttur og vantar uppá líkamlegan styrk en það kemur með aldrinum, hann er enn bara 19 ára og það er ljóst að ekki vantar hæfileikana. Ef menn eru eitthvað að efast um það að þessi strákur eigi sér framtíð hjá liðinu þarf bara að rifja upp þriðja markið okkar gegn Millwall þar sem Potter dró fram töfrasprotann og bjó af frábærri yfirsýn til gott marktækifæri sem Milan Baros nýtti. Þessi strákur er ungur og á framtíðina fyrir sér en ég myndi titla hann ?efnilegasta leikmann Liverpool 2004?, alveg hiklaust.

**Hefur virkað fínt á mig þegar ég hef séð hann spila**

John Welsh: Welsh hefur spilað 20 mínútur gegn Middlesbrough og hálftíma gegn Tottenham og í ljósi þess hvað allir hinir ungu strákarnir í aðalliðinu eru að fá að spila mikið tel ég nokkuð ljóst að Benítez sjái ekki eins mikla framtíð í honum og öðrum ungum leikmönnum. Sem er miður, þar sem hann er fyrirliði U-21s árs landsliðs Englendinga og hefur lengi verið talað um hann sem einn efnilegasta miðjumann landsins en einhverra hluta vegna hefur hann aldrei náð að fylgja því eftir. Tíminn hlýtur að fara að verða á þrotum hjá honum, þar sem yngri menn á borð við Potter Le Tallec eru komnir fram fyrir hann í goggunarröðinni og því er ljóst fyrir mitt leyti að ef Welsh nær ekki að vinna sig upp í áliti núna fram á vorið þá held ég að dagar hans hjá Liverpool verði taldir í sumar.

**Varla hægt að segja neitt um Welsh, þar sem ég var þunglyndur í Boro leiknum og man lítið eftir honum gegn Tottenham.**

Richie Partridge: Í rauninni það sama og hjá John Welsh, nema hvað Partridge er orðinn 24 ára gamall og er því enn frekar á síðasta snúningi. Hann virðist jafnan fá góða dóma með varaliðinu en það skiptir nákvæmlega engu máli ef menn ná ekki að færa það yfir á aðalliðið. Partridge hefur ekki komist í aðalliðið hjá okkur þrátt fyrir að hafa reynt þrálátlega í einhver fimm ár og án þess að hafa séð hann spila mjög mikið hlýtur maður að geta ályktað að það stafi af því að hann er einfaldlega ekki nógu góður.

**Hann kom inná síðastur allra varamannanna gegn Tottenham, sem sýnir að hann á engan sjens með Liverpool.**

James Smyth: Smyth þessi er 18 ára kantmaður sem byrjaði að æfa með aðalliðinu í haust og því er alveg með ólíkindum að hann skuli nú þegar vera byrjaður að spila með liðinu. Hann fékk að spila síðasta hálftímann gegn Tottenham í Deildarbikarnum sem og framlenginguna og þótt hann sé augljóslega enn mjög ungur og líkamlega létur á velli þá sýndi hann leikni og áræðni sem lofaði góðu. Það verður athyglisvert að fylgjast með honum á næstu árum.

**Var fínn gegn Tottenham. Virkilega sprækur í þeim leik.**

7 Comments

  1. Þakka ykkur fyrir strákar þetta er fínt hjá ykkur. Þó maður sé ekki alltaf sammála ykkur í einhverjum smáatriðum þá er það sem þið eruð að segja í þessari úttekt nánast að öllu leyti rétt og gott. Umfjöllunin er málefnaleg og jákvæð og vitræn. Þetta á við um vörn og miðju og verður gaman að sjá hvort þið haldið örendinu í gegnum sóknina. Takk fyrir árið sem er að líða og ósk um gott gengi til ykkar og okkar stuðningsmanna LFC og ekki síst til liðsins okkar sem vinnur rússagrýluna í næsta leik. Húrra!!!!!!

  2. Fyrirgefðu Einar, en ekki gætiru komið með heimildir fyrir því að Hamann sé búinn að framlengja samninginn sinn ?

  3. Aron – það var ég sem sagði þetta, ég sá frétt um þetta á þriðjudaginn síðastliðinn minnir mig. Þú getur lesið fréttina hér á vef BBC Football. Það var búið að bjóða Hamann tveggja ára samning og í þessari frétt segist hann ætla að undirrita þann samning og verða því um kyrrt hjá okkur í a.m.k. tvö ár til viðbótar.

  4. Takk fyrir strákar og Gleðilegt nýtt ár!!

    Hlakka til að sjá upphitun frá ykkur fyrir styrjöldina á nýársdag. Please sannfærið mig nú um að við höfum einhvern séns!!!!! 🙂

  5. Þú talar um James Smyth. Er það sami maðurinn og Mark Smyth???? :blush: Sorry, ef ég er að afhjúpa fáfræði mína með þessari spurningu.

  6. JónH – þú ert ekkert að afhjúpa þína fáfræði heldur mína … svona getur maður gert klaufavillurnar. Þetta átti að sjálfsögðu að vera Mark Smyth, hinn ungi og efnilegi kantari. Ég veit ekki af hverju ég skrifaði James… :tongue:

  7. Ég verð að segja að ég sé sammála Kristjáni um Hamann. Hann er gríðarlega mikilvægur á móti stóru liðunum, heldur minna á móti þeim litlu ef afgangurinn af liðinu spila eins og eðlilegt þykir gegn litlu liðunum líka, stigin eru ekki gefin fyrirfram. Ég vill meina að Hamann sé lang vanmetnasti leikmaður Liverpool.

Kewell frá í mánuð!

Henchoz gagnrýnir Benitez