Boro 2 – L’pool 0

vidukatraore.jpgÞeir hefndu sín. Middlesbrough unnu í dag sannfærandi sigur á Liverpool, 2-0, á Riverside Stadium og er ekki hægt að segja annað en að þessi sigur hafi verið verðskuldaður.

Að mínu mati gerði Rafa Benítez slæm mistök í dag þegar hann ákvað að hafa hvorki Neil Mellor né Florent Sinama-Pongolle inná. Hann hafði Kewell og García frammi saman, en fyrir vikið var ekki einn einasti náttúrulegur markaskorari í liðinu. Og það sást í fyrri hálfleik, þar sem sóknarbroddur liðsins var ekki upp á marga fiska. Þeir García og Kewell eru báðir mjög góðir sem afturliggjandi framherji, fyrir aftan markaskorara, en í dag voru þeir ekki góðir. Við vorum einfaldlega með tvo afturliggjandi framherja, sem liggja fyrir framan varnarlínu andstæðinganna og leita leiða til að opna pláss fyrir sig og aðra.

Vandamálið er bara, að þeir voru ekki að opna pláss fyrir neinn. Það var enginn þarna til að opna pláss fyrir; enginn Cissé eða Baros að teygja á rangstöðuvörn Boro. Ekki einu sinni Mellor.

Hugtakið um ‘náttúrulegan striker’ er mjög einfalt. Það er maður sem þarf ekki að vera teknískur, hann þarf ekki að vera neitt í raun og veru. Hann þarf bara að hafa eitt sem enginn annar í liðinu hefur og það er þráhyggja gagnvart markaskorun. Náttúrulegi strikerinn getur ekki farið að sofa kvöldið eftir leik nema hafa skorað mark. Hann hefur einhvers konar sjötta skilningarvit gagnvart marktækifærum, virðist alltaf vera réttur maður á réttum stað, og því skorar hann þessi mörk. Einfaldlega af því að hann langar meira til að skora en alla hina í liðinu til samans.

Michael Owen, Djibril Cissé, Milan Baros, þetta eru allir náttúrulegir strikerar. Neil Mellor og Florent Sinama-Pongolle eru það líka. Harry Kewell og Luis García eru það ekki. Og því fór sem fór, því miður.

Annars var byrjunarliðið svona:

Kirkland

Josemi – Carragher – Hyypiä – Traoré

Finnan – Alonso – Hamann – Riise

García – Kewell

Bekkur: Dudek, Biscan, Gerrard, Flo-Po, Mellor.

Nú, fyrir utan þessi “mistök” Benítez (mín skoðun og ekkert annað, að sjálfsögðu) þá langar mig að útnefna þrjá leikmenn sem ollu stórkostlegum vonbrigðum í dag:

1: Dietmar Hamann. Var hann yfirhöfuð með í þessum leik? Þegar liðið er í sárum eins og núna, þegar okkur vantar leikmenn sem eru vanir að bera liðið uppi, þá verða þeir sem eru inná vellinum að stíga skrefið fram á við og bjóðast til að axla ábyrgð. Carragher hefur gert það undanfarið, Alonso líka, og Baros. En hvað með Hamann? Einn reyndasti og virtasti leikmaður liðsins … og hann var bara í felum í dag. Hann vann ekki einn einasta bolta í vörninni, hann skilaði ekki einum einasta bolta vel frá sér í sókninni. Hann einfaldlega var ekki með; maður sá hann skokka um völlinn eins og honum væri alveg sama. Þetta var ömurleg frammistaða og mig langar helst ekki að sjá hann í Liverpool-treyju á næstunni eftir að hafa horft upp á þessi ömurlegheit.

