Mat okkar á hópnum á fyrri hluta tímabilsins! (vörnin)

Nú er Liverpool búið að spila sinn síðasta leik árið 2004 og framundan er árið 2005 sem hefst á stórleik á nýársdag. Við þetta tilefni, árslokin, fannst okkur Einari tilvalið að gera ítarlega úttekt og fara í gegnum allan hóp Liverpool FC og sjá hverjir þessara leikmanna eru framtíðarmenn í liðinu og hverjir eru á síðasta snúning. Hér er þessi árslokaskýrsla komin. Við birtum fyrst umfjöllun um varnarmennina, svo miðju, sókn og svo að lokum framkvæmdastjóra. Næsti hluti mun birtast seinnipartinn á morgun (30.des)

Þetta eru þeir 28 leikmenn sem hafa spilað fyrir aðalllið Liverpool FC á fyrri hluta tímabilsins 2004/5 og álit okkar Einars á þeim. Ég skrifa fyrra álitið og Einar bætir svo við feitletruðum texta um hvern leikmann:


Jerzy Dudek: Jerzy hefur í raun bara spilað nákvæmlega eins í vetur og undanfarin tvö ár. Jerzy spilar eins og snillingur í svona 98% tímans sem hann er inni á vellinum að verja mark Liverpool. En af og til kemur svona stundarbrjálæði sem hefur jafnan reynst okkur dýrkeypt. Að mínu mati er Jerzy gæðamarkvörður með stóran akkilesarhæl. Vandamálið er bara það að eins góður og hann er mun hann alltaf kosta okkur dýrmæt stig hér og þar, og þótt hann dugi í bili á meðan við finnum verðugan arftaka þá er það alls ekki nógu gott fyrir lið sem ætlar sér á toppinn.

**Nákvæmlega, ég hef reyndar orðið var við það að mér líður ögn betur þegar Dudek er í markinu en þegar Kirkland er þarna. En samt, maður er alltaf að bíða eftir næsta klúðri. Gegn Southampton var hann næstum búinn að kosta okkur sigurinn með einhverju bjána úthlaupi. Topplið einsog Liverpool vill vera, geta ekki haft markmann, sem gerir jafnmörg klaufamistök og Dudek. Þurfum nauðsynlega að fá markmann í sumar. 3/10 fyrri hlutann, 7/10 seinni hlutann.**

Chris Kirkland: Eftir að hafa lent í enn einum meiðslunum í haust kom Kirkland á ný inn í liðið gegn Chelsea í októberbyrjun. Hann náði að spila fjórtán leiki í röð áður en hann meiddist aftur nú í miðjum desember. Þegar hann kom inn í liðið var ég alveg viss um að hann væri kominn til að vera, að nú væri komið að því og hann myndi endanlega eigna sér byrjunarliðsstöðuna í liðinu. Hingað til hefur maður bara skrifað hæga framför hans á meiðslin og ekkert annað en í þessum fjórtán leikjum sem Kirkland spilaði fór maður að sjá annað sem olli manni stórum áhyggjum. Hann virkar mjög öruggur og sjálfstraustur á mann, hefur góða tækni í teignum og er sérstaklega góður í úthlaupum og að kljást við fyrirgjafir, enda frekar hávaxinn. Hins vegar hefur í haust að mínu mati komið bersýnilega í ljós að hans akkilesarhæll er staðsetningin. Hann hefur verið að fá á sig mörk sem við fyrstu sýn eru ekkert endilega honum að kenna, en við nánari athugun fer maður að leggja saman tvo og tvo og sjá að hann ætti að geta betur. Gegn Everton var hann gjörsamlega blindaður og sá ekkert hvað var í gangi og varði því ekki lágt skot beint á markið. Gegn Chelsea var fótavinnan hjá honum alveg fáránleg og því náði Cole að setja boltann að því er virtist yfir tærnar á honum af stuttu færi án þess að hann gæti hreyft legg né lið ? bókstaflega. Og gegn Birmingham kom skalli frá fyrirgjöf þvert yfir marklínuna þar sem Anderton potaði honum í netið ? án þess að Kirkland væri sjáanlegur.

