Olympiakos 1 – L’pool 0

olympiacosaway.JPG Dauði og djöfull!

Hvað er að gerast? Liverpool tapaði í kvöld fyrir Olympiakos, 1-0, í alveg rosalega slöppum leik.

Tímabilið hingað til í hnotskurn: Að undanskildum Graz-leiknum höfum við unnið alla okkar heimaleiki og það örugglega. Afgerandi. Á Anfield Road-vellinum virðumst við vera óstöðvandi og er það góð þróun frá síðustu tímabilum. Á útivelli hins vegar höfum við unnið Graz, náð jafntefli gegn Tottenham og síðan tapað þremur útileikjum í röð, gegn Bolton, Man U og núna Olympiakos.

Liðið einfaldlega verður að geta spilað á útivelli ef við ætlum okkur langt í Meistaradeildinni. Ef þú spilar vel, þá á að vinna leiki. Og ef þú spilar ekki vel, hafa þá a.m.k. nægan kraft og næga grimmd til að ná jafnteflinu. Það er bara ekki að gerast hjá okkur, við erum að tapa leikjum sem við eigum ekki að tapa.

Þetta Olympiakos-lið var ekkert sérstakt í kvöld, þeir komust yfir á 17. mínútu og pökkuðu svo smám saman í vörn. Á Anfield hefði það þýtt stórskotaárás af hálfu okkar manna sem hefði endað með 3-4 mörkum. Í kvöld þýddi það einfaldlega daufan og leiðinlegan seinni hálfleik, þar sem við blésum og blésum en ekki hrundi húsið. Okkur skorti bara allt flæði í spilinu, alla sköpun og vorum – enn og aftur – allt of stressaðir með boltann.

Þulirnir á ITV2 töluðu um að það væru þessir erfiðu útileikir í Evrópu og deildinni sem myndu segja Rafa Benítez það sem hann þarf að vita um karakterinn sem leikmenn hans hafa yfir að búa og í raun fékk hann margar ansi góðar vísbendingar í kvöld. Því ætla ég að taka fyrir hvern einasta leikmann Liverpool í kvöld og sjá hvað Benítez gæti hafa séð út úr frammistöðu þeirra.

Byrjunarliðið í kvöld var svona skipað:

Jerzy Dudek

Josemi – Carragher – Hyypiä – Riise

Finnan – Alonso – Hamann – Warnock

García – Baros

Jerzy Dudek: Sorrí en Jerzy er einfaldlega ekki í þeim klassa sem við krefjumst af markverði Liverpool. Hann virkaði rosalega óstyrkur í allt kvöld, þrátt fyrir að byrja kvöldið á heimsklassamarkvörslu. Hann varði gott skot í utanverða stöngina á fimmtu mínútu, en þar með lauk hans frammistöðu í kvöld. Hann fór út í skógarferðir og tapaði þeim öllum, var mjög taugaóstyrkur þegar boltinn var sendur til baka á hann (eitt misspark skilaði næstum því marki fyrir Olympiakos) og almennt talið þá er hann bara augljóslega ekki nógu góður, ekki nógu yfirvegaður og traustur til að vera markvörður hjá okkur. Ég á allt eins von á því að Chris Kirkland komi inn í liðið í næsta leik … og finnst líklegra með hverjum leiknum sem líður að Benítez kaupi nýjan markvörð strax í janúar.

Josemi: Hann var hvíldur á laugardaginn og tekinn útaf snemma í þessum leik. Hann hlýtur að hafa verið meiddur í kvöld því að frammistaða hans var vissulega nógu góð til að hann héldi áfram að spila. Hann hleypti Olympiakos-mönnum aldrei upp sinn kant, pressaði vængmennina þeirra stanslaust og reyndi mjög mikið að leggja upp í samspil upp vænginn með Steve Finnan (sem ég fjalla um síðar). Það sást best hversu vel Josemi var að vinna sína vinnu þegar hann fór útaf og Finnan datt niður í hægri bakvörðinn, en þá allt í einu fóru leikmenn Olympiakos að labba upp vinstri vænginn eins og það væri enginn þar fyrir. Fínn leikur hjá þeim spænska og ef hann er meiddur eru það slæmar fréttir fyrir okkur, þar sem Finnan er greinilega ekki í sama klassa og hann.

