Aston Villa í dag!

Hmmm. Við eigum að spila á útivelli við Aston Villa í deildinni í dag … og leikurinn virðist hvergi vera í beinni útsendingu á Íslandi. Bévítans!

Allavega, eftir tvö slæm töp (Boro & Mónakó) og svo tvo góða sigra (Arsenal & T’ham) þá mæta okkar menn inn í hjarta Englands til Birmingham-borgar, hvar heimamenn í Aston Villa bíða. Villa-liðinu hefur í raun gengið sæmilega í vetur, þeir hafa hvorki verið mjög góðir né mjög lélegir. Þeir hafa átt frábæra leiki, og þeir hafa líka átt mjög slappa leiki.

Það sama gildir um leikmenn þeirra. Juan Pablo Angel var t.d. sjóðheitur í fyrra en hefur átt í vandræðum í vetur, Carlton Cole byrjaði tímabilið vel en hefur nú ekki skorað í einhverjum 10 leikjum í röð. Þá eru þeir Thomas Hitzlsperger (meiddur) og Lee Hendrie (leikbann) fjarri góðu gamni hjá Villa í dag, sem veikir miðjuna þeirra óneitanlega mikið.

Þannig að ég tel okkur eiga fullan séns í dag – og í ljósi þess hversu góður mórallinn hlýtur að vera hjá okkar mönnum þessa dagana þá sé ég enga ástæðu til annars en að vera bjartsýnn!

Líklegt byrjunarlið okkar er þetta:

Kirkland

Finnan – Carragher – Hyypiä – Traoré

Núnez – Gerrard – Hamann – Xabi – Riise

Mellor

Bekkur: Dudek, Josemi, Biscan, Kewell og Pongolle.

Þetta er sama lið og vann Arsenal fyrir 6 dögum, fyrir utan tvær breytingar: ég tek Harry Kewell út fyrir Djimi Traoré sem snýr aftur eftir meiðsli. Við vitum að Harry Kewell hefur þurft nauðsynlega á hvíld að halda í allnokkurn tíma núna en ekki getað tekið hana, þar sem við höfum þurft á öllum heilum og tiltækum mönnum að halda. Nú er Traoré kominn aftur inn eftir meiðsli og hann og Riise eru báðir að spila vel, því sé ég ekkert því til fyrirstöðu að Kewell fái hvíldina sína í dag. Ef Luis García væri heill myndi ég jafnvel gera ráð fyrir að Kewell yrði ekki einu sinni í hópnum.

Hin breytingin er að Antonio Núnez kemur inn í byrjunarliðið, en þessi breyting á sér miklu augljósari ástæður: Núnez var tekinn útaf eftir 55 mínútur gegn Tottenham, augljóslega til að hvíl’ann, á meðan Pongolle spilaði 120 mínútur og tók víti í vítaspyrnukeppni í sama leik. Annar þeirra hlýtur því augljóslega að vera ferskari en hinn, og því geri ég ráð fyrir að Núnez byrji inná.

Benítez gæti reyndar sett Josemi beint inn í byrjunarliðið og fært Finnan fram á kantinn, en ég tel það ólíklegt. Núnez á að vera okkar hægri kantmaður #1 og hann er núna heill og kominn á fullt skrið. Hann á að byrja í dag, finnst mér.

Auðvitað mun þessi leikur vinnast og/eða tapast með miðjunni að mínu mati. Mellor, eins og gegn Arsenal, mun ekki gera neinar rósir einn síns liðs frammi gegn einni sterkustu vörn Úrvalsdeildarinnar. Hann mun treysta rosalega mikið á stuðning frá miðjunni og þjónustu frá köntunum. Riise og Núnez eiga alveg að geta skilað sínu sem vængmenn og ef Gerrard spilar jafn vel og gegn Arsenal – og einnig Xabi og Didi fyrir aftan hann – þá eigum við að rústa þessari miðju Aston Villa, sem er veik fyrir vegna forfalla.

Mín Spá: Einar Örn gerði grín að því í gær að ég væri ekkert allt of getspár þegar ég væri að spá fyrir um úrslitin í Upphitunarpistlum mínum, þannig að ég ætla að brjóta nýtt blað í sögu þessarar vefsíðu: ég spái 3-0 stórsigri fyrir Aston Villa, og hana nú!

Sjáum svo til hvort ég held áfram að reynast lélegur spámaður… vonum það allavega! 😉

7 Comments

 1. Ég er nú svosem ekki mikið fyrir að gagnrýna skrifin og íslenskuna á svona síðum en þessar tvær setingar voru nú ekkert alltof skiljanlegar.
  “…þeir hafa hvorki verið mjög góðir né mjög lélegir. Þeir hafa átt frábæra leiki, og þeir hafa líka átt mjög slappa leiki.”
  Ef þessi síða væri á ensku ættuð þið fullt erindi í Mediawatch hjá Football365 :biggrin:

  Vonandi vinnum við miðjubaráttuna í dag, þá verður leikurinn einfaldur og í það minnsta eitt stig tryggt. Það sem gerir mig eilítið skelkaðan fyrir leikinn er að Liverpool liðið þessa dagana þykir mér ekki mjög líklegt til að skora mörk, hvað þá meira en 1 mark í leik. Vonandi verður vörnin vel vakandi.

 2. Uss, maður ætti bara að halda þessum besservissaskap fyrir sjálfan sig 😡

 3. Þetta eru fínar setningar mar. Ef ég á að þýða þetta fyrir þig þá þýða þær: “Aston Villa hafa verið miðlungslið þetta season” og “Þeir hafa átt frábæra leiki, og þeir hafa líka átt mjög slappa leiki.”

 4. Þetta er must win leikur. Útivelli… gegn liði sem endar oftast fyrir ofan 10… síðan verður liðið að ná nokkrum leikjum í röð og ná upp sjálfstrausti til þess að klára þessi lið sem við EIGUM að vinna.
  Vonandi ert ÖMURLEGUR spámaður hehehehe

 5. Hehe Daði – ég tek þetta á mig. Þetta er mjög klaufaleg setning. Svona fer þegar maður skrifar Upphitunina fyrir klukkan 7 á laugardagsmorgni… og það í vinnunni! :blush:

  Ég meinti náttúrulega bara það að Villa hafa ekki verið ömurlegir á heildina í vetur (eins og t.d. Southampton) en þeir hafa heldur ekki verið frábærir (eins og t.d. Everton). Þeir hafa átt frábæra leiki og ömurlega leiki, einstaka leiki, en þeir hafa verið of óstöðugir til að geta gert eitthvað úr góðu leikjunum sínum.

 6. Það er ótrúlega magnað þegar maður hugsar útí það hversu miklu betur enska boltanum er sinnt núna heldur en fyrir nokkrum árum. Fyrir svona 5 árum var maður ánægður ef Liverpool var sýnt tvisvar í mánuði, en núna er maður hoppandi vitlaus yfir því að einn og einn leikur á tímabilinu skuli ekki vera í sjónvarpi. 🙂

  Annars er það náttúrulega magnað að leikir gegn Norwich, Crystal Palace og Blackburn hafi verið sýndir, en ekki leikur á móti Aston Villa! Oh well.

 7. Merkilegt, eins og ég sagði, vandræði við að skora meira en 1 mark. Við söknum Baros, það er enginn í liðinu líklegur til að skora.

AGM hluthafafundurinn í gær!

Byrjunarliðið gegn Villa komið