Southampton í dag!

Jæja, þá keppum við sjöunda leikinn í desembermánuði seinna í dag við Southampton. Þetta er tuttugasti leikur okkar í deildinni og að honum loknum höfum við spilað einu sinni við öll liðin, og svo tvisvar við W.B.A. Þannig að nú í árslok ættum við að geta metið liðið og frammistöðu þess með nokkuð góða yfirsýn yfir tímabilið hingað til.

Southampton-menn hafa verið í bölvuðum vandræðum í vetur. Þeir byrjuðu á því að reka framkvæmdarstjórann sinn eftir tvo eða þrjá leiki í haust og tóku sér svo einhverja þrjá mánuði í að finna eftirmann. Um daginn réðu þeir svo loks Harry Redknapp en hann hefur þegar stýrt liðinu í fjórum leikjum, án þess að hafa náð að sigra í nokkrum þeirra. Southampton eru í bullandi fallslag eins og staðan er í dag, með eina lekustu vörnina í deildinni og framherjarnir þeirra ? Kevin Phillips og James Beattie ? hafa verið skugginn af sjálfum sér það sem af er vetri.

Engu að síður hefur okkur jafnan gengið illa gegn Southampton bæði á Anfield og á útivelli undanfarin ár. Þeir virðast hafa eitthvað sem erfitt er að koma auga á, eitthvað sem gerir þeim jafnan kleift að ná yfirhöndinni gegn okkur. Ég vona samt að það verði ekki raunin á í dag og eftir stórsigur á annan í jólum gegn W.B.A. hlýtur sjálfstraustið að vera í hámarki hjá okkar mönnum. Því tel ég ástæðulaust að vera hræddur við þennan leik, við hljótum að stefna á sigurinn og ekkert annað.

Ég sagði fyrir tveim vikum síðan, fyrir leikinn gegn Portsmouth, að við ættum framundan fjóra leiki sem ættu að vera vinnanlegir áður en kæmi að nýársdagsstórleiknum gegn Chelsea. Ég sagði að af þessum fjórum leikjum yrðum við a.m.k. að vinna þrjá og gera eitt jafntefli, en helst að vinna alla fjóra. Hingað til hefur þetta að nokkru leyti gengið eftir: við gerðum jafntefli gegn Portsmouth á Anfield en vorum bara nokkrum sekúndum frá því að sigra, unnum svo Newcastle á Anfield og loks gjörsigruðum við W.B.A. á útivelli. Ef við sigrum Southampton á Anfield í dag gerir það 10 af síðustu 12 stigum og þrjá sigurleiki í röð, sem þýðir að við verðum mjög borubrattir og reiðubúnir í slaginn gegn Chelsea á nýársdag!

Annað sem er mikilvægt við þessa sigra okkar er það að Benítez hefur náð að hvíla lykilmenn án þess að það komi niður á úrslitum leikja. Í síðasta leik voru Mellor og Kewell alveg fyrir utan hópinn vegna meiðsla/veikinda og þeir Alonso og Luis García voru á bekknum. Þá tók Benítez menn eins og Baros, Gerrard og Finnan ? sem eru allir lykilmenn þessa dagana í sínum stöðum ? útaf þegar um hálftími var eftir af leiknum gegn W.B.A. og því ættu þeir líka að vera ferskir.

Spurningin er því hvernig Benítez stillir upp liðinu gegn Southampton? Að mínu mati mun hann velja sitt sterkasta 11-manna lið gegn Chelsea á nýársdag en til að þeir ellefu leikmenn verði heilir og ferskir gæti hann ákveðið að hvíla menn enn frekar á móti Southampton. Sérstaklega finnst mér líklegt að Steven Gerrard og Milan Baros verði að einhverju leyti hvíldir, sem og John Arne Riise, þótt þeir verði sennilega allir í byrjunarliðinu á morgun.

Það er í raun ómögulegt að spá en ætli ég myndi ekki skjóta á að liðið á morgun verði nokkurn veginn svona:

Dudek

Finnan ? Carragher ? Hyypiä ? Traoré

Núnez ? Gerrard ? Alonso ? Riise

Mellor ? Pongolle

Þá yrðu leikmenn eins og Hamann, Kewell, Baros og García á bekknum ásamt varamarkverði. Ég sé Benítez fyrir mér hvíla Baros aðeins á morgun en nota hann í seinni hálfleikinn ef við þurfum á því að halda. Mellor og Pongolle hafa báðir skorað undanfarið og spilað vel og eru því með sjálfstraustið í hámarki. Núnez og Riise fóru á kostum á vængjunum gegn W.B.A. og verða því örugglega í byrjunarliðinu, auk þess sem Alonso kemur pottþétt aftur inn í liðið eftir að hafa verið á bekknum í síðasta leik.

Þó gæti Luis García spilað í framlínunni með Pongolle, og Mellor verið á bekknum. En eins og ég sagði þá er ómögulegt um það að spá. Það verður bara að koma í ljós.

MÍN SPÁ: Sigur og það öruggur, takk. Eftir að hafa gloprað Portsmouth-leiknum niður í jafntefli höfum við einfaldlega ekki efni á að missa af fleiri stigum á heimavelli í þessari jólatörn og ef við eigum að eiga einhvern séns gegn Chelsea á nýársdag verðum við að gefa tóninn gegn Southampton og gera þá bláklæddu hrædda við tilhugsunina um að þurfa að koma á Anfield. Við höfum verið nærri því óstöðvandi á heimavelli í vetur og það bara verður að halda áfram á morgun.

Sigur og ekkert annað!

2 Comments

  1. Kannski bara að minna fólk á að leikurinn byrjar kl 16.30 í dag. Furðuleg tímasetning. En hann verður samt í beinni á Skjá Einum.

    Við verðum að vinna þetta, en ég er sammála, maður hefur bara slæmar minningar úr Southampton leikjum. En auðvitað eigum við að vinna þetta lið, alveg sama hvort að Gerrard, Alonso og Baros verði á bekknum. Við eigum einfaldlega að geta breytt liðinu fyrir svona leiki án þess að það hafi áhrif á leik liðsins.

  2. Eigum að rótbursta þetta southampton lið á pappír en er samt drulluhræddur um að það verði eitthvað basl á liðinu í dag. Southampton er bogey lið, menn með hugann við Chelsea leikinn, ekki enn unnið þrjá í röð og einhvern veginn er þetta ekta leikur sem allt fer í bull. En þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn og vonast eftir að menn sýni sitt rétta andlit.

Hey, psst! Hver vill fá Aimar í jólagjöf?

Pablo Aimar vill koma til L’pool!!!