Jamie Carragher & Sami Hyypiä: Þeir eru ofboðslega traustir á heimavelli en gegn Bolton og Man U sáum við þá lenda hvað eftir annað í vandræðum. Það gerðist aftur í kvöld. Carragher virtist hvað eftir annað lesa leikinn vitlaust, sitja eftir og gera sóknarmenn Olympiakos réttstæða og var alveg úti á þekju í að verjast föstum leikatriðum. Sami Hyypia lét taka sig alvarlega í bólinu á fimmtu mínútu þegar einn Grikkinn lék á hann og skaut svo í stöngina úr dauðafæri. Þá lét hann Rivaldo hreinlega fífla sig í fyrri hálfleik, einu sinni klobbaði Rivaldo hann meira að segja svo illa að ég fékk ööörlítið tár í vinstra augað!

Hyypiä er klettur í vörninni en hann, eins og Carragher, verður að líta alvarlega í eigin barm og skoða hvað veldur því að hann verður svona stressaður þegar pressan er á honum. Það gengur heldur ekki að ætla að senda fimmtán eða tuttugu langar stungusendingar á Milan Baros í einum hálfleik, þessir menn sem eru aftast og hefja allar sóknir hjá okkur verða að hafa næga trú á sjálfum sér til að þora að spila boltanum skynsamlega fram á miðjumennina, í stað þess að dúndra honum alltaf sem lengst.

John Arne Riise: Riise barðist vel í þessum leik og óx ásmegin eftir því sem leið á leikinn, þannig að undir það síðasta í seinni hálfleik var hann orðinn okkar hættulegasti maður upp vinstri kantinn. En hann var tekinn nokkrum sinnum illa í fyrri hálfleik þar sem þeir fundu hvað eftir annað nóg pláss á hans væng, sem skilaði sér í aukaspyrnunni sem þeir skoruðu úr. Riise hefur verið alveg súper það sem af er tímabili og var með okkar betri mönnum í kvöld en verður samt að halda áfram að vinna að varnarhliðinni á leik sínum.

Steve Finnan: Þegar við erum á heimavelli, pressandi lélegri lið alla leið inn í eigin teig, er Steve Finnan mjög skæður á vængnum. En í svona leikjum þar sem andstæðingarnir þrýsta okkur aftar á völlinn og okkur sárvantar þessa leiknu menn sem geta gert eitthvað skapandi, tekið menn á og brotið okkur leið út úr pressunni … þá er Steve Finnan álíka gagnlegur og klósettpappír þarna á hægri kantinum. Hann átti bara lélegar fyrirgjafir í þessum leik – og flestar af þeim úr kyrrstöðum í aukaspyrnum – og hann var augljóslega aldrei rólegur með boltann við tærnar. Hann vinnur vel fyrir liðið en er ekki kantmaður og ég spái því að Benítez muni núna færa García niður í þessa stöðu, a.m.k. þangað til Antonio Nunez kemur inn úr meiðslum. En ljóst er að Steve Finnan á ekki langt eftir sem kantmaður hjá okkur, hann er bara einfaldlega ekki nógu skapandi fram á við, hann er ekki nógu góður vængmaður til að eigna sér þessa stöðu.

Xabi Alonso: Var með betri mönnum hjá okkur í kvöld, vann rosalega vel allan leikinn og var út um allt að hvetja menn áfram og reyna að setja upp þríhyrninga og svona lítil spil. Datt svolítið á tímabili í fyrri hálfleik inn í það að reyna of erfiðar stungusendingar á Baros og García – hefur greinilega heyrt það sem sagt var og skrifað um hann eftir Norwich-leikinn – en eftir hlé þá var hann hættur þeirri vitleysu og farinn að búa til svæði út um allan völl. Ég get rétt ímyndað mér hversu góður hann hefði getað verið í þessum leik ef hann hefði ekki verið aleinn í sókninni þarna á miðjunni. Ágætis leikur en getur talsvert betur.

Dietmar Hamann: Ég sagði við Einar Örn eftir leikinn að ef við hefðum komist yfir eftir 17 mínútur í stað þess að lenda undir og ef við hefðum síðan þurft að verjast stórsókn Grikkjanna það sem eftir lifði leiks … þá hefði Didi Hamann verið yfirburðaleikmaður hjá okkur í leiknum. Hann er einfaldlega ómissandi í þessar stöður, þegar við þurfum að liggja aftarlega og forðast að gefa þeim skotfæri og opin svæði. Hann er rosalega öflugur í varnarvinnunni á miðjunni.