Kirkland er eins og Dudek vissulega einn af svona tíu eða fimmtán bestu markvörðum deildarinnar í dag að mínu mati, en engu að síður hefur hann þennan stóra og áberandi galla sem hefur kostað okkur stig í haust. Ólíkt Dudek hins vegar hefur Kirkland aldurinn sín megin og getur vel lagað þessa galla sína og þá efast ég ekki um að við erum með klassamarkvörð á okkar höndum. En þangað til er hann, eins og Dudek, óvissuþáttur og því verð ég að segja að markvarðarstaðan hjá okkur er í raun ekki í jafn góðum málum og við höfum viljað halda síðustu tvö-þrjú árin.

**Ég hef enn ekki séð neitt frá Kirkland, sem sannfærir mig um að hann sé framtíðarmarkvörður Liverpool eða Englands. Svo einfalt er það. Þangað til að hann sannfærir mig (t.d. með því að verja einhver skot), þá verð ég áfram á þeirri skoðun. 4/10**

Josemi: Hann var fyrsti leikmaðurinn sem Benítez keypti til Liverpool, kom ódýrt og það kannaðist eiginlega enginn við hann þegar hann kom. Tímabilið sjálft byrjaði vel og í september og október var farið að kalla hann ?Spanish Carra? sem sýndi vel vinsældir hans meðal stuðningsmanna. Fyrstu tvo mánuðina í deildinni gerði hann bókstaflega aðeins ein mistök, þegar Henrik Pedersen hjá Bolton tók hann í karphúsið á vængnum og lagði upp sigurmark Bolton. En því miður þá hefur Josemi ekki náð að fylgja þessu eftir og hefur dalað í nóvember og desember. En þrátt fyrir að hann hafi dalað þá verð ég að segja að mér hefur bókstaflega blöskrað yfir því hversu mikla gagnrýni hann er að fá. Það er eins og stuðningsmennirnir séu búnir að gleyma því hversu vel hann spilaði í byrjun tímabils, það er þegar búið að uppnefna hann versta leikmann í sögu klúbbsins og ég veit bara ekki hvað. Engu að síður er því ekki að neita að hann hefur átt erfitt uppdráttar og leikið illa undanfarið, en það verður að skoða heildarmyndina.

Af öllum Spánverjunum sem komu til liðsins í haust var Josemi sá eini sem talaði ekki stakt orð í ensku þegar hann kom, sem hefur vafalítið gert honum erfiðara fyrir að vinna með félögum sínum í vörninni. Þar að auki er það alkunna að Jamie Carragher er sá sem stjórnar vörninni, öskrar skipanir til og frá inná vellinum og hann er nú ekki með auðveldasta hreiminn fyrir útlending að skilja. Þannig að við verðum að gefa Josemi smá frest til að venjast því að tjá sig á vellinum við Carra og hina félaga sína. Þá er hann að spila í nýju landi og allt það og þarf eflaust að aðlagast. Hann er meiddur eins og er og ekki væntanlegur fyrr en í janúarlok og ég hef í raun fulla trú á því að hann hafi bara gott af hvíldinni. Ég spái því hér með að Josemi ? sá sem við sáum í september og október ? muni mæta galvaskur til leiks og þagga ærlega niður í gagnrýnisröddunum á vormánuðum. Þessi drengur mun reynast góð kaup og það verða ansi margir svokallaðir ?aðdáendur? Liverpool neyddir til að éta sitt eigið skítkast þegar líður á tímabilið. Sjáið bara til!

**Nákvæmlega, ég er 100% sannfærður um að Josemi muni stinga uppí þessa stuðningsmenn, sem hafa verið með þessa brjáluðu krítík á allt, sem Josemi hefur gert á tímabilinu, en vá hann hefur virkað óstyrkur á tíðum. 5/10**

