L’pool 0 – Depor 0

Afsakið vandræðin, vefsíðan lenti í einhverju rugli en nú er hún komin í lag aftur. Því miður náðum við ekki að skrifa upphitun fyrir Evrópuleikinn í kvöld, en hér kemur leikskýrslan:


milandepor.jpg Allavegana, Liverpool gerði í kvöld 0-0 jafntefli við Deportivo la Coruna í þriðju umferð Meistaradeildar Evrópu, á Anfield Road í Liverpool.

Þessi leikur var klassískt dæmi um Evrópuleik. Nánast skólabókardæmi: Heimaliðið sækir til sigurs í 90 mínútur en útiliðið mætir með 11-manna varnarmúr sem er ákveðinn í að sleppa í burtu með eitt stig. Nú, leikurinn endar að sjálfsögðu 0-0 og gestirnir ganga brosandi af velli, á meðan heimamenn eru alveg svakalega pirraðir út í öll færin sem þeir fengu en náðu ekki að nýta.

Hversu oft höfum við séð svona leiki? Deportivo léku t.a.m. nákvæmlega sama leik gegn Porto í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í vor, þegar þeir náðu 0-0 jafntefli í Portúgal en töpuðu svo á heimavelli, 0-1, og því komust Porto í úrslit.

Nú er staðan frekar erfið fyrir okkar menn, þar sem við erum í 2.-3. sætinu með 4 stig ásamt Olympiakos (Mónakó með 6 stig, Deportivo með 2) og næstu tveir leikir eru útileikir, fyrst gegn Deportivo á Spáni og svo Mónakó í Frakklandi. Endum síðan riðilinn á heimavelli gegn Olympiakos. Ræði það betur hér á eftir.

EN fyrst um leikinn. Við áttum einhvern aragrúa af skotum að marki og á mark í báðum hálfleikjum en inn vildi boltinn ekki. Það er af ýmsum ástæðum: Molina, markvörður Deportivo, átti sennilega einn besta leik sinn í langan tíma í kvöld og varði allt sem að marki kom. Hvernig hann varði frá Luis García í dauðafæri um miðjan fyrri hálfleikinn er með öllu óskiljanlegt, en hann var allavega í banastuði.

Þá voru okkar menn einfaldlega klaufar í að klára færin sín, kannski versta dæmið um þetta var þegar Milan Baros var búin að leika á Molina en þurfti að leggja boltann fyrir sig til að geta rennt honum í tómt markið. En því miður þá var millisnertingin slæm og því komst varnarmaður Deportivo fyrir boltann og sendi hann í horn, áður en Baros náði að renna honum í tómt markið.

Það voru fleiri svona færi og er skemmst frá því að segja að ef við hefðum nýtt færin í fyrri hálfleiknum í kvöld jafn vel og við nýttum færin í seinni hálfleiknum gegn Fulham um helgina hefðum við verði svona 6-0 yfir í hálfleik. Og sennilega endað þennan leik með svona 9-1 sigri.

Deportivo-menn gerðu í raun ekkert til að reyna að sigra þennan leik. Þeir áttu góðan skalla að marki úr hornspyrnu sem Riise bjargaði á línu í fyrri hálfleik, og svo brast rangstöðugildran okkar og Valerón hitti ekki boltann einn á móti Kirkland undir lokin, en að öðru leyti þá var ekkert í þeirra leik sem benti til þess að þeir væru að reyna að sækja, hvað þá að reyna að skapa færi. Þeir komu til að ná í eitt stig og fóru sáttir heim.

Lið Liverpool í kvöld var þannig skipað:

Chris Kirkland

Josemi – Carragher – Hyypiä – Traoré

García – Alonso – Hamann – Riise

Baros – Cissé

Liðið okkar lék vel í kvöld, það er ekki hægt að segja annað. Chris Kirkland hafði lítið að gera í þessum leik en greip vel og örugglega inní þegar þess þurfti. Varnarlínan okkar hafði að sama skapi ekki mikið að gera, en þó eitthvað, og stóðu þeir sig allir eins og hetjur. Josemi jarðaði Alberto Luque á vinstri væng Deportivo um leið og Djimi Traoré tók sig til og gjörsamlega pakkaði Víctor, einn hættulegasta hægri kantmann í Evrópu, saman. Þá mátti Walter Pandiani sín lítils gegn þeim Jamie “Legend” og Big Sami.

