Charlton í dag!

gerarddanny.JPG Vá – í raun og veru virðist ekkert vera svo langt síðan ég sat með Einari á Players einhverja ágústnóttina. Við vorum þar, eins og margir aðrir, til að horfa á Liverpool spila gegn Roma í Toronto í Kandada í hinu svokallaða Champions World-móti og eitt af því sem við vorum sammála um í þeim leik var það að við sáum ómögulega fyrir okkur hvar eða hvernig Danny Murphy ætti að passa inn í leikstíl Rafa Benítez.

Viku seinna var Murphy seldur til Charlton, nokkuð sem kom manni frekar mikið á óvart en meikaði samt alveg fullkomið sens, miðað við það sem við Einar vorum sammála um í Roma-leiknum. Í dag, einhverjum tveim mánuðum síðar, mætir Murphy í fyrsta sinn á Anfield með einhverju öðru liði en Liverpool – og þótt sumir séu eflaust fegnir að vera lausir við hann (ég fílaði hann alltaf, þótt hann væri ekki neinn súperleikmaður) þá verður það eflaust skrýtið fyrir okkur alla að horfa á hann berjast gegn Liverpool FC á morgun.

En nóg um það. Murphy er eflaust ágætisnáungi og allt það en á morgun er aðeins eitt sem skiptir máli og það er að ná í stigin þrjú sem eru í boði. Við unnum á útivelli gegn Fulham um síðustu helgi og nú held ég að það sé mikilvægast af öllu að fylgja því eftir og fikra sig ofar á töflunni. Sigur á morgun myndi setja okkur í nánd við Meistaradeildarsætið – með leik til góða – og auka sjálfstraust liðsins enn frekar.

Hvað byrjunarliðið varðar á morgun þá vænti ég í raun fárra breytinga frá því á þriðjudaginn – einfaldlega af því að liðið lék frábærlega þá og gerði í raun allt rétt nema að skora. Þess vegna sé ég ekki af hverju það ætti að breyta einhverju á morgun, með tveimur undantekningum.

Undantekning 1: Josemi var rekinn af leikvelli gegn Fulham um síðustu helgi, með tvö gul spjöld, og verður þar af leiðandi sjálfkrafa í banni á morgun. Líklegast þykir að Steve Finnan taki stöðu hans í hægri bakverði, þótt Rafa Benítez gæti líka ákveðið að færa Carragher í bakvörðinn, Traoré í miðja vörnina og Jonny Riise í bakvörðinn…

Undantekning 2: …til þess að koma Harry Kewell aftur inn í byrjunarliðið. Hann sat á bekknum gegn Deportivo og missti af leiknum gegn Fulham af því að hann hefur átt erfitt með meiðsli undanfarið og var í frekar löngu og ströngu ferðalagi til að spila fyrir Ástralíu í síðustu viku. Þannig að honum veitti ekki af hvíldinni. En nú er hann víst endurnærður og eftir góða innkomu gegn Deportivo á þriðjudag pressar hann eflaust stíft á að endurheimta sæti sitt á kantinum. Þess vegna gæti Rafa Benítez tekið þá ákvörðun að hliðra til í vörninni á þann hátt sem ég nefndi áðan, til að koma Kewell að á kantinum.

Þannig að við erum væntanlega að fara að sjá annað af þessum uppstillingum á morgun.

LIÐ 1:

Chris Kirkland

Finnan – Carragher – Hyypiä – Traoré

García – Alonso – Hamann – Riise

Cissé – Baros

LIÐ 2:

Chris Kirkland

Carragher – Hyypiä – Traoré – Riise

García – Alonso – Hamann – Kewell

Cissé – Baros

Þó finnst mér lið 1 vera líklegri kostur af þessum tveimur, einfaldlega af því að Carragher hefur blómstrað í miðverðinum að undanförnu og mér þætti leiðinlegt að sjá því fórnað fyrir Kewell, þótt hann sé vissulega góður leikmaður.