2: Jonny Riise. Hann er ekki flinkur leikmaður, hann getur ekki sólað menn eins og t.d. Kewell eða García. En hann hefur samt margt til brunns að bera sem kantmaður; hann er fljótur, sterkur, öruggur á boltanum, áræðinn og með góðar sendingar og skot. Hann ógnar alveg gríðarlega, hvort sem er í skotfærum eða með fyrirgjöfum. Nema hvað, hann gerði nákvæmlega ekkert af þessu í dag. Ekki neitt. Hann lét Ray Parlour og 18 ára bakvörð gjörsamlega yfirspila sig í dag svo að oft sá maður greyið Djimmy Traoré þurfa að verjast tveimur mönnum, einn síns liðs. Hræðilegur leikur hjá þeim norska.

3: Steve Finnan. Hann var ekki nærri því eins slæmur og Riise og Hamann en hann er ekki kantmaður. Af hverju í ósköpunum setti Benítez hann inn í liðið og færði García fram, vitandi að þá væri skortur á markaskorurum í liðinu, í stað þess að setja bara Mellor eða Pongolle beint inn? Það mun ég aldrei skilja. Finnan á að vera að berjast við Josemi um bakvarðastöðuna, og hvor þeirra á að spila þar er efni í annan pistil, en hann á ekki að vera á kantinum.

Nú, það voru fleiri mistök gerð. Til að mynda hafði dómarinn mikil áhrif á leikinn með því að dæma löglegt mark af García í fyrri hálfleik í stöðunni 1-0 fyrir Boro, og svo að leyfa nákvæmlega eins mark hjá Zenden í seinni hálfleik. Þá hefði hann getað gjörbreytt leiknum með því að reka Gareth Southgate réttilega útaf í byrjun síðari hálfleiks, þegar hann var síðasti varnarmaður á leið Harry Kewell að marki og togaði Kewell niður, rétt fyrir utan vítateig. Ef Hyypiä hefði togað Hasselbaink svona niður hefði enginn vafi leikið á því hvernig spjaldið hefði verið á litinn. En Southgate fékk gult.

Samt dettur mér ekki í hug að kenna dómaranum um þetta tap. Meiðslin settu sín strik í reikninginn, Benítez gerði mistök við uppstillingu á byrjunarliði og svo ollu sumir af reyndari mönnum liðsins miklum vonbrigðum, fóru í feluleik þegar þeirra var hvað mest þörf.

Svo var hræðilegt að sjá Xabi Alonso, sem annars var okkar besti maður í dag, gefa boltann beint í fæturna á Stuart Downing á vinstri kanti Boro. Það var engin pressa á Alonso og hann gaf boltann samt beint á Downing, þegar enginn Liverpool-leikmaður var einu sinni nálægt honum. Upp úr þessu fengu þeir hraðaupphlauð og skoruðu annað mark sitt, og þá var þessi leikur eiginlega bara búinn.

Steven Gerrard kom inná þegar hálftími var eftir af leiknum en það hafði lítið að segja. Hann er í ömurlegu leikformi og það sást, en hann var samt miklu miklu miklu miklu miklu miklu miklu betri en Hamann, sem fór útaf fyrir hann. Þá kom Pongolle inná þegar 20 mínútur voru eftir en þá var það orðið allt of seint að setja striker inná völlinn. Biscan kom svo inná undir lokin en hafði engan tíma til að breyta nokkru.

Ég veit það ekki. Maður er að reyna að vera rólegur yfir þessu en staðreyndin er samt sú að nú er liðið búið að tapa fimm leikjum í deildinni og er einhverjum 15 stigum á eftir toppliði Chelsea. Fimmtán stig og tímabilið er ekki hálfnað, sem þýðir að ef við tökum okkur ekki á á næstu misserum endum við um 30 stigum á eftir því liði sem vinnur deildina, rétt eins og í fyrra. Það er engan veginn nógu gott.

