Úrslitastund í Meistaradeildinni

Jæja, þá er komið að því. Úrslitastund í Meistaradeildinni. Stærsti [Evrópuleikur](http://www.uefa.com/competitions/UCL/FixturesResults/Round=1968/Match=1077225/index.html) Liverpool síðan við töpuðum fyrir Bayer Leverkusen fyrir nokkrum árum.

Liverpool verður að vinna þennan leik, svo einfalt er það! 1-0 sigur dugir en ef Olympiakos skorar mark, þá verðum við að vinna með tveim mörkum. Einsog Kristján minntist á, þá í síðasta skipti, sem staðan var svona, þá unnum við Roma 2-0 á Anfield og Emile Heskey lék einsog engill.

Stemningin á Anfield *verður* rosaleg!

Milan Baros hefur lýst sig heilan fyrir leikinn og ætti það að vera mikil lyftistöng fyrir Liverpool. Hins vegar er Didi Hamann í banni fyrir leikinn. Einnig er Igor Biscan meiddur í baki, sem er sorglegt því hann hefði að öllum líkindum komið inn fyrir Hamann. Auk þeirra er náttúrulega Luis Garcia enn meiddur.

Það er því spurning hvort að Benitez haldi sig við 4-5-1 einsog í síðustu leikjum, en mér þykir það ólíklegt þar sem það vantar þriðja miðjumanninn með Alonso og Gerrard. Það hefði verið hægt með Igor Biscan heilum, en ekki með Salif Diao.

Því er líklegt að Benitez fari aftur í 4-4-2.

Ef að Baros verður með, þá þykir mér þetta líkleg uppstilling:

Kirkland

Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise

Núnez – Gerrard – Xabi – Kewell

Mellor – Baros

Finnan lék víst vel í síðasta leik og hann verður því áfram í liðinu á kostnað Josemi. En samt, þá gæti vel verið að Benitez myndi skipta út báðum bakvörðunum. Hann gæti þá hugsanlega farið í þessa uppstillingu, sett Kewell fram og Riise á kantinn:

Kirkland

Josemi/Finnan – Carragher – Hyypiä – Traore

Núnez – Gerrard – Xabi – Riise

Kewell – Baros

Hver veit? Það er erfitt að segja hvernig áherslurnar hjá Benitez verða á morgun. Þó þykir mér seinni uppstillingin með Kewell frammi vera líklegri. Kewell yrði þó líklega aðeins fyrir aftan Milan Baros.

Hvað móhterjana varðar, þá segist þjálfari Olympiakos *ekki* ætla að spila uppá jafntefli, heldur spila til sigurs. Það þykir mér ólíklegt, ekki síst í ljósi þess leiðinlega varnarleiks, sem Olympiakos spilaði í fyrri leiknum. Ég sé ekki hver er dómari, en við skulum allavegana vona að það sé ekki Collina, sem eyðilagði fyrri leikinn. 🙂

Ég er orðinn nokkuð stressaður fyrir leikinn. Liverpool hefur bara skorað þrisvar í þessari keppni. Tvö mörk í fyrsta leiknum gegn Monaco og svo sjálfsmarkið á Spáni. Á móti Monaco á útivelli, Deportivo heima og Olympiakos á útivelli náðum við hins vegar ekki að skora.

Því er það markaskortur fyrst og fremst, sem ég er hræddur við. Ef að Baros verður með frá upphafi gæti það verið gríðarleg lyftistöng. Einnig er spurning hvert hlutverk Gerrard verður. Mun Benitez láta Xabi Alonso taka á sig pressuna og leyfa Gerrard að leika lausum hala, eða verður Gerrard bundinn af mikilli varnarskyldu?

Ég get þó ekki annað en verið bjartsýnn. Við erum með mun betra lið en Olympiakos, einn af 5 bestu framherjum í enska boltanum er kominn aftur inní liðið okkar, fyrirliðinn okkar er byrjaður að spila aftur og stemningin á Anfield verður ólýsanleg. Við verðum að vinna á morgun!

Áfram Liverpool!

4 Comments

  1. Þessi leikur leggst alveg fáránlega vel í mig! Mér finnst einhvern veginn eins og það geti bara ekki verið að við töpum í kvöld. Ummæli fyrirliðans okkar komu kannski á slæmum tíma, og fara ómennskt í taugarnar á mér (myndi skrifa pistil um þau ef ég væri ekki í próflestri) en þau munu samt eflaust hvetja liðið til dáða í kvöld.

    Í stuttu máli, þá fer Gerrard í vor ef við dettum út úr Meistaradeildinni í kvöld.

    Mér finnst hins vegar ekkert líklegt að við dettum út í kvöld. Mér finnst bara allt benda til þess að við fáum ógleymanlegt Anfield-kvöld í Evrópukeppni. Best að gera vídjótækið klárt, maður vill örugglega eiga minningarnar…

  2. Mér finnst reyndar full djúpt í árina tekið að segja að ef við töpum í kvöld muni hann fara í vor, það er frekar almennt að hann ætli að meta stöðuna þegar nær dregur vori (og þá mun það auðvitað skipta máli hvernig við stóðum okkur í Meistaradeildinni – en það er ekki það eina eins og ég skil þessi ummæli.)

    Hins vegar er ég frekar pirraður út í þetta hjá honum, því hann hefði vel getað svarað spurningum um framtíðina öðruvísi en að vekja upp allar þessar fyrirsagnir um að hann fari ef illa gengur í ár. Það hreinlega gengur ekki fyrir fyrirliðann að vera með stöðugar hótanir um að hætta ef illa gangi – það er hvorki gott fyrir móralinn innan liðsins né stuðningsmanna. Sama þótt setningin “en auðvitað vildi ég helst vera sigursæll með Liverpool…” fylgi með. Skamm Gerrard! 😡

  3. Ef hann vill fara þá á hann bara að fara !! Þetta er farið að minna allt of mikið á Owen og hans viðtöl undanfarin ár 😡

Milan til í slaginn

100.000