Eins og rottur á sökkvandi skipi… (uppfært)

mutu.jpgÞað getur vel verið að það sé fullt af fólki þarna úti sem er ósammála mér – en þið verðið bara að fyrirgefa þótt ég segi þetta.

Chelsea eru aumingjaklúbbur, ekkert minna. Þeir ráku í dag Adrian Mutu frá félaginu, eða öllu heldur sögðu upp samningi hans við klúbbinn. Fjárhagslega skiptir það Mutu ekki miklu máli, þar sem hann fær helming af þeim launum sem hann átti að fá fram að samningslokum. En það sem skiptir meira máli í þessu er það að skyndilega er Adrian Mutu í einskismannslandi, og það þegar hann mátti þess síst við.

Setjum málið aðeins í samhengi: Adrian Mutu er frábær knattspyrnumaður, fyrirliði Rúmeníu og fyrirmynd ungra drengja um alla Austur-Evrópu. En hann er meira en það. Hann er líka veikur maður, maður sem hefur að einhverjum ástæðum fallið dópinu að bráð. Þetta kemur fyrir besta fólk – það er bara eitthvað í sumu fólki sem finnur mikla samsvörun í ánetjandi efnum, hvort sem það séu eiturlyf, áfengi, spilafíkn eða annað.

Og hvað gera Chelsea í málinu? Hjálpa þeir leikmanninum – sem er á þeirra vegum – í erfiðleikum sínum? Nei, þeir reka hann. Alveg eins og þeir ráku Mark Bosnich.

Tökum sambærileg dæmi: þegar Paul Merson viðurkenndi eiturlyfjafíkn þá studdu Arsenal við bakið á honum. Hann fór í meðferðina vitandi það að – ef hann gæti tekið sér tak og náð stjórn á lífi sínu aftur – þá stæðu honum dyrnar að Highbury ávallt opnar. Það sama gilti þegar Tony Adams viðurkenndi að hann væri orðinn áfengissjúklingur og skellti sér í meðferð. Aftur sýndu Arsenal-menn stuðning og biðlund og í bæði þessi skipti bar stuðningur klúbbsins ávöxt, þar sem þessir menn unnu báðir titla með Arsenal eftir að hafa snúið aftur úr meðferð.

Þegar Bosnich féll á lyfjaprófi þá gátu Chelsea-menn ekki losnað nógu snemma við hann, og það sama virðist því miður hafa gerst hér. Hvað hefði gerst ef Man United-menn hefðu losað sig við Eric Cantona eftir að hann var dæmdur í bann fyrir að sparka í áhorfanda. Hvað hefði gerst ef þeir hefðu losað sig við Rio Ferdinand þegar hann var dæmdur í bann vegna lyfjahneykslis?

Ef einhver leikmaður Liverpool FC myndi nokkurn tímann gerast svo ólánssamur að ánetjast eiturlyfjum, áfengi, veðmálum eða karate þá myndi ég allavega vilja geta haldið það að klúbburinn myndi standa við bakið á viðkomandi – jafnvel þótt það væri ekki það sem er fjárhagslega best fyrir klúbbinn í stöðunni.

Ég meina, hvað hefði verið það versta sem hefði gerst ef Mutu hefði fengið að vera áfram? Chelsea hefðu getað gefið frá sér þá yfirlýsingu sem þeir gáfu út í dag, að þeir væru alfarið á móti notkun eiturlyfja og vildu alls ekki hvetja til þeirra. En þeir hefðu líka getað sagt eitthvað eins og: “En þar sem Mutu hefur gerst svo ólánssamur að verða þessum djöfli að bráð þá munum við að sjálfsögðu gera okkar besta til að hjálpa leikmanninum að ná sér aftur á strik. Chelsea FC stendur við bakið á sínu fólki.”