Auðvitað eru meiðslin hræðileg. Gerrard mun reyndar koma sterkur inn á næstunni og það munar um minna, en framherjavandamálin okkar eru gjörsamlega ótrúleg. Sérstaklega ef Benítez ætlar alls ekki að leyfa þeim Pongolle og Mellor að sanna sig. Ég veit að þeir eru ungir og óreyndir en kommon, það verður að hafa markaskorara þarna inná. Ég vill frekar sjá ungan og óreyndan náttúrulegan markaksorara þarna inná heldur en að sjá tvo afturliggjandi framherja þarna. Við verðum að skora mörk til að vinna leiki og það verður að notast við þá markaskorara sem við höfum.

Fokk, þetta er ömurlegt. Jæja … Mónakó-leikurinn er á þriðjudaginn og þá kemur í ljós úr hverju þessir gæjar hjá okkur eru gerðir. Við verðum að ná a.m.k. jafntefli þar, megum svo sem alveg við því að tapa þar en viljum það helst ekki. Það er spurning hvaða breytingar á liðinu Benítez gerir fyrir þann leik, mér finnst ótrúlega ólíklegt að hann hafi Kewell og García aftur saman frammi í þeim leik, miðað við hvað við vorum bitlausir í dag.


**Uppfært (Einar Örn)**: Þetta er einfalt. Ég skrifa þennan ósigur **algjörlega** á Benitez. Áður en menn fá flog, þá er ég enn 100% viss um Benitez er á réttri leið og er rétti maðurinn í starfið. Hann er hins vegar ekki hafinn yfir gagnrýni.

Ég nenni ekki að pirra mig lengur útí Hamann. Hann er bara ekki nógu góður. Ég ætla hins vegar að pirra mig útí Benitez því hann á að vita betur. Benitez *hlýtur* að vita að það kemur ekki nokkur skapaður hlutur útúr Hamann sóknarlega. AF HVERJU gaf hann ekki Igor Biscan tækifæri. Biscan hefur nýtt hvert einasta tækifæri, sem hann hefur fengið með liðinu og leikið gríðarlega vel. Hamann hefur hins vegar ekki getað neitt.

Hamann var **ÖMURLEGUR** í þessum leik. Ætti þessi maður ekki að vera leiðtogi? Það er einsog það renni ekki blóð í honum. Engin barátta, engin leikgleði, enginn kraftur. Ömurlegur leikmaður, sem ég vil nú sjá fá laaaanga hvíld.

Einnig á Benitz *að vita* að STEVE FINNAN getur ekki neitt á kantinum. Af hverju getur Benitez ekki séð þetta? Ég get svo svarið það, þetta var klassískur Houllier leikur. Fáránleg liðsuppstilling, baráttuleysi og algjör skortur á sköpun í liðinu. Ég hef ekki verið jafn svartsýnn eftir leik lengi.

Benitez verður að nýta tækifærið núna þegar Baros og Cisse eru meiddir og gefa Sinama-Pongolle almennilegt tækifæri. Leyfa Flo-Po að byrja í nokkrum leikjum. Jafnvel þótt hann standi sig ekki 100%, gefa honum allavegana tækifæri. Hann á betra skilið en að vera bara varamaður á meðan að tveir getulausir miðjumenn reyna fyrir sér (með hræðilegum árangri) í framherjastöðunni.

Ég bara get ekki skilið hvernig Benitez, sem ég tel vera skynsaman mann, gat horft á liðsuppstillinguna í dag og haldið að við myndum skora mörk.

Á miðjunni vorum við með **tvo bakverði** og **tvo varnarsinnaða miðjumenn**. Frammi vorum við með **tvo kantmenn**. Hvernig eigum við að skora mörk með svona uppstillingu? Ætlarðu að treysta á að Riise (sjitt hvað hann var lélegur) og Finnan (öööögn skárri) skapi færin??? Á Hamann að skapa þau?

Benitez hefði átt að henda Biscan, Pongolle og Mellor þarna inná og segja við þá. “Þið stóðuð ykkur í bikarnum, sýnið núna það sama fyrir aðalliðið”. Ég er 100% viss um að Biscan hefði barist frá fyrstu mínútu og það sama hefði gilt um framherjana ungu. Þeir hefðu 100% verið betri en Finnan, Riise og Hamann.

