Boro á morgun!

Ókei, ég lít í kristalskúluna mína í kvöld og ég sé tvo möguleika.

1: Benítez setur annað hvort Pongolle eða Mellor í framlínuna gegn Boro, við hlið Harry Kewell, og sá þeirra sem verður í byrjunarliðinu brillerar og verður vörn andstæðinganna erfiður ljár í þúfu. Boro-menn búast ekki við þessum auknu vandræðum og fyrir vikið geta menn eins og Kewell, García, Alonso og Steven Gerrard valtað yfir þá. Auðveldur sigur okkar manna og tímabilið á fullri ferð áfram!

2: Við getum ekki skorað án Milan Baros og Gerrard er ekki nema skugginn af sjálfum sér eftir tveggja mánaða fjarveru. Við töpum á morgun og gjörvöll heimsbyggð full af Púllurum upplifir gríðarlegar geðsveiflur á sunnudagsmorguninn.

Ókei, þetta segir kristalkúlan mér og í raun get ég skrifað endalaust um möguleika liðsins á morgun en ég mun ekki verða neitt nær því að vita. Aðeins tíminn mun leiða í ljós hvor kosturinn á fyrir okkur að liggja um þrjúleytið á morgun.

Hér er hins vegar það sem við vitum fyrir víst:

1: Neil Mellor skoraði tvö mörk gegn meira og minna sterkasta liði Boro fyrir aðeins níu dögum síðan. Mendieta er meiddur út tímabilið og Jimmy Floyd missti af þeim leik vegna smáhnjasks, að öðru leyti voru þeir með sitt sterkasta lið. Og vissulega sína sterkustu vörn. Og Mellor og Pongolle jörðuðu þessa vörn, studdir af hinum lítt reyndu Potter, Warnock, Welsh, Partridge og svo tæknitröllinu Biscan. Ef þeir gátu stútað vörn Boro fyrir níu dögum með þessa menn sér til stuðnings þá eiga þeir að geta það á morgun, studdir af mönnum eins og Kewell, García, Gerrard, Hamann, Alonso, Riise, Traoré, Finnan, Josemi og hinum nýlega-sókndjarfa Jamie Carragher.

2: Steven Gerrard er fyrirliði Liverpool. Hann er svo vinsæll að hann olli umferðaröngþveiti í Wolverhampton á mánudag, vegna þess að hann var að spila 43 mínútur af fótbolta. Með varaliðinu. Steven Gerrard verður í byrjunarliðinu á morgun. Steven Gerrard verður í liðinu á morgun. Stevie G byrjar inná. Með okkur. Gegn þeim. Hallelúja…

3: Steven Gerrard verður með á morgun.

Þannig að ég sé enga ástæðu til að vera neitt annað en bjartsýnn fyrir þennan leik. Jú, Baros skorar helling og Cissé líka og þeir eru meiddir. En þess fyrir utan erum við með 10 menn í liðinu sem við vitum að eru betri en þeir 10 Boro-menn sem spila sömu stöðu. Ef Mellor eða Pongolle geta bætt smá markheppni við þessa jöfnu finnst mér eðlilegt að við sigrum á morgun.

Líklegt byrjunarlið er því svona:

Kirkland

Josemi – Carragher – Hyypiä – Traoré

García – Alonso – GERRARD – Riise

FSP/NM – Kewell

Auðvitað er ekkert víst að Gerrard komi inn fyrir Hamann, í sjálfu sér. Benítez gæti viljað hvíla Alonso frekar en Hamann, þar sem sá spænski spilaði heilan landsleik á miðvikudag á meðan Hamann hélt kyrru fyrir heima og undirbjó sig fyrir helgina. Benítez hefur áður hvílt Alonso eftir landsleik.

Síðan er bara spurningin hvor þeirra Flo-Po/Mellor fái kallið á morgun. Hvor þeirra sem það er verður dyggilega studdur af okkur öllum, býst ég við, og ég vona innilega að viðkomandi framherji gefi okkur ástæðu til að brosa.

Mín spá: Kom í raun og veru fram í fyrstu þremur málsgreinum þessarar færslu. Við vinnum, eða við töpum. Einfalt, ekki satt? 😉

Koma svooo! Áfram Liverpool!!!

Ein athugasemd

  1. Við vinnum þetta, engin spurning. Nákvæmlega þessi punktur:

    >En þess fyrir utan erum við með 10 menn í liðinu sem við vitum að eru betri en þeir 10 Boro-menn sem spila sömu stöðu.

    Þetta er hárrétt og við eigum að klára Boro. Þetta verður gríðarlega erfitt, en menn verða bara að gleyma þessu sóknarmanna bulli öllu og klára þettu. Garcia/Kewell/Sinama-Pongolle eru alveg nógu góðir til að klára málin.

Vitleysan heldur áfram!

Boro 2 – L’pool 0