Tími fyrir Igor? (+ bikardráttur)

Fyrst: Liverpool dróst í kvöld gegn Millwall á útivelli í annarri umferð enska Deildarbikarsins. Erfiður leikur það…


biscan3731.jpgJæja, þá er ég (Einar Örn) kominn aftur til Íslands eftir síðbúið sumarfrí. Kristján hefur haldið síðunni ágætlega uppi meðan ég var úti, en ég býst við að við tveir saman náum að sinna henni enn betur.

Ég sá bara einn leik með Liverpool meðan ég var úti og það var leikurinn á mánudaginn gegn [United](http://www.kop.is/gamalt/2004/09/20/21.31.11/). Hann var auðvitað ekki góður. Ég er því ekki búinn að sjá þetta skemmtilega Liverpool lið, sem menn hafa verið að skrifa um undanfarna daga.

Við vitum auðvitað öll hversu hræðilegt það er að missa fyrirliðann okkar í [meiðsli](http://www.kop.is/gamalt/2004/09/21/01.34.13/). Ég hef reynt vel og lengi að finna eitthvað jákvætt við þessi meiðsli, en það er erfitt að finna jákvæðar hliðar á þessu máli. Það eina hugsanlega jákvæða er að þetta gæti gefið einum leikmanni, sem lofaði mjöööög góðu á undirbúningstímabilinu, tækifæri.

Nefnilega **Igor Biscan**

Ég veit að Igor Biscan er að margra mati brandari. Flestallir stuðningsmenn annarra liða á Englandi halda að Biscan sé einn allra lélegasti knattspyrnumaður í heimi (var hann ekki valinn lélegasti maðurinn í ensku deildinni í fyrra) og oft á tíðum hefur hann virkað einsog hann gæti ekki nokkurn skapaðan hlut í fótbolta.

En við Liverpool aðdáendur höfum þó einstaka sinnum séð aðra hlið á Biscan. Í fyrsta lagi í hans fyrstu leikjum fyrir Liverpool þá var hann frábær. Hann leysti Hamann af á miðjunni og margir héldu að Hamann myndi fara frá Liverpool því Biscan myndi leysa hann af.

Einnig spilaði Biscan alveg hreint ótrúlega vel á undirbúningstímabilinu og það liggur við að hægt hafi verið að kalla hann besta leikmann Liverpool á því tímabili. Biscan fékk þá að spila í sinni uppáhaldsstöðu á miðjunni og hann var stórhættulegur í þeirri stöðu. Hvað eftir annað stormaði hann upp völlinn með boltann og skilaði honum á samherja í hættulegum stöðum. Það var hreint magnað að horfa uppá hann því hann virtist vera nýr maður (muniði eftir [Roma leiknum](http://www.kop.is/gamalt/2004/08/04/10.12.51/)?).

Igor var nefnilega kominn aftur með sjálfstraust, sem hann missti algjörlega undir stjórn Houllier. Houllier (einsog var hans von og vísa) spilaði Biscan nefnilega alltaf í einhverjum rugl stöðum. Einna verst var hin misheppnaða tilraun Houllier að breyta Biscan í miðvörð. Biscan er ekki miðvörður og verður það aldrei. Það var augljóst að hann hafði ekkert sjálfstraust og Biscan var meðal allra óvinsælustu leikmanna Liverpool.

Þetta virtist allt breytast í sumar og allt leit út fyrir að Biscan yrði mikilvægur hlekkur í Liverpool liðinu. En í fyrsta leiknum var hann á bekknum og Hamann inná og fyrir næsta leik var búið að kaupa einn allra besta miðjumann í Evrópu í Xabi Alonso, þannig að möguleikar Biscan voru allt í einu orðnir bísna litlir.

En núna er tækifæri fyrir Biscan. Mig grunar reyndar að Benitez muni nota Hamann með Alonso á miðjunni, en það væri hins vegar rosalega skemmtilegt ef að Rafa tæki smá sjens á móti Norwich. Norwich liðið hefur nefnilega náð markalausum jafnteflum á móti Aston Villa og Tottenham og því væri það betra að reyna að blása til sóknar með Biscan á miðjunni með Xabi Alonso. Hinir valkostirnir, Diao og Hamann eru mun varnarsinnaðari. Norwich hefur ekki fengið á sig mark í **270 mínútur**.