Að mínu mati er það enginn vafi að þessi uppstilling:

**Garcia – Biscan – Alonso – Kewell**

**Mellor – Sinama-Pongolle**

hefði verið líklegri til að skora mörk en þessi

**Finnan – Alonso – Hamann – Riise**

**Kewell – Garcia**

Þetta var Benitez að kenna. Svo einfalt er það. Þetta er einsog með Emile Heskey. Maður hætti að nenna að æsa sig útí hann, þar sem maður sá að hann var einfaldlega ekki nógu góður, heldur pirraði maður sig miklu frekar á Houllier yfir því að hafa Heskey í liðinu.

Það sama var uppá teningnum hjá Benitez í dag. Einn stór mínus í kladdann fyrir Rafa.

16 Comments

  1. Mig langar að bæta aðeins við þessa umræðu sem hefur verið í gangi hér í sambandi við þessi innískot á Chelsea í leikjum Liverpool. Núna var að enda tapleikur okkar manna gegn Middlesboro, mjööög fúlt, en ég vil spyrja ykkur sem horfðu á útsendingu S1 hovrt að þið tókuð eftir því að eftir að skipt var yfir á Chelsea-Bolton til að sýna mark Bolton, að þá gleymdist að setja aftur rétta hljóðið í úsendingunni ! Sem sagt þá var mjög greinilegt (að mér finnst) að síðustu 10 mín eða svo horfðum við á Liverpool-Boro en með hljóðið frá Chelsea-Bolton ! Á þessu er enginn vafi. Enn ein ástæða fyrir því að hætta þessu skipti-rugli í miðri útsendingu !

  2. Já, maður heyrði þetta og þetta var frekar skrýtið. En svona smámistök hafa engin úrslitaáhrif á útsendinguna, þeir löguðu þetta um leið og þetta fattaðist.

    Ég hef gagnrýnt S1 undanfarið hér en mér finnst í lagi að hrósa þeim þegar þeir gera rétt. Og mér fannst mjög vel að því staðið í dag þegar þeir skiptu yfir á þessi þrjú mörk sem skoruð voru á Stamford Bridge á meðan Liverpool-leikurinn stóð yfir. Í öll þrjú skiptin biðu þeir þangað til lítið var að gerast hjá Liverpool og svissuðu þá yfir, en höfðu Liverpool-liðið í litlum kassa uppí horninu. Sá kassi var í raun frekar stór og skýr og því gat maður fylgst með þeim leik sem maður vildi.

    Þetta var mjög vel gert hjá þeim og ef þeir ætla að venja sig á að fylgjast með tveim leikjum í einu kl. 3 á laugardögum þá er þetta rétta leiðin til að gera það. Vel gert SkjárEinn, já ég sagði vel gert!

    Nú er bara að sjá hvort að þeir standa við stóru orðin og gera þetta reglulega … eða bara þegar Chelsea á í hlut. Ef þeir ætla bara að gera þetta hjá Chelsea-leikjum þá stendur mín gagnrýni enn, en ef þeir ætla að venja sig á þetta sama hvaða lið eru að spila kl. 3 þá er það í fínu lagi mín vegna.

    Við sjáum til…

  3. ömurlegur leikur… alveg sammála einari… biscan, mellor og flo-po hefðu átt að fá tækifæri frá byrjun…
    það þýðir einfaldlega ekki að gefast svona upp bara af því að 2 bestu framherjarnir okkar eru meiddir… það verður að spila sóknarbolta no matter what.

  4. Jamm… ég er svona sammálu flestu hjá þér varðandi þennan leik Kristján. Set kannski smá athugasemd við þetta:

    Til að mynda hafði dómarinn mikil áhrif á leikinn með því að dæma löglegt mark af García í fyrri hálfleik í stöðunni 1-0 fyrir Boro, og svo að leyfa nákvæmlega eins mark hjá Zenden í seinni hálfleik.