Steve Finnan Hægri bakvörður ársins í Úrvalsdeildinni tímabilið 2002/3 kom til okkar sumarið 2003 og átti að verða fastamaður í þeirri stöðu. Hann hins vegar olli talsverðum vonbrigðum í fyrra og það var ekki laust við að menn væru búnir að afskrifa hann í haust, enda var hann orðaður við sölu frá félaginu alveg þangað til leikmannaglugginn lokaði. Annað hefur þó komið á daginn þar sem Finnan hefur gjörsamlega blómstrað undir stjórn Benítez og í raun verið einn af okkar betri leikmönnum það sem af er vetri. Það er frábært að sjá kaup Houllier borga sig, þótt síðar hafi verið, því það minnir okkur á að Houllier vissi alveg hvað hann söng í leikmannakaupum … hann bara gat ekki náð því besta út úr leikmönnunum sem hann keypti. Steve Finnan er gott dæmi um þetta, leikmaður sem hefur sprungið út í vetur og er núna bara orðinn nánast fastamaður í liðinu, hvort sem er í bakverði eða á hægri kantinum. Hann á framtíðina fyrir sér í liði Benítez og mun reynast okkur mikilvægur liðsmaður á vormánuðum.

**Jæja, það er augljóst að við Kristján höfum ekki verið að fylgjast með sama manninum. Finnan hefur valdið mér gríðarlegum vonbrigðum alveg frá því að hann kom til liðsins. Hann hefur leikið ágætlega í síðustu 5-6 leikjum en fram að því hafði hann verið slappur. Benitez sannaði það endanlega að Finnan er ekki kantmaður í þeim tilraunum í haust. 7/10 (fyrir síðustu leiki)**

carra-andlit.jpgJamie Carragher: Við skulum fá eitt á hreint: að mínu mati er Jamie Carragher orðinn gjörsamlega ómissandi leikmaður fyrir Liverpool FC í dag! Nærvera hans í liðinu er alveg jafn mikilvæg og nærvera fyrirliðans okkar, og sumir myndu jafnvel vilja meina að hann ætti með réttu að vera fyrirliði. Ég veit bara ekki um meiri snilling, sterkari karakter og sterkari baráttumann í Úrvalsdeildinni í dag. Hann byrjaði ferilinn með aðalliðinu á miðjunni, gat sér síðan góðs orðs sem bakvörður bæði hægra- og vinstra megin en það er nú fyrst í vetur sem hann hefur virkilega sýnt hvað í honum býr. Hann hefur ekki aðeins aðlagast vel að stöðu miðvarðar, hann hefur gjörsamlega eignað sér hana. Sá eini í deildinni sem mér dettur í hug sem hefur náð að aðlagast miðvarðarstöðunni jafn vel er Kolo Touré hjá Arsenal, en jafnvel hann er sínu liði ekki jafn mikilvægur og Carragher. Það er bara svo marg fyrir utan knattspyrnulega getu sem kemur við sögu hér. Hann er karakter liðsins holdi gæddur, hann er heilinn og skipstjórinn í vörninni, hann er sá sem öskrar sig hásan og lætur menn heyra það ef þeir eru ekki að standa sig og hann er sá sem er alltaf auðmjúkur og reiðubúinn að fylgja skipunum framkvæmdarstjórans umhugsunarlaust. Og það líta allir aðrir leikmenn í klúbbnum upp til hans. Lesist: allir aðrir leikmenn. Hann er einfaldlega ómetanlegur, sá eini sinnar tegundar sem við eigum.

**Nákvæmlega. Ég skal vel viðurkenna að ég þoldi ekki Carragher, fannst á sínum tíma óskiljanlegt það traust, sem Houllier hafði á honum í bakverðinum, sérstaklega þar sem ógnin frammá við var engin. En hann hefur virkilega blómstrað í miðverðinum og Hyypia og Carra eru besta miðvarðapar, sem við höfum átt mjög lengi. 8/10**