Það er ljóst að Biscan mun fá tækifæri núna í meiðslum Gerrard, spurningin er bara hvenær. Benitez hefur trú á honum og hann mun spila honum í hans bestu stöðu. Biscan hefur verið aðhlátursefni alltof lengi.

Núna er hans tækifæri til að sanna sig.

*Hvað finnst ykkur? Á Benitez að gefa Biscan tækifæri á laugardaginn, eða á hann að velja varfærnislegri möguleikann og hafa Hamann inná?*

2 Comments

  1. Þetta vitum við: Didi Hamann hefur verið að spila sæmilega í leikjunum sem þú misstir af Einar. Hann var reyndar slakur gegn Bolton en síðan átti hann frábæran leik gegn W.B.A., auk þess sem innkoma hans var ein af björtu hliðunum gegn Man U. Þá hefur Benítez verið að velja Salif Diao fram yfir Igor Biscan á bekkinn undanfarið, þannig að ljóst er að ef Alonso og Hamann verða aðalparið í fjarveru Gerrard, þá verður Diao væntanlega varamaður #1 í stöðuna. Þannig að þrátt fyrir meiðsli Gerrards býst ég ekki við að Biscan fái að spila neitt rosalega mikið.

    Mín skoðun á þessu öllu: Miðað við leikina á undirbúningstímabilinu finnst mér ljóst að Biscan er betri leikmaður á miðjuna hjá okkur en Salif Diao, og reyndar jafnvel betri kostur en Hamann líka. Hins vegar hefur Benítez greinilega séð eitthvað gott hjá Diao – það var sagt að hann myndi örugglega fara frá L’pool í sumar eftir að Benítez tók við – en hann virðist hafa unnið sig frá því að vera fyrsti maður út úr klúbbnum upp í að vera fyrsta varaskeifa fyrir Hamann í stöðu varnarsinnaðs miðjumanns. Þannig að eitthvað hlýtur Benítez að sjá sem við sjáum ekki.

    Að mínu mati ætti að nýta tækifærið í fjarveru Gerrards til að sjá hverjir af þessum gaurum standa sig og hverjir ekki. Þótt Hamann og Alonso séu fyrstu menn á blað í þessar stöður er engin ástæða til að ætla að menn eins og Diao, Biscan og jafnvel Darren Potter ættu ekki að fá næg færi til að sanna sig, t.d. sem varamenn í heimaleikjum eins og gegn Norwich, eða í Deildarbikarnum sem fer senn að hefjast.

    Það jákvæða við meiðsli fyrirliðans er í raun það að nú fáum við svar við spurningunni sem ásótti okkur í sumar: Hvernig á Liverpool að lifa af án Steven Gerrard? Það góða við meiðsli hans er það að þegar hann snýr aftur þá verður Benítez þess kunnugur hverjir eru nógu góðir og hverjir ekki. Kannski verða Hamann og Diao ömurlegir í fjarveru Gerrard, en Biscan og Warnock blómstra? Það kemur í ljós hvað verður.

    En ég er hins vegar fyllilega hylltur því að Igor Biscan fái séns. Hann vann sér það í raun inn á undirbúningstímabilinu og eftir að hafa verið óheppinn með tilkomu Alonso þá hlýtur hans tími að vera kominn núna!

  2. Mér finnst mikilvægt að hver sá sem á að spila með Alonso á miðjunni í næstu leikjum spili leikinn gegn Norwich, því fleiri verða “æfingarleikinir” ekki á næstunni. Þeir verða að spila sig saman strax. Hver það á að vera á ég erfitt með að gera upp við mig. Þið farið fögrum orðum um Igor Biscan, ég sá ekki leikinn gegn Roma á undirbúningstímabilinu en ég man eftir Biscan sem allt of mistækum leikmanni sem auðveldlega getur klúðrað hlutunum. En hann var fyrirliði hjá Dynamo Zagreb og eftirsóttur af stórliðum, það er bara svo langt síðan. Ég verð að viðurkenna að ég sakna strax Gerrard verulega…

Gerrard frá í 6-8 vikur (uppfært)

Nuñez í uppskurð!