Fulham á útivelli á morgun!

fulhamliverpool.gifÓkei, tveggja vikna fríi er lokið og við Einar erum úthvíldir eftir landsleikina. Við höfum ekki skrifað mikið um Liverpool síðustu tvær vikur, enda verið lítið að skrifa um. Þá höfum við báðir verið á fullu upp fyrir haus í vinnu og öðru þannig að eins og venjulega notuðum við hléið til hins ýtrasta.

En á morgun hefst fjörið á ný og við mætum til útileiks í deildinni – gegn slakasta liði sem við höfum mætt á útivelli til þessa. Útileikirnir okkar hingað til hafa verið Tottenham, Bolton, Man U og Chelsea. Niðurstaðan, þrjú töp og jafntefli. Þannig að á morgun er – bókstaflega – að duga eða drepast fyrir Liverpool FC.

Staða liðanna í dag er sú að við erum í 10. sæti með 11 stig eftir 9 leiki, sem er ekki nógu gott. En maður bíður þolinmóður, liðið er að ganga í gegnum ákveðið breytingatímabil núna og það er ljóst að það tekur tíma að koma liðinu í fremstu röð á ný. Róm var ekki byggð á einum degi, eins og þeir segja.

Fulham eru þó lakari en við hingað til, í fallsæti eftir sína 9 leiki og hafa ekki spilað vel á heimavelli, ef mig misminnir ekki. Þá eru þeir Ian Pearce og Andy Cole í banni hjá þeim á morgun, sem veikir liðið töluvert mikið.

Hjá okkur er Steve Finnan víst tæpur og er ekki búist við að hann jafni sig í tæka tíð, en hann er víst haldinn slæmri magakveisu þessa dagana. Þá er Harry Kewell búinn að eiga í töluverðum vandræðum með tvö mismunandi meiðsli, á læri og á ökkla, og það gæti allt eins verið að hann verði ekki með á morgun.

Þannig að ef við gefum okkur að þeir tveir missi af leiknum, þá ætti líklegt byrjunarlið Liverpool að líta svona út:

Chris Kirkland

Josemi – Carragher – Hyypiä – Traoré

García – Diao – Alonso – Riise

Baros – Cissé

Þetta er í raun sama byrjunarlið og gegn Chelsea fyrir tveim vikum, nema hvað að í fjarveru Harry Kewell kæmi Baros inn í byrjunarliðið í framlínuna. Þá er auðvitað spurning hvort Riise fari aftur í bakvörðinn, en mér fannst hann slappur á kantinum gegn Chelsea. Það væri þó kannski ósanngjarnt gagnvart Djimi, sem hefur alls ekki spilað illa í síðustu tveim leikjum, og því gæti Benítz brugðið á það ráð að hafa Riise áfram á kantinum.

Þá geri ég ráð fyrir að Salif Diao fái annan leik til að sanna sig á miðjunni. Eftir slappa frammistöðu í undanförnum leikjum missti Didi Hamann sæti sitt á miðjunni til Senegalans snjalla og þótt hann hafi ekki verið neitt ofsagóður gegn Chelsea (var það einhver?) þá var hann alls ekki versti miðjumaðurinn okkar. Þannig að ég held að hann fái annan séns.

Þá bara einfaldlega dreplangar mig að sjá Milan Baros og Djibril Cissé saman frammi. Ég held að þeir eigi eftir að blómstra saman á næstu mánuðum, ég hef ennþá fulla trú á því, og úr því að Rafa í raun skortir kosti á miðjuna þá held ég að hann hafi García úti til hægri og noti þá báða frammi.

Mín Spá: Ég held að við vinnum þennan leik – loksins útileik. Það bara hlýtur að fara að styttast í að við tökum útileik og því miður fyrir Fulham held ég að þeir muni lenda illa í því á morgun. Þessi leikur er engu að síður langt því frá að vera öruggur sigur, þar sem þetta Fulham-lið getur vissulega bitið frá sér. En engu að síður þá verð ég ósáttur með jafnteflið á morgun – liðið okkar hlýtur að leggja allt kapp á sigur á morgun!

Og smá áminning: Það eru núna 2-3 vikur í að þeir Steven Gerrard og Antonio Nunez geti farið að spila með aðalliðinu. Loksins, loksins, loksins.

p.s.
Á morgun mun eiga sér stað fáheyrður atburður: ég mun missa af Liverpool-leik. Ég veit ekki hvort Einar kemst inná Players eða Ölver til að horfa á leikinn en ef það tekst ekki gæti farið svo að – í fyrsta skipti í sögu þessa bloggs – við þyrftum að skrifa leikskýrslu án þess að hafa séð leikinn. Ef það gerist þá munum við að sjálfsögðu treysta á ykkur lesendurna sem fóruð inná Players/Ölver til að segja okkur hverjir voru góðir og hverjir voru … eh … ekki eins góðir.

Vonandi nær Einar samt leiknum og þá er þetta ekkert mál. Áfram Liverpool!

Ein athugasemd

  1. Já, ég mun sjá leikinn á morgun, þannig að það kemur leikskýrsla. Ég þarf hins vegar að keyra heim, þannig að jafnvel þótt þetta verði hörmung, þá verður hún ekki eins beitt og Chelsea skýrslan, sem ég skrifaði strax eftir leikinn 🙂

    En mér líst vel á þetta lið. Vona að Diao verði þarna inná, þrátt fyrir að ég sé skeptískur á Riise á kantinum. Spurning hvort hann verði beittari núna gegn lakari liði en hann var gegn Chelsea.

Guði sé Lof

Morientes? JÁ TAKK!!