Sami Hyypiä: Ef Carra er leiðtogi varnarinnar á andlegum velli og sá sem rekur menn áfram í baráttunni þá held ég að það geti allir verið sammála um það að Sami Hyypiä er hæfileikaríkasti varnarmaðurinn sem við eigum. Hann er vissulega örlítið seinni á sprettinum núna en hann var á þrennutímabilinu fyrir þremur-fjórum árum en að öðru leyti er ekki að sjá nein lýti á hans leik. Hann étur alla framherja í Evrópu í skallaeinvígjum, hann er einn sá allra sterkasti í Úrvalsdeildinni í að taka framherja úr umferð og hann er einhver sterkasti tæklari sem ég hef bara nokkurn tímann séð. Hann er með góða tækni og sendingargetu og er jafnan yfirvegaður á boltanum, sem er ómetanlegt af miðverði að hafa. Hans helsti kostur er samt eins og alltaf það hvað hann les leikinn vel. Hversu oft sjáum við andstæðinga reyna stungusendingu innfyrir vörnina okkar, nema í stað þess að taka á sprett á eftir framherjanum les Sami einfaldlega sendinguna, stígur eitt skref til vinstri eða hægri og fær boltann beint í lappirnar … eins og hann hafi vitað af sendingunni með klukkutíma fyrirvara. Þetta kallast leikskilningur og það hafa fáir leikmenn í Úrvalsdeildinni leikskilning sem jafnast á við Sami Hyypiä. Varafyrirliðinn okkar og einn mikilvægasti leikmaðurinn okkar. Eina áhyggjuefnið sem ég hef er aldurinn. Sami er 31s árs gamall, verður 32ja ára á næsta ári og þar sem hann er stór skrokkur þá er aðeins spurning um hvenær tíminn nær honum og hann fer að fá tíðari og þrálátari meiðsli. Þetta er nokkuð sem gerist hjá öllum leikmönnum sem komnir eru yfir þrítugt og á meðan við höfum ekki hágæðavarnarmann til að kóvera fyrir þá Hyypiä og Carragher er staða miðvarðarins mjög veik fyrir. Ef við kaupum ekki miðvörð í janúar og annar þessara tveggja meiðist t.d. snemma í febrúar, þá gæti það hreinlega gert út um vonir okkar í Meistardeildinni sem og kapphlaupinu um 4. sætið í deildinni.

**Ég er reyndar ekki sammála því að það að missa Hyypia væri svo hrikalegt, þar sem mér hefur fundist Djimi Traore spila virkilega vel í miðverðinum (og reyndar betur en í bakverðinum). En Hyypia er auðvitað snillingur og hefur spilað vel. Er búinn að vera 10 sinnum betri í ár með Carra en hann var með Biscan/Henchoz/Traore/Carra í fyrra. Fáir varnarmenn lesa leikinn jafnvel og hann. 8/10**

John Arne Riise: Riise var frábær á sínu fyrsta tímabili fyrir okkur en hafði síðan dalað eilítið eftir það. En með komu Benítez í haust virðist hann hafa fundið fjölina á ný og hefur bókstaflega blómstrað að mínu mati, bæði í bakverði og á vinstri kantinum. Hann hefur þegar þetta er skrifað skorað fjögur mörk og lagt upp heilan helling það sem af er á tímabilinu og hefur spilað næstflestar mínútur af öllum í hópnum, á eftir þeim Hyypiä og Carra. Riise hefur sýnt það í vetur svo ekki verður um villst að hann hefur pottþétt þann klassa sem til þarf í topplið. Hann getur enn lagað staðsetninguna í varnarstöðum sem bakvörður en hann er fljótur, líkamlega sterkur, vinnur vel með kantmanni og er stórhættulegur sjálfur sem kantmaður. Þá er hann einn besti skotmaður deildarinnar eins og W.B.A.-menn fengu að reyna um daginn. Riise er að mínu mati einn af lykilmönnum Liverpool FC eins og er í dag og ef við ætlum okkur stærri hluti á næstu árum verðum við að halda í leikmenn eins og hann.

**Ég hef alltaf haft mikið álit á Riise, en hann hefur alveg horfið undanfarin ár. En í ár hefur hann verið frábær, bæði í bakverðinum og á kantinum. Er farinn að hitta á markið, sem er frábært. Við þurfum virkilega á því að halda að fá mörk af miðjunni og Riise hefur verið mjög ógnandi af kantinum. 8/10**

Zak Whitbread: Zak hefur komið hreint ótrúlega vel inn í þetta lið í Deildarbikarnum í vetur og verið einn af lykilmönnunum á bakvið velgengni okkar í þeirri keppni. Hann hefur mátt glíma við erfiða andstæðinga svo sem Mark Viduka hjá Boro og Jermain Defoe, Freddie Kanoute og Robbie Keane hjá Tottenham en hann hefur staðið þá alla af sér og virðist bara styrkjast með hverjum leiknum. Hann er kannski enginn Rio Ferdinand á 19 ára aldri en hann er engu að síður stórefnilegur að mínu mati og á verulega góðan séns á að spila stærra hlutverk fyrir Liverpool á komandi árum.