EEENNN… þar sem við þurftum að sækja í þessum leik, búa til færi, vera skapandi fram á við og skora mörk, þá var hann gjörsamlega glataður í þessum leik. Dietmar Hamann er einfaldlega ekki góður sóknar-miðjumaður og það sjá það allir. Ef Gerrard hefði verið við hlið Alonso í þessum leik hefðum við ekki aðeins séð Gerrard ógna miklu meira heldur en Hamann gerði, heldur hefðum við líka séð Alonso geta sótt miklu meira og öflugar, þar sem hann hefði ekki verið aleinn þarna á miðjunni. Hamann er því miður bara ekki nógu sókndjarfur til að geta tekið þátt í þessu sóknarkerfi Rafa Benítez og þótt ég geri ráð fyrir að hann haldi stöðu sinni þar til Gerrard kemur aftur er ljóst í mínum huga að þetta verður líklega síðasta tímabil hans fyrir Liverpool FC.

Stephen Warnock: Hann fékk verðskuldað að byrja inná í þessum leik, rétt tæplega tuttugu og þriggja ára heimalingur sem glatt hefur stuðningsmenn liðsins í haust. En ég er hræddur um að þessi leikur hafi reynst allt of stór biti fyrir hann að kyngja. Hann var áberandi slakasti leikmaður beggja liða í fyrri hálfleik og var tekinn útaf fyrir Harry Kewell í leikhléi. Þetta fer þó í reynslubankann og hann mun örugglega bara verða sterkari fyrir vikið.

Harry Kewell: Harrý átti góða innkomu í seinni hálfleikinn, barðist vel og var skapandi þarna á vinstri kantinum. Hann dældi boltunum fyrir og reyndi það sem hann gat þarna einn síns liðs á vinstri kantinum en allt kom fyrir ekki. Hefði átt að fá vítaspyrnu undir lokin en eins og svo oft áður þá oflék hann brotið og fyrir vikið trúði Collina dómari honum ekki. Ég held að Harry muni batna með hverjum leiknum á næstunni, sérstaklega núna þegar hann veit að Stephen Warnock er hættulega nálægt því að stela þessari stöðu af honum.

Luis García: Þegar varnarmennirnir fjórir, sem hefja hverja einustu sókn liðsins, gera ekkert annað en að dæla 50-60metra boltum innfyrir vörn andstæðinganna í þeirri veiku von að Milan Baros nái að gera eitthvað úr einum þeirra, þá gæti Luis García alveg eins hafa setið á kaffihúsi með góða bók eins og að sóa tíma sínum þarna á vellinum. Hann sást ekki í þessum leik – en það er líka öllum öðrum en honum að kenna. Í alvöru. Það einfaldlega gengur ekki að stilla upp svona ‘free role’-sóknarmanni fyrir aftan framherjann ef þú ætlar síðan ekki að miða spilið þitt af því að láta hann hafa boltann í fríum svæðum. García kom manna minnst við sögu í þessum leik en það var alls ekki honum að kenna. Vonandi læra samherjar hans að nýta hann í útileikjum á næstu vikum, annars gæti Benítez alveg eins sleppt því að hafa hann þarna og bara sett hann á kantinn eða eitthvað.

Milan Baros: Greyið. Hann hlýtur að hafa hlaupið jafn mikið og restin af liðinu til samans í kvöld – og til hvers? Munið hvað við vorkenndum Michael Owen síðustu tvö tímabil, þegar liðið lá aftarlega og virtist einblína á að ná að senda langa bolta fram sem Emile Heskey átti að framlengja á Michael Owen? Leikurinn í kvöld var alveg eins … nema að núna var enginn Heskey þarna til að framlengja boltana og því var þetta bara Baros – í kapphlaupi við 3-4 Olympiakos varnarmenn um 60-metra stungubolta. Og ef hann virtist vera að vinna kapphlaup þá kom markvörðurinn þeirra bara út úr markinu og hirti boltann, enda hafði hann ávallt nægan tíma til að hirða þessa bolta þar sem þeir voru sendir úr 60 metra fokking fjarlægð!!!!! Baros var álíka kraftmikill í þessum leik og skíðamaður án skíða. Þú getur ekki sett mann á toppinn, haft hann einan frammi, og ætlast til að hann elti svona teighögg allt kvöldið gegn liði sem sérhæfir sig í að verjast.

