Crystal Palace á morgun!

biscan3731.jpg Ókei, eftir slæmt tap um síðustu helgi jöfnuðum við okkur með góðum sigri í Deildarbikarnum á miðvikudag. Á morgun verðum við að halda áfram að sigra, sérstaklega til að rétta okkar hlut í deildinni. Við mætum liði Crystal Palace á Anfield síðdegis á morgun, en þrátt fyrir að vera í fjórða neðsta sæti og þar að auki nýliðar eru drengirnir hans Iain Dowie langt því frá að vera auðveld bráð.

Við höfum þegar spilað við hin tvö nýliðin í deildinni á heimavelli. Við unnum W.B.A. og Norwich bæði 3-0 og yfirspiluðum bæði lið mjög auðveldlega. Ég á von á að við höfum svipaða yfirburði spilalega séð gegn Palace á morgun, en engu að síður þykir mér ljóst að þetta verði erfiðari leikur. Fyrir því eru nokkrar ástæður:

-Palace hafa sýnt að þeir geta velgt stærri liðunum undir uggum í vetur. Þeir fóru til Birmingham fyrir tveim vikum og unnu á The Hawthorns. Í ljósi þess að Birmingham unnu okkur á Anfield viku síðar þá er ekkert gefið að við vinnum Crystal Palace.

-Þeir hafa Andy Johnson sem er næst markahæsti leikmaður Úrvalsdeildarinnar, með 8 mörk (Thierry Henry hjá Arsenal er með 9). Til samanburðar þá er Milan Baros okkar markahæsti maður með 7 mörk en þar af er eitt stykki í Meistaradeildinni, og sex í Úrvalsdeildinni.

Þannig að Palace-liðið er með mikið sjálfstraust þessa dagana og einn heitasta framherjann í Englandi. Þá eru þeir með ungan strák á miðjunni sem hefur verið rosalega skemmtilegur á að horfa í haust: Wayne Routledge heitir hann og þykir minna óþægilega mikið á Shaun Wright-Phillips, enda báðir litlir og flinkir vængmenn. Hann gæti strítt Traoré aðeins á morgun.

En talandi um Milan Baros: Hann er orðinn heill og verður með á morgun, sem eru frábærar fréttir fyrir liðið! Baros er ekki aðeins okkar besti sóknarmaður í dag heldur, að mínu mati, einn af fimm bestu framherjunum í Úrvalsdeildinni. Fyrir þá sem eru forvitnir væru hinir fjórir Henry, van Nistelrooy, Reyes og Eiður Smári. Kannski líka Drogba en hann verður að sanna sig meira.

Hvað um það, endurkoma Milan inn í liðið mun færa okkur aukið sjálfstraust í sóknaraðgerðunum. Það sem gerir liðsvalið fyrir morgundaginn spennandi er sá möguleiki að Neil Mellor fái að spila með frá byrjun, við hlið Milan. Það er vissulega góður möguleiki á því að það gerist, þar sem Pongolle meiddist lítillega á miðvikudaginn og Harry Kewell er í sérþjálfun þessa dagana til að koma sér í betra líkamsástand, og til að styrkja ökklann sinn og önnur meiðslasvæði.

Þá verður spennandi að sjá hvort að Igor Biscan uppskeri verðlaun fyrir erfiði sitt í undanförnum leikjum. Í síðustu fimm leikjum hefur hann byrjað inná í þremur, gegn Millwall, Deportivo og Middlesbrough. Hann hefur verið hreint út sagt stórkostlegur í þeim öllum og leitt miðjuna með miklum myndarskap. Hann var á bekknum um síðustu helgi gegn Birmingham og vilja margir (þar á meðal ég) meina að það hafi verið röng ákvörðun, þar sem Didi Hamann er ekki jafn sókndjarfur og Igor Biscan, og okkur vantaði sárlega meiri sóknarþunga frá miðjunni gegn Birmingham.

Þannig að ég ætla að gerast svo djarfur að spá eftirfarandi liði fyrir leikinn gegn Crystal Palace á morgun:

Chris Kirkland

Josemi – Carragher – Hyypiä – Traoré

García – Alonso – BISCAN – Riise

Baros – Kewell|Mellor

Varamenn: Dudek, Finnan, Sinama-Pongolle, Hamann og Kewell|Mellor.

Já, að mínu mati er Igor Biscan búinn að vinna sér inn byrjunarliðssæti og það mun vonandi gerast á morgun. Það erfiða við þetta val er það að Didi Hamann hefur verið að spila vel að undanförnu, en bara ekki jafn rosalega vel og Biscan. Þannig að þótt það væri sanngjarnt að Biscan fengi tækifæri á morgun, væri hægt að segja að það færi harkalega farið með Hamann. En Biscan hlýtur að byrja á morgun!

