Liverpool 2 – Arsenal 1

victory_over_arsenal.JPG

Jaaaaahaaaaahaaaaaaháááááááááááááá!!!!!!!!

Kirkland

Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise

Flo-Po – Gerrard – Xabi – Didi – Kewell

MELLOR

Okkur tókst það! Ég trúi þessu varla enn, puttarnir á mér titra nánast of mikið til að ég geti vélritað þetta … en við unnum ARSENAL í dag, 2-1, í stórkostlegum leik. Ég sagði sjálfur fyrir leikinn að mér væri sama þótt við töpuðum, eins lengi og við myndum berjast í þessum leik. Nú, sjáum hvernig strákarnir okkar brugðust við:

Þeir börðust eins og ljón. Þeir pressuðu Arsenal svo hátt uppi á vellinum að meistararnir áttu ekki von á því. Arsenal-liðið átti hreinlega aldrei séns í þessum leik, allavega ekki framan af. Tölfræðin segir sína sögu, Arsenal áttu tvö langsótt skot að marki og svo markið sem Vieira skoraði … við áttum ellefu skot að marki og þar af tvö mörk.

Og þvílík mörk! Söknuðu menn Stevie Gerrard? Hefur okkur hlakkað til að sjá hann og Xabi Alonso spila saman? Nú, í dag rættust allar óskir okkar. Hamann vann boltann á miðjunni, kom honum á Finnan sem átti frábæra þversendingu yfir á vinstri vænginn. Þar skallaði Kewell hann vel niður á Gerrard sem hafði nóg pláss, leit upp og lagði boltann svo inn í opið svæði sem hafði myndast við vítateigslínu Arsenal, þökk sé góðri vinnu Mellor sem hafði náð að draga bæði Kolo Touré og Sol Campbell út úr svæði.

Inn í þetta svæði kom síðan Xabi Alonso og NEGLDI boltann uppí samskeytin. Váááá, við komnir í 1-0 og allt að ganga upp!

Í seinni hálfleik héldu yfirburðirnir áfram. Það var skrýtið að segja þetta, en það var bara eitt lið á vellinum fyrsta klukkutímann. Arsenal-liðið var bara einfaldlega ekki með í þessum leik og erfitt að sjá hvort liðið var Enskir Meistarar 2004 og hvort liðið átti að eiga í “krísu” þessa dagana.

Engu að síður skal því aldrei gleymt að innan raða Arsenal eru stórkostlegir leikmenn og þótt þeir Henry, Pires, Ljungberg, Reyes, Fabregas, Cole, Campbell, Touré og Lauren væru frekar daprir í dag … þá var Patrick Vieira alveg frábær fyrir þá. Sem sýndi sig best í því að hann var næstum því búinn að stela stigi fyrir þá einn síns liðs. Markið hans var frábært, hann tætti vörnina okkar í sig, átti góðan þríhyrning og fékk boltann á bak við Carragher, og lagði hann yfir Kirkland og í fjærhornið. 1-1 og ótrúlegt en satt, þá sá ég fram á þunglyndi yfir að ná ekki að vinna þennan leik, slíkir voru yfirburðir okkar manna.

Næstu 10 mínúturnar eða svo eftir jöfnunarmarkið var besti kafli Arsenal í leiknum og í raun einu mínúturnar þar sem þeir sýndu einhverja spilamennsku og getu til að vinna þennan leik. En eftir að okkar menn höfðu jafnað sig á áfallinu sem kom við jöfnunarmarkið tókum við völdin smám saman aftur, og síðustu 20 mínútur þessa leiks var lítið annað í gangi en stórsókn að marki Arsenal. Þar fór fremstur í flokki fyrirliðinn okkar, Steven Gerrard, sem var svo alvarlega góður í dag að ég táraðist hreinlega. Þvílíkur leikmaður?!?!?

Þá var gaman að sjá Antonio Núnez koma inná í þessum leik. Hann gerði nú ekki mikið eftir að hann kom inná, enda í lélegu leikformi, en bara nærvera hans gaf okkur smá móralskan plús sem að sýndi sig í því að liðið fékk sjálfstraustið aftur eftir að hann kom inná.