Djibril Cissé: Það gerðist svolítið skrítið þegar Cissé kom inná. Það var eins og samherjar hans hættu að spila saman – það litla sem þeir gerðu af því allavega – og fóru bara að horfa á Cissé með boltann. Hann dró sig út á kantana, féll af varnarmönnunum niður á miðjuna og fékk boltann jafnvel einu sinni eða tvisvar inni í teig. En í stað þess að fylgja honum eftir og reyna að skapa sér stöður til að hann gæti gefið á þá stoppuðu menn bara hvað eftir annað og biðu eftir að “Rakettan” Cissé myndi tæta í sig vörn Olympiakos einn síns liðs og skora mörkin. Hann mátti sín lítils gegn margnum og var greinilega orðinn pirraður undir lokin – þrátt fyrir að hafa bara verið inná í tæpar 20 mínútur. Enn og aftur þá er þetta hópleikur og við getum ekki sakað Cissé um að vera einspilari þegar það er einfaldlega enginn að sækja með honum.

Salif Diao: Átti ágætis innkomu fyrir Didi Hamann þegar 10 mínútur voru eftir og hefði með smá heppni getað jafnað fyrir okkur á síðustu mínútunni, þegar hann fékk gott skotfæri rétt fyrir utan teig. Hann er enginn Steven Gerrard en maður sá samt muninn á því að hafa hann þarna á miðjunni, og að hafa hinn varnarsinnaða Hamann þarna. Hefði jafnvel átt að byrja inná í þessum leik, miðað við að við þurftum að sækja í þessum leik.


Og þannig var nú það. Enn og aftur þurftum við að sýna styrk, árásargirni og sjálfstraust á útivelli og enn og aftur mistókst það hrapallega. Ef við hefðum unnið í kvöld og byggt á leiknum gegn Norwich um helgina hefði ég verið fullur sjálfstrausts fyrir leikinn gegn Chelsea á sunnudaginn kemur – en þar sem við sýndum enn og aftur hversu erfitt það er fyrir okkur að halda ró okkar á útivelli þá er ég í raun og veru bara skíthræddur.

Ef Bolton, Man U og Olympiakos geta unnið okkur svona þægilega á sínum heimavöllum þá er ljóst að Chelsea-liðið mun niðurlægja okkur … nema einhverjar alvarlegar breytingar eigi sér stað í hugsunargangi okkar leikmanna! Við erum í 2.-3. sætinu í galopnum riðli í Meistaradeildinni og eigum ennþá frábæran séns á að komast áfram, þetta tap gerði frekar lítinn skaða að því leytinu til, en engu að síður er fyrsta tapið komið. Við höfum þegar tapað tveimur leikjum í deildinni og þótt ég sé almennt frekar rólegur gagnvart töpum á meðan Benítez er að venja liðið við nýjar venjur þá er mér hreint ekki sama ef við töpum fyrir Chelsea á sunnudagin. Þá er titillinn nánast farinn og það strax í októberbyrjun – rétt eins og í fyrra. Sem gæti valdið stórskaða á móralnum, bæði hjá stuðningsmönnum sem og leikmönnum liðsins.

Þess vegna vona ég innilega að þau vandamál sem við glímum við á útivelli verði leiðrétt og það hið snarasta – og já, svæðisvörnin í föstum leikatriðum er eitt af þessum vandamálum! José Mourinho er kannski hrokafullur asni en hann er frábær þjálfari og hafið það á hreinu að hann hefur horft á töpin okkar gegn Bolton og Man U, sem og tapið í kvöld, og hann er með það á hreinu hvað Chelsea þarf að gera til að leggja okkur á sunnudaginn. Þeir munu mæta kolbrjálaðir til leiks, pressa okkur alla leið inn í okkar eigin markteig og sjá til þess að við komumst aldrei inn í leikinn. Það er okkar að standast það áhlaup Chelsea-manna og ná að snúa dæminu við á sunnudaginn … og ná a.m.k. einu stigi á útivelli!

Oft er þörf en nú er nauðsyn.


