L’pool 0 – Brum 1

Ókei, þannig að við töpuðum fyrir Birmingham í dag, 0-1. Sá sigur var í meira lagi óvæntur, þar sem við áttum leikinn og áttum að vera búin að skora svona 2-3 mörk allavega áður en þeim tókst að læða einu marki inn, úr eina ‘skotinu’ þeirra á mark.

Markið var mjög lélegt: Robbie Savage gaf fyrir frá vinstri og Matthew Upson var aleinn á fjærstöng þar sem hann skallaði boltann að marki. Boltinn hrökk þvert fyrir markteiginn og beint til Darren Anderton – já, Darren Anderton – sem stóð óvaldaður á marklínunni og ýtti boltanum yfir línuna.

Savage var aleinn og illa dekkaður á kantinum (García og Josemi, skamm! ) … Upson var illa dekkaður á fjærstönginni (Traoré, skamm! ) … og Darren Anderton var aleinn á fokking marklínunni (Carra og Hyypiä, skamm!!! ) … þetta var einhver lélegasta dekkning sem ég hef séð hjá Liverpool í vetur.

Að öðru leyti áttum við að vera löngu búnir að vinna þennan leik. Baros var meiddur í dag og byrjunarliðið var svona:

Kirkland

Josemi – Carragher – Hyypiä – Traoré

García – Alonso – Hamann – Riise

Pongolle – Kewell

Bekkur: Dudek, Biscan, Finnan, Mellor og Henchoz.

Nokkrir punktar um þetta lið…

Ég hefði viljað sjá Igor Biscan á miðjunni í dag. Hamann og Alonso voru mjög góðir og áttu miðjuna með húð og hári, en maður fékk samt á tilfinninguna að okkur vantaði meiri sóknarþunga frá miðjunni. Að Pongolle vantaði meiri aðstoð frammi. Þess vegna hefði ég viljað sjá Biscan þarna frekar en Hamann.

Pongolle var slappur í dag. Mjög slappur. En það er samt í rauninni ekki við hann að sakast, að vissu leyti. Ég meina, hann er nýorðinn 19 ára gamall. Ef við erum að velta því fyrir okkur hvort að markaskorunarábyrgðin sé of mikil byrði fyrir Milan Baros – 22 ára og reyndan landsliðsmann – þá getum við bókað að hún er of mikil fyrir Flo-Po. Hann er frábær leikmaður en hann er fyrst og fremst efnilegur. Hann á erindi í hópinn hjá okkur og í einstaka byrjunarliðsleiki, en hann er ekki tilbúinn til að leiða liðið ennþá. Því miður hafa meiðsli gert það að verkum að hann þurfti að bera liðið í dag, og hann bara gat það ekki. Því miður.

Harry Kewell gerði allt rétt í dag nema að skora mark. Hann þarf að fara að skora mark bráðum … maður fær á tilfinninguna þegar maður horfir á hann spila, að um leið og fyrsta markið kemur verði hann kominn á fullt skrið. En eins og er þjáist hann af skorti á sjálfstrausti og ég held að það lagist ekki fyrr en hann skorar. Legg til að hann taki næsta víti sem við fáum, ef við fáum einhvern tímann víti.

Talandi um víti, Muzzy Izzet varði boltann með hendi á marklínunni í dag. Þetta var svo augljóst að það var ekki fyndið. Þetta var líka svo vel varið að Viggó Sigurðsson myndi velja hann í handboltalandsliðið ef hann gæti. En enn var ekki dæmt vítaspyrna okkur í hag. Hversu lengi á þetta að fá að ganga?

Luis García spilar betur í holunni fyrir aftan framherjann heldur en úti á hægri kantinum. Það er mín skoðun og ég vona að um leið og Nunez er orðinn heill og kominn á kantinn þá muni García fara aftur í holuna.

Vörnin okkar var nánast óaðfinnanleg í dag og í raun mætti útnefna hana mann leiksins. Hyypiä virtist njóta þess að hafa stjórn á Heskey í dag og Carragher var traustur að venju. Josemi og Traoré gerðu ein mistök hver í leiknum en að öðru leyti þá voru þeir flekklausir. Riise lék líka vel í dag og hakkaði Mario Melchiot hvað etir annað í sig.