Þrátt fyrir pressu og vinnusemi okkar manna þá virtumst við ekki ætla að ná að skora á þá og þegar komið var nærri því tvær mínútur fram yfir venjulegan leiktíma, og aðeins nokkrar sekúndur í að dómarinn flautaði til leiksloka, þá var maður eiginlega farinn að bóka það að þetta yrði “stórmeistarajafntefli”.

Ekki aldeilis. Hár bolti fram, Gerrard skallaði til baka (eða var það Núnez? sá það varla) og þar mætti NEIL MELLOR, einhverjum 40 metrum frá marki Arsenal, sem tók boltann á lofti og negldi hann í fjærhornið. Óverjandi fyrir Jens Lehmann og sanngjarn sigur Liverpool í höfn!

Þetta var svo sætt fyrir Neil Mellor. Hann er ekki jafn góður og Milan Baros eða Djibril Cissé og ég hafði það á orði við sessunauta mína að ef Baros hefði verið með í dag hefðum við unnið svona 4-1, þar sem vörn Arsenal var mjög ótraust en Mellor virtist bara ekki hafa það sem til þurfti til að refsa þeim.

En eitt skortir strákinn ekki og það er hjartað. Hann hleypur sig í gröfina í hverjum einasta leik fyrir Liverpool, gefur sig allan í málstaðinn og gerði allt sem hann mögulega gat til að hjálpa okkur að sigra í dag. Þannig að þegar hann skoraði þá fyrst og fremst gladdist maður yfir því að það skyldi hafa verið Mellor sem skoraði, því hann átti það svo skilið. Það er ekki auðvelt að vera 22-ára nobody, barnaandlit og lítt þekktur í boltaheiminum, og fá það verkefni að ráðast einn gegn Sol Campbell, Kolo Touré, Lauren, Ashley Cole og Patrick Vieira. Að ógleymdum Jens Lehmann á bak við þá. Þetta væri nóg til að hræða líftóruna úr hvaða framherja sem er, en Mellor sinnti starfi sínu af aðdáun í dag og þótt hann komist ekki með tærnar þar sem Milan Baros hefur hælana þá átti hann þetta sigurmark svo skilið!

MAÐUR LEIKSINS: Er það einhver spurning? Steven Gerrard maður, Stevie G! Það voru reyndar tveir yfirburðamenn á vellinum í dag, og það var stórkostlegt eins og venjulega að fylgjast með þeim Vieira og Gerrard kljást … en í dag var Stevie G sigurvegarinn, gjörsamlega. Hann var hreint yndislegur í þessum leik og dreif spil okkar manna áfram. Hann átti að fá víti í fyrri hálfleik, lagði upp bæði mörkin okkar (held ég) og það var bara ekki að sjá að hann væri búinn að vera meiddur í tvo mánuði.

Ómetanlegur leikmaður. Ómetanlegur sigur. Næst: Tottenham í miðri viku, en þá mæta kjúklingarnir okkar og Biscan til leiks. Um næstu helgi er það svo Aston Villa á útivelli og eftir 10 daga verðum við að vinna Olympiakos í meistaradeildinni. Ég trúi skyndilega að við getum unnið alla þessa leiki, eftir daginn í dag. Ómetanlegt og ef þetta verður upphafið að einhverju dásamlegu fyrir Liverpool þá munum við í lok tímabils öll þakka Neil Mellor fyrir!


**Uppfært (Einar Örn)**: Þetta var FRÁBÆRT! Núna er klukkutími síðan leikurinn kláraðist og ég titra nánast ennþá. Tveir vinir mínir voru í heimsókn og ég man hreinlega ekki að við höfum setið í gegnum heilan leik án þess að röfla í eina sekúndu yfir leik liðsins.

Það var yndislegt að sjá baráttuna! Og frábært að liðið gafst ekki upp þegar Arsenal jafnaði. Leikmönnum brá auðvitað og það tók smá tíma að jafna sig, en leikmenn gáfu þó bara í og kláruðu leikinn. Við ÁTTUM skilið að vinna þennan leik, það er engin spurning.

Það var líka frábært að sjá að við hættum ekki að spila eftir að við skoruðum fyrra markið. Í stað þess að leggjast bara í vörn einsog undir stjórn Houllier, þá héldu menn áfram í sókn. Frábært að sjá þetta!