    Þetta var náttúrulega ekki nákvæmlega eins mark hjá Zenden þar sem mark Garcia var klárlega löglegt en mark Zenden ekki.

    Annars er ég líka algjörlega sammála því að ekki sé hægt að skella skuldina á dómarann einn og sér fyrir þetta tap. Vissulega hafði hann áhrif, en það er engin leið að segja til um hvernig leikurinn hefði spilast þó mark Garcia hefði verið dæmt gott og gilt.

    Sjálf er ég nú ekki mikið fyrir að vera mikið að kenna dómurum um tap almennt, yfirleitt er það í höndum liðanna sjálfra að skapa sína gæfu. En ég verð þó að viðurkenna að mér finnst hafa hallað helst til mikið á okkar menn og við hafa þurft að blæða óþarflega mikið á þessu tímabili fyrir slakar ákvarðanir dómara. Dæmi: Mark Garcia gegn Bolton (1 stig?), þegar Izzet varði með hendi á línunni gegn B´ham(3 stig?), mark Garcia sem dæmt var af í dag og markið sem Zenden skoraði (1 stig?).

    Hverju sætir veit ég ekki, og ekki ætla ég að vera með einhverjar samsæriskenningar sem engum gagnast og eiga örugglega ekki við rök að styðjast. Helst vil ég skrifa þetta á óheppni og mögulega það að Benitez er ekki mikið að kvarta yfir slakri dómgæslu og dómarar því kannski ekki eins hræddir við hann og segjum Sir Alex.

    En nóg um það. Varðandi leikinn í dag þá vil ég algjörlega skrifa þetta á Benitez. Ég er 100% sammála Einari varðandi uppstillinguna og ég er ekki sátt við hvernig Riise og Josemi fá hvern sénsinn á fætur öðrum. Riise til að mynda missti þrjá bolta út af í dag þegar Alonso sendi bara ágætissendingar á hann – dæmi um algjört einbeitingarleysi.

    Ég er sammála því sem þulir S1 sögðu þegar þeir voru að hneykslast á því að okkar menn skyldu ekki hafa reynt meira á þennan unga (en nokkuð góða sýndist mér) bakvörð Boro-manna.

    Og hvað þarf Kewell að gera til að setja boltann í netið – mér er spurn. Hann gæti ekki keypt sér mark. Þetta er með ólíkindum.

    Að lokum þá vil ég koma inn á það hvaða áhrif það hafi haft að hafa Stevie á bekknum. Mér fannst eins og menn væru bara almennt að bíða eftir því að hann kæmi inn og reddaði þessu – það yrði bara svona status quo þangað til. Ég held það hefði verið betra að hafa hann bara inn á frá upphafi eða sleppa þessu. Pæling

  5. Vil bara benda á að þeir löguðu þetta ekki um leið og mistökin uppgötvuðust, þvið að þeir föttuðu þetta alls ekki !
    Hljóðið frá Chelsea var ennþá á þegar að þulirnir voru að fara yfir leikinn að honum loknum !
    Frekar döpur mistök að mínu mati.

  6. Ég hefði viljað sjá meira sýnt úr Chelsea-leiknum í dag svona til að forða okkur frá vonbrigðunum. Held að það taki fleiri undir það en ég :biggrin2:

  7. Hverjum er ekki sama um hljóðið á þessum ömurlega leik. Hefði ykkur liðið betur með tapið ef það hefði verið rétt hljóð á því? Ég hefði kvartað ef leikurinn hvefði verið á Anfield með öðru hljóði en var slétt sama um þetta í dag. Annars fannst mér Finnan fá full harkalega útreið hjá ykkur í dag. Hann var fínn í bakverðinum í seinni hálfleik og á ekki skilið að vera einn af þremur lélegustu í dag.

