Meiðslavandræði

Ókei, eins og komið hefur fram áður þá er Steven Gerrard meiddur og verður frá í einhverja tvo mánuði, auk þess sem Antonio Nunez verður lengur en búist var við að jafna sig af hnémeiðslum – verður frá í a.m.k. 6 vikur í viðbót.

Nú hefur nafn Harry Kewell bæst á þennan lista, en hann mun missa af leiknum við Norwich, vegna höggs sem hann fékk á lærið í leiknum gegn Man U. Þetta eru þó sem betur fer ekki alvarleg meiðsli og búist er við að hann verði orðinn heill fyrir leikinn gegn Olympiakos í Meistaradeildinni í næstu viku.

Það hafa margir sagt undanfarið að Kewell eigi að missa sæti sitt í byrjunarliðinu, og þótt ég sé því ósammála þá er núna búið að taka þá ákvörðun fyrir okkur. Líklegt þykir að Stephen Warnock fái á morgun tækifæri til að sanna sig enn frekar á vinstri kantinum, en hann var ekki með í varaliðsleiknum í gær, sem tapaðist 2-1 gegn Birmingham.

Einn leikmaður var þó með í þeim leik og það var Chris Kirkland, sem er loksins orðinn heill eftir meiðsli. Benítez stjóri talaði um það fyrir United-leikinn að hann treysti Kirkland ekki til að spila þann leik, sagði það vera of snemmt eftir meiðslin. Kirkland hefur núna verið að æfa á fullu í tvær vikur og náð að spila tvo heila varaliðsleiki án vandræða eða meiðsla, þannig að núna hlýtur hann að vera farinn að gera alvarlegt tilkall til byrjunarliðssætis.

Það virðast flestir held ég vera á þeirri skoðun að Kirky sé betri markvörður en Jerzy Dudek en þó býst ég við að Benítez haldi tryggð við Pólverjann á morgun … en það er samt ljóst að um leið og hann gerir klaufamistök þá er Chris Kirkland kominn inn í liðið. Svo einfalt er það bara.

Þannig að:
Gerrard út – Hamann inn
Kewell út – Warnock inn
Dudek út – Kirkland inn?
og Nunez er ennþá meiddur…

Þetta eru í stuttu máli liðsfréttirnar fyrir helgina. Vonum að það meiðist engir fleiri á æfingu í dag… það væri samt alveg týpískt.

Nuñez í uppskurð!

Norwich á morgun!