Þá hefur reyndar mikið verið deilt á samvinnu þeirra Cissé og Baros uppá síðkastið, en gleymum því ekki að Baros skoraði tvö mörk um síðustu helgi, og Cissé bjó til markið fyrir Igor Biscan. Þá gerðu þeir tveir í rauninni allt rétt gegn Deportivo nema að skora mark – en samvinna þeirra tveggja í þeim leik var með því besta sem við höfum séð til þeirra. Þannig að ég sé ekki að annar þeirra verði settur á bekkinn á morgun, og er það í raun óþarfi. Þeir eiga alveg að geta jarðað þessa Charlton-vörn seinna í dag.

Mín Spá: Heimasigur, algjört lágmark, og helst öruggur og afgerandi heimasigur. Ég geri reyndar ekki ráð fyrir að við förum jafn auðveldlega í gegnum þetta Charlton-lið á Anfield eins og við gerðum gegn W.B.A. eða Norwich. Og ekki gleyma að þetta lið vann okkur bæði heima og úti á síðustu leiktíð, þannig að þeir eiga alveg jafn mikla möguleika á að fá góða útkomu á morgun og Liverpool.

En þegar öllu er á botninn hvolft þá eigum við að vinna þessa heimaleiki okkar gegn “minni” spámönnum og Charlton falla í þann flokk. Gildir engu þótt við töpum á útivelli gegn Chelsea, Arsenal og Man U. Ef við stöndum okkur betur gegn litlu liðunum í ár heldur en við höfum gert síðustu tvö ár munum við ná inn fleiri stigum í vetur en í fyrra, og þá verðum við ofar í deildinni. Ekki spurning.

Ég spái engri markatölu í þetta sinn en ég sé þá hreinlega ekki fyrir mér skora mark á okkur. Hvort að við gerum 0-0 jafntefli eða vinnum þá 4-0 verður að koma í ljós, og veltur í raun að miklu leyti á þeim Baros, Cissé, García og Kewell á morgun – en vörnin hjá okkur hefur verið frekar massíf uppá síðkastið (líka gegn Fulham, þar sem mér skilst að þeir hafi skorað úr tveimur af þremur færunum sem þeir fengu allan leikinn) og ég sé þá hreinlega ekki fyrir mér gefa Charlton mark í dag.

Í hnotskurn: öruggur Liverpool-sigur í dag. Til þess er ætlast og ekkert minna dugir. Áfram Liverpool!

4 Comments

  1. Það getur verið að Benites vilji reyna til þrautar að hafa Baros og Cisse saman frammi. Hingað til hafa þeir engan veginn náð saman. Hvorugur þeirra er tilbúinn að detta til baka og tengja saman við miðjuna. Báðir vilja þeir stinga sér inn fyrir vörnina. Þessu þarf Benitez að breyta. Og ekki gleyma að á móti Fulham um síðustu helgi var Cisse færður út á hægri kant í seinni hálfleik og Garcia fyrir aftan Baros og sú breyting ásamt innkomu Alonso uppskar 4 mörk. En það verður gaman að sjá hvað Benitez er að hugsa. Kewell er einnig möguleiki uppi frammi.

  2. Þú telur ekki upp þann möguleika á byrjunarliði að finnan og riise verði bakverðir og Kewell og García kanntmenn, einhvernvegin held ég að það sé líklegast.

  3. Ég vona að Daði hafi rétt fyrir sér þ.e. að Kewell og Garcia verði kantmenn. Þreytandi að hafa bakverði sem kantmenn ítrekað hjá okkur. Getur vel gengið gegn slökum liðum en ekki þegar við spilum stóru leikina. Notum þennan leik til að koma Cisse og Baros saman sem og koma Kewell í gang.
    Drauma staða: Kewell, Cisse, Baros og Garcia skora og leggja einnig upp mörkin fyrir hvorn annan.

  4. Aggi – það að fá Kewell og García á kantana og Finnan og Riise í bakverðina myndi þýða að Djimi Traoré dytti út úr liðinu.

    Ég sé það bara ekki gerast. Ekki eftir frammistöðu hans gegn Deportivo og það hrós sem hann hlaut eftir þann leik, þá þætti mér mjööög skrýtið ef Benítez sæji ástæðu til að “refsa” honum með því að setja hann á bekkinn í dag. Geri fastlega ráð fyrir að hann sé í liðinu gegn Charlton.

Ennnnn um Morientes (+viðbót)

Byrjunarliðið komið!