Vandræði hjá Mónakó…

barosmonaco2.jpg Ókei, það er kominn mánudagur og nú er mál að reka af sér slyðruorðið eftir helgina. Það á bæði við um undirritaðan (sem er að stíga upp úr rúminu eftir flensu), aðdáendur Liverpool (sem vildu sennilega allir hoppa fyrir strætó síðdegis á laugardag) og leikmenn Liverpool (sem voru lélegir, vægast sagt). Það er kominn tími til að hressa sig við og líta fram á veginn!

Mónakó komu í heimsókn á Anfield þann 15. september sl. og voru gjörsigraðir, 2-0 í leik sem hefði getað endað 8-0 fyrir Liverpool. Auðveldlega. Það var fyrsti leikur liðanna í riðlakeppninni í vetur og mörk Liverpool í leiknum skoruðu þeir Djibril Cissé og Milan Baros. Hvorugur þeirra verður með á morgun, sem flokkast undir vandræði af hálfu okkar manna.

En þó eiga fleiri í vandræðum fyrir annað kvöld. Mónakó hefur leikið frekar illa í deildinni heimafyrir að undanförnu, auk þess sem að þeir eru stigi á eftir Liverpool og Olympiakos fyrir þessa næstsíðustu umferð. Þeir eiga lokaleik í riðlakeppninni á útivelli gegn Deportivo, þannig að ljóst er að það er að duga eða drepast fyrir þá á heimavelli gegn Liverpool á morgun. Ef þeir tapa fyrir okkar mönnum annað kvöld, eða jafnvel gera jafntefli, verður þetta afskaplega erfitt í lokaumferðinni.

Þá eiga þeir í meiðslum eins og við: Fyrirliðinn Julien Rodriguez er meiddur og verður ekki með annað kvöld, auk þess sem hinn sterki miðjumaður Lucas Bernardi missir af leiknum með meiðsli í nára. Þetta er mikil blóðtaka fyrir Mónakó-liðið, sem var mjög illa mannað fyrir eftir miklar blóðtökur í sumar. Segja má að það eina sem gefi þeim ástæðu til bjartsýni fyrir annað kvöldið sé það að undrabarnið Javíer Savíola verður með gegn okkur, en hann var í banni í fyrri leik liðanna.

Sami Hyypia segist allavega óttast stubbinn Saviola, sem nær honum rétt upp að hnjám. Og ef Big Sami er hræddur þá er ég hræddur.

Samt hef ég í rauninni ekkert svakalegar áhyggjur af vörninni. Jú, hún var lek gegn Crystal Palace og Middlesbrough og gæti verið lek líka á morgun en ég hef meiri áhyggjur af því að við skorum engin mörk með tvo bakverði á köntunum og tvo kantmenn frammi. Ef við ætlum að ná stigi eða stigum á morgun þykir mér ljóst að við verðum að skora a.m.k. eitt mark, ef við ætlum ekki að halda hreinu gegn þessu liði. Þannig að við verðum að leggja meira undir í sókninni á morgun og ég vona að Rafa Benítez stjóri Liverpool setji nú a.m.k. einn framherja í liðið á morgun.

Sjáum til. En meiðsli í herbúðum Frakkanna eru a.m.k. góðar fréttir fyrir okkur. Eins dauði er annars brauð og allt það … kannski mun fjarvera fyrirliðans þeirra ríða baggamuninn á morgun, á sama tíma og fyrirliðinn okkar kemur (væntanlega) inn í byrjunarliðið.

Það er allavega ástæða til að brosa í dag … eftir erfiða helgi.

Ein athugasemd

  1. Jæja nú er Pongolle farinn að láta í sér heyra! Ætli hann byrji ekki frammi í kvöld frekar en Mellor? (Ég er að gefa mér það að annar þeirra hljóti bara að byrja inná).

Boro 2 – L’pool 0

Mónakó í kvöld: tryggjum við okkur áfram?