Í síðasta deildarleiknum [kenndi ég Benitez um tapið](http://www.kop.is/gamalt/2004/11/20/16.37.47/), en fyrir leikinn í dag á Rafa mikið hrós skilið. Í fyrsta lagi þá virkaði liðsuppstillingin 100%. Vissulega átti Vieire frábæran leik, en að öðru leiti ÁTTU Liverpool menn miðjuna. Alonso og Hamann hirtu alla bolta og Gerrard var sí ógnandi. Þeir eiga allir hrós skilið. Já, líka Hamann! Einnig þá var augljóst að Benitez hafði barið baráttuanda í hópinn. Hver einasti leikmaður barðist fyrir öllum boltum

Einnig var vörnin frábær og ég efast um að Arsenal hafi leikið marga hálfleiki án þess að eiga **eitt einasta skot á markið**! Hyypia og Carra tóku allt, sem kom á þá.

Frábært! Frábært, frábært!!

22 Comments

 1. harry kewell skallaði boltann í seinna markinu og var hann allveg nokkuð góður eins og flestir í liðinu í dag

 2. Að vinna Arsenik… YYYEEEESSSSS
  Það eru svona sigrar sem gefa lífinu gildi…

  This is much more than a game!

 3. Að mínu mati er þetta fallegasta mark sem Liverpool maður hefur skorað síðan markið góða sem McAllistair skoraði á móti Everton. :biggrin:
  Núna vona ég bara að Benitez sé betri að “mótiveita” menn eftir sigur en Houllier kallinn.

  En í fyrsta skipti í langan tíma eigum við engan á bekknum sem maður vonar að komi inná og hristi upp í leiknum, núna vorum við bara með VARAmanna bekk.

 4. Þetta gerist ekki sætara…… :biggrin: :biggrin:

  Ég er í vímu….. sigurvímu. Takk Mellor.

  Til hamingju félagar.

  Og enn og aftur. Takk Kristján Atli og Einar fyrir frábæra Liverpool síðu. Ég hlakka alltaf til að lesa leikskýrslunar þínar Kristján. Þú ert með Liverpool hjarta. 🙂

 5. Fyrri hálfleikur var fínn en sá seinni var hrikalega lélegur hjá báðum liðum. Góður sigur í annars leik sem átti að enda jafntefli.

  Mér finnst að það ætti að fara að byrja á að velja “EKKI MAÐUR LEIKSINS” en ég tel að Harry Kewell sé verðugur vinningshafi á þeim verðlaunum í nánast hverjum og einum einasta leik.

 6. Hvað er þetta??? Kewell var að sýna fína frammistöðu í vörninni, hann mætti hins vegar bæta inní-sendingarnar en annars þá barðist han vel.

  En er það ég eða var eins og Liverpool-mennirnir hefðu verið að lyfta lóðum. Þeir ruddu amk. oft Arsenal mönnunum bara í burtu.

 7. Átti við að Kewell spilaði góða vörn og barðist vel á kantinum.

 8. Kræst, sleppum Kewell böggi núna. Já, hann var ekki að spila vel. En **VIÐ UNNUM ARSENAL með marki á síðustu sekúndu!!!** Takk fyrir. :biggrin2:

 9. Nákvæmlega. Sjálfstraustið kemur hjá Kewell ef við bara látum hann vera í smástund. Hann átti ágætisleik í dag, samt ekki nógu góðan, en við unnum. Það þýðir að leikur liðsins í dag gekk upp og er það alveg jafn mikið Kewell að þakka og einhverjum öðrum.

  Sá mörkin aftur í fréttatíma Ríkissjónvarpsins. Þar sást greinilega að Kirkland sparkar langt fram, Kewell pressar á Sol Campbell í skallaboltann og Campbell brýtur greinilega á honum (olnbogi sýndist mér). Kewell liggur í grasinu meiddur þegar Mellorinn kemur aðvífandi og … og … og … :biggrin: :biggrin: :biggrin: :biggrin: :biggrin:

 10. Þetta var of-boðs-leg-a mikilvægur sigur móralslega!!! Arsenal hvað?! Ég er svo happy að ég er að vélrita þetta með litlufingrunum!! :biggrin2:

 11. Yes!!!!!

  Þvílíkur sigur og djöf.. er ég ánægður fyrir hönd Mellors, hann átti þetta skilið. Drengurinn er ekkert tæknitröll en hann spilar sko með hjartanu, það sést.

