Arsenal á Anfield, á morgun!

arsenal.JPG

ÞEIR ERU Á LEIÐINNI…

Holy Shit. Miðað við það hvernig Liverpool-liðið hefur verið að spila í síðustu þrem-fjórum leikjum, og miðað við það hvernig Arsenal-liðið hefur verið að leika síðustu tvö-þrjú árin? Miðað við það að Crystal Palace gátu skorað tvö mörk á okkur á Anfield, án síns sterkasta manns? Miðað við það andleysi sem hefur ríkt yfir liðinu okkar undanfarið? Miðað við þá meiðslakrísu sem ríkir í Bítlaborginni?

Eigum við ekki bara að sleppa því að mæta á morgun? Þá verður leikurinn dæmdur Arsenal í hag og þeir vinnu allavega bara 3-0 sigur. Ekki satt?

Ekki satt. Eftir að hafa lent í þvílíku þunglyndi eftir síðustu tvo leiki þá sat ég í dag í sófanum og horfði á Chelsea gjörsigra Charlton. Og einhverra hluta vegna, í því sem ég horfði á þetta Chelsea-lið sem er að spila alvarlega flottan bolta þessa dagana, þá datt mér í hug nokkuð skrýtin staðreynd:

Ef Liverpool, þrátt fyrir sína meiðslakrísu, gæti spilað með svona mikilli grimmd og svona miklum krafti? Þá værum við ekkert langt undan Chelsea eða Arsenal í spilamennsku.

Við höfum séð vísbendingar í haust sem benda til þess að liðið okkar kunni að spila fótbolta. Þeir sem eru ósammála ættu að spyrja leikmenn Man City, W.B.A., Norwich, Crystal Palace, Mónakó, Deportivo, Millwall, Middlesbrough og jafnvel Birmingham. Þessi lið vita hvað við getum spilað góðan bolta, ekki síst á heimavelli.

Þannig að ég ákvað mig. Liðið okkar, Liverpool FC, stendur á morgun frammi fyrir tveimur valkostum. Þeir geta hugsað eins og mér hefur liðið síðustu daga og spurt sjálfa sig hvort þeir ættu nokkuð að vera að því að mæta á morgun. EN … EN … þeir gætu líka minnt sjálfa sig á að hver einasti fótboltaleikur samanstendur af 22 leikmönnum, 11 í hvoru liði, og dómara.

Á morgun verður það einmitt svo. Þótt það séu meiðsli hjá okkar mönnum og allir telji nánast víst að við munum tapa á morgun, þá eru þetta samt bara ellefu leikmenn gegn ellefu. Og ef Liverpool stillir t.d. svona upp á morgun, sem mér finnst líklegast:

Kirkland

Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise

Gerrard – Alonso – Hamann – Warnock

Mellor – Kewell

…þá finnst mér ekkert ótrúlegt að hugsa til þess að við getum sigrað Arsenal á morgun.

Að því gefnu að okkar leikmenn velji síðari kostinn og mæti bandbrjálaðir og grimmir til leiks á morgun, auðvitað. Ef við spilum með sama andleysi gegn Arsenal og við gerðum gegn Middlesbrough þá töpum við á morgun. Stórt.

Þannig að ég ætla ekki að spá neinu. Kannski töpum við 4-0 á morgun, kannski vinnum við 3-0. Það eru ekki nema fjögur ár síðan við tókum þetta lið og sópuðum því undir teppið á Anfield. 4-0 urðu lokatölurnar þá og það var hinn ungi og efnilegi Steven Gerrard sem skoraði markið.

Á morgun finnst mér ekkert ólíklegt að hann muni skora aftur. Hann er núna búinn að fá tvo leiki til að jafna sig af meiðslum og ætti því að vera á fullu gasi frá byrjun á morgun. Bætið mönnum eins og Alonso, Kewell, Riise, Mellor og jafnvel hinum sókndjarfa Jamie Carragher við þessa jöfnu og þá sjá menn að við höfum alveg leikmenn sem geta valdið Arsenal einhverjum skaða.

Finnst mönnum þetta vera ótrúleg, og jafnvel veruleikafirrt, bjartsýni hjá mér? Kannski er það rétt.

Það kemur í ljós á morgun. Every football game lasts 90 minutes, and ours hasn’t started yet…


P.S.Antonio Núnez verður víst í hópnum á morgun. Það skyldi þó aldrei verða…

3 Comments

  1. Já, ég held að okkar menn mæti dýrvitlausir til leiks og Arsenik menn fái að kenna á því á Anfield á morgun. Það er kominn tími til að hysja upp um sig brækurnar og sýna öllum að Liverpool er ennþá stórveldi sem enginn getur tekið í bakaríið. Við látum ekki meiðsli nokkurra manna koma niður á áratugalangri hefð. Það kemur maður í manns stað og eins og gamli þjálfarinn minn sagði “þó það gangi ekki allt upp sem þú ert að gera þá geturðu alltaf barist !” Það er alveg hreinar línur að ef okkar menn berjast með hjartanu á morgun gegn Arsenik verður vart hægt að sjá milli hvort liðið hefur misst hálft byrjunarliðið í meiðsli.
    Áfram Liverpool !!!!

  2. Án þess að verða of dramatískur, þá er þetta “make or break” leikur fyrir okkur. Án efa mikilvægasti leikurinn í deildinni hingað til.

    Annaðhvort getur liðið horf á meiðslalistann og lið Arsenal og gefist upp og leyft Arsenal að valta yfir sig.

    EÐA menn gleyma meiðslunum og gefa allt í þennan leik. Ég vil sjá 11 leikmenn frá Liverpool mæta til að **BERJAST**. Ég get hugsanlega þolað tap í dag, en ég get **ALLS EKKI** þolað tap, þar sem að menn eru á hálfum hraða.

    Við getum vel unnið þetta lið, en til þess þarf að fá upp einhverja almennilega baráttu! (Og já, Hamann má alveg vera á bekknum, takk). Áfram Liverpool!

Anfieldison Park

Liverpool 2 – Arsenal 1