  8. Deja vu , The return of Houllier, eða eitthvað. Þetta var alveg týpískur Houllier leikur þar sem maður skynjaði frá fyrstu mínútu að leikurinn myndi tapast. Hvað haldiði annars, hverja ætti að selja í jan og hverja kaupa. Manni finnst eins og mannskapurinn sé bara ekki sá rétti fyrir Benitez. Riise, Hamann,Henchoz út. Hvað er líka með Josemi ? Hrikalega mistækur. Stundum eins og vængjahurð og stundum eins og klettur. Kaupa tvo strikera og hvað meira ?

  9. Við erum með fjóra bakverði þarna, JOSEMI, RIISE, FINNAN og TRAORE. Þar eru það FINNAN og TRAORÉ sem eru betri en hinir tveir.

    Svo er eins og Benítez haldi að við séum með fjóra kantmenn, en það er misskilningur, þeir eru bara tveir, KEWELL OG GARCÍA.

    Á miðri miðjunni ætti að vera valið samkvæmt þessari röð: GERRARD, ALONSO, BISCAN og ég myndi frekar kalla DIARRA úr láni frá Frakklandi heldur en að láta HAMANN spila. Hann hefur gert góða áður gert góða hluti fyrir félagið en hann er bara búinn á því núna!

    Einu framherjarnir sem eru heilir um þessar mundir eru þeir MELLOR og PONGOLLE.

    Þessvegna finnst mér einhvernvegin eins og það ætti bara að vera svo auðvelt að velja í liðið? Einhverjir sammála?

    Kirkland

    Finnan Carrager Hypiia Traoré

    García Alonso Gerrard/Biscan Kewell

    Mellor Pongolle

    En maður er víst ekki stjóri Liverpool og þessvegna fær maður líklegast engu um þetta ráðið. Ég skil bara ekki hvernig eins gáfaður maður og BENÍTEZ getur klúðrað þessu. Ég er hrifinn af “spænsku innrásinni” hjá Liverpool en það er samt óþarfi að velja JOSEMI fram yfir FINNAN bara því hann er spænskur ef að það er málið!

  10. Þetta var alveg skelfilegt í dag. Kewell og Garcia frammi er hreinlega ekki að gera sig. Meiðsli eða ekki meiðsli, það verður að hafa sóknarmenn frammi!!! Hljómar svo sem einfalt, en sumir ekki alveg að átta sig.

    Maður ímyndar sér t.d. stemmninguna meðal Flo-Po og Mellor…Það eru allir aðrir sóknarmenn út úr myndinni en samt fá þeir ekki séns. Þetta eru sæmilega skýr skilaboð: Félagar – þið eruð ekki með í þessu liði. No matter what. Sama með Biscan – spilar eins og snilldin ein á móti Depor og Boro í bikar – og hvað? Um leið og “alvaran” byrjar er hann ekki með. Ógeðslega svekkjandi. Svo er ekki skipt inn á eins og í dag þegar ljóst er að sumir eru hreinlega ekki að gera sig.

    Ég held, eins og ég hef verið sáttur við Benitez í vetur, að hann sé að klúðra þarna. Sé að láta stjörnurnar spila, eða gæjana sem hann keypti, í stað þess að láta þá sem eru heitir/spila réttu stöðurnar spila inn á í staðinn. Verður að breytast.

    Það góða út úr þessu? Komum eins og brjálaðir á móti Mónakó og svo Arsenal um næstu helgi! Takk fyrir… 😉

  11. Kiddi og Hannes. Ég er 100% sammála því, sem þið segið!

    Benitez verður að gefa Biscan, Flo-Po og Mellor sjens. Ef þeir fá ekki sjens núna, þá fá þeir aldrei sjens.