Og þannig er það nú bara. Liðið lék ekki illa í dag, var betra liðið (þótt þetta hafi ekki verið jafn mikil súper-frammistaða og t.d. gegn Charlton eða Norwich í síðustu heimaleikjum) og átti fyllilega skilið að vinna. En við klúðruðum nokkrum dauða-dauða-dauðafærum í dag og var á endanum refsað fyrir það. Svona er lífið bara.

Það eru eflaust margir pirraðri en ég yfir þessu tapi en ég ætla bara ekki að tapa mér í svartsýni þótt illa hafi farið í dag. Við vitum að Benítez er á réttri leið með þetta lið og þetta tap breytir því ekki. Ef það á að skrifa þennan leik á eitthvað, koma með einhverjar afsakanir, þá mætti segja að meiðsli og þreyta eftir erfiðan útileik í Meistaradeildinni hafi haft sitt að segja.

Steven Gerrard, Antonio Nunez, Djibril Cissé, Milan Baros, Michael Owen (enn ekki fengið mann í hans stað) og Vladimir Smicer. Það færi illa með öll lið að spila án þessara leikmanna og það kom í bakið á okkur í dag. Því miður.

Þannig að nei, ég er ekki svartsýnn í dag. Ég er pirraður að hafa tapað leik sem átti að vinnast, ég er pirraður að liðið hafi ekki leikið nógu vel í dag, og ég er pirraður út í SkjáEinn fyrir að kyssa rassgatið á Chelsea FC við hvert tækifæri, en ég er samt alveg rólegur yfir þessu tapi.

Næsti deildarleikur er eftir viku gegn Crystal Palace, á Anfield. Baros verður kominn inn þá og við munum vinna þann leik. Pottþétt mál. Þannig að ég er rólegur.

9 Comments

 1. já ég er að vissu leiti sammála. við spiluðum fínan bolta á köflum og vorum að skapa okkur færi lengi vel. auðvitað hafa meiðslin gríðarlega mikið að segja og hlakka ég mikið til að sjá liðið full mannað á ný, ég tala nú ekki um þegar það verður kominn nýr framherji í janúar 🙂

  en það er eitt sem er að pirra mig….
  það er hægri bakvörðurinn okkar. hann er að mínu mati ekki að standa sig. Josemi byrjaði mjög vel en síðan hefur leiðin legið niðrá við. hann er sannarlega harður í horn að taka en hann er að gera of mörg mistök og ef ég man rétt það hefur hann átt þó nokkurn þátt í þeim mörkum sem við höfum fengið á okkur í síðustu leikjum. (það væri gaman að fá smá tölfræði frá ykkur sem mest vitið um þessi mál)
  kannski er þetta bull í mér. endilega látið ykkar skoðun í ljós.

  go liverpool
  ég er enn bjartsýnn ( eins og síðustu 10 árin)

 2. Reyndar er Pongolle nýorðinn 20 🙂 en þrátt fyrir það var þessi leikur sorglegur að okkar hálfu og átti hann að vinnast a.m.k. 2-0. Nú skulum við bara vona að Man Utd tapi á morgun !

 3. Pongolle verður samt að grípa þau tækifæri sem honum bjóðast í byrjunarliðinu. Ef hann er súr yfir því að fá ekki að spila nógu mikið þá verður hann að grípa tækifærin.
  En á móti kemur að hann verður að fá stuðning og þjónustu til að eiga möguleika á að skila sínu.

  Mér finnst liðið samt hafa allt annað yfirbragð núna en hjá Houllier, ég hef einhvern veginn miklu meiri trú á því sem liðið er að gera á vellinum, sóknaraðgerðirnar virka eins og það sé vit í þeim og varnarleikurinn virðist ætla að styrkjast með hverjum leik (þó svo að menn megi aldrei missa einbeitingu eins og sást í gær).