Uppfært (Einar Örn): (Vinsamlegast athugið: Einar Örn er verulega brjálaður og þessi pistill væri sennilega ekki prenthæfur á virtari miðlum. Hann er þó búinn að lesa pistilinn yfir nokkrum sinnum til að fjarlægja verstu kaflana)

ÞETTA VAR ÖMURLEGT! ÖMURLEGT!

Við getum ekki skýlt okkur á bakvið að þetta hafi verið svo sterkur andstæðingur eða eitthvað annað rugl. Þetta var einfaldlega fullkomlega getulaus og baráttulaus frammistaða gegn miðlungsliði frá Grikklandi. Það lélegasta sem ég hef séð frá Liverpool lengi (og þó hef ég séð ansi margt slæmt með Liverpool í gegnum árin).

Það var engin barátta, engin sköpun, enginn kraftur. Þegar við erum undir 1-0 á útivelli í Meistaradeildinni, þá verður einhver að segja Hyypia og Carragher að það gerir EKKERT FOKKING GAGN að spila boltanum 20 sinnum á milli sín á eigin vallarhelming. Hversu oft sáum við þá senda 20 sendingar á milli sín og svo dæla boltanum fram á Milan Baros, þar sem hann hljóp svo á eftir honum þangað til að einhver grískur varnarmaður fauk niður og dæmd var aukaspyrna. Ég get svo svarið það, mig langaði að henda leifunum af kokteilsósunni (það var sko nóg af sósu á samlokunni minni) á skjávarpann á Players.

Ég er verulega pirraður. Ég var með þremur vinum mínum, sem eru Liverpool aðdáendur á Players (og einum Man U aðdáenda). Þeir voru allir jafn pirraðir og ég á þessu getuleysi. Það var nákvæmlega EKKERT jákvætt við þennan leik. Ekki neitt. Nema kannski að hann var bara 93 mínútur að lengd. Ég hefði ekki þolað þetta sekúndu lengur.

Colina var hræðilegur, þessi flautukonsert hans var að gera mig sturlaðan og þessi svæðisvörn Benitez í föstum leikatriðum er náttúrulega djók. EEEEEN, það skiptir bara engu máli. Það sem skiptir máli er að Liverpool mættu til leiks í engu stuði. Það var ekki einn maður, sem komst vel frá þessum leik.

**Við söknuðum STEVEN GERRARD**. Vá hvað við söknuðum fyrirliðans okkar. Ég sá þetta alveg í huganum. Eftir svona korter af þessum ósköpum hefði Stevie tekið sig til og öskrað á alla hina og svo drifið sig upp völlinn með boltann. Hyppia er ágætur varnarmaður en gjörsamlega vonlaus fyrirliði. Hafiði einhvern tímann séð hann rífa meðherja sína með sér líkt og Stevie G gerir? Nei, ég hélt ekki. Við söknuðum Gerrard kannski ekki á heimavelli en í erfiðum leik í Evrópukeppninni söknuðum við hans sko sannarlega.


Ég gæti haldið langa ræðu um hvern leikmann og hversu mikið frammistaða þeirra fór í mínar fínustu (að undanskildum Alonso og Baros). En ég ætla einungis að nefna þrjá, sem eiga minnst lof skilið fyrir þennan leik. Það þarf vart að taka því fram að ég vil ekki sjá þessa menn í neinni nálægð við Stamford Bridge á sunnudaginn.

**DUDEK**: Hversu mikið djók er þessi markmaður okkar orðinn? Hann virðist ekkert geta gert rétt þessa dagana. Hann er ein taugahrúga í markinu, á engar fyrirgjafir, er óöruggur og gerir alltof mörg mistök. Mér hefur ekki liðið jafn illa varðandi Liverpool markvörð síðan David James var uppá sitt besta. **KIRKLAND Í MARKIÐ STRAX!!!** Dudek er ekki nógu góður. PUNKTUR!

**Steve Finnan**: KRÆST. Hvað var hann að gera þarna inná? Það er ekkert lítið kraftaverk að hann fékk að hanga inná allan leiktímann. Gjörsamlega, fullkomlega gagnslaus á kantinum. Aukaspyrnurnar voru allar slappar, fyrirgjafirnar gagnslausar og varnarvinnan léleg. Ég trúi ekki öðru en að Garcia verði á kantinum og Josemi í bakverðinum í næsta leik.