Þá dómineruðum við miðjuna. Didi Hamann var allan leikinn í essinu sínu og gerði það sem hann gerir best – að vinna bolta, brjóta miðjuspil andstæðinganna á bak aftur og koma boltanum í spil til okkar manna. Fyrir framan hann stjórnaði Xabi Alonso eins og herforingi og þótt hann hafi ekki náð að koma með hina svokölluðu ‘killer pass’ í kvöld þá var leikur hans að öðrum kosti frábær. Þá var gaman að sjá hvað miðjan hjá okkur pressaði andstæðingana vel, oft sá maður t.d. Riise og Alonso vera búnir að keyra hægri bakvörð Deportivo niður þannig að hann gat ekki annað en hreinsað útaf í innkast. Það er gaman að sjá slíka grimmd í miðjunni hjá okkur.

Það eina sem mér fannst vanta í miðjuspilið hjá okkur var kantspilið. Luis García átti því miður dapran dag í kvöld, náði bara aldrei að komast almennilega inn í spilið hjá okkur og ógnaði lítið upp hægri kantinn. Jonny Riise var skárri á vinstri kantinum og virtist oft á tíðum ná góðu spili með Djimmy á vængnum en skilaði því miður ekki nægilega mörgum fyrirgjöfum inná teig, sem er jú það sem kantmenn verða að gera.

Framherjarnir okkar gerðu allt rétt og hefðu verið menn leiksins með yfirburðum – ef ekki væri fyrir þá pínkulitlu staðreynd að á milli sín klúðruðu þeir sennilega 10-15 dauða-dauða-daaauuuðafærum í þessum leik. Því getur frammistaða þeirra í kvöld ekki talist neitt annað en vonbrigði fyrir þá. Þeir gerðu allt rétt í kvöld nema að ýta andskotans tuðrunni yfir marklínuna – en þetta kemur svosem fyrir bestu menn. Þetta var bara einfaldlega ekki þeirra dagur, en við vonum að þeir taki pirringinn bara út á næstu mótherjum okkar um helgina. 😉

Menn leiksins: Vörnin okkar lék frábærlega í kvöld en að hinum ólöstuðum þá fannst mér þeir Jamie Carragher og Djimi Traoré einfaldlega skara fram úr í kvöld. Þeir voru ekki aðeins óaðfinnanlega góðir varnarlega séð (sérstaklega Traoré, sem hlýtur að hafa unnið hátt í 40 návígi í kvöld) heldur lögðu þeir einnig margt til málanna í sókninni.

Margar sóknir byrjuðu einmitt á því að Carragher bar boltann fram að miðjunni og átti síðan góðar sendingar í laus pláss á þá Alonso, García eða Riise – en það er einmitt það sem góður miðvörður þarf að geta gert: ekki aðeins varist andstæðingunum heldur einnig verið mikilvægur byrjunarreitur í flæðandi sóknarspili samherjanna. Carragher gerði þetta allt frábærlega í kvöld og virðist vera að finna fæturnar allsvakalega í miðri vörninni. Hann verður þarna um ókomna tíð, sjáið bara til!

Nú, auk þess að njóta þess að horfa á Djimi gjörsamlega salta, pipra, saxa niður og stinga Víctor greyinu niður í sardínudós í kvöld (ég var bakvörður í mína tíð sjálfur, hef alltaf sérstakan áhuga á frammistöðu bakvarða Liverpool) þá fannst mér frábært að sjá hvað Djimi kom vel með í sóknina. Hann skeiðaði nokkrum sinnum niður eftir vinstri hliðarlínunni og var nokkrum sinnum búinn að skapa stórhættu við vítateig andstæðinganna. Þá náði hann góðu spili við Riise fyrir framan sig og þeir tveir virtust oft ná að pressa hægri væng Deportivo-manna rosalega vel. Það segir líka sína sögu að Djimi átti í kvöld sennilega fleiri fyrirgjafir heldur en kantmennirnir, þeir Riise og García, til samans. Frábær leikur hjá honum og ef sá franski heldur áfram að spila svona vel er bara hreinlega ekkert víst að Riise taki stöðuna af honum, þegar Kewell verður búinn að jafna sig og hirðir væntanlega vinstri-kantstöðuna aftur.