 4. :rolleyes:OK, ég get svo sem fallist á flest af því sem þú segir og maður á ekki að vera að tjá sig um leik þegar maður er á lgjörum bömmer yfir úrslitum hans. En samt, ég skil ekki hamingjuna yfir Josemi, hann hefur valdið mér vonbrigðum. Pongolle verður að leggja sig meira fram og berjast beeeetur ef hann á að fá kretit fyrir sinn leik og Garcia var ekki góður í þessum leik og mér finnst reyndar að hann hfi ekki át nema einn til tvo “góða” leiki. Ég er sammála um að Rafa á að fá sinn tíma en uppstilling á því sem hann hefur og skiptingar hafa óneitanlega orkað tvímælis á stundum. :confused:

 5. Les þetta blogg oft og hef mjög gaman af. Virkilega skemmtileg lesning og gott framtak.
  En að reyna að afsaka Simana með aldri hans er rangt og vitlaust. Aldur skiptir ekki máli í nútíma knattspyrnu, sjá til dæmis fyrrum Everton mann sem nú spilar hjá Man. U og annan leikmann frá Portúgal hjá því liði, Fabregas hjá Arsenal hvað 17-18 ára og margir margir fleiri. Strákurinn á því miður langt langt í land og þykir mér það rangt að bendla aldri hans þar við.

  Kveðja.

 6. Auðvitað er ungur aldur afsökun. Þó til séu undrabörn eins og Fabregas og Rooney þá er það staðreynd að sumir blómstra ekki fyrr en miklu seinna (og sumur augljóslega aldrei). Reynsla og góð þjálfun skiptir miklu, sem og sjálfstraust. Það að einhver sé eldri en 18 ára þýðir ekki að hann verði að vera orðinn góður.

 7. Stebbi, takk fyrir að lesa! 🙂

  Varðandi það sem ég sagði um að Pongolle væri of ungur, nýorðinn 20 ára skilst mér, þá verðuru að hafa eitt í huga. Hvort sem þú talar um Rooney, C. Ronaldo, Fabregas eða einhvern annan þá hafa þeir allir eitt fram yfir Pongolle: þeir hafa ekki þurft að bera sín lið uppi einir.

  Rooney: naut jafnan góðs af því að spila með Radzinski, Duncan Ferguson og Kevin Campbell í framlínu Everton en þeir eru allir miklu reyndari en hann. Hjá United er hann síðan umkringdur þaulreyndum gæjum og spilar jafnan ásamt Alan Smith, Luis Saha eða sjálfum Ruud van Nistelrooy í framlínunni. Hann er aldrei einn frammi, aldrei beðinn um að bera alla markabyrðina einn. Ekki á þessum aldri. Van Nistelrooy gæti það, Smith gæti það, en ekki Rooney og ég efast um að Luis Saha gæti það líka.

  Cristiano Ronaldo er kantmaður og það vita allir sem vita eitthvað um fótbolta að það er hin svokallaða “ábyrgðarlausa” staða á vellinum. Þ.e.a.s. þú berð ekki markaskorunarbyrði og hefur engan ákveðinn leikmann til að dekka í vörn. Þú átt bara að koma aftur og hjálpa bakverðinum þínum með sinn kantmann. Síðan áttu að sóla menn, komast upp að endalínu, ná að gefa fyrir og eiga jafnvel eitt eða tvö skot að marki. Þannig að við getum engan veginn borið Ronaldo saman við Pongolle. Berum Ronaldo frekar saman við Steve Warnock eða eitthvað álíka.

  Fabregas: aftur, ekki markaskorunarbyrði. Auðvitað er miðjustaðan erfiðasta staðan á vellinum og sú kröfuharðasta og hann hefur staðið sig hreint ótrúlega vel miðað við 17 ára gutta. En hann er líka algjört einsdæmi, ég man síðast eftir Patrick Vieira sjálfum þegar hann var 18 ára hjá Milan. Gerrard kom 17-18 ára inn í Liverpool-liðið en var ekki treyst strax fyrir miðjunni, spilaði oft á hægri kanti eða í hægri bakverði. Svo er Fabregas líka umkringdur ótrúlega sterkum og reyndum leikmönnum sem hver um sig gætu borið heilt lið á herðum sér: Henry, Bergkamp, Reyes, Pires, Vieira, Ljungberg, Campbell, Touré, Cole, Lauren, Edú, Gilberto Silva. Þetta er ágætis félagsskapur.