**Dietmar HAMANN**: Hvað get ég sagt, sem ég hef ekki sagt um Þjóðverjann okkar. Hann hefur oft spilað illa, en þetta var nálægt toppnum. Hamann gæti ekki verið skapandi miðjumaður þótt við myndum miða skammbyssu á hann. Hann er einfaldlega ekki nógu góður til að spila fyrir þetta lið í hverri viku. Ég trúi því ekki að ég sé að segja þetta… Eeeen, ég vil sjá **Salif Diao** spila í næstu viku. Það er bara ekki fræðilegur möguleiki á að hann spili verr en Hamann.

Ég vona svo innilega að þetta hafi verið botninn. Það sást greinilega á Rafa Benitez hvað hann var orðinn pirraður á þessu öllu. Ég ætla sko að vona að hann hafi látið heyra í sér eftir leikinn.

Ef við töpum á sunnudag, þá mun ég hugsanlega eyðileggja einhverja muni í stofunni minni. Við hreinlega verðum að vinna Chelsea!

8 Comments

  1. Eitt varðandi Baros. Collina fór hrikalega með hann í þessum leik og dæmdi hvað eftir annað glórulausar aukaspyrnur á Baros, sérstaklega var þetta áberandi í fyrri hálfleik. Baros mátti varla koma nálægt varnarmönnum þeirra öðurvísi en að þeir fleygðu sér í grasið og fengu dæmt á hann brot. Afskaplega ósanngjarnt því Baros var að gera góða hluti og hefði getað skapað hættuleg færi ef Collina hefði ekki fallið fyrir leikaraskapnum.

    Þetta afsakar á engan hátt slaka frammistöðu liðsins, en þetta stuðaði mig þegar ég horfði á leikinn.

  2. Já Matti, ég ætlaði að ræða um frammistöðu Collina dómara í þessum leik en ég ákvað að gera það ekki í leikskýrslunni, þar sem ég vildi ekki að fólk héldi að ég væri á neinn hátt að afsaka tapið með einhverju dómaravæli.

    Við áttum skilið að tapa, punktur.

    Hins vegar var Collina, þessi svokallaði “besti dómari í heimi TM”, algjörlega út úr kú í þessum leik. Þetta var algjörlega hræðileg dómgæsla hjá honum og ekki var línuvörðurinn á vinstri-vallarhelmingi skárri. Hann dæmdi tvisvar rangstöðu á okkur – fyrst á Luis García og svo á Djib Cissé – og í bæði skiptin var það rangt því að hægri bakvörður Olympiakos, sá sem var fjærst línuverðinum, var langt fyrir innan okkar mann í bæði skiptin og gerði okkar mann þar af leiðandi réttstæðan. Í bæði skiptin flaggaði kauði og Collina flautaði rangstöðu, þegar við hefðum í raun átt að fá þarna tvö færi á móti markmanni.

    Hinum megin gerði línuvörðurinn ekki þessi mistök þegar Carragher sat eftir og gerði Olympiakos-mann réttstæðan undir lokin. Óþolandi ósamræmi hjá “aðstoðardómurum” leiksins.

    Og Collina var í tómu rugli. Um leið og Grikkirnir sáu að hann myndi flauta um leið og Baros andaði á þá gengu þeir á lagið – og ekki bara gegn Baros heldur út um allan völl. Hversu oft flautaði sá gamli aukaspyrnu á Xabi Alonso í síðari hálfleik – þegar hann vann boltann bara fullkomlega heiðarlega af andstæðingi? Þetta var alveg rosalega pirrandi.

    Dómgæslan í kvöld er hugsanlega það eina sem gæti fengið lægri einkunn en frammistaða Liverpool. Engu að síður áttum við fyllilega skilið að tapa…

  3. Þetta er byrjujnin á tímabilinu. Nýr þjálfari + leikmenn að koma inn í kerfið. Örvæntum ekki eins og margir gera þegar við töpum stigum. “Liverpool-hjartað” ávinnst með tímanum þegar nýjir leikmenn hafa komist betur inn í liðsuppstillinguna og menninguna sem fylgir því að vera Liverpool-leikmaður. Það kemur ekkert bara á 3 mánuðum. Ég er bara sáttur við byrjunina á tímabilinu og það mun verða betra með tímanum. Aldrei þessu vant er ég þolinmóður þar sem ég veit að við erum í góðum höndum.