Nú, hvað framhaldið varðar þá er Liverpool nú komið í frekar snúna stöðu. Næstu tveir leikir okkar eru á útivelli og markmiðið í þeim verður einfalt: að tapa hvorugum þeirra. Ef við gerum 0-0 jafntefli í þeim báðum þá eigum við góða möguleika á að fara áfram úr þessum riðli, sama hver úrslitin í öðrum leikjum verða, ef við sigrum Olympiakos á Anfield í lokaumferðinni. Ef við náum að vinna annan útileikinn og gera jafntefli í hinum erum við jafnvel í óskastöðu fyrir lokaumferðina – en ef við t.d. vinnum annan þeirra en töpum hinum gætum við verið í svakalega vondri stöðu fyrir lokaumferðina.

Þannig að það er mikilvægara að tapa ekki í næstu tveimur leikjum, en það er að ná að sigra í þeim. Í raun og veru má segja að við förum til Spánar eftir tvær vikur, í sömu stöðu og Deportivo-menn voru í kvöld: við förum þangað til að verjast og ná í eitt stig, og síðan HUGSANLEGA að ná að lauma inn einu eða tveimur mörkum og stela öllum þremur stigunum. En markmið númer eitt verður það að tapa ekki, alls alls alls ekki!

Takist það og við náum t.d. einum sigri og einu jafntefli, eða bara tveimur sigrum eða tveimur jafnteflum, þá verðum við í þeirri stöðu að með sigri á Olympiakos í lokaumferðinni komumst við áfram… sama hvernig leikir hinna liðanna í næstu tveimur umferðum fara. Þannig að þetta er ennþá í okkar höndum og riðillinn ennþá galopinn, við gætum orðið efstir og við gætum orðið neðstir.

Það verður samt langt því frá auðvelt að fara á Riazor-völlinn í Coruna eftir tvær vikur og forðast tap gegn Deportivo, sem munu sýna okkur allt aðrar hliðar á sínum leik þá en þeir gerðu í kvöld. Það verður svakalegur leikur og ljóst að Benítez þarf að kalla fram það besta í sínum mönnum til að ná stigi eða stigum þar. Gleymið ekki að þetta Deportivo-lið gjörsamlega gerði útaf við þáverandi Evrópumeistara AC Milan, 4-0, á Riazor-vellinum í apríl síðastliðnum. Frekari sannana þarf ekki við; þeir verða ofboðslega erfiðir á heimavelli.

En fyrst fáum við leiki í Englandi og næstir eru Charlton-menn í heimsókn á Anfield um helgina. Sá leikur verður í beinni á Skjá Einum og það verður gaman að sjá hvernig Alonso, þeim nýja, tekst upp gegn Danny Murphy, þeim gamla, hjá Charlton. 🙂

Ein athugasemd

  1. Já, ég er sammála um flestallt. Ef við hefðum bara náð að pota inn einu marki, þá hefðu allir Liverpool aðdáendur verið í skýjunum yfir þessum frábæra leik.

    En í stað þess, þá var maður verulega svekktur. Við yfirspiluðum Deportive algjörlega í leiknum. Er reyndar ekki sammála að taka þá Baros og Cisse saman í hóp. Að mínu mati var Baros svona 15-20 sinnum betri en Cisse í gær.

    Annars, nokkrir mjög bjartir punktar að mínu mati:

    **Carragher**: Algjörlega frábær. Alltaf þegar það komu inn boltar á framherja Deportivo, þá var Carragher þar og stal boltanum af þeim. Ég hef aldrei séð Carra spila jafnvel og í gær.

    **Traore**: Gríðarlega sterkur í bakverðinum, en hann er nú ekki beinlínis neinn Ronaldinho þegar hann kemur fram fyrir miðlínuna

    **Baros**: Vann gríðarlega vel, skapaði sér færi og hefði bara þurft að klára þau. Það voru þó 2-4 skipti, þar sem hann hefði mátt gefa boltann

    **Hamann og Alonso**: Stjórnuðu miðjunni algjörlega. Hamann var uppá sitt besta í þessum leik. Bara ef hann gæti nú spilað svona 2 leiki í röð.

    Þetta voru að mínu mati bestu leikmenn Liverpool. Þetta var svekkjandi, en það má þó ekki láta það alveg skyggja á þá staðreynd að þetta var frábær leikur hjá Liverpool. Núna verðum við bara að klára Charlton á laugardaginn.

Helgin…

Vesen