  Pongolle er í raun bestur ef hann fær að gera það sem Rooney er að gera hjá United; spila með sér reyndari mann við hlið. Þannig gæti sá maður, Baros eða Cissé eða einhver slíkur, axlað meirihlutann af ábyrgðinni sem myndi létta undir hjá Pongolle og hann væri “frjáls” til að skapa usla upp á eigið einsdæmi. Þannig virkaði hann best í fyrra.

  Um helgina gegn Birmingham var Kewell fyrir aftan hann í holunni og hann var frammi. Einn. Enginn annar. Ef hann skapaði sér ekki færi þá skapaði það enginn annar. Hann var okkar langlíklegasta leið að marki og við treystum á að hann næði að skapa sér eitthvað. Gegn 5-manna varnarmúr sem fór varla fram að miðjuhringnum á eigin vallarhelmingi.

  Það var bara einfaldlega of mikið fyrir hann. Það hefði líka verið of mikið fyrir Rooney.

 8. Hvaðan kom þetta Chelsea/S1 komment, Kristján? Ég er ekki alveg að fylgjast með. Varla eru þeir verri en blessarðar Mourinho sleikjurnar á Mogganum? 🙂

 9. Já alveg rétt, þú varst víst úti. Sagan er beisiklí þessi:

  fór á Players á laugardaginn og þar horfðu Liverpool-menn Liverpool gegn Birmingham í beinni á Skjá Einum.

  Liðin sem voru að leika í beinni hétu: Liverpool og Birmingham.

  Fyrir leikinn var “upphitun” með Snorra Má. Þar var Sveppi, Chelsea-aðdáandi sem játaði að fylgjast ekkert með boltanum nema bara þegar Eiður skorar, og svo einhver tappi sem var Man Utd-aðdáandi. Þeir spjölluðu í 25 mínútur um gengi Chelsea og leikinn þeirra á laugardeginum, gegn Everton, og gengi United og leik þeirra á sunnudeginum gegn City.

  Aftur: liðin sem voru í beinni á laugardag voru Liverpool og Birmingham.

  Svo, kl. 14:59 er skipt yfir á Snorra Sturlu og Þórhall Dan sem eru að lýsa leik Liverpool og Birmingham í beinni og þá fyrst er minnst á liðin Liverpool og Birmingham.

  Nú, við slökum á með drykki í hönd og hlökkum til að fara að horfa á leik Liverpool og Birmingham í beinni, eins og hafði verið auglýst alla vikuna á Skjá Einum.

  Það eru liðnar svona 20 mínútur af leiknum þegar þeir skipta í fyrsta skiptið yfir á Stamford Bridge, af því að Robben var í góðu færi en skaut yfir. Já, það er víst svo slæmt mál að missa af EINUM Chelsea-leik þarna á S1 að þeir urðu að fá að svissa af leik Liverpool og Birmingham um leið og Chelsea áttu skot að marki.

  Þetta gerðu þeir í hvert einasta sinn sem Chelsea áttu skot að marki. Og það versta var að stundum var eitthvað spennandi að gerast í leik Liverpool og Birmingham (sem var jú í beinni), eins og hröð sókn upp kantinn eða eitthvað, og maður beið eftir markskotinu eða sendingunni innfyrir eða eitthvað, og þá … og þá … var skipt yfir á Chelsea-Everton þar sem við fengum að sjá Eið Smára skalla boltann hátt yfir úr hornspyrnu.

  Þetta kom sér líka mjög illa fyrir þá Snorra Sturlu og Þórhall Dan sem þurftu að reyna að lýsa þessari hringavitleysu. Þeim þótti greinilega óþægilegt að vera alltaf kippt svona úr öðrum leiknum og yfir í Chelsea-leikinn, enda sagði Þórhallur oft hluti eins og: “maður veit nú ekki hvort Chelsea hafa verið með yfirburði eða hvað í þessum leik en af þessu færi að dæma gætu þeir alveg verið komnir yfir.”