  4. Þannig fór um sjóferð þá. Takk fyrir góða lýsingu á leiknum. Ég var skíthræddur við þennan leik eftir að hafa séð til strákanna okkar á Old Traford. Gríska aðferðin (einu sinni Þýska!!) er enn einu sinni að svínvirka. Því miður. Benites hefur mikið verk fyrir höndum að berja sjálftraust og baráttuanda í liðið. Annars heyrist mér á Kristjáni að baráttuna hafi ekki skort í það minnsta í suma leikmenn og það er alla vega huggun harmi gegn. Við eigum mikið meira inni. Það er erfiður leikur fram undan á Sunnudaginn…… Maður er nú ekkert súperbjartsýnn…. en ég ætla að spá okkar mönnum sigri. Josemi og Garsia koma til með að eiga stórleik á hægri kantinum!!! Finnan fær hvíld og hvernig væri að láta Saif Diao við hliðina á Xabi frá byrjun? Spila dálítið djarft? Nei svo er það kannski ekki leiðin. Ef til vill er Hamann of sterkur varnarlega til að fórna honum. Við erum samt ennþá vel inni í myndinni að komast áfram í Meistaradeildinni. Þökk sé Monaco fyrir að vinna Coruna!! Eigum við ekki Coruna á heimavelli næst? Þá er eins gott fyrir okkur að vinna!! En það held ég að verði sko ekki auðvelt gegn liði sem verður að berjast fyrir lífi sínu. Hvað sem öllu líður þá eru spennandi tímar fram undan. Við erum með gjörbreytt lið, nýjan þjálfara og að ég held nýja hugsun. Ég spái því að við förum alla leið á næstu 2 til 4 árum!!! Tími Liverpool er að koma strákar. Verum bjartsýnir :rolleyes: 😉

  5. loksins einhver sem þorir að gagnrýna Hamann, sumir á http://www.liverpool.is spjallinu (nefni ekki nöfn) mega ekki sjá hann inná vellinum án þess að hrósa honum. málið er að við verðum að hafa betri covera fyrir Gerrard og Alonso en Hamann, Diao og Biscan. ætla að vona að H, B&D fari allir sumarið 2005 ef ekki í janúar og kaupa betri menn fyrir þá. það er að koma í feisið á okkur held ég núna að hafa lánað alla þessa sókndjörfu miðjumenn í sumar 😡 🙁

  6. Já, JónH ekki misskilja okkur. Ég held að við Kristján séum báðir bjartsýnir á framhaldið og liðið er á réttri leið. Við munum hrósa liðinu í hástert fyrir góða frammistöðu en við munum líka láta í okkur heyra þegar við erum fúlir eftir tapleiki, sérstaklega jafn slappa leiki og núna.

    Það er alveg ljóst að Benitez þarf að berja sjálfstraust í menn fyrir sunnudaginn. Hann MUN gera breytingar frá liðinu á móti Olympiakos. Aðaláhyggjuefni mitt er miðjustaðan við hlið Alonso. Hann mun ekki geta gert þetta einn. Annaðhvort Diao eða Hamann VERÐA að eiga toppleik gegn Chelsea til þess að við getum átt möguleika.

    Og jú, næsti leikur í Mesitaradeildinni er gegn Deportivo á Anfield.

  7. Ja það er virkilega sorglegt að við getum ekki unnið útileiki en björtu hliðarnar eru jú þær að við virðumst ekki geta tapað á heimavelli og þess vegna að búa til virkið Anfield aftur (allavega byrjun)

    Annars sá ég nú ekki leikinn svo ekki get ég nú sagt mikið um hann en Hamann er eins og flestir vita bara allt of varnarsinnaður, sá það á EM að hann var ekki nærri því í jafngóðu formi í sumar og hann var á HM, þarf að skipta honum út að mínu mati og setja þá bara miðjumann sem býr þá til eitt eða tvö mörk í staðinn, hefur alveg vantað einhvern jafn afgerandi í það síðan Berger meiddist. En vonandi munu þessir nýju leikmenn sjá um það fyrir okkur.

Olympiakos í kvöld!

Viltu koma aftur, Michael? (uppfært)