L’pool 3 WBA 0

steviewba.JPG Ég skellti mér á Players í dag og horfði á mína menn vinna WBA með þremur mörkum gegn engu í sínum fjórða leik í deildinni.

Augljóslega þá átti WBA-liðið bara aldrei möguleika í þessum leik. Ég talaði um það við bróður minn (sem sat hjá mér yfir leiknum) að það sem Liverpool þyrfti að gera í þessum leik væri: (1) að vinna örugglega, (2) að halda hreinu og (3) að skora a.m.k. tvö eða þrjú mörk.

3-0 sigur, sem hefði hæglega getað orðið 7-0 sigur, og stanslaus sókn í 90 mínútur var nákvæmlega það sem liðið þurfti á að halda. Nú er, eftir tvær erfiðar vikur af landsleikjum og bið, loksins búið að svara fyrir þá gagnrýni sem kom á liðið eftir töpin gegn Bolton og Graz í byrjun september.

Byrjunarliðið var sem hér segir:

Jerzy Dudek

Josemi – Carragher – Hyypiä – Riise

Finnan – Gerrard – Hamann – Kewell

García – Cissé

Bekkurinn: Luzi, Traoré, Diao, Alonso, Baros.

Það var rosalega gaman að horfa á liðið spila í dag. Maður sér ennþá margt sem hægt er að bæta og til þess að gera þessa grein ekki of jákvæða ætla ég að byrja á því:

Steve Finnan lék vel í dag, mjög vel á hægri kantinum. Hann skoraði hreinlega frábært mark, annað markið okkar og það kom okkur sem vorum á Players verulega á óvart hversu vel hann virkaði á hægri kantinum. En hann er hins vegar ekki jafn öflugur fram á við og t.d. Kewell hinum megin, eða García. Hann er ekki jafn öflugur í að taka menn á og þeir og það var í raun það eina sem vantaði í hans leik í dag.

Því gat ég varla annað en hugsað með tilhlökkun til þess að sjá þetta lið, eins og það er í dag, þegar allir leikmenn eru orðnir heilir. En það þýðir að Antonio Nunez gæti komið þarna inn á hægri kantinn og ef hann er jafn góður og ég er að vonast eftir (hann spilaði 15 leiki í deildinni fyrir Real Madríd í fyrra, hann hlýtur að geta eitthvað!!! ) þá gæti orðið verulega gaman að sjá miðjuspilið hjá liðinu, þegar ógnunin er orðin svakaleg upp báða vængina.

Sjáum til, fleira neikvætt í dag? Hmmm… já… nei, bíddu. Nei? Það var bara ekkert meira neikvætt í dag, og þetta eina sem ég taldi til telst varla vera neikvætt atriði … þar sem Finnan lék jú þrátt fyrir allt saman mjög vel í dag og á hrós skilið fyrir gott mark og rosalega góða vinnslu fyrir liðið.

Ég myndi í raun segja að allt liðið hafi verið rosalega gott í dag. Þetta virkaði á mig sem ein heild, í 90 mínútur sá maður alla ellefu leikmenn liðsins spila saman sem eina samstillta vél sem hafði ákveðið verk að vinna. Og þeir unnu það verk, mjög vel.

Þó, ef ég ætti að taka einn leikmann út úr liðinu í dag og útnefna sem mann leiksins þá finnst mér aðeins einn koma til greina. Maður leiksins: Luis García!

Að mínu mati var García allt í öllu hjá okkur í dag. Hann virkaði rosalega vel á mig sem þessi óeigingjarni framherji sem átti að spila uppá og skapa pláss fyrir Cissé og kantmennina. Hann átti stoðsendinguna á Gerrard í fyrsta markinu, dró til sín tvo varnarmenn og gaf Finnan þannig greiða leið inná teig í öðru markinu og skoraði svo þriðja markið sjálfur eftir að ná frákastinu frá sínu eigin skoti.

Þá hefði hann auðveldlega getað skorað fleiri mörk í dag, en aðalmálið er það að hann var út um allt vinnandi bolta, skapandi pláss fyrir samherja sína og dreifandi spilinu út á vængina. Þá átti hann a.m.k. tvær mjög góðar stungusendingar á Cissé sem hefðu auðveldlega getað gefið mark, en ef Cissé hefði verið eilítið heppinn hefði hann getað skorað þrennu í dag.