  Síðan eitt skiptið þá áttu Liverpool-menn skot framhjá í þeim leik og um leið og dómarinn hafði flautað á markspyrnu skiptu þeir yfir á hinn leikinn til að horfa á Chelsea-færi endursýnt. Þegar síðan var skipt yfir á L’pool-leikinn aftur var Steve Finnan allt í einu kominn inná völlinn. Þeir höfðu misst af skiptingu. Það tók Snorra Sturlu og Þórhall Dan nokkrar mínútur að átta sig á því hver hafði farið útaf … og það var frekar neyðarlegt að hlusta á þá telja upp hverjir voru ennþá inná. Svona vinnubrögð eru náttúrulega til skammar, en manni dytti ekki í hug að skamma þá Snorra og Þórhall. Þeir ráða því ekki hvenær er svissað á milli leikja, þeir eru bara þeir sem þurfa að gera sig að fífli út af þessari Chelsea-dýrkun á S1.

  Versta atvikið átti sér síðan stað þegar svona kortér var eftir af leikjunum. Þá voru Birmingham-menn nýbúnir að skora gegn Liverpool (í leiknum sem var auglýstur í beinni, nota bene) og menn orðnir þokkalega pirraðir, bæði á því að vera undir gegn Birmingham og vegna þess að það að horfa á Liverpool-leik á Skjá Einum þegar Chelsea eru að spila á sama tíma er álíka gefandi og að reyna að horfa á tvær kvikmyndir í einu. Á sama sjónvarpinu.

  Allavega, það er um kortér eftir og García sleppur upp hægri kantinn hjá okkur. Menn rísa upp úr sætunum, það er stórsókn í gangi og þegar García nær að endalínunni – fyrir framan The Kop – þá gefur hann flotta sendingu fyrir.

  Boltinn er bókstaflega í loftinu og á leið inní Birmingham-teiginn þegar … þegar … þegar … það er skipt yfir á leik Chelsea og Everton af því að Kezman eða einhver átti skot yfir mark Everton.

  Og eins og það sé ekki nóg að skipta á þessu augnabliki, af öllum, þá endursýna þeir skot Kezmans ÞRISVAR. Fokking ÞRISVAR!!!! Einar, þú getur ímyndað þér Players fullan af Púllurum, það var ÞUNGT andrúmsloft þarna inni.

  Nú, þegar loksins er búið að svala Chelsea-fíkn þessara gæja er skipt aftur yfir á Liverpool-leikinn. Þar var markvörður Birmingham nýbúinn að grípa bolta eftir hornspyrnu Liverpool og okkar menn skokkuðu aftur í vörnina. Hvort að ég missti þarna af besta marktækifæri allra tíma eða þreföldu stangarskoti hef ég ekki hugmynd um.

  Málið er að ef það er svona erfitt fyrir Skjá Einn að sleppa því að sýna einn Chelsea-leik þá áttu þeir bara að drullast til að sýna Chelsea klukkan 15:00 á laugardag. Þá hefðu þeir á Players bara getað reddað erlendri stöð eins og þeir eru vanir og við hefðum getað horft í friði á okkar leik. Þeir áttu ekki að auglýsa leik Liverpool og Birmingham í beinni og vera síðan alltaf að skipta yfir á fáránlegustu augnablikum til að horfa á endursýningar af færum sem þeir vissu þegar að voru ekki mörk heldur bara skot framhjá – og sleppa í staðinn að sýna sóknir og fyrirgjafir og marktækifæri sem hefðu getað orðið að mörkum.

  Hvað hefðu þeir gert ef Liverpool hefðu t.d. skorað á meðan þeir voru að sýna endursýnt færi hjá Kezman, Robben eða Eiði Smára? Það hefði allt orðið vitlaust ef við hefðum misst af marki.

  Jújú, þeir sýndu líka markið sem Robben skoraði en það er sama. Þeir áttu þá að auglýsa að þeir myndu skipta á milli, eða bara hafa Chelsea-leikinn í beinni. Það er sama hvaða lið eiga í hlut, svona koma menn ekki fram í auglýstum sjónvarpsleik. En auðvitað er þetta skiljanlegt, þar sem Chelsea er sssssvvvvvvvoooooooooooo ómissandi.

Birmingham á morgun!

Emlyn Hughes látinn