  12. Hræðileg frammistaða hjá okkar mönnum. Það kom mér mikið á óvart að sjá ekki í það minnsta annað hvort Mellor eða Pongolle í byrjunarliðinu. Hvað Benites var að hugsa þar er mér algjörlega hulið. Eins er það orðið deginum ljósara að Josemi er frjósa í Englandinu góða undanfarnar vikur. Það væri kannski ráð að láta hann spila í föðurlandi og með lambhúshettu ? Ef Benites teflir honum fram á móti Arsenal og gengur fram hjá Finnan aftur í bakvörðinn þá fer ég nú að efast um vin minn Benites.

  13. Ég verð nú bara að verja dómarann í þessum leik sem mér fannst mjög góður. Línuvörðurinn getur ekki fyrir nokkra muni gefið sér að Garcia fái boltann frá mótherja. Hann var kolrangstæður miðað við ef hann hefði fengið boltann frá samherja, en þeir á skjá einum vildu meina að hann hefi komið frá mótherja, en ég gat ekki fyrir nokkra muni séð hvort var(hvað þá línuvörðurinn) þrátt fyrir allar endursýningarnar.

    Það þarf ekkert að ræða Zenden markið, það var lölegt, sást klárlega í endursýningu.

    Og með Southgate, afhverju átti hann að fara útaf? Hann er EKKI aftasti varnarmaður, og þó hann hefið verið það(hinir segjum meter fyrir framan) þá hefði þetta ekki átt að vera rautt. Svona atvik eru metin og ég er svona 99% viss að dómarinn hefði metið það þannig að hinir varnarmennirnir hefðu átt séns á að komast í boltamanninn. Sóknarmaðurinn var það langt til hliðar við markið að varnarmennirnir hefðu getað komist fyrir hann, sem sagt, hann var ekki rændur upplögðu marktækifæri. ALDREI rautt.

    En ég get mér til um að þú hafir skrifað þetta í einhverju pirringskasti vegna lélegrar spilamennsku okkar manna í gær og fyrirgef þér þetta 😉

  14. Liðið spilaði hræðilega en enginn var slakari en Josemi. Finnan er miklu betri en hann og var fínn eftir að hann fór í bakvörðinn. Hamann kom skammt á eftir Josemi í lélegheitum og er það óskiljanlegt hversu fá tækifæri Biscan fær. Hann hefur staðið sig frábærlega, á þessu tímabili, þegar hann hefur fengið tækifæri og vil ég sjá hann byrja í næsta leik. Pongolle vil ég líka sjá í byrjunarliðinu, en honum vantar meira sjálfstraust til að verða sterkur framherji og það fær hann eingöngu með því að spila.

  15. Við skulum samt ekki missa okkur í þunglyndiskasti þótt útileikur á móti sterku Boro-liði hafi tapast. Held að menn hafi verið að stóla of mikið á endurkomu Super Steve.

    Ég fór í brjálað skap eftir þennan leik en maður verður að gefa RB smá tíma og vona að hann hafi hugsað lengra fram í tímann en bara þennan eina leik. Ég trúi ekki öðru en að kallinn tefli fram Mellor og/Pongolle á miðvikudag.

  16. Nú þegar maður hefur fengið smá tíma til að melta þetta og hugsa rökrétt er ég kominn á þá skoðun að tapið um helgina sé SKJÁ EINUM AÐ KENNA! Ég meina, kommon, í bæði skiptin sem þeir sýna Liverpool-leik og skipta yfir á Chelsea þegar eitthvað gerist þá töpum við. Tilviljun? Ég held ekki…

    Annað varðandi Skjá einn… Þessi stórkostlega þjónusta þeirra við knattspyrnuáhugamenn náði síðan ekki lengra en svo að hætt var að fylgjast með Chelsea-leiknum um leið og Liverpool-leikurinn kláraðist… Hefði nokkuð verið flókið að koma inn í þriðja leikinn á laugardaginn til að sýna síðasta markið í Chelsea-leiknum?

    En Skjár einn skuldar okkur Púllurum sex stig, fer ekki ofan af því.

Boro á morgun!

Vandræði hjá Mónakó…