**Virkilega góður þegar hann hefur fengið sín tækifæri. Virkaði mjög öruggur í báðum leikjunum, sem ég sá hann í. 8/10**

djimi.jpgDjimi Traoré: Alveg eins og með Steve Finnan þá er Traoré dæmi um frábær kaup sem Houllier átti heiðurinn af, en náði samt aldrei að ná því besta út úr. Frá því að maður sá hann fyrst spila fyrir Liverpool var ljóst að drengurinn hefði alla burði til að verða toppvarnarmaður. Hann er skotfljótur, einn besti tæklarinn í deildinni, teknískur miðað við hæð og stærð, frábær skallamaður og ofboðslega góður dekkari. Hins vegar var eins og hann skorti allan leikskilning og maður beið alltaf eftir þessu ?moment of madness? þar sem hann fór með boltann út í einhverja bölvaða vitleysu og gaf andstæðingunum ódýr færi og mörk. En í vetur hefur þetta að miklu leyti lagast og það er eins og Benítez hafi náð að róa hann niður og veita honum smá yfirvegun á vellinum. Fyrir vikið er Djimmy orðinn frábær varnarmaður og þar sem hann er enn aðeins 23 ára gamall þá getur hann hæglega þroskast meira og orðið með tímanum einhver mesti alhliða varnarmaður sem við höfum innan okkar vébanda. Flottur leikmaður, ekki alveg laus við fífldirfskuna enn en hefur samt verið einn af þeim leikmönnum sem hefur verið hvað ánægjulegast að horfa á í vetur.

**Pottþétt eitt af kraftaverkum Benitez að ná einhverju útúr Djimi Traore. Ég hélt að hann væri álíka vonlaus og Biscan, en þeir hafa báðir verið frábærir þegar þeir hafa fengið sín tækifæri. Það hefðu verið hræðileg mistök að selja hann til Everton. 7/10**

David Raven: Raven hefur bara spilað einn leik fyrir aðalliðið á sínum ferli en það breytir því ekki að það virðist vera mikið látið með þennan dreng. Hann er jafnan nefndur sem einn af tveimur-þremur efnilegustu leikmönnum liðsins og ef eitthvað er að marka sigurleikinn gegn Tottenham, þar sem hann átti stórleik, þá er hér framtíðarmaður á ferð. Engu að síður er of snemmt að fella einhverja dóma um hann, hann er ungur og maður hefur bara séð hann spila þessar 120 mínútur gegn Tottenham sem er engan veginn nóg til að geta myndað sér skoðun. En byrjun hans lofar góðu.

**Virkilega góður á móti Tottenham, en varla hægt að gefa honum einkunn fyrir þann eina leik.**

Stephen Warnock: Warnock er 23ja ára gamall og hefur orðið fyrir því óláni að fótbrotna tvisvar. Margir vilja meina að hann væri orðinn fastamaður í liðinu nú þegar, eins og jafnaldrinn Steven Gerrard, ef hann hefði ekki brotnað og hann virðist hafa styrkt þá skoðun manna í vetur. Þetta er fyrsta tímabilið hans í efstu deild eftir að hafa verið kjörinn leikmaður ársins hjá Coventry City í fyrra. Hann hefur spilað bæði í bakverðinum og á vinstri kantinum og hefur jafnan barist vel og leikið vel, þótt ekki sé um neina stórleiki að ræða. Þótt hann sé þegar orðinn 23ja ára er vegna beinbrotanna hægt að segja að hann sé bara að blómstra seint af efnilegum strák að vera og ég sé enga ástæðu til annars en að hann geti orðið prýðilegur liðsmaður Liverpool í framtíðinni, þótt hann verði kannski aldrei fastamaður í byrjunarliði.