Hefði það litið svo illa út fyrir klúbbinn? Mutu hefði verið dæmdur í bann – lengdin skiptir ekki öllu máli – og þann tíma hefði hann notað í að fjarlægja sig frá sviðsljósinu og skella sér í meðferð og ná tökum á þessum vanda. Hann hefði síðan getað snúið aftur eftir meðferð og haldið blaðamannafund, eða tekið nokkur viðtöl, þar sem hann hefði getað lýst því yfir hvað líf hans sé miklu betra án eiturlyfjanna og að hann geti ekki beðið eftir því að launa Chelsea FC fyrir stuðninginn.

Hann hefði snúið aftur í Úrvalsdeildina sem hetja – gölluð hetja en samt … einhver sem gat sigrast á vanda sínum. Hann hefði sennilega verið vinsælli þegar hann hefði snúið aftur en hann er í dag, svipað og þeir Cantona, Ferdinand, Merson og Adams.

En neinei … Chelsea vilja ekki hafa hann lengur og því er honum hent til hliðar. Sem gerir hans andlegu baráttu erfiðari – því nú er hann ekki aðeins að berjast við dópdjöfulinn heldur líka þá ógn sem stafar af framtíð hans í knattspyrnunni.

Nær Adrian Mutu sér nokkurn tímann aftur á strik? Það yrði sjónarsviptir af honum ef hann skyti aldrei aftur upp kollinum, þar sem þetta er súpergóður fótboltamaður. Hann er eins konar Eiður Smári þeirra Rúmena … þannig að þið getið ímyndað ykkur hversu sárt þetta er fyrir samlanda hans.

Ég persónulega vona að Adrian Mutu nái sér aftur á strik og að við fáum einhvern tímann að sjá hann spila knattspyrnu aftur. Og ef það gerist einhvern tímann að hann mætir Chelsea-liðinu á knattspyrnuvelli, þá veit ég hvort liðið ég mun styðja.

Ykkur er frjálst að vera hjartanlega ósammála mér, að sjálfsögðu – en ég efast um að það geti nokkur maður þrætt fyrir það að Chelsea-liðið veitti Mutu í dag þungt högg, þegar hann mátti þess síst við!


**Viðbót (Einar Örn)**: Frábær pistill! Ég er svo innilega 100% sammála þér, Kristján!

Chelsea ætti umfram allt að vera knattspyrnu**lið**. Ef ég væri í fótboltaliði í dag, þá myndi ég óska eftir því að **liðið** mitt myndi standa á bak við þá, sem eiga erfitt. Fótbolti er liðsíþrótt. Á milli lítils hóps af strákum eða stelpum myndast ákveðinn andi og í gegnum allt reyna menn að standa á bakvið hvern annan. Ef einhver leikur illa reyna hinir leikmennirnir að gera betur, svo **liðið** standi sig vel. Ef einhver gerir mistök, þá stendur liðið saman og hjálpar þeim manni.

Mutu hefur klúðrað sínum málum og ég ætla EKKI að reyna að rétlæta það, sem hann hefur gert. En hann er 25 ára, for crying out loud. 25 ára strákar gera mistök! Trúið mér, ég þekki það vel! Guð má vita að ég hef gert nóg af mistökum og þau hefðu sennilega ekki verið færri ef ég væri snillingur á knattspyrnuvellinum og fengi tugi milljóna í laun. Honum hefur gengið illa hjá liðinu og hann hefur leiðst útí vitleysu. Hann hefur gert mistök og hann gerir sér eflaust fyllilega grein fyrir því. Hann hefur ollið mörgum aðdáendum Chelsea og Rúmeníu vonbrigðum.

Það, sem er sérstakt við að eiga sér uppáhaldslið í fótbolta, er að maður finnur samband við liðið. Þeir sem styðja Liverpool finna þetta sennilega sterkar en stuðningsmenn flestra annarra liða vegna þess sem að liðið okkar og hinir stuðningsmenn liðsins hafa gengið í gegnum. Ég finn til með okkar leikmönnum þegar þeim gengur illa, hvort sem það er inná vellinum eða utan hans.