  Þessi sigur var gríðarlega mikilvægur, GRÍÐARLEGA!!!! Ef þetta gefur strákunum ekki aukaboost fyrir deildarbikarinn og CL þá gerir það ekkert!

  Mér finnst ósanngjarnt að gagnrýna einstaka leikmenn eftir þennan leik en þetta var sigur liðsheildar, liðsheildar sem langaði svvooooo mikið að vinna. RB hefur talað mikið um að þetta sé aðal-factorinn í starfi sínu að hafa lið sem leggur sig fram.

  Ég fokking missti mig þegar markið kom og ég veit að ekki bara stuðningsmenn Liverpools hafa fagnað í dag heldur margir aðrir.

  Arsenal menn voru fautar og spiluðu dirty á köflum og það er óþolandi að sjá! Hefði viljað fá Vieira útaf með 2xgult, engin spurning. Annars geta Arsenal menn vel við unað að ná að skora úr eina skotinu sínu sem fór á rammann í þessum leik, en það dugði ekki gegn baráttuglöðu liði Liverpool :biggrin:

 12. Þegar RB tók við Liverpool á sínum tíma þá horfði maður til árangurs hans með Valencia og hugsaði með sér að ef hann fengi LFC til að spila svipað og Valencia gerði sem var rosalega aggressívt um allan völl og aldrei gefin þumlungur eftir þá væri það gott mál. Í dag gerði liðið nákvæmlega það og gott betur. Vörnin var mjög góð og miðjan líka. Kirkland hafði varla rassgat að gera og það er ekki það sem maður átti von á á móti Arsenal. Markið þeirra var gott og lítið um það að segja en allt annað en sigur hefði verið ósanngjarnt. Hér eftir fara önnur lið í leiki við Arsenal með það í huga að þeir eru langt í frá ósigrandi eftir þessa útreið. Maður hefur oft séð lið ætla sér að bakka á móti Arsenal og hugsanlega halda einhverju forskoti en ætíð fengið það í andlitið og það var frábært að sjá LFC keyra á þá allan helvítis leikinn. Magnaður leikur og áfram Liverpool, svo tökum við Olympiakos og étum þá lifandi á Anfield. :biggrin:

 13. YEEEEEEEESSSS!!!!! WOOHOO!!!

  P.S Einar óskaðu Októ til hamingju með leikinn! (djöfull var hann fúll)

 14. Frábær leikur hjá LFC. Þeir eiga allir hrós skilið og Stevie G. aðeins auka líka. Ég er búinn að bíða lengi eftir baráttu eins og í þessum sigri. Nú er maður í skýjunum.

 15. Já auðvitað er ég sáttur með sigurinn sem að mínu mati var baráttu sigur, en það er virkilegt áhyggjuefni að horfa uppá Kewell spila eins og hann hefur spilað. Hann nær varla að senda eina sendingu án þess að hún klúðrist. EN annars ætla ég ekki að hljóma negatívur…frábær sigur gegn frábæru liði! Vonandi verður þetta til þess að ungu strákarnir fá oftar að spreyta sig í 4-4-2 uppstillingu og það er EKKERT ANNAÐ EN JÁKVÆTT að sjá LFC spila 4-4-2!

  PS: Ég fer ekki úr rauða og hvíta LFC varabúningnum mínum á næstu dögum sama þótt hann fari að stinka! :biggrin:

 16. Eiki: Liverpool spiluðu 4-5-1. Pongolle var á hægri kanntinum, Benitez sagði það sjálfur eftir leikinni.

 17. Reyndar er grein á BBC þar sem liðinu er hrósað fyrir þetta 4-3-3 kerfi sem minnti á leikaðferð AJAX hér áður fyrr. hmmm.

 18. Smá rugl í mér þetta var á Soccernet en ekki BBC
  Þarna er Martin Jol að spá í hvernig hann eigi að ráða við Steven Gerrard ef hann spilar á móti Tottenham í kvöld.

  ‘We will have to see how we can control him; I can do nothing but tell the players in training. He was excellent with the lone striker – and it was sort of how Ajax used to play, with him as the number 10.

  ‘Liverpool played in a different way on Sunday (4-3-3) and played very well,’ Jol noted.

  Hérna er greinin í heild sinni.
  http://soccernet.espn.go.com/headlinenews?id=318003&cc=5739

Arsenal á Anfield, á morgun!

Lið vikunnar