Norwich á morgun!

liverpoolnorwich.JPGÓkei, þannig að tap gegn Man U er með því versta sem Liverpool-aðdáendur geta hugsað sér að gerist. En í þetta skiptið held ég að flestir hafi tekið tapinu með furðulega mikilli ró … enda gera flestir sér grein fyrir að hér var ekki um nein afhroð að ræða. Liðið lék hörmulega í þessum leik en síðustu tveir leikir þar á undan gáfu ástæðu til að brosa, auk þess sem við áttum okkur fyllilega á að liðið er enn bara í mótun.

Á morgun gefst því frábært tækifæri fyrir liðið að ná sér á strik, koma sér beint aftur á beinu sigurbrautina. En þrátt fyrir að vera nýliðar þá skulum við hafa eitt á hreinu: Norwich City eru sýnd veiði en ekki gefin! Þeir sem horfðu á þá spila við Tottenham á White Hart Lane ættu að gera sér fyllilega ljóst að Darren Huckerby & Co. verða stórhættulegir á morgun. Þeir hefðu auðveldlega getað sigrað Tottenham á WHL, auk þess sem þeir stóðu sig mun betur gegn Man U á Old Trafford um daginn heldur en við gerðum.

Hins vegar var ég ánægður í dag þegar ég las viðtalið við Rafa Bénítez á .tv í dag, þar sem hann talaði m.a. um það hvernig hópurinn hefur undirbúið sig fyrir Norwich-leikinn á æfingum:

>You said after the United game that you need to defend better as a team. Have you been working on that this week in training?

>”Normally the players train very well and we do a lot of work on the defensive side of our game. But this week we are preparing for a home match and so our idea has been to work more on how we attack.”

Ánægður með þetta svar. Auðvitað er svæðisvörn í föstum leikatriðum augljóslega eitthvað sem þarf að vinna í eftir tapið á mánudag … en næst er heimaleikur gegn nýliðum og því hefur áherslan réttilega verið lögð á sóknartaktíkina á æfingum vikunnar. Vonandi skilar það sér á vellinum á morgun – ég væri ekkert á móti því að sjá okkur sundurspila nýliða Norwich á svipaðan hátt og við sundurspiluðum nýliða W.B.A. í síðasta heimaleik okkar í deildinni.

Byrjunarliðið hjá Rafa Benítez hefur verið nokkuð stöðugt í síðustu leikjum enda finnst mér mikilvægt á meðan liðið er í mótun að það sé ákveðinn stöðugleiki inná vellinum. Nú ber hins vegar nýrra við, Steven Gerrard og Harry Kewell eru meiddir og því verður að gera a.m.k. tvær breytingar á byrjunarliðinu … auk þess sem Kirkland gæti vel komið inn fyrir Dudek.

Þá er spurning hvort að Milan Baros komi inn í byrjunarliðið fyrir þennan heimaleik? Kannski færir Benítez García niður á vinstri vænginn í stað Kewell og setji Baros inn? Byrjunarliðið gæti þá litið svona út:

Jerzy Dudek

Josemi – Carragher – Hyypiä – Riise

Finnan – Alonso – Hamann – García

Cissé – Baros

Ég geri fastlega ráð fyrir því að Dietmar Hamann komi inn á miðjuna í stað Gerrard, enda langreyndasti miðjumaðurinn okkar og átti góða innkomu gegn United. Þá held ég líka að það væri rangt að taka Djibril Cissé út úr liðinu, þrátt fyrir að hann hafi verið frekar dapur á mánudaginn.

Hins vegar er annar valkostur sem er líka líklegur, en það er að setja Stephen Warnock inn í liðið fyrir Harry Kewell á vinstri vængnum. Þá gæti liðið litið svona út:

Jerzy Dudek

Josemi – Carragher – Hyypiä – Riise

Finnan – Alonso – Hamann – Warnock

Cissé – García

Þetta er kannski líklegasta byrjunarliðið á morgun – þótt margir vilji meina að sóknarknattspyrnunnar vegna eigi að taka Steve Finnan út úr liðinu á morgun, setja García á hægri kantinn (þar sem hann lék jafnan vel með Barcelona) og setja Milan Baros inn frammi.

Þetta eru allt möguleikar og þótt mér þyki líklegast að García verði frammi er aldrei að vita nema Benítez gefi Baros sæti í byrjunarliðinu á morgun. Hvernig svo sem stillt verður upp er ljóst á orðum þjálfarans að sóknarbolti verður vissulega á matseðlinum á morgun.

Mín spá: Þetta Norwich-lið er skeinuhætt og hefur að mínu mati verið að spila besta boltann af nýliðunum í haust. Þetta lið minnir mig að vissu leyti á Portsmouth-liðið í fyrra, sem spilaði stórskemmtilegan fótbolta en átti til að lenda í óþarfa tapleikjum á heimavelli. Og við munum öll hvernig fór hjá okkur á móti Portsmouth í fyrra, er það ekki?

Þótt þetta lið sé stórhættulegt þá geri ég fastlega ráð fyrir að á endanum muni getumunurinn segja til sín. Okkar menn eru örugglega ákafir í að svara gagnrýninni sem þeir fengu í kjölfar tapleiksins á mánudaginn og því munum við örugglega sjá ákafa sóknartilburði frá byrjun.

Ég gæti ímyndað mér að við fáum á okkur mark á morgun en ættum þó að vinna … 2-1, 3-1 eða jafnvel 4-1. Ég vona bara að við skorum sem flest mörk á morgun og í raun myndi ég helst vilja sjá Milan Baros og/eða Djibril Cissé skora sem flest af þeim. Það hafa öll spjót staðið að þeim félögum eftir brottför Michael Owen og þeir hafa sennilega fengið meiri gagnrýni en flestir eftir töpin gegn Bolton og Man U, þannig að ég held að það sé nauðsynlegt fyrir sjálfstraust þeirra beggja að þeir fari að skora sem fyrst aftur í deildinni.

Þeir hafa skorað tvö mörk hvor á tímabilinu hingað til – báðir með mark á móti Mónakó. Hins vegar hefur Cissé ekki skorað í deildinni síðan í fyrsta leik gegn Tottenham, og Baros ekki síðan í öðrum leik gegn Manchester City. Því tel ég rosalega mikilvægt að þeir finni fjölina aftur sem fyrst – og þá helst á morgun!

Í hnotskurn: Liverpool-sigur og vonandi skemmtilegur sóknarbolti.

Minni menn á að leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Players í Kópavogi kl. 14:00 á morgun. Hvet alla til að mæta þangað og mynda góða stemningu! Áfram Liverpool!

Meiðslavandræði

Liðið á móti Norwich