Þá er þetta spurning hvort að Kewell er klár í slaginn á morgun, en það veit enginn nema hann sjálfur og Rafa Benítez. Ef hann er klár verður hann að sjálfsögðu í liðinu – þrátt fyrir að hafa átt erfitt undanfarið er hann enn einn af lykilmönnum liðsins – en ef hann er ekki klár í slaginn hef ég á tilfinningunni að Benítez velji Mellor fram yfir Pongolle í framlínuna.

MÍN SPÁ: Sko, þetta er heimaleikur gegn nýliðum í Úrvalsdeildinni og sem slíkur á þessi leikur að vinnast. Ég átta mig á því að C.P. eru sýnd veiði en ekki gefin, og með jafn heita menn og Routledge og Johnson í liðinu gætu þeir alveg refsað okkur fyrir einhvern aulaskap (fyrst Darren Anderton gat það geta það allir! ) … en við eigum að vinna á morgun og ekkert múður! Liðið bara verður að vinna heimaleikina gegn nýliðunum ef menn ætla sér einhverja toppbaráttu í vetur!

Þannig að ég segi að við vinnum þennan leik á morgun, svipað afgerandi og gegn Norwich og W.B.A. Verður kannski ekki 3-0 sigur en svona 2-0 eða 2-1 finnst mér líklegt. Baros skorar eitt á morgun og ef við fáum víti skorar Harry Kewell eitt, sem gæti þá reynst eitt af mikilvægari mörkum okkar í haust. Maður hefur á tilfinningunni að hann þurfi bara eitt mark og þá smelli allt hjá honum, sjálfstraustið fari í gang og svona.

Ég minni á að leikurinn er ekki í beinni á SkjáEinum á morgun – sem sýna Chelsea, óvænt! – þannig að nú er um að gera að fjölmenna inná PLAYERS og styðja liðið! Liverpoolklúbburinn verður á staðnum og mun selja eintök af afmælisbók klúbbsins, ALDREI EINN, sem er frábær og ég hvet alla til að verða sér úti um eintak!

Sem sagt, ég sé vonandi sem flesta Púllara á Players á morgun. Það verður frábær stemning þarna og vonandi góður sigur! Áfram Liverpool!

5 Comments

  1. Nokkuð sammála þessu. Það er ljóst að Benitez bara **verður** að hafa Biscan inná. Ég hélt að ég myndi aldrei á ævinni segja þetta, en *ég heimta að sjá Biscan í byrjunarliðinu*. 🙂

    Í raun væri mitt óskalið svona:

    **Chris Kirkland**

    **Josemi – Carragher – Hyypiä – Traoré**

    **García – Alonso – BISCAN – Kewell**

    **Baros – Sinama Pongolle**

    Semsagt, Biscan á miðjunni, Kewell á vinstri kantinum og Sinama litli frammi. Ég held einfaldlega að Sinama-Pongolle eigi mun meiri framtíð fyrir sér og því vil ég sjá hannf á almennilegt tækifæri í liðinu.

    En auðvitað eigum við að vinna þennan leik. Kemur ekkert annað til greina. Benitez á að vera sókndjarfur, setja Riise og Hamann á bekkinn og blása til sóknar 🙂

  2. Mæli með þessu góða viðtali, sem Bascombe átti við Igor Biscan: [Biscan enjoying light at the end of a long dark tunnel](http://icliverpool.icnetwork.co.uk/0500liverpoolfc/0100news/tm_objectid=14865639%26method=full%26siteid=50061%26headline=biscan%2denjoying%2dlight%2dat%2dthe%2dend%2dof%2da%2dlong%2ddark%2dtunnel-name_page.html)

    Það er enginn Liverpool leikmaður, sem mér þætti jafn vænt um að myndi slá í gegn, einsog Biscan. Hann á það skilið eftir allt, sem hann hefur gengið í gegnum síðustu ár.

  3. Já það væri nú gott ef Biscan færi að blómstra, en ég væri nú eiginlega hrifnari af því ef Smicer myndi ná að halda sér heilum í tvær vikur og eina nokkra góða leiki fyrir Liverpool.
    Svo “adorable” þessir austantjaldspoolarar 🙂

  4. Já, þá er kannski ekki úr vegi að benda á [íslenska útgáfu af viðtalinu við Biscan](http://www.liverpool.is/frettir/frett.asp?id=5881).

    Og sammála þér, Daði. Það er eitthvað við Smicer og Biscan. Þeir hafa verið svo lygilega óheppnir síðan þeir komu til Liverpool. Það væri ekki leiðinlegt ef Smicer myndi halda sér heilum í mánuð og loksins sýna eitthvað fyrir Liverpool.

Vesen

L’Pool 3 – Cr. Palace 2