Það eina sem hægt væri að setja út á hjá García var dauðafæri sem hann fékk ca. á 55. mínútu í seinni hálfleik, þegar hann skaut yfir af vítateig í stað þess að renna boltanum á Gerrard sem var dauðafrír í miðjum teignum! Þá vissi maður að hann ætlaði sér að skora, úr því hann gaf ekki boltann. Hann bað Gerrard afsökunar á eigingirninni og tveimur mínútum síðar sendi Gerrard boltann innfyrir vörnina á García sem skoraði þriðja mark Liverpool.

Það var einmitt rosalega jákvætt fannst mér hversu vel García og Gerrard virtust ná saman. García er einmitt þessi maður sem við þurfum í sókninni, einhver sem bindur fremsta mann (hvort sem það er Baros eða Cissé) saman við miðjuspilið okkar. Oft sá maður hann úti til vinstri eða hægri í þríhyrningasamspili við Kewell eða Finnan og þá sá maður García líka oft vinna bolta á miðjunni og gefa þá á Gerrard eða Hamann í góðum eyðum. Ég var bara alveg rosalega impressaður af liðsvinnu García í dag, hann var greinilega að vinna fyrir liðið en ekki bara fyrir sjálfan sig (þó svo að hann hafi langað í mark þarna í seinni hálfleik).

Þegar öllu er á botninn hvolft þá var þetta leikur sem lítið er hægt að setja út á. Það var gaman að horfa á liðið spila, það var jákvætt að sjá þrjú mörk skoruð af þremur mönnum og enginn þeirra var Cissé eða Baros (ímyndið ykkur þannig markatölu með Owen í liðinu og Houllier við stjórn! Ekki hægt… ) og við lentum bara aldrei í vandræðum í þessum leik.

Svoleiðis eiga heimaleikir í deildinni að vera. Og nú er Benítez búinn að spila tvo deildarleiki á Anfield … og vinna þá báða! Næst: Mónakó í Meistaradeildinni og eftir leikinn í dag getur maður ekki annað en verið bjartsýnn!

3 Comments

  1. Þetta var mjög góður leikur hjá okkur. En við vorum lélegir á móti Bolton. Mér finnst liðið vera of sveiflukennt til þess að við getum verið lengst upp í skýjunum. Liðið hefur verið eins og Jójó, mjög góðir og svo alveg skítlélegir. Okkur vantar þennan stöðuleika að geta spilað léttan reitarbolta þegar gengur vel og þegar gengur illa. Því þegar við erum lélegir þá byrjum við á því að negla upp völlinn eins og G.H. fessti inn í leiktaktík okkar manna. Þegar við náum að halda áfram að spila létt og stutt þó við lendum undir eða náum ekki að skora fyrstu 60mín. þá erum við í góðum málum held ég.

    En Leikurinn í dag var snilld og við getum nú glaðst vel yfir því 🙂

  2. Ég sá ekki leikinn í dag, en það er vissulega gaman að heira hvað liðið hefur virkað vel, þó að ég sé vissulega sammála Aimar að við verðum að sýna stöðuleika og vinna helst nokkra leiki í röð, en ef að ég get komið inn á þessa sýðu eftir næstu helgi og séð eins mikla bjartsýni þá fer maður að trúa því að við séum að koma aftur, en þangað til eru tveir leikir á móti mun sterkari liðum en WBA, býðum og sjáum til.

  3. Maður situr hérna hálf klökkur yfir þessum “highlights” sem Kristján skrifaði :laugh:
    En það er allavega hressandi að vita til þess að leikir sem EIGA að skila stigum séu að skila stigum og það örugglega. Þetta verður fínt “síson” hjá okkar mönnum og aðeins spurning hvort við fáum fleiri snillinga til liðs við okkur í janúar-glugganum til að gera þetta lið stórkostlegt!
    Mér fannst Garcia vera allt í lagi í seinni hálfleik í Bolton-leiknum og lét aðra um að hrauna yfir hann þá. Maður sá hversu líflegur þessi gaur var án þess að þekkja samspilara sína neitt. Hvernig verður hann þá þegar hann verður kominn inní kerfið! OMG segi ég bara! Frábært!

Cissé vs. Færeyjarþokan!

súkkulaði sunnudagsins