**Jammm, held að hann verði aldrei byrjunarmaður hjá Liverpool. Hefur ekki spilað neitt sérstaklega þegar hann hefur fengið tækifæri að mínu mati. 5/10**

Stephane Henchoz: Þessi svissneski snillingur var einn af aðalmönnum okkar á þrennutímabilinu og við munum seint gleyma því hversu mikil unun það var að sjá hann og Hyypiä stúta hverju einasta framherjapari sem mætti þeim á tveggja eða þriggja ára tímabili. En nú er öldin önnur og Henchoz er einfaldlega orðinn of gamall og/eða hægur. Ég geri fastlega ráð fyrir að þetta verði eitt af síðustu skiptunum sem ég fjalla um Henchoz sem liðsmann Liverpool á þessari síðu, þar sem hann er sennilegast á leiðinni frá liðinu í janúar, og því langar mig bara til að minnast þess hvað hann gerði fyrir klúbbinn og óska honum góðs gengis hjá sínu nýja liði, hvar svo sem hann lendir.

**Hefur staðið sig vel þegar hann hefur fengið tækifæri. Alltaf gaman að sjá hann örþreyttan eftir tveggja mínútna leik. Mun auðvitað sakna hans. 8/10 fyrir þá leiki, sem hann hefur spilað. Og fyrir að nöldra ekki í fjölmiðla**

3 Comments

 1. Strákar, þið hljótið að vera að grínast með Josemi!

  Hann var ekkert góður í byrjun tímabilsins eins og þið eruð að halda fram.

  Það er eitthvað miklu meira að honum en að hann kunni ekki ensku og skilji ekkert hvað Carra er að segja honum að gera. Hann er óruggur á boltann, gefur aukaspyrnur á hættulegum stöðum þegar hann hefði ekki þurft að brjóta (og stundum fá heimskuleg spöld fyrir), sparkar boltanum EITTHVAÐ í staðinn fyrir að finna samherja, og þá frekar inná miðsvæðið í stað þess að hreinsa upp með hliðarlínunni eins og bakverðir eiga að gera ef þeir geta ekkert annað.

  Gagnrýnin á Biscan á sínum tíma átti ekki rétt á sér þar sem hann var aldrei að spila sína stöðu. Gagnrýnin á Josemi á VÍST rétt á sér. Ég ætla rétt að vona að þetta verði verstu kaup Benítez hjá Liverpool því ég vil ekki sjá hann kaupa fleiri LÉLEGA leikmenn, EINN er nóg takk fyrir.

  Steve Finnan er miklu, miklu, miklu betri hægri bakvörður en Josemi. Josemi má vera þarna sem back-up þangað til í sumar en þá vil ég sjá hann fara burt..

 2. Hannes, þessi gagnrýni á Josemi er “too much”. Það er gríðarlega ósanngjarnt að gjörsamlega afskrifa leikmenn, sem eru nýkomnir til Englands. Sérstaklega varnarmenn, þar sem mistök þeirra verða alltaf að forsíðufyrirsögnum.

  Og víst, þá spilaði Josemi vel til að byrja með. Að halda öðru fram er rugl!

  Við skulum líka ekki gleyma því að í haust var Josemi orðaður við spænska landsliðið og hann var einn af betri varnarmönnum í spænsku deildinni í fyrra.

  Josemi mun sanna sig!

 3. Málið með Dudek sem menn virðast ekki alveg hugsa til enda er að hann á markvörslur inn á milli sem aðeins 2-3 úrvalsdeildarmarkverðir gætu varið. Menn gleyma alveg að segja ef þið væruð með “traustan” markmann sem gerði engin mistök en myndi ekki verja neitt svoleiðis, hvað kostar það mörg mörk á tímabili. Daninn litli hjá Utd gerði stundum svaðalegar gloríur en það talaði enginn um það.

  Og svo þetta með Josemi þá held ég að ég verði að standa með Einari í því. Mér fannst Josemi vera þrælsprækur fyrst þegar hann kom til L’pool. Wenger sagði það að nýjir menn þyrftu að lágmarki 6 mánuði til að aðlagast deildinni.

Slúður um Aimar og co. (uppfært Aimar neitar öllu – Tilboðið Aprilgabb!)

Nei, ekki Igor!!!