Ég veit að ef að svipað mál gerðist hjá **liði** einsog **Liverpool**, þá vildi ég svo innilega óska þess (og ég trúi því reyndar statt og stöðugt) að **liðið** myndi standa á bakvið leikmanninn. Segjum að þetta væri t.d. Milan Baros. Ég veit að leikmenn Liverpool myndu styðja við bakið á honum til að koma sér útúr þessu rugli. Ég veit að við stuðningsmenn myndum styðja við bakið á honum og ég er fullviss um að stjórnin myndi gera hið sama.

Chelsea er einfaldlega í dag ekki **lið** einsog við stuðningsmenn Liverpool viljum styðja. Chelsea er fyrirtæki, sem er rekið fyrir egó þriggja manna, Abrahamovits, Kenyon og Mourinho. Þeir vildu hvítþvo sig af öllum Mutu málum og *sparka honum því í burtu í stað þess að hjálpa honum*. Svona hlutir gerast í fyrirtækjum, ekki hjá liðum. Ef einhver starfsmaður er í vandræðum, þá getur fyrirtækið rekið hann og þannig látið einsog ekkert hafi gerst.

En knattspyrnan á að vera eitthvað aðeins meira. Auðvitað snýst fótboltinn um viðskipti að mörgu leyti í dag. En fótboltinn snýst líka um móralinn og **liðsheildina**. Liðsheild virðist ekki vera til staðar hjá Chelsea. Allavegana virðist þeim vera alveg sama þótt að einn af þeim sé í vandræðum. Það er sorglegt.

Álit mitt á Chelsea hefur minnkað umtalsvert eftir þetta. Svona gera **lið** ekki.

4 Comments

 1. Athugið það drengir að bæði Bosnich og Mutu féllu á lyfjaprófi. Merson viðurkenndi fíkn sína. Sjáið þið ekki muninn? Ég er í engum vafa að ef “Merson” mál kemur upp hjá Chelsea þá munu þeir standa með þeim sem lendir í því.

  Ekki bera saman sögu og lygasögu.

 2. Auðvitað er munur á því, en það breytir ekki grundvallaratriðinu. Merson var búinn að vera fíkill í nokkur ár áður en hann viðurkenndi það. Mutu er búinn að vera á lyfjum í mun styttri tíma og það var bara svo að hann “náðist”.

  En það breytir því EKKi að hann er í vanda. Bara þó hann hafi ekki viðurkennt vandamálið, þá afsakar það ekki að Chelsea sparki honum bara og láti sem að vandamál hans komi sér ekkert við. Þeir hefðu átt að aðstoða hann, því hann er einn af þeim.

 3. Og þeir sendu hann í próf af því að þá grunaði hann. Ekkert múður um að “Við vildum að hann gerði sér grein fyrir að hann ætti að við vanda að etja svo við gætum hjálpað honum” (það hefði mér þótt stórmannlegast af þeim). Neipp. Látum hann falla og spörkum í rassinn á honum á leiðinni út.
  Næs gæar.
  Ég er enn ekki búinn að ákveða hvort það er sniðugt að hafa minni refsingu fyrir að falla á prófi en fara ekki í próf. Er þetta einhver fítus til að fá menn til að fara í próf? Ekki tekst það ef leikmenn búast við að viðbrögðin verða eins og hjá Rússnesku Mafíunni.

 4. Mér finnst þetta skandall fyrir Chelsea. Mér finnst bara vont að vita af Eiði “okkar” í þessari ljónagryfju. Ég er ekki alveg að skilja þessi viðbrögð hjá Chelsea. 25 ára stjarna í basli með sjálfan sig…. whats new? :confused: Þú sparkar ekki í liggjandi menn. Ekki nema kannski að þú sért eitthvað siðblindur. 😡

Svartir Sauðir…

